föstudagur, janúar 19, 2007

Jæja, þá er ég gengin kapítalismanum á hönd og búin að færa mig yfir á moggabloggið. Að fjölga röddum kvenna er markmiðið... Sjáumst vonandi þar. Slóðin er hugsadu.blog.is.

Í tilefni dagsins

Óska öllum bóndum til hamingju með daginn! Nota jafnframt tækifærið og lýsi yfir frati á Rás 2 fyrir val á kynþokkafyllsta karlmanninum. Ég hef oft kvartað yfir þessu áður og vona að Rás 2 hætti sem fyrst að skemma bóndadaginn og konudaginn með þessari vitleysu.

Hvaða merkingu hefur þetta val og af hverju er ríkisfjölmiðill að standa fyrir svona kosningu? Öðrum þræðinum er þessi dagur hlaðinn rómantískum blæ þar sem gert er út á að konur geri eitthvað sætt fyrir maka sína. Ég velti fyrir mér hversu mörgum karlmönnum finnst það sætt ef konan þeirra tekur á móti þeim eftir langan vinnudag og segir að hún hafi nú mikið velt fyrir sér allan daginn hvaða karlmaður henni þætti kynþokkafyllstur og loks hefði hún komist að þeirri niðurstöðu að það væri Gísli Örn, eða hver það er sem er flavor of the day, svo hún hefði hringt í Rás 2 og kosið hann... Smelli svo á karlinn léttum kossi og rétti honum blómvönd eða súkkulaðikassa! Jamm allt blússandi í rómantík - sérstaklega þegar haft er í huga hvað það þýðir að vera kynþokkafullur. Til fullt af klúrum orðum til að lýsa því (sem ég ætla ekki að telja upp því ég er svo siðprúð... ) en orðið hefur kynferðislega merkingu. Þessi árátta að meta fólk út frá útliti, ríðileika og þess háttar smellpassar inn í klámvæðinguna, hlutgervinguna, stjörnudýrkunina... Væri ekki ráð fyrir Rás 2 að láta af þessum sið og fókusa meira á rómantíkina, ástina og virðinguna í tilefni dagsins? Ég væri sátt við það.

Á þessum síðustu og verstu

Það er margt að gerast í jafnréttimálum þessa dagana! Flest er gaman en ekki allt...

Á miðvikudaginn fór ég á verðlaunaafhendingu FKA. Þar voru frábærar konur heiðraðar. Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs hlaut aðalverðlaunin, Guðbjörg Glóð hjá Fylgifiskum fékk hvatningarverðlaun og Guðrún Erlends fyrrverandi hæstaréttardómari hlaut þakkarverðlun. Einnig var Atorka verðlaunað fyrir að vera með konur í 4 af 5 framkvæmdastjórastöðum. Verðlaunahafarnir héldu ræður og þær voru allar dúndur femínískar, allavega hjá konunum. Samkoma hjá Femínistafélaginu hefði ekki getað leitt af sér femínískari ræður og ég varð svo happy að ég datt í það! Á miðvikudegi...

Framboð Höllu til formanns KSÍ er annað sem full ástæða er til að gleðjast sérstaklega yfir.

En svo kemur það leiðinlega - og það er mjög leiðinlegt. Iceland Express auglýsir ferðir til Amsterdam og sölupunkturinn hjá þeim er að þar sé hægt að kaupa vændiskonur og dóp. Þetta gerist ekki öllu verra. Toppar meira að segja Ölgerðina. Vændi er löglegt í Hollandi. Það hefur ekki dregið úr vændi eða mansali heldur þvert á móti og stjórnvöld þar hafa sagt að eitthvað hafi klikkað í ferlinu. Við lifum á tímum mesta þrælahalds í sögu mannkyns en talið er að 27 milljónir manna séu í þrælahaldi á okkar tímum. Stór hluti þeirra eru konur og börn - mörg hver seld til kynlífsþrælkunar. Mig bókstaflega langar til að gubba þegar ég sé fyrirtæki auglýsa ferðir fyrir karlmenn til að níðast á konum á versta hugsanlega máta. Það versta er að ég hef ekki mikla trú á að karlar landsins taki sig til og stoppi þetta. Ég á von á því að það verði konurnar sem muni leiða þessa baráttu - nú sem endranær.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Alltaf í boltanum

Halla Gunnars hélt blaðamannafund í morgun þar sem hún tilkynnti um framboð sitt til formanns KSÍ. Þetta er algjör snilld og Halla er auðvitað hinn fullkomni kandídat í jobbið! :)

Nú mun án efa margt breytast í boltanum!!!

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Stéttskipting kynferðisbrotaglæpamanna

Eitt mest aðkallandi jafnréttismál okkar tíma eru ofbeldismálin. Kynbundið ofbeldi er mjög útbreitt en Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur, sem skrifaði Mastersritgerð um ástæður á bak við kynferðislegt ofbeldi, komst að ofbeldið var minna í samfélögum þar sem jafnrétti var meira.

Núna er frétt inn á RUV um auðugan kaupsýslumann í Indlandi sem misnotaði börn og gróf þau í garðinum hjá sér. Lögreglan handtók manninn fyrir nokkrum árum en sleppti honum vegna þess að hann greiddi þeim væna peningafúlgu. Það þarf vart að taka það fram að börnin komu úr fátækum fjölskyldum og lögreglan hefur árum saman hunsað fátæka foreldra týndra barna.

Aðgerðir og viðbrögð gegn kynbundnu ofbeldi eru ekki bara háð kyni heldur líka stétt. Á ráðstefnunni Frá konum til karla sem Stígamót, Bríet og Karlahópur Femínistafélagsins stóðu fyrir í 16 daga átakinu var sálfræðingur sem unnið hefur með kynferðisbrotamönnum meðal fyrirlesara. Hann vitnaði í rannsóknir sem drógu upp ákveðna mynd af hinum týpíska kynferðisbrotamanni - hinum dæmda kynferðisbrotaglæpamanni, réttara sagt. Þessar niðurstöður voru þvert á reynslu samtaka sem unnið hafa með þolendum kynferðisglæpa - þeirra reynsla er að kynferðisbrotaglæpamenn eru alls konar og af öllum stigum þjóðfélagsins. Spurningin sem vaknar þá upp er hvort það geti ekki verið að aðeins ákveðin tegund kynferðisglæpamanna séu líklegir til að hljóta dóm? Með öðrum orðum að dómskerfið sé stéttskipt að þessu leytinu til þannig að þeir sem uppfylla staðalmyndir dómara af kynferðisbrotaglæpum séu líklegri til að vera dæmdir heldur en mikilsmetandi menn í þjóðfélaginu?

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Skemmtileg aðgerð

Nú er komin fram hugmynd að aðgerð í jafnréttismálum sem á án efa eftir að rugga bátnum töluvert! Þetta er einhver alskemmtilegasta hugmynd síðustu ára. Ég vona að hún verði að veruleika. Forvitnar sálir geta skoðað bloggið hennar Sóleyar...

Í fréttum er þetta helst

Bryndís Ísfold er komin yfir á Moggabloggið. Hún er búin að vera dugleg að blogga um áhugaverð mál - endilega kíkið á hana. Ég er búin að uppfæra tengilinn hennar hér til hliðar...

Annars er helst að frétta að ég pistillinn minn í Viðskiptablaðinu á morgun er um hvað konur skortir til að komast til áhrifa í viðskiptalífinu...

Hipp hoppið rúlar

Framtíðarlandið að gera góða hluti

Framtíðarlandið er búið að opna nýja heimasíðu. Hún er rosaflott - endilega kíkið á hana!

mánudagur, janúar 15, 2007

Og það var plús

Jæja - ég er ofvirkur bloggari í dag. Lofa að þetta verður ekki svona út vikuna ;)

Þetta var inn á heimasíðu FKA - skilst þetta hafi birst í Mogganum í dag líka. Greinin er eftir Þórólf Árnason. Einn plús fyrir hann!


Mánudagur 15. janúar 2007
Koma svo, strákar

NÁMSTEFNAN „Virkjum kraft kvenna“ var haldin fimmtudaginn 11. janúar síðastliðinn. Að henni stóðu Félag kvenna í atvinnurekstri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins.

Umfjöllunarefnið var konur sem stjórnendur. Námstefnan var frábært framtak og vafalaust

öllum nærstöddum til mikils gagns. Leitt var þó að sjá hversu fáir karlmenn sáu ástæðu til að mæta, en af um 400 þátttakendum vorum við aðeins um 20 karlarnir.

Í tilefni af námstefnunni skal sú skoðun undirritaðs viðruð að þeir stjórnendur sem láta launamisrétti kynja viðgangast og nýta ekki hæfileika kvenna eru beinlínis að gera sínum

vinnustað ógagn. Já, þetta er mín skoðun. Konur eru stórlega vanmetnar þegar kemur að stjórnunarstörfum. Aukin áhrif og völd kvenna í fyrirtækjum og stofnunum sem ég hef

komið nálægt hafa skilað góðum árangri í bættri afkomu og betri stjórn á verkefnum. Það hefur sýnt sig vera árangursríkt. Vinnumarkaðurinn sem heild þarf að bregðast hart við í þessu máli því

mikil verðmæti fara til spillis við það að konur eru ekki leiddar til áhrifa og valda í réttu samhengi við hæfileika þeirra sem stjórnenda. Að sjálfsögðu eiga konur líka að gefa sig fram og taka þessari áskorun. En það er ekki nóg að auka almennt hvatningu til kvenna um að sækjast eftir stjórnunarstörfum. Þeir sem hafa ákvörðunarvald í viðskiptalífinu og opinberri stjórnsýslu, oftast

karlmenn, eiga að veita konum stöðuhækkanir í mun meira mæli.

Koma svo, strákar:

Tala minna, gera meira.

Morgunblaðið 15. janúar 2007

Stuðnings- og baráttukveðjur

Langar að senda stuðnings- og baráttukveðjur til samfélags heyrnalausra. Fréttir síðustu daga hafa verið skelfilegar. Ég get rétt ímyndað mér hversu erfitt er að takast á við þetta þar sem samfélagið er lítið og nálægðin mikil. Það sést vel á hinu "heyrandi" samfélagi hversu mikil tilhneiging er að þagga þessi mál niður - enginn vill þekkja kynferðisbrotamann og þess vegna er auðveldara að sópa þessum málum undir teppið og láta eins og þau eigi sér ekki stað. Eða, ef málin eru viðurkennd, láta þá eins og ofbeldismaðurinn sé einn úrkynjaður glæpamaður sem fer hamförum og fremur öll brotinn upp á eigin spýtur...

