sunnudagur, febrúar 04, 2007

Hvað er klám?

Kannski ég skutli af og til færslum af hinu blogginu hingað inn... ætla nú samt ekki að vera með tvöfalt blogghald! Hér er langt innlegg um klám... Eina sem ég breytti er að ég setti inn betri þýðingu á skilgreiningunni.

**********

Einhver spurði hvað er klám? Var að fletta í gömlu prófi sem ég tók í inngangi í kynjafræði og fann þetta svar:

Klám tengir kynlíf og/eða kynfæri við niðurlægingu eða misnotkun þannig að það virðist afsaka, styðja eða ýta undir þess konar hegðun.

Hvað er klám?

Til eru margar skilgreiningar á klámi en sú sem er hvað mest notuð er skilgreining Diana Russell. Hún hljóðar á eftirfarandi hátt:

efni sem sameinar kynlíf og/eða sýnir afhjúpuð kynfæri og misþyrmingu eða lítilsvirðingu sem virðist styðja, láta viðgangast eða stuðla að slíkri hegðun

Fólk hefur löngum deilt um hvað er klám og hvað er erótík. Fræg eru orð bankarísks dómara sem sagði eitthvað á þá leið að hann gæti kannski ekki sagt hvað klám væri en hann þekkti það þegar hann sæi það. Klám á sér margar birtingarmyndir. Það sem þeir femínistar sem eru á móti klámi virðast vera sammála um er að klám feli í sér niðurlægingu fyrir konur, að í klámi séu konur hlutgerðar, konur látnar líta út fyrir að njóta kynlífsathafna sem þær njóta í raun og veru ekki, að í klámi sé ofbeldi gegn konum gert “sexý.” Meirihluti kláms er framleitt fyrir gagnkynhneigða karla. Í klámi birtast völd karla yfir konum, allavega er það látið líta út þannig. Karlinn er ávallt við stjórnvölinn og konan/konurnar tilbúnar til að gera allt sem hann vill. Í klámi er sjónarhóll karlsins alsráðandi (the male gaze). Í klámi birtast einnig oft ýktar myndbirtingar af konum. Algengt er að myndir af konum sé breytt (airbrushed), þær eru með sítt hár, mikið málaðar, langar, málaðar neglur, mjög grannar og með stór brjóst, iðullega sílíkonbrjóst.

Í bók sinni Agains Pornography, The Evidence of Harm, kafla What is Pornography, lýsir Russell niðurstöðum rannsókna sem leiddu í ljós áhrif kláms á konur. Efninu var skipt í 3 flokka:

a) ofbeldisfullt klám

b) klám án ofbeldis (en bar vott um karlrembu og ómennsku)

c) erótískt efni (engin karlremba og ekkert ofbeldi)

Í ljós kom að fyrstu tveir flokkarnir höfðu neikvæð áhrif á líðan kvenna en þriðji flokkurinn jákvæð áhrif.

Hvaða rök setja fræðimenn með og á móti því að banna klám?

Það er ekki nekt og kynlíf sem andstæðingar kláms eru á móti heldur hvernig konur eru sýndar og vegna þeirra áhrifa sem klám hefur á viðhorf karla til kvenna. Russell heldur því fram að klám beinlínis leiði til ofbeldis gegn konum. Hún segir að það séu jafn sterkar sannanir fyrir því að klám leiði til nauðgana eins og að reykingar valdi lungnakrabba (Making the Harm Visible, http://www.echonyc.com/~onissues/russell.htm). Raðmorðinginn Ted Bundy lýsti því hvernig klám leiddi til þess að hann tók upp á því að drepa konur. Hann segist hafa byrjað að horfa á klám og smátt og smátt hafi hann sóst í ofbeldisfyllra efni. Það kom að því að það að horfa á klám var ekki nóg og hann fór að velta fyrir sér hvernig væri að framkvæma ofbeldið í alvörunni. Á meðan sumir telja þetta vera sönnun þess að klám beinlínis setji konur í hættu þá benda önnur sjónarmið á að það gæti líka verið að klám væri notað sem afsökun fyrir að fremja glæpi, þ.e. að skuldinni væri skellt á klámið en ekki sé víst að það hafi leitt til glæpsins. Það eru til frásagnir ofbeldismanna, kvenna og barna sem hafa lýst því hvernig ofbeldismenn hafa sýnt þeim klámfengið efni og síðan framkvæmt það sem var sýnt. T.d. er frásögn frá manni sem sýndi drengjum barnaklám þar sem fullorðin karl var í kynlífsathöfnum með ungum drengjum. Hann notaði þetta efni til að nálgast drengina, auka á sektarkennd þeirra og fá þá til að halda að athafnir hans væru eðlilegar, að aðrir gerðu þetta líka (Pornography: Denegration of ‘Woman’ or Exploration of Fantasy and Transgression?).

