fimmtudagur, júlí 31, 2008

Vangaveltur

Velti fyrir mér hversu margir foreldrar ætli að fylgja sonum sínum úr hlaði með þeim orðum að þeim beri að nýta sér kengdrukknar kellingar á útihátíðum og dætrum með þeim orðum að þeim hlakki geðveikt til að heyra sögurnar um hversu mörgum strákum hafi tekist að nýta sér að þær væru illa girt grey sem ekki gátu hlaupist á brott úr Heimaey...?

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Enn um Baggalút - en nú um fjölmiðla

Fjölmiðlar hafa greinilega tekið þá ákvörðun að grafa undan skilaboðum karlahóps Femínistafélagsins um að karlar segi nei við nauðgunum. Dæmi um það má sjá í leiðara DV í dag og í Fréttablaðinu á bls 23. Fleiri fjölmiðlara hafa valið þessa leið.

Innihaldið í texta Baggalúts var að ungum strákum sem vilji missa sveindóminn BERI að nýta sér ölvunarástand kvenna. Ég hef aldrei upplifað jafnsterkt áður hversu samtrygging karla er mikil þegar kemur að þeirra rétti til að gera hvað sem er við konur. Vona að fjölmiðlar taki sig saman í andlitinu og átti sig á hvaða ábyrgð þeir bera sem fjórða valdið.

föstudagur, júlí 25, 2008

Baggalútslagið

Það veldur töluverðum áhyggjum að sumt fólk átti sig ekki á að textinn við nýja lag Baggalúts snýst um nauðgun en ekki kynlíf... Held að einfalda reikniformúlan um að við séum komin 42% áleiðis skili alltof bjartsýnni niðurstöðu. Ef það er almennt viðhorf að það sé bara dæmi um týpískt íslensk fyllerísrugl að strákar fari á Þjóðahátíð með það að markmiði að missa sveindóminn með dauðadrukkinni konu sem ekki sleppur frá þeim þar sem hún er innikróuð á eyjunni og þeir þurfi þar að auki að fara við hana í slag til að fá sínu framgengt... þá er það augljóst merki um að fyrir sumum er nauðgun kynlíf... Lýsingin á því sem fram fer í texta Baggalúts gerir hvergi ráð fyrir að konan sé samþykk - hvergi ráð fyrir að henni þyki þetta gott eða gaman - hvergi gert ráð fyrir að þetta sé á forsendum beggja kynja. Strákurinn og það sem hann vill er viðmiðið og aðalatriðið. Vilji konunnar aukaatriði og kynfrelsi hennar virt að vettugi. Mér er ekki skemmt...

mánudagur, júlí 14, 2008

42% frjálsar

Jú er enn í bloggfríi og verð enn um sinn... en ákvað að skella inn Viðskiptablaðspistlinum - sem birtist á miðvikudaginn var:

42% frjálsar
Þessa dagana er ég umvafin ósýnilegum konum. Það byrjaði allt með frétt um að konur væru aðeins 21% viðmælenda fréttafjölmiðla á Íslandi þrátt fyrir að vera helmingur þjóðarinnar. Á laugardaginn var umfjöllun um konur í Pakistan í 24 stundum þar sem sagt var að þær hefðu kannski skoðun á málinu en „væri oftast ráðlagt að þegja“. Sama dag hóf ég lestur bókarinnar Freedom’s Daughters sem fjallar um baráttu kvenna fyrir auknum réttindum svartra í Bandaríkjunum. Þar heyrast raddir kvenna sem hingað til hafa verið ósýnilegar í sögunni.

„Þú ert búin að segja nóg“

Margir þekkja Rosu Parks, konuna sem neitaði að eftirláta hvítum manni strætósæti sitt þann 1. desember 1955 og hratt þar með af stað atburðarrás sem hafði mikil áhrif á endalok aðskilnaðarstefnunnar í Bandaríkjunum. Daginn sem réttað var yfir Rosu var haldinn baráttufundur til að hvetja svarta til að sniðganga strætó þangað til aukin réttindi næðust. Rosa Parks bað um að fá að taka þar til máls. „Af hverju?“, var hún spurð, „þú ert búin að segja nóg.“ Hvorki rödd Rosu né annarra kvenna heyrðist á fundinum en þar steig fram á sjónarsviðið maður sem valinn var andlit baráttunnar, Martin Luther King Jr. Konurnar sem vörðu mörgum mánuðum í undirbúning og hugmyndasmíði aðgerðanna sem á eftir komu voru ósýnilegar. Sömu sögu er að segja um svörtu konurnar sem voru helstu viðskiptavinir strætó. Þær afrekuðu að sniðganga almenningssamgöngur í 381 dag þangað til sigur náðist.

Þrælar, konur og aðrar eignir…
Baráttan fyrir auknum réttindum svartra nær mun lengra aftur en til Rosu Parks. Baráttan fyrir afnámi þrælahalds og kvennabaráttan voru samofnar á 18. öldinni. Susan B. Anthony og Elisabeth Cady Stanton, af mörgum taldar upphafskonur kvennabaráttunnar, voru báðar hvítar og beittu sér ötullega fyrir auknum réttindum kvenna og svartra. Þær töldu réttindabaráttu hópanna óaðskiljanlegar enda bjuggu konur þess tíma við sambærilegt réttleysi og þrælarnir. Þær máttu ekki taka þátt í opinberu lífi, mennta sig, eiga eignir, höfðu ekkert tilkall til barna sinna og voru í raun eign eiginmanna sinna.

Leitin að karlmennskunni
Til að undirstrika tengsl réttindabaráttu kúgaðra hópa er ágætt að skoða hvað gerðist eftir að þrælahald var afnumið í Bandaríkjunum. Nýfrjálsir karlmenn þurftu að finna karlmennsku sína á ný og komust að þeirri niðurstöðu að þrælahaldið hafði ekki einungis svipt þá réttinum yfir eigin líkama heldur einnig eignaréttinum yfir eiginkonunum. Með öðrum orðum þá vildu þeir á tímum frelsis fá sömu stöðu og hinn hvíti karlmaður. Krafan varð að karlar ættu að taka að sér leiðtogahlutverkið og konur áttu að halda sig til hlés. Þetta viðhorf endurspeglast í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni þar sem konur fengu hvorki þá viðurkenningu né stöðu sem þær verðskulduðu.

Einfalt reikningsdæmi
Fjölmiðlar þess tíma áttu það til að segja mest lítið frá baráttu kvennanna. Kvenmannsverk þóttu einfaldlega ekki nægjanlega fréttnæm þó augljóst væri að á baráttufundum var meirihluti fundargesta yfirleitt konur og þær sáu um alla vinnuna í kringum fundina. Það hefur komið í hlut sagnfræðinga að uppgötva framlag kvennanna, áratugum eftir að atburðirnir áttu sér stað, og þá kemur í ljós fjöldinn allan af stórmerkilegum, hugrökkum konum. Einn blaðamaðurinn sem fjallaði um atburði þess tíma lét hafa eftir sér að það hefðu einfaldlega ekki verið neinar konur í baráttunni. Konur eins og Pauli Murray, Rosa Parks, Daisy Bates, Diane Nash, Ella Baker, Lillian Smith og ótal fleiri voru ósýnilegar í bókstaflegri merkingu, rétt eins og meirihluti íslenskra kvenna er í dag. Þögnin sem umlykur framlag svartra kvenna endurspeglar misrétti þess tíma. Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvort hægt sé að nota hlutfall kvenna í fréttum sem mælikvarða á frelsi, enda fjölmiðlar spegill samfélagsins. Íslenskar konur eiga 21% rödd í fréttafjölmiðlum en eiga tilkall til helmings. Samkvæmt því eru íslenskar konur 42% frjálsar.