Samfélag heyrnalausra á mikið hrós skilið fyrir að rannsaka þetta mál og gera opinbert. Þó að sársaukinn við að takast á við málið sé mikill þá er það samt betri leið en að láta eins og ekkert sé og láta hvern einstakling um að vinna úr sínum málum.

9 mánaða fangelsi fyrir að ljúga

Um daginn var karlmaður dæmdur í 9 mánaða fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu sína. Hann var sýknaður af ákæru um tilraun til nauðgunar vegna þess að hann sagðist ekki trúa upp á sjálfan sig að gera tilraun til slíks. Maðurinn var ölvaður og mundi ekkert eftir atvikinu - en dómurum þótti þetta trúverðugra heldur en konan sem hann réðst á þrátt fyrir að hún hefði munað eftir þessu öllu saman. Hún má væntanlega prísa sig sæla fyrir að fá ekki sama dóm og karlinn því dómurinn er með þessu að gera henni upp lygar... og kynsystir hennar fékk 9 mánaða dóm fyrir nokkrum dögum fyrir að ljúga að henni hefði verið nauðgað.

Dómskerfið á Íslandi leggur að jöfnu þegar konur ljúga og þegar karlar ráðast á konur og reyna að kyrkja þær. Dómskerfinu þykir líka alvarlegra þegar kona lýgur en þegar karlmaður á heilan haug af grófu barnaklámi.

Er það skrýtið að mér sé illa við dómskerfið? Því virðist vera til alls trúandi - nema að taka á kynferðisbrotum á réttlátan og sanngjarnan hátt!

2 millur dugðu ekki fyrir þingsæti

Þá er búið að velja Framsóknarlistann fyrir NA. Góðu fréttirnar eru þær að Hjörleifur Hallgrímsson sem bauð 2 millur í skiptum fyrir 3. sætið á lista komst ekki á blað yfir 10 efstu. Hann er því ekki í framboði til alþingis :) Listinn er annars svona:

1. Valgerður Sverrisdóttir - 301 atkvæði
2. Birkir Jón Jónsson - 271 atkvæði
3. Höskuldur Þór Þórhallsson - 130 atkvæði
4. Huld Aðalbjarnardóttir - 145 atkvæði
5. Jón Björn Hákonarson - 155 atkvæði
6. Sigfús Arnar Karlsson - 118 atkvæði
7. Þórey Birna Jónsdóttir - 203 atkvæði
8. Borghildur Sverrisdóttir - 299 atkvæði
9. Anna Kolbrún Árnadóttir - 146 atkvæði
10. Ólafur Níels Eiríksson - 137 atkvæði.

Mér fannst afar merkilegt að fréttir á Stöð 2 minntust ekki orði á gengi Hjörleifs í kosningunni en áður höfðu þau fjallað um málið 2 kvöld í röð og gert því töluvert góð skil. RUV minntist ekki á málið yfir höfuð. Ég er ennþá steinhissa á þessu litla fjaðrafoki í kringum málið. Þykir það ekki saga til næsta bæjar ef gerð er tilraun til að kaupa þingsæti? Eftir á að hyggja er fréttin í þessu tilfelli þögnin!

Börnin eiga líka að púla

Nú er World Class búið að opna líkamsræktarsal fyrir börn á aldrinum 8 - 14 ára. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta ekki góð hugmynd. Það er ástæða fyrir því að líkamsræktarstöðvar eru með 16 ára aldurstakmark og hún er sú að það er skaðlegt börnum að lyfta lóðum.

Fréttakonan hjá RUV stóð sig vel í fréttum þegar hún spurði Björn í World Class hvort að þetta myndi ekki bara ýta undir útlitsdýrkun hjá börnum og auka hættuna á megrun og átröskun hjá þeim. Ég held nefnilega að það sé akkúrat málið. Án þess að gera lítið úr mikilvægi hreyfingar þá er eitthvað bogið við að senda börn á líkamsræktarstöð svo þau geti hamast á hlaupabraut og í tækjum. Þá er þetta orðið vinna en ekki leikur - og sú vinna getur alveg beðið þangað til þau eru orðin stærri. Boðskapurinn hjá Birni var sá sami og dynur á fullorðna fólki - offita. Þetta er sem sagt enn eitt innleggið í að útmála fituna sem það versta sem til er í þessum heimi og byrja nógu snemma að láta börnin berjast gegn þessum hræðilega óvini. Ég segi bara enn og aftur - það er ekki hollt. Ef börn hreyfa sig ekki nóg og borða of óhollan mat þá er lausnin að láta þau borða hollari mat og fara út að leika... Flóknara þarf það ekki að vera.

Annars bíð ég spennt eftir auglýsingum frá World Class þar sem okkur er sagt hversu auðvelt það sé að skella sér í ræktina núna því hægt sé að kippa krökkunum með og henda þeim inn í gymið fyrir börn á meðan...