Því er líka haldið fram að klám sé notað sem valdatæki gegn konum. Þannig birtist þrá/þörf karla til að drottna yfir konum í klámi. Einnig er því haldið fram að karlar séu í raun hræddir við konur og völd þeirra. Klámið sé notað til að strípa konur niður í kjötið eitt, hlutgerðar og afmanneskjaðar til að sýna að konur séu ekki ógnandi. Í klámi er karlinn við stjórnvölinn og í klámi klikkar karlinn ekki, hann hefur ómanneskjulegt úthald og það virðist vera sama hvað hann gerir við konur – þær njóta þess alltaf. Í klámi er karlinn því hinn fullkomni elskhugi, ef svo má að orði komast. Þetta getur átt að höfða til hræðslu karla um að standa sig ekki í raunveruleikanum, það getur líka gengt því hlutverki að ala á óánægju karla með eigin frammistöðu og gert það að verkum að það er auðveldara fyrir þá að flýja á vit klámsins en að horfast í augu við raunveruleikann. Í grein sem birt var í The Guardian og nefnist Men and Porn er fjallað um áhrif kláms á karla. Það er talað um að karlar sem horfa mikið á klám geti lent í því að eiga í erfiðleikum með að tengjast konum tilfinningaböndum, þeir haldi að konur séu alltaf til í tuskið og að kynlíf snúist um hvað karlar geti gert við konur. Þetta geti síðan tekið karla langan tíma að aflæra þegar þeir átta sig á sannleikanum. Klámið hefur djúpstæð áhrif á færni þeirra í samböndum við konur. Klám getur verið ávanabindandi og klámfengnar ímyndir af konum geta orðið ávanabindandi þannig að karlar verða ófærir um að stunda kynlif nema sjá fyrir sér ímyndir úr klámi. Því fylgir síðan oft sektarkennd og tómleiki. Í greininni í Guardina er vísað í ummæli sem Bill Margold, klámmyndaleikari sagði í viðtali. Þar segir hann að “…ástæðan fyrir því að hann sé í klámbransanum sé að uppfylla þrá karlmanna sem í kæra sig ekki mikið um konur og vilja sjá karla í klámbransanum ná sér niður á konum sem þeir gátu ekki fengið í uppvexti sínum. Svo að við fáum það yfir andlit konu eða misþyrmum henni kynferðislega: Við erum að hefna okkar fyrir óuppfyllta drauma”.

Áhyggjur margra af áhrifum kláms tengjast áhrifum kláms sem kennslutækis barna og unglinga um kynlíf og viðhorf kynjanna til hvors annars. Í greininni Pornography: Denigration of ‘Woman’ or Exploration of Fantasy and Transgression? er vitnað í Susan Griffin sem heldur því fram að klám hlutgeri konur, sýni konur eins og hvern annan dauðan hlut án sálar sem aðeins sé hægt að elska líkamlega.

Önnur stór ástæða fyrir andstöðu við klám er aðstæður fólks sem situr fyrir/leikur í klámi. Þegar klám er ofbeldisfullt, t.d. sýnir konu sem er með lim í öllum götum (leggöngum, endaþarmi og munni), þá sé verið að beita þá konu raunverulegu ofbeldi. Linda Lovelace, konan sem lék aðalhlutverkið í frægustu klámmynd allra tíma, Deap Throat, skrifaði bók þar sem hún sagði frá því að hún hefði verið beitt miklu ofbeldi af hálfu manns síns, hann hefði neytt hana í vændi og til að leika í klámmyndum. Hann hefði nauðgað henni, ógnað henni með byssu og beitt hana alls kyns hræðilegu ofbeldi. Refsingin sem vofði yfir ef hún ekki gerði eins og henni var sagt gerði það að verkum að hún tók þátt í myndinni.

