**********
Einhver spurði hvað er klám? Var að fletta í gömlu prófi sem ég tók í inngangi í kynjafræði og fann þetta svar:
Klám tengir kynlíf og/eða kynfæri við niðurlægingu eða misnotkun þannig að það virðist afsaka, styðja eða ýta undir þess konar hegðun.
Hvað er klám?
Til eru margar skilgreiningar á klámi en sú sem er hvað mest notuð er skilgreining Diana Russell. Hún hljóðar á eftirfarandi hátt:
efni sem sameinar kynlíf og/eða sýnir afhjúpuð kynfæri og misþyrmingu eða lítilsvirðingu sem virðist styðja, láta viðgangast eða stuðla að slíkri hegðun
Fólk hefur löngum deilt um hvað er klám og hvað er erótík. Fræg eru orð bankarísks dómara sem sagði eitthvað á þá leið að hann gæti kannski ekki sagt hvað klám væri en hann þekkti það þegar hann sæi það. Klám á sér margar birtingarmyndir. Það sem þeir femínistar sem eru á móti klámi virðast vera sammála um er að klám feli í sér niðurlægingu fyrir konur, að í klámi séu konur hlutgerðar, konur látnar líta út fyrir að njóta kynlífsathafna sem þær njóta í raun og veru ekki, að í klámi sé ofbeldi gegn konum gert “sexý.” Meirihluti kláms er framleitt fyrir gagnkynhneigða karla. Í klámi birtast völd karla yfir konum, allavega er það látið líta út þannig. Karlinn er ávallt við stjórnvölinn og konan/konurnar tilbúnar til að gera allt sem hann vill. Í klámi er sjónarhóll karlsins alsráðandi (the male gaze). Í klámi birtast einnig oft ýktar myndbirtingar af konum. Algengt er að myndir af konum sé breytt (airbrushed), þær eru með sítt hár, mikið málaðar, langar, málaðar neglur, mjög grannar og með stór brjóst, iðullega sílíkonbrjóst.
Í bók sinni Agains Pornography, The Evidence of Harm, kafla What is Pornography, lýsir Russell niðurstöðum rannsókna sem leiddu í ljós áhrif kláms á konur. Efninu var skipt í 3 flokka:
a) ofbeldisfullt klám
b) klám án ofbeldis (en bar vott um karlrembu og ómennsku)
c) erótískt efni (engin karlremba og ekkert ofbeldi)
Í ljós kom að fyrstu tveir flokkarnir höfðu neikvæð áhrif á líðan kvenna en þriðji flokkurinn jákvæð áhrif.
Hvaða rök setja fræðimenn með og á móti því að banna klám?
Það er ekki nekt og kynlíf sem andstæðingar kláms eru á móti heldur hvernig konur eru sýndar og vegna þeirra áhrifa sem klám hefur á viðhorf karla til kvenna. Russell heldur því fram að klám beinlínis leiði til ofbeldis gegn konum. Hún segir að það séu jafn sterkar sannanir fyrir því að klám leiði til nauðgana eins og að reykingar valdi lungnakrabba (Making the Harm Visible, http://www.echonyc.com/~onissues/russell.htm). Raðmorðinginn Ted Bundy lýsti því hvernig klám leiddi til þess að hann tók upp á því að drepa konur. Hann segist hafa byrjað að horfa á klám og smátt og smátt hafi hann sóst í ofbeldisfyllra efni. Það kom að því að það að horfa á klám var ekki nóg og hann fór að velta fyrir sér hvernig væri að framkvæma ofbeldið í alvörunni. Á meðan sumir telja þetta vera sönnun þess að klám beinlínis setji konur í hættu þá benda önnur sjónarmið á að það gæti líka verið að klám væri notað sem afsökun fyrir að fremja glæpi, þ.e. að skuldinni væri skellt á klámið en ekki sé víst að það hafi leitt til glæpsins. Það eru til frásagnir ofbeldismanna, kvenna og barna sem hafa lýst því hvernig ofbeldismenn hafa sýnt þeim klámfengið efni og síðan framkvæmt það sem var sýnt. T.d. er frásögn frá manni sem sýndi drengjum barnaklám þar sem fullorðin karl var í kynlífsathöfnum með ungum drengjum. Hann notaði þetta efni til að nálgast drengina, auka á sektarkennd þeirra og fá þá til að halda að athafnir hans væru eðlilegar, að aðrir gerðu þetta líka (Pornography: Denegration of ‘Woman’ or Exploration of Fantasy and Transgression?).
Því er líka haldið fram að klám sé notað sem valdatæki gegn konum. Þannig birtist þrá/þörf karla til að drottna yfir konum í klámi. Einnig er því haldið fram að karlar séu í raun hræddir við konur og völd þeirra. Klámið sé notað til að strípa konur niður í kjötið eitt, hlutgerðar og afmanneskjaðar til að sýna að konur séu ekki ógnandi. Í klámi er karlinn við stjórnvölinn og í klámi klikkar karlinn ekki, hann hefur ómanneskjulegt úthald og það virðist vera sama hvað hann gerir við konur – þær njóta þess alltaf. Í klámi er karlinn því hinn fullkomni elskhugi, ef svo má að orði komast. Þetta getur átt að höfða til hræðslu karla um að standa sig ekki í raunveruleikanum, það getur líka gengt því hlutverki að ala á óánægju karla með eigin frammistöðu og gert það að verkum að það er auðveldara fyrir þá að flýja á vit klámsins en að horfast í augu við raunveruleikann. Í grein sem birt var í The Guardian og nefnist Men and Porn er fjallað um áhrif kláms á karla. Það er talað um að karlar sem horfa mikið á klám geti lent í því að eiga í erfiðleikum með að tengjast konum tilfinningaböndum, þeir haldi að konur séu alltaf til í tuskið og að kynlíf snúist um hvað karlar geti gert við konur. Þetta geti síðan tekið karla langan tíma að aflæra þegar þeir átta sig á sannleikanum. Klámið hefur djúpstæð áhrif á færni þeirra í samböndum við konur. Klám getur verið ávanabindandi og klámfengnar ímyndir af konum geta orðið ávanabindandi þannig að karlar verða ófærir um að stunda kynlif nema sjá fyrir sér ímyndir úr klámi. Því fylgir síðan oft sektarkennd og tómleiki. Í greininni í Guardina er vísað í ummæli sem Bill Margold, klámmyndaleikari sagði í viðtali. Þar segir hann að “…ástæðan fyrir því að hann sé í klámbransanum sé að uppfylla þrá karlmanna sem í kæra sig ekki mikið um konur og vilja sjá karla í klámbransanum ná sér niður á konum sem þeir gátu ekki fengið í uppvexti sínum. Svo að við fáum það yfir andlit konu eða misþyrmum henni kynferðislega: Við erum að hefna okkar fyrir óuppfyllta drauma”.
Áhyggjur margra af áhrifum kláms tengjast áhrifum kláms sem kennslutækis barna og unglinga um kynlíf og viðhorf kynjanna til hvors annars. Í greininni Pornography: Denigration of ‘Woman’ or Exploration of Fantasy and Transgression? er vitnað í Susan Griffin sem heldur því fram að klám hlutgeri konur, sýni konur eins og hvern annan dauðan hlut án sálar sem aðeins sé hægt að elska líkamlega.
Önnur stór ástæða fyrir andstöðu við klám er aðstæður fólks sem situr fyrir/leikur í klámi. Þegar klám er ofbeldisfullt, t.d. sýnir konu sem er með lim í öllum götum (leggöngum, endaþarmi og munni), þá sé verið að beita þá konu raunverulegu ofbeldi. Linda Lovelace, konan sem lék aðalhlutverkið í frægustu klámmynd allra tíma, Deap Throat, skrifaði bók þar sem hún sagði frá því að hún hefði verið beitt miklu ofbeldi af hálfu manns síns, hann hefði neytt hana í vændi og til að leika í klámmyndum. Hann hefði nauðgað henni, ógnað henni með byssu og beitt hana alls kyns hræðilegu ofbeldi. Refsingin sem vofði yfir ef hún ekki gerði eins og henni var sagt gerði það að verkum að hún tók þátt í myndinni.