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Þingsæti á 2 millur

Ég hlustaði agndofa á fréttir í gær þar sem sagt var frá því að einn frambjóðandi í prófkjöri Framsóknarflokksins í NA kjördæmi ætlaði að greiða Framsókn 2 milljónir ef hann næði 3ja sæti á lista. Hann þvertekur fyrir að um mútur sé að ræða en tekur skýrt fram að "gjöfin" sé skilyrt við að hann nái 3. sætinu.

Í mínum bókum heitir þetta mútur. Það athyglisverða er að sérfræðingurinn sem rætt var við í fréttum þorði ekki að taka sterkar til máls en að segja að þetta væri á gráu svæði... Ég er svo búin að bíða spennt eftir viðbrögðum frá Framsókn í dag. Eitthvað hljóta þau nú að segja... Ég sé að Björn Ingi er búinn að blogga um málið en hann kallar þetta verulega vonda hugmynd. Á að láta þar við sitja? Ég trúi ekki að Framsókn gangi til prófkjörs með þetta "kosningaloforð" í loftinu. Þetta á að taka fyrir - flokkurinn getur ekki verið þekktur fyrir það að hægt sé að kaupa sér þingsæti fyrir skitnar 2 millur! Framsókn er núna með 4 þingmenn í kjördæminu. Þar fyrir utan - vill Framsókn fá mann á þing sem ekki sér að tveggja milljón króna greiðsla fyrir þingsæti er mútur?

Það skýrist alltaf betur og betur hvers vegna sagt er að það sé svona lítil spilling á Íslandi - hér er spillingin framkvæmd fyrir opnum tjöldum og kölluð frelsi til að gera það sem manni sýnist...

ps. Ég sé að Silja er heldur ekki hrifin.

Tímamótasamningur tveggja kvenna

Kristín Ástgeirs hnippti í mig í dag og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma á undirritun samnings um menntun og rannsóknir í hátíðarsal HÍ. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir rektor komu samningnum á koppinn og undirrituðu hann í dag. Ég var afskaplega glöð eftir á að Kristín skyldi hafa hnippt í mig og ég farið. Það var mjög gaman að sjá 2 konur vera í forsvari fyrir og skrifa undir svona stóran og mikilvægan samning. Þarna sást glöggt hvað það skiptir miklu máli að hafa konur í áhrifastöðum - þær bæði afrekuðu að ná þessum tímamótasamningi og eins gegna þær mikilvægu hlutverki sem fyrirmyndir. Þær fluttu báðar fín ávörp, Þorgerður Katrín kom meira að segja inn á það að kvennahreyfingin hefði unnið mikið í stofnun háskólans og að konur hefðu frá upphafi haft sama rétt og karlar til skólagöngu. Skólinn var stofnaður 1911 þannig að það er nokkuð merkilegt. Auðvitað er jafn réttur og jöfn tækifæri ekki það sama - og tækifærin voru ekki þau sömu þá en rétturinn var til staðar. Þorgerður Katrín og Kristín notuðu líka báðar tækifærið og hrósuðu hvor annarri í hástert fyrir gott samstarf. Það var ánægjulegt að fylgjast með því.

Jón Sigurðsson og Tryggvi Þór Herbertsson voru vottar að samningnum svo þeir sátu við háborðið líka. Þar var einnig formaður stúdentaráðs, held hann heitir Sigurður Freyr. Það var athyglisvert að sjá að eftir undirritunina tókust allir í hendurnar - konurnar kysstust og þær kysstu karlana líka. Karlarnir létu sér nægja að kyssa konurnar en tóku bara í hendurnar á hvorum öðrum. Þetta er eitthvað sem mér finnst að megi alveg mega breyta - strákar mega alveg kyssa hvorn annan á kinnina. Svo er annar valmöguleiki að allir takist bara í hendur en sleppi kossaflensinu.

En bottom line - það var góð stemning í hátíðarsalnum í hádeginu!

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Afmælisbörn dagsins

Afmælisbörn dagsins eru:

Guðfríður Lilja
Nonni frændi
Ég

Get ekki að því gert en mér finnst alltaf gaman að eiga afmæli :) Óska öllum afmælisbörnum nær og fjær til hamingju með daginn.

Vanhæfir dómarar - enn eina ferðina

Í gær var í fréttum dómur fyrir kynferðisbrot. Maður var dæmdur fyrir líkamsárás á fyrrum sambýliskonu sína en sýknaður af tilraun til nauðgunar. Það væri nú gaman að lesa dóminn því svo er að heyra af fréttaflutningnum að ástæða sýknudómsins væri sú að maðurinn myndi ekki eftir árásinni en hann tryði ekki upp á sjálfan sig að hafa reynt að nauðga fyrrum sambýliskonu sinni. Þetta þykir dómurum trúverðugra heldur en frásögn konunnar - sem man eftir öllu. Meðvirkni dómskerfisins með ofbeldismönnum er ótrúlega óendanleg. Eins og dómarar haldi að konunni þyki ekki nóg að maðurinn hafi ráðist á sig og reynt að kyrkja hana heldur þurfi hún að bæta við nauðgunartilraun, svona eins og karlar krydda veiðisögurnar sínar. Fáránlegt!!! Ekki er furða þó fólk sé hætt að treysta dómskerfinu í kynferðisbrotamálum. Kerfið hefur sýnt það og sannað ítrekað að það er ekki fyrir þolendur kynferðisbrota.

mánudagur, janúar 08, 2007

Hann sagði

"The United States seems destined by Providence to plague America with misery in the name of democracy."