Fræðimenn sem eru fylgjandi klámi halda því fram að það að banna klám sé ritskoðun og því eigi klám að vera leyfilegt. Önnur rök sem haldið er fram er að klám leiði ekki til ofbeldis, karlar geti jafnvel fengið útrás fyrir ofbeldisþörf með því að neyta kláms. Því er einnig haldið fram að ástæðan fyrir því að konur eru oft á móti klámi sé vegna þess að kynhvöt kvenna hefur verið bæld síðustu aldir. Konur séu aldar upp til að vera “góðar stelpur” og að þess vegna trúi þær að klám sé slæmt. Þessu til stuðnings er bent á klám sem framleitt hefur verið af konum fyrir konur. Bent er á dæmi um lesbíuklám og að þar komi oft sömu hvatir fram og í klámi sem framleitt er fyrir gagnkynhneigða karla. Þar sé að finna drottnunarklám og jafnvel klám þar sem samkynhneigðir karlar og samkynhneigðar konur séu saman. Þetta sjónarmið segir að klám sé útrás fyrir fantasíur og að konur eigi að vera óhræddar við að kanna kynhvöt sína í gegnum klám. Þeir fræðimenn sem aðhyllast þetta sjónarmið segja þó ekki endilega að allt klám eigi að vera leyfilegt heldur að fólk geti sammælst um að banna ofbeldisfullt klám, barnaklám og dýraklám. Í greininni eru lýsingar á lesbíuklámi (fyrir lesbíur ekki gagnkynhneigða karla sem líta á það sem forleik) þar sem er drottnun eða ofbeldi. Mín skoðun á þessum lýsingum er að sumar þeirra eru ekki til þess fallnar að vekja betri viðbrögð heldur en lýst er sem ástæðum fyrir því að vera á móti klámi.

Hver er afstaða femínista til kláms?

Femínistar eru ekki allir sammála um klám. Á meðan sumir femínistar telja að klám leiði til ofbeldis gegn konum og viðhaldi ójafnrétti í þjóðfélaginu þá eru aðrir femínistar sem eru hlynntir klámi og hvetja konur til að neyta kláms sem part af kynfrelsi. Margir femínistar eru þó sammála um að hvort sem klám sé leyfilegt eða ekki þá vaði nú yfir okkur klámvæðing sem beri að stöðva. Áhersla kvennabaráttu er á það að útrýma klámvæðingunni. Gefa fólki raunverulegt val þannig að hægt sé að velja sig frá klámi. Áhrif klámvæðingarinnar eru orðin það sýnileg í samfélaginu að margir sem ekki kalla sig femínista hafa verulegar áhyggjur. Áhrifa klámvæðingarinnar er farið að gæta hjá börnum og þol samfélagsins virðist alltaf verða meira og meira. Ég held að samfélagið í heild upplifi sig valdalaust gagnvart áhrifum frá klámvæðingunni. Femínistar telja klámvæðinguna vera aðför að kynfrelsi kvenna þar sem konur eru sviptar þeim möguleika að stunda kynlíf á eigin forsendum.

Sumir róttækir femínistar eru á því að konur geti ekki verið í kynferðislegu sambandi við karl án þess að vera kúgaðar. Bara með því að eiga samfarir með karl þýði undirgefni. Konur eru því hvattar til að láta karla eiga sig og vera annaðhvort einar eða í sambandi við aðarar konur. Þetta er full róttækt sjónarmið fyrir mína parta þó svo að ég telji að slík afstaða geti skilað mjög skjótum árangri ef samstaða næst um aðgerðir…!