Fræðimenn sem eru fylgjandi klámi halda því fram að það að banna klám sé ritskoðun og því eigi klám að vera leyfilegt. Önnur rök sem haldið er fram er að klám leiði ekki til ofbeldis, karlar geti jafnvel fengið útrás fyrir ofbeldisþörf með því að neyta kláms. Því er einnig haldið fram að ástæðan fyrir því að konur eru oft á móti klámi sé vegna þess að kynhvöt kvenna hefur verið bæld síðustu aldir. Konur séu aldar upp til að vera “góðar stelpur” og að þess vegna trúi þær að klám sé slæmt. Þessu til stuðnings er bent á klám sem framleitt hefur verið af konum fyrir konur. Bent er á dæmi um lesbíuklám og að þar komi oft sömu hvatir fram og í klámi sem framleitt er fyrir gagnkynhneigða karla. Þar sé að finna drottnunarklám og jafnvel klám þar sem samkynhneigðir karlar og samkynhneigðar konur séu saman. Þetta sjónarmið segir að klám sé útrás fyrir fantasíur og að konur eigi að vera óhræddar við að kanna kynhvöt sína í gegnum klám. Þeir fræðimenn sem aðhyllast þetta sjónarmið segja þó ekki endilega að allt klám eigi að vera leyfilegt heldur að fólk geti sammælst um að banna ofbeldisfullt klám, barnaklám og dýraklám. Í greininni eru lýsingar á lesbíuklámi (fyrir lesbíur ekki gagnkynhneigða karla sem líta á það sem forleik) þar sem er drottnun eða ofbeldi. Mín skoðun á þessum lýsingum er að sumar þeirra eru ekki til þess fallnar að vekja betri viðbrögð heldur en lýst er sem ástæðum fyrir því að vera á móti klámi.
Hver er afstaða femínista til kláms?
Femínistar eru ekki allir sammála um klám. Á meðan sumir femínistar telja að klám leiði til ofbeldis gegn konum og viðhaldi ójafnrétti í þjóðfélaginu þá eru aðrir femínistar sem eru hlynntir klámi og hvetja konur til að neyta kláms sem part af kynfrelsi. Margir femínistar eru þó sammála um að hvort sem klám sé leyfilegt eða ekki þá vaði nú yfir okkur klámvæðing sem beri að stöðva. Áhersla kvennabaráttu er á það að útrýma klámvæðingunni. Gefa fólki raunverulegt val þannig að hægt sé að velja sig frá klámi. Áhrif klámvæðingarinnar eru orðin það sýnileg í samfélaginu að margir sem ekki kalla sig femínista hafa verulegar áhyggjur. Áhrifa klámvæðingarinnar er farið að gæta hjá börnum og þol samfélagsins virðist alltaf verða meira og meira. Ég held að samfélagið í heild upplifi sig valdalaust gagnvart áhrifum frá klámvæðingunni. Femínistar telja klámvæðinguna vera aðför að kynfrelsi kvenna þar sem konur eru sviptar þeim möguleika að stunda kynlíf á eigin forsendum.
Sumir róttækir femínistar eru á því að konur geti ekki verið í kynferðislegu sambandi við karl án þess að vera kúgaðar. Bara með því að eiga samfarir með karl þýði undirgefni. Konur eru því hvattar til að láta karla eiga sig og vera annaðhvort einar eða í sambandi við aðarar konur. Þetta er full róttækt sjónarmið fyrir mína parta þó svo að ég telji að slík afstaða geti skilað mjög skjótum árangri ef samstaða næst um aðgerðir…!
Mín afstaða til kláms er sú að ég er sannfærð um að það sé skaðlegt. Mér finnst grundvallaratriði að klám sé ekki viðurkennt sem partur af neyslu. Forgangsverkefni finnst mér vera að sporna við klámvæðingunni og síðan gegn kláminu sjálfu. Það getur vel verið að hægt sé að framleiða kynlífstengt efni sem ekki hlutgerir manneskjuna en sem “virkar” fyrir bæði kynin (eða fyrir samkynhneigða, eftir því sem við á). Mín skoðun er þó sú að framleiðsla á slíku efni eigi að vera í höndum fagfólks – ekki fagfólks í klámiðnaðinum heldur fagfólks í kynjafræðum, sálfræði, samskiptum kynjanna. Aðilar sem geta framleitt kynlífstengt efni þar sem manneskjan fær að njóta sín og virðing er í hávegum höfð, bæði gagnvart þeim sem að koma og gagnvart kynlífinu sjálfu. Stóra spurningin er hvort að slíkt efni sé ekki nú þegar til í listum en að það hreinlega sé ekki að virka.
Mér finnst það ekki vera sjálfkrafa gæðastimpill á klám þó að það sé framleitt af konum og styð því ekki það sjónarmið að konur eigi bara að skella sér í framleiðslu. Konur eru jafn ólíkar og þær eru margar, þeirra siðferðiskennd er ekkert betri en karla og þær hafa sömu hvatir og karlar. Kynið gefur því ekki til kynna að konur séu sjálfkrafa hæfari til að framleiða klám.
Ég er á því að kynlíf sé það stór partur af lífi fólks að það beri að umgangast það af virðingu. Kynlíf á ekki að nota sem afsökun fyrir útrás á bældum hvötum. Fólk sem starfar í kynlífsiðnaðinum er í raun svipt því að eiga kost á nánum samskiptum við einn aðila í gegnum kynlíf. Kynlífsiðnaðurinn þykir líka ekki eftirsóttur starfsvettvangur og ljóst er að margir starfa þar af nauðung eða út af mansali. Slík er að sjálfsögðu ólíðanlegt og eitthvað verður undan að láta. Annaðhvort þarf að samþykkja kynlífsiðnaðinn sem sjálfsagðan hlut, vega hann til vegs og virðingar þannig að fólk sjái það sem ákjósanlegan starfsvettvang fyrir börn sín þegar þau verða stór, maka, foreldra og aðra ættingja eða þá að það þarf að draga úr eftirspurn. Mér finnst síðari kosturinn vænlegri.
Ég held þó að femínistar og kvennahreyfingar eigi eftir að ræða og rannsaka kynhegðun, kynhvöt og kynlíf mun betur. Kynlíf á ekki að vera tabú í þjóðfélaginu, kynfræðsla þarf að vera mun öflugri en hún er í dag þannig að unglingar læri um kynlíf af fullorðna fólkinu en ekki í gegnum klám. Kynfræðsla á ekki að samanstanda eingöngu af upplýsingum um kynsjúkdóma, getnvaðarvarnir og samfarir. Kynfræðsla þarf að taka á öllum þáttum – tilfinningum, hvötum, ást, o.s.frv. Kynfræðsla þarf einnig að kenna unglingum um klám, áhrif þess og til hvaða hvata er verið að höfða. Kenna þarf unglingum að klám og kynlíf eru tveir aðskildir hlutir.
Þrátt fyrir að ein staðalímynd af femínista segi að femínisti sé kynköld kona þá er ég á því að femínisminn hafi mun opnari, víðsýnni og fordómalausari afstöðu til kynlífs heldur en flest önnur hugmyndafræði. Femínisminn berst fyrir kynfrelsi manneskjunnar, réttinum til að stunda kynlíf á eigin forsendum. Femínisminn styður samkynhneigða í sinni réttindabaráttu, bæði til kynlífs, giftingar, barneigna og til að sýna ástúð á almannafæri. Femínisminn viðurkennir mörg, mismunandi fjölskylduform og lífsstíl. Þannig er ekki settur þrýstingur á fólk að ganga í hjónaband eða stunda eingöngu kynlíf innan hjónabands. Mörkin sem femínisminn setur eru þau að virðing, jafnrétti, jafnræði og sjálfræði eigi að einkenna samskipti fólks. Andstaða femínista við klám er því ekki byggð á þröngsýni eða andúð á kynlífi heldur á þeirri kúgun sem klám felur í sér og viðheldur í samfélaginu.