mánudagur, janúar 15, 2007

Og það var plús

Jæja - ég er ofvirkur bloggari í dag. Lofa að þetta verður ekki svona út vikuna ;)

Þetta var inn á heimasíðu FKA - skilst þetta hafi birst í Mogganum í dag líka. Greinin er eftir Þórólf Árnason. Einn plús fyrir hann!


Mánudagur 15. janúar 2007
Koma svo, strákar

NÁMSTEFNAN „Virkjum kraft kvenna“ var haldin fimmtudaginn 11. janúar síðastliðinn. Að henni stóðu Félag kvenna í atvinnurekstri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins.

Umfjöllunarefnið var konur sem stjórnendur. Námstefnan var frábært framtak og vafalaust

öllum nærstöddum til mikils gagns. Leitt var þó að sjá hversu fáir karlmenn sáu ástæðu til að mæta, en af um 400 þátttakendum vorum við aðeins um 20 karlarnir.

Í tilefni af námstefnunni skal sú skoðun undirritaðs viðruð að þeir stjórnendur sem láta launamisrétti kynja viðgangast og nýta ekki hæfileika kvenna eru beinlínis að gera sínum

vinnustað ógagn. Já, þetta er mín skoðun. Konur eru stórlega vanmetnar þegar kemur að stjórnunarstörfum. Aukin áhrif og völd kvenna í fyrirtækjum og stofnunum sem ég hef

komið nálægt hafa skilað góðum árangri í bættri afkomu og betri stjórn á verkefnum. Það hefur sýnt sig vera árangursríkt. Vinnumarkaðurinn sem heild þarf að bregðast hart við í þessu máli því

mikil verðmæti fara til spillis við það að konur eru ekki leiddar til áhrifa og valda í réttu samhengi við hæfileika þeirra sem stjórnenda. Að sjálfsögðu eiga konur líka að gefa sig fram og taka þessari áskorun. En það er ekki nóg að auka almennt hvatningu til kvenna um að sækjast eftir stjórnunarstörfum. Þeir sem hafa ákvörðunarvald í viðskiptalífinu og opinberri stjórnsýslu, oftast

karlmenn, eiga að veita konum stöðuhækkanir í mun meira mæli.

Koma svo, strákar:

Tala minna, gera meira.

Morgunblaðið 15. janúar 2007

Engin ummæli: