mánudagur, janúar 01, 2007

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla


Gleðilegt ár og takk fyrir allt gamalt og gott! :)
Þá er fríið formlega búið og skærbleikur hversdagsleikinn tekinn við. Kvarta ekki yfir því... Eignaðist þessa fínu mynd af mér - sem ég stal úr Fréttablaðinu 30. des.! Ekki segja neinum. Hér er annars það sem Jakob Bjarnar ákvað að pikka út úr pistlinum um Mann vikunnar um mig:
"Katrín Anna Guðmundsdóttir
femínisti
Femínistar máluðu bæinn bleikan þegar 91 ár var liðið frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Katrín Anna fór þar fyrir flokki, femínisti af lífi og sál og óþreytandi í baráttunni. Sögð hamhleypa til allra verka og drífur fólk með sér. Sögð skarpgreind og skipulögð... en þrjósk. Og hefur gaman að matseld og bakstri, húsmóðir góð sem er fyrir útivist."
Það var nefnilega það...
Mér hafa fundist jafnréttismálin skilin út undan í mörgum annálum hingað til og var fegin að sjá smá um jafnrétti í innlenda annálnum. Ég er reyndar svo hrikalega vanþakklát að ég hefði líka viljað sjá að Reykjavíkurborg hafi veitt jafnréttisverðlaun á árinu - og að Femínistafélagið hafi fengið þau. Fannst líka að þegar nauðgunarmálin voru tekin fyrir og sýnt frá mótmælastöðunni fyrir utan Héraðsdóm þá hefði líka mátt segja frá því að þann dag hófst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi... En jæja, má svo sem vera ánægð með að hafa átt eina setningu í annálnum!
Tek svo undir með Sóley T að það var gaman að sjá Geir H taka jafnréttismál fyrir í ávarpinu sínu. Hann er kannski allur að koma til? Held allavega að hann sé mjög vel giftur... Veit þess vegna ekki alveg hvað mér á að finnast um innslagið í áramótaskaupinu þar sem hann og Jón þáðu poster af hálfberri konu í viðræðum við Bandaríkjaher. Hann kallaði þetta auðvitað yfir sig sjálfur með "brandaranum" um sætustu stelpuna en... Annars fannst mér skaupið of klámvætt - hefði kosið að sjá meiri ádeilu á klámvæðinguna og minni þátttöku í henni. Að öðru leyti fannst mér staupið gott og sérstaklega ánægjulegt að sjá skaupið með nýju sniði. Var greinilega alveg kominn tími á það.
ps. endilega skoðið nýju heimasíðu Femínistafélagsins, www.feministinn.is

Engin ummæli: