Hér er pistllinn minn fyrir Viðskiptblaðið sem birtist 4. september. Margt í honum má yfirfæra yfir á kjarabaráttu ljósmæðra. Velti annars fyrir mér hvort ekki væri við hæfi að ljósmæður kærðu fjármálaráðherra fyrir brot á jafnréttislögum? Einnig velti ég fyrir mér af hverju það tíðkast ekki að fara fram á afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum fyrir brot gegn konum, rétt eins og víða tíðkast að fara fram á afsökunarbeiðnir og jafnvel skaðabætur fyrir brot gegn alls kyns hópum. Eina dæmið sem ég veit um að farið hefur verið fram á að stjórnvöld bæti fyrir gjörðir sínar er varðar kynjajafnrétti er krafa á japönsk stjórnvöld fyrir að neyða konur í kynlífsþrælkun í seinni heimstyrjöldinni. Kannski er kominn tími til að breyta og ljósmæður kannski kjörið dæmi? Fara fram á að fá leiðréttingu launa aftur í tímann + afsökunarbeiðni fyrir misréttið og þegnskylduvinnuna sem þær eru skikkaðar til að vinna í gegnum lág laun!
Þetta er allavega hugmynd ;) En hér kemur pistillinn:
Grjóthörðu mjúku málin
Juanita Elias, kennari í alþjóðastjórnmálum við Háskólann í Adelaide í Ástralíu, fjallar um ríkjandi karlmennskuhugmyndir í alþjóðlegum stórfyrirtækjum í nýlegri grein í tímaritinu Men and Masculinities. Þar greinir hún þátt stórfyrirtækja í að viðhalda og skapa hugmyndir um karlmennsku og kvenleika á alþjóðavettvangi, m.a. með kynskiptingu starfa þar sem stjórnendastöður byggja á karlmennskuhugmyndum en hugmyndir um kvenleika ráða för varðandi illa launuð framleiðslustörf. Greinin er mjög áhugaverð og hér ætla ég að yfirfæra hugmyndina sem greinin byggir á yfir í vangaveltur um hlut stjórnvalda og vinnumarkaðar þegar kemur að verkaskiptingu kynjanna í samfélaginu.
Hagsældin og atvinnuþátttaka kvenna
Hagsæld Íslands og það hvernig landið hefur brotist frá því að vera skilgreint sem þróunarland yfir í að teljast með þeim löndum hvað best eru sett í heiminum má ekki síst þakka hárri atvinnuþátttöku kvenna. Við mælumst ofarlega á heimslistanum yfir þjóðir sem náð hafa hvað mestu jafnrétti og státum okkur iðulega af jöfnum tækifærum óháð kyni, þrátt fyrir að ljóst sé af kynjaskiptingu í störf, launamun kynjanna og ójafnri dreifingu heimilisábyrgðar að slíkt byggir iðulega frekar á ímynduðum jöfnuði frekar en raunverulegum. Útskýringarnar á misjafnri stöðu kynjanna sem gripið er til eiga sér ákveðinn samhljóm við grein Juanitu og fleiri fræðimanna sem fjallað hafa um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Óöruggt ástand
Það er þrennt sem mig langar til að fjalla um í þessu samhengi. Það fyrsta er þetta árvissa ástand sem skapast á hverju hausti vegna þess að ekki er hægt að manna stöður á leikskólum, frístundaheimilum og grunnskólum. Það þýðir óöryggi fyrir bæði foreldra og atvinnurekendur, sem væntanlega vilja bæði sjá hag barnanna borgið sem best og að starfsfólk geti mætt í vinnu og sinnt starfinu án þessara árvissu truflana. Í öðru lagi þá samþykkti leikskólaráð Reykjavíkurborgar í síðustu viku að taka upp heimgreiðslur til foreldra sem eru heima með börnum sínum til tveggja ára aldurs. Heimgreiðslurnar eru langt undir lágmarkslaunum, eða 35.000 kr á mánuði. Í þriðja lagi þá er ekki að finna orð um þetta „ástand“ á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins og í raun má segja að þetta veki furðulitla umræðu út frá áhrifum á atvinnulífið og ójafnri stöðu kynjanna í samfélaginu.
Móðgandi að krefjast hærri launa?
Manneklan sem fjallað er um hér fyrir ofan hefur oft verið rakin til lágra launa í þeim kvennastéttum sem sjá um að annast börnin. Þrátt fyrir langa og stranga baráttu gengur hægt að hækka launin og má velta fyrir sér hversu stóran þátt kvenleikahugmyndir eiga í því. Erlendar rannsóknir á fóstrum (e. nannies) hafa t.d. leitt í ljós að foreldrar ætlast til þess að fóstrunum þyki það vænt um börnin að þeim langi nánast til að annast þau af hugsjóninni einni saman án þess að tilheyrandi launagreiðslur þurfi að fylgja. Lág laun verða þá nokkurs konar mælikvarði á væntumþykju þeirra sem starfanum sinna. Krafa um mannsæmandi laun hljómar þá nánast eins og móðgun. Það má velta því upp hvort sama sé ekki upp á teningnum hér; að stjórnvöld séu treg til að hækka launin því með láglaunastefnu má viðhalda þeirri hugmynd að móðureðli kvenna sé svo sterkt að þær séu tilbúnar til að annast börnin í þegnskylduvinnu.
Mótun karlmennsku og kvenleika
Heimgreiðslurnar hef ég áður fjallað um en það er áhugavert að skoða þær út frá því sjónarmiði að í gegnum söguna hefur verið litið á konur sem varavinnuafl og þær hafa iðulega verið sendar heim þegar skóinn kreppir, rétt eins og núna. Í því endurspeglast mismunandi verðamætamat á virði kynjanna á vinnumarkaði og sömu hugmyndafræði má ef til vill lesa út úr því ósagða á heimasíðu SA. Kannski þykir það einfaldlega ekki karlmannlegt að börnin séu hluti af stjórnun og að sama skapi þyki atvinnurekstur ekki kvenlegur. Heimsgátan verður ekki leyst í þessum stutta pistli en áhugavert er að skoða og greina stöðuna út frá þeim sjónarhóli að stefnumótandi ákvarðanir bæði taka mið af og móta ríkjandi hugmyndir um karlmennsku og kvenleika.
laugardagur, september 13, 2008
fimmtudagur, september 11, 2008
Enn eitt dæmið...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)