Simon Bolivar (1783-1830)

Hitt 9. janúar

Og svo er það auðvitað Hittið sem enginn má missa af:
*************
Við verðum á menningarlegu nótunum á fyrsta hitti ársins og skoðum listir og menningu með kynjagleraugum.
Hlín Agnarsdóttir, Elísabet Ronaldsdóttir, Sólborg Erla Ingadóttir og Steinunn Birna Ragnarsdóttir
ætla að ræða um stöðu kvenna og femínisma í íslensku listalífi.

Staður og stund:
Þriðjudagurinn 9. janúar 2007
Thorvaldsen bar
kl. 20 - 22

Aðgangur ókeypis

Bara fyrir nafnlausa


Þetta innlegg er sérstaklega fyrir nafnlausa markaðsmógúla sem eru með táknfræðina á hreinu... 31. des í Fréttablaðinu fyrir þá sem vilja leita.

Já stundum er víst betra að þegja og vera álitinn vitlaus en að opna munninn og taka af allan vafa. :)

60

Þegar ég var í grunnskóla áttum við vinkonurnar góðan vin sem hélt mikið upp á David Bowie. Hann átti rosaflotta úlpu. Hún var svona flott vegna þess að vinur hans hafði tússað mynd af Ziggy Stardust á bakið á úlpunni. Það var út af þessum vini mínum sem ég hlustaði á David Bowie á þessum tíma og fannst hann bara nokkuð góður. Í dag er David Bowie sextugur. Ég hef ekki hitt vin minn síðan grunnskólanum lauk - en man ennþá að hann á afmæli 10. des. Vona að hann hafi það gott.

Sko - fitan er ekki óvinurinn...

RUV
Síðast uppfært: 08.01.2007 16:08
Nýmjólk minna fitandi en léttmjólk
Konur sem vilja halda sér grönnum ættu að borða feita osta ef marka má niðurstöður sænskrar rannsóknar. Feitir ostar og nýmjólk eru minna fitandi en fituskertar mjólkurafurðir. Mest fitandi er þó að borða ekki osta og mjólk.
Þetta sýnir ný rannsókn frá Karólínsku stofnuninni í Stokkhólmi. Rannsóknin nær til kvenna sem ýmist hafa drukkið mjólk og borðað osta árum saman eða sleppt því. Niðurstaðan var sú að konur sem daglega drukku eitt glas af nýmjólk fitnuðu 15% minna á sama fæði en konur sem slepptu mjólkinni. Feitu ostarnir voru enn betri því konur sem borðuðu daglegan skammt af feitum osti, léttust eða þyngdust 30% minna en þær sem ekki gerðu það.
Alisjia Wolk, prófessor við Karolínsku stofnunina, segir við norska blaðið Aftenposten að niðurstaðan hafi komið á óvart en hún sé byggð á 20 ára rannsóknum og kortlagningu á neysluvenjum nærri 20.000 kvenna allt frá árinu 1987. Prófessorinn segir liggja beint við að álykta svo að efnasamsetning mjólkurafurða sé ástæðan og samspil kalsíum og annarra grunnefna í mjólk og ostum.


*******
Verst finnst mér að undanfarið höfum við skötuhjúin keypt nýmjólk í staðinn fyrir léttmjólk út í kaffið... nú finnst mér eiginlega að ég þurfi alltaf að kaupa léttmjólk svo fólk haldi ekki að ég sé í megrun! Ástæðan fyrir því að ég hef frekar viljað nýmjólk undanfarið er eftir að hafa lesið að börn undir 5 ára aldri eigi bara að fá nýmjólk vegna þess að um leið og mjólkin er fituskert eru vítamínin tekin í burtu. Þar sem mjólkurneysla hér á bæ er í lágmarki er fínt að fá vítamínin með!

sunnudagur, janúar 07, 2007

Fyndnasta frétt ársins

Ég held að fyndnasta frétt ársins sé komin - þó einungis séu 7 dagar liðnir af árinu:

RUV
Fyrst birt: 07.01.2007 19:29
Síðast uppfært: 07.01.2007 20:02
„Fregnir af andláti mínu stórlega ýktar“
Fregnir af andláti mínu eru stórlega ýktar segir kona sem lenti í því á dögunum að þurfa að lesa minningargrein með mynd af sjálfri sér.
Konan, Anna Ingólfsdóttir prófessor við Háskólann í Reykjavík, opnaði Morgunblaðið í rólegheitum síðastliðinn þriðjudag. Í ljós kom að myndavíxl höfðu orðið varðandi minningargrein um konu sem lést á níræðisaldri síðastliðið sumar og mynd af Önnu birt með greininni. Myndin var tekin síðastliðið haust af því tilefni að Anna er fyrst kvenna til að verða prófessor í tölvunarfræði.

Réttur titill

Réttur titill á innleggið hér fyrir neðan hefði að sjálfsögðu verið:

"Ölgerðin býður stelpum greiðslu fyrir að taka þátt í kynlífsathöfnum"

Slefandi plebbar

Ég var að fá ábendingu um nýjasta "afrek" Ölgerðarmanna. Nú standa þeir fyrir keppni um flottasta stelpnakossinn á djamminu... Myndin af forsvarsmönnum fyrirtækisins er óðum að skýrast - þeir eru með kvenmannsrassa á heilanum, líka fyrir svona girl-on-girl action - ekki samt á lesbískum forsenum, heldur fyrir hvíta miðaldra gagnkynhneigða karla. Ég er nú þegar byrjuð að kalla forstjóra Ölgerðarinnar "assman" í huganum og fæ alltaf lagið "I'm the scatman" (eða hvað það nú var) upp í kollinn - nema með textanum "I'm the assman" og svo sé ég forstjórann fyrir mér. Mér virðast þessar sýnir ekki vera úr lausu lofti gripnar. "Gaman" að sjá að forstjórum er ekki sérstaklega annt um ímynd sína eftir allt... Held þeim finnist bara töff að vera álitnir slefandi plebbar.

Aðeins um Ölgerðina:

Í stjórn Ölgerðarinnar sitja 3 karlmenn og engin kona.
Forstöðumenn 7 sviða Ölgerðarinnar eru 6 karlmenn og 1 kona.
Forstjóri er karl.
Starfsmenn eru 124. Þar af eru 22 konur og 102 karl.

Tölvuleikir

Salvör - sem er einn allra öflugasti bloggari landsins um þessar mundir (mæli með reglulegum lestri á blogginu hennar...) er með link á þetta video hér hjá sér.

Það er sagt að hernaðarhyggja, nýfrjálshyggja og bókstarfstrú séu helstu ógnir við jafnrétti í heiminum í dag. Ég vil bæta ofbeldisdýrkun og klámvæðingu við listann. Við erum núna að upplifa bakslag og mín spá er að það eigi eftir að aukast enn meira. Sérstaklega hef ég áhyggjur af aukningu ofbeldis gegn konum og börnum. Ég held að miðað við samfélagslegt gildismat sé aukning óhjákvæmileg - enda trúi ég ekki á að ofbeldi sé innbyggt í eðli mannsins á þann hátt að magn ofbeldis í heiminum verði alltaf það sama. Ég er á því að samfélagslegt umhverfi hafi mikil áhrif á hversu mikið ofbeldi er. Núna er stemninginn þannig að mannkynið heldur að það sé miklu betur gefið og betur innrætt en allar kynslóðir sem á undan hafi komið og allt sé leyfilegt því við höfum lært svo mikið á klúðri þeirra sem á undan hafi gengið... Auk þess eigum við miklu meira af græjum, dóti, stórvirkum vinnuvélum og gereyðingarvopnum. Þess vegna munu stærstu og mestu mistök mannkynssögunnar verða gerð á okkar tímum - give or take 100 ár.

laugardagur, janúar 06, 2007

Kosningabaráttan

Og má til með að bæta því við.... Allar tilraunir til að líkja bók Margrétar Frímannsdóttur við heimilis- eða kynferðisofbeldi finnst mér vera ósmekklegar. Það var fínt að sjá að Katrín Jakobs viðurkenndi að þau á Múrnum hefðu jafnvel farið yfir strikið. Slíkt finnst mér alltaf virðingarvert og mun betra heldur en þegar fólk neitar að það hafi tekið ranga ákvörðun. Mér skilst að "brandarinn" á Múrnum eigi rætur að rekja í ritdóm eftir Jón Baldvin um bókina. Þó svo sé er þessi brandari yfir strikið. Fólk má ekki alveg tapa sér í kosningaslagnum. Mér finnst útskýringin á murnum.is út af brandaranum líka vera einstaklega léleg. Þar er andstöðunni við þennan brandara lýst sem tilraunum pólitískra andstæðinga til að sverta VG. Þeir benda meira að segja á Atla Gísla til að sýna fram á baráttu gegn kynferðisofbeldi. Atli Gísla skrifaði ekki þennan brandara og ég verð stórkostlega hissa ef honum myndi detta það í hug. Ég er ekki pólítískur andstæðingur VG en þessi brandari finnst mér fyrir neðan allar hellur - og hann á alls ekki heima í femínískum flokki. Vona að þau sem kvittuðu undir brandarann á Múrnum átti sig á því og hreinlega biðjist afsökunar. Það væri við hæfi. Stimpillinn "femínískur flokkur" og kvenfrelsisstefna er ekki ávísun á friðhelgi um að mega gera hvað sem er - eða að allt sem er gert sé í femínískum anda.

Annars er áhugavert að velta fyrir sér hvernig kosningabarátta fer fram. Á tíðum vill hún einkennast af skítkasti, að rakka andstæðinginn niður og upphefja sjálfan sig. Slíkar aðferðir ganga þvert á uppeldi kvenna og ég veit að margar konur eru afhuga pólitík vegna þess að þeim líkar þessi kúltúr engan veginn. Hvort á nú að breyta uppeldinu eða kosningabaráttunni til að jafna hlut kynjanna í pólitík - og þar með lýðræðinu?

My 2 cents

Greinilega ekki búin að standa mig í blogginu undanfarna daga... fór í matarboð/partý í gær. Þangað kom rosaskemmtilegur en tímabundinn leynigestur. Samt var svo gaman að hún sat hjá okkur í 3 tíma! Það var gaman.

En hér koma my 2 sent í bili:

1. Kryddsíldin var í boði Alcan. Áðan var Nokia New Year's party í sjónvarpinu. Sýndist þetta vera tónleikar frá fleiri en einum stað í heiminum... Svona er lífið okkar - ekkert sjálfstæði heldur gerum við allt og fáum allt í boði stórfyrirtækja. Þar eru völdin. Alcan bauð til að mynda ekki bara upp á Kryddsíldina - mútur og hótanir virðast vera upp á pallborðinu þar þessa dagana. Hótun þeirra um að álverið sé of lítið athyglisvert í ljósi þess að álverið á Reyðarfirði er minna. Hvað er langt þangað til þaðan koma sömu hótanir? Það verður jafnvel enn erfiðara að standa á móti þar en í Hafnarfirði því fleiri valkostir um atvinnu eru í boði á höfuðborgarsvæðinu.

Þó svo að við höfum völdin að nafninu til sem neytendur þá erum við svo smá eitt og eitt út af fyrir sig að við skiptum ekki máli og erfitt að finna samtakamáttinn. Íslendingar boycotta t.d. sjaldnast neitt saman. Samt er ekkert erfitt að boycotta og væri enn betra ef við tækjum okkur saman um að boycotta ákveðna vöru eða þjónustu sem brýtur gegn réttlætiskennd okkar af og til. Það var t.d. ekkert mál að lifa af jólin og áramótin án jólablandsins. Á jólunum fékk ég þennan fína Ginger Life drykk - sem er rosalega góður og hollari en jólablandið. Á áramótunum féll Kveðusafinn ekki eins vel í kramið - en rauðvín, vatn og freyðivín dugði ljómandi vel og það var ekki einu sinnu pínku löngun í jólabland frá "assman" og co.

2. Er mjög svo á báðum áttum út af litlu þroskaheftu stúlkunni sem er sett í massaskurðaðgerir og hormónameðferð til að koma í veg fyrir að hún stækki. Að grunninum til finnst mér þetta verulega ógeðfellt - að vera með svona meiriháttar inngrip sem er ekki tengt heilsufarsástæðum heldur til að gera líf umönnunaraðila auðveldara. Hins vegar skil ég vel það sjónarmið að það skiptir máli að það sé auðvelt að annast hana. Hvað ef t.d. foreldrar eru bakveikir - eða verða bakveikir á að lyfta henni þegar hún er orðin stærri og þyngri? Skiljanlega er auðveldara að annast hana þegar hún er lítil og létt - og jafnvel gerlegt fyrir 1 á meðan slíkt er ekki sjálfgefið fyrir manneskju í fullri stærð. Þroskahjálp sendi frá sér yfirlýsingu þar sem þetta er fordæmt. Mig langar alveg til að taka undir það... en ég er líka alltaf meðvirk með umönnunaraðilum - það er rosalega margar siðferðislegar spurningar í kringum svona mál. Í gamla daga hefði einstaklingur með sömu fötlun varla lifað lengi. Með nútímalæknavísindum, virðingu fyrir mannslífum og skyldum foreldra til að annast börn sín þýðir þetta heavy duty umönnun í áratugi. Í meirihluta tilfella er það mamman sem tekur að sér það hlutverk. Ég man eftir mynd sem ég sá fyrir nokkrum árum. Man ekki hvað hún heitir en hún var austurlensk. Minnir að aðalsöguhetjan hafi verið munkur - sem giftist og yfirgaf síðan konuna sína eftir að hafa haldið fram hjá henni. Hún birtist honum síðan í lokin og sagði að hann hefði getað valið um að fara frá henni og börnunum og sagði að hún hefði aldrei haft þetta val. Hana hefði stundum langað til að labba bara í burtu en kona getur ekki farið frá börnunum. Val hennar er sem sagt minna. Nú er ég ekki að segja að foreldrum langi til að yfirgefa börnin sín - en sumum langar til þess að losna undan ábyrðginni og skyldunum og þá er klárt mál að það er samfélagaslega viðurkenndarar fyrir karla en konur. Á móti kemur að mæðrarétturinn er sterkari - sem kemur mörgum konum vel.

Allavega - mér finnst þetta ekki klippt og skorið.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Kona til sölu?

Í gær var grein í Mogganum sem heitir Kona til sölu? Þetta er frábær grein um auglýsingar - fjallar um JBS auglýsinguna með slagorðinu "karlar vilja ekki horfa á bera karlmenn" og myndefnið er hálfber kona, hvað annað... Þegar ég sá þessa auglýsingu var ég fljót að kippa henni út úr Fréttablaðinu og bæta henni í safnið mitt. JBS fór auðvitað beint á bannlistann. Daginn eftir spurði mamma mig hvort ég hefði séð auglýsinguna og sagði mér svo frá því að hún hefði akkúrat verið að fara að kaupa jólasokka eða naríur á pabba þegar hún sá auglýsinguna - og skipti um merki í snarhasti! Mamma alltaf flottust :)

Svo er auðvitað sérlega gaman að segja frá því að stöllurnar 3 sem skrifuðu greinina voru allar nemendur í námskeiðinu sem ég kenndi í fyrir jól :)

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Ertu að spá í megrun eftir jólasukkið?

Ef já - Hér er mín tilraun til að tala þig ofan af því... Birtist í Fréttablaðinu 27. des á síðasta ári.

Ef nei - sjúkkit...

Heilsuspillandi barátta
Það er til siðs að borða yfir sig á jólunum, fá samviskubit eftir jólin og byrja strax að plana megrun. Líkamsræktarstöðvarnar taka þátt og bjóða alls kyns tilboð á nýju ári og reglulega birtast fréttir um það sem sagt er vera mesta ógn hins vestræna heims – offituna. Okkur er sagt að fitan sé eitthvað sem við eigum að óttast og grípa til allra tiltækra ráða til að gera hana brottræka úr samfélaginu. Ég vil hins vegar beina sjónum frá fitunni á þeirri forsendu að sú umræða og forvarnir sem gripið er til séu óheilsusamlegar. Þau skilaboð að fitan sé slæm gera fátt annað en að búa til fordóma og óhóflegan þrýsting á fólk að vera ofurgrannt.

Með þessu er ég ekki að segja að það sem er að gerast í hinum vestræna heim varðandi óhollustu og tilheyrandi sjúkdóma sé ekki vandamál. Það er eitthvað að gerast hér sem við þurfum að berjast gegn. Með því að einblína á fituna sem óvin leysum við hins vegar ekki vandamálið heldur búum til nýtt. Höfuðáherslan hjá mörgum verður að losna við fituna með öllum tiltækum ráðum. Gallinn við fituna er að hún er sýnileg og þar með heldur fólk að það sé komið með mælikvarða á heilbrigði. Saman-sem-merki er sett á milli þess að vera grannur og heilsuhraustur og að sama skapi eru aukakíló og heilsuleysi sett undir sama hatt. Þessi mælikvarði er hins vegar ekki marktækur en verður mörgum leiðarljós.

Baráttan gegn fitunni leiðir til alls kyns óhollustu. Meðal afleiðinga eru sífelldir megrunarkúrar, átröskunarsjúkdómar og matur verður að óvini sem er elskaður og hataður til skiptis. Konur verða sérstaklega illa úti varðandi fitufordómana þar sem kynþokki þeirra er mældur út frá stífum útlitsstöðlum þar sem viðmiðið er svo strangt að konur í kjörþyngd eru oft á tíðum álitnar of þungar. Baráttan við fituna verður ærið vonlaus þegar markmiðin eru ekki einu sinni raunhæf.

Samspilið á milli fitufordóma, staðalímynda, heilsu og baráttunnar gegn offitu er flókið. Það er samt hægt að draga þá ályktun að baráttan fyrir grennri heimi sé heilsuspillandi því kílóafjöldi er ekki mælikvarði á heilsu.

mánudagur, janúar 01, 2007

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla


Gleðilegt ár og takk fyrir allt gamalt og gott! :)
Þá er fríið formlega búið og skærbleikur hversdagsleikinn tekinn við. Kvarta ekki yfir því... Eignaðist þessa fínu mynd af mér - sem ég stal úr Fréttablaðinu 30. des.! Ekki segja neinum. Hér er annars það sem Jakob Bjarnar ákvað að pikka út úr pistlinum um Mann vikunnar um mig:
"Katrín Anna Guðmundsdóttir
femínisti
Femínistar máluðu bæinn bleikan þegar 91 ár var liðið frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Katrín Anna fór þar fyrir flokki, femínisti af lífi og sál og óþreytandi í baráttunni. Sögð hamhleypa til allra verka og drífur fólk með sér. Sögð skarpgreind og skipulögð... en þrjósk. Og hefur gaman að matseld og bakstri, húsmóðir góð sem er fyrir útivist."
Það var nefnilega það...
Mér hafa fundist jafnréttismálin skilin út undan í mörgum annálum hingað til og var fegin að sjá smá um jafnrétti í innlenda annálnum. Ég er reyndar svo hrikalega vanþakklát að ég hefði líka viljað sjá að Reykjavíkurborg hafi veitt jafnréttisverðlaun á árinu - og að Femínistafélagið hafi fengið þau. Fannst líka að þegar nauðgunarmálin voru tekin fyrir og sýnt frá mótmælastöðunni fyrir utan Héraðsdóm þá hefði líka mátt segja frá því að þann dag hófst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi... En jæja, má svo sem vera ánægð með að hafa átt eina setningu í annálnum!
Tek svo undir með Sóley T að það var gaman að sjá Geir H taka jafnréttismál fyrir í ávarpinu sínu. Hann er kannski allur að koma til? Held allavega að hann sé mjög vel giftur... Veit þess vegna ekki alveg hvað mér á að finnast um innslagið í áramótaskaupinu þar sem hann og Jón þáðu poster af hálfberri konu í viðræðum við Bandaríkjaher. Hann kallaði þetta auðvitað yfir sig sjálfur með "brandaranum" um sætustu stelpuna en... Annars fannst mér skaupið of klámvætt - hefði kosið að sjá meiri ádeilu á klámvæðinguna og minni þátttöku í henni. Að öðru leyti fannst mér staupið gott og sérstaklega ánægjulegt að sjá skaupið með nýju sniði. Var greinilega alveg kominn tími á það.
ps. endilega skoðið nýju heimasíðu Femínistafélagsins, www.feministinn.is