Mín afstaða til kláms er sú að ég er sannfærð um að það sé skaðlegt. Mér finnst grundvallaratriði að klám sé ekki viðurkennt sem partur af neyslu. Forgangsverkefni finnst mér vera að sporna við klámvæðingunni og síðan gegn kláminu sjálfu. Það getur vel verið að hægt sé að framleiða kynlífstengt efni sem ekki hlutgerir manneskjuna en sem “virkar” fyrir bæði kynin (eða fyrir samkynhneigða, eftir því sem við á). Mín skoðun er þó sú að framleiðsla á slíku efni eigi að vera í höndum fagfólks – ekki fagfólks í klámiðnaðinum heldur fagfólks í kynjafræðum, sálfræði, samskiptum kynjanna. Aðilar sem geta framleitt kynlífstengt efni þar sem manneskjan fær að njóta sín og virðing er í hávegum höfð, bæði gagnvart þeim sem að koma og gagnvart kynlífinu sjálfu. Stóra spurningin er hvort að slíkt efni sé ekki nú þegar til í listum en að það hreinlega sé ekki að virka.

Mér finnst það ekki vera sjálfkrafa gæðastimpill á klám þó að það sé framleitt af konum og styð því ekki það sjónarmið að konur eigi bara að skella sér í framleiðslu. Konur eru jafn ólíkar og þær eru margar, þeirra siðferðiskennd er ekkert betri en karla og þær hafa sömu hvatir og karlar. Kynið gefur því ekki til kynna að konur séu sjálfkrafa hæfari til að framleiða klám.

Ég er á því að kynlíf sé það stór partur af lífi fólks að það beri að umgangast það af virðingu. Kynlíf á ekki að nota sem afsökun fyrir útrás á bældum hvötum. Fólk sem starfar í kynlífsiðnaðinum er í raun svipt því að eiga kost á nánum samskiptum við einn aðila í gegnum kynlíf. Kynlífsiðnaðurinn þykir líka ekki eftirsóttur starfsvettvangur og ljóst er að margir starfa þar af nauðung eða út af mansali. Slík er að sjálfsögðu ólíðanlegt og eitthvað verður undan að láta. Annaðhvort þarf að samþykkja kynlífsiðnaðinn sem sjálfsagðan hlut, vega hann til vegs og virðingar þannig að fólk sjái það sem ákjósanlegan starfsvettvang fyrir börn sín þegar þau verða stór, maka, foreldra og aðra ættingja eða þá að það þarf að draga úr eftirspurn. Mér finnst síðari kosturinn vænlegri.

Ég held þó að femínistar og kvennahreyfingar eigi eftir að ræða og rannsaka kynhegðun, kynhvöt og kynlíf mun betur. Kynlíf á ekki að vera tabú í þjóðfélaginu, kynfræðsla þarf að vera mun öflugri en hún er í dag þannig að unglingar læri um kynlíf af fullorðna fólkinu en ekki í gegnum klám. Kynfræðsla á ekki að samanstanda eingöngu af upplýsingum um kynsjúkdóma, getnvaðarvarnir og samfarir. Kynfræðsla þarf að taka á öllum þáttum – tilfinningum, hvötum, ást, o.s.frv. Kynfræðsla þarf einnig að kenna unglingum um klám, áhrif þess og til hvaða hvata er verið að höfða. Kenna þarf unglingum að klám og kynlíf eru tveir aðskildir hlutir.

Þrátt fyrir að ein staðalímynd af femínista segi að femínisti sé kynköld kona þá er ég á því að femínisminn hafi mun opnari, víðsýnni og fordómalausari afstöðu til kynlífs heldur en flest önnur hugmyndafræði. Femínisminn berst fyrir kynfrelsi manneskjunnar, réttinum til að stunda kynlíf á eigin forsendum. Femínisminn styður samkynhneigða í sinni réttindabaráttu, bæði til kynlífs, giftingar, barneigna og til að sýna ástúð á almannafæri. Femínisminn viðurkennir mörg, mismunandi fjölskylduform og lífsstíl. Þannig er ekki settur þrýstingur á fólk að ganga í hjónaband eða stunda eingöngu kynlíf innan hjónabands. Mörkin sem femínisminn setur eru þau að virðing, jafnrétti, jafnræði og sjálfræði eigi að einkenna samskipti fólks. Andstaða femínista við klám er því ekki byggð á þröngsýni eða andúð á kynlífi heldur á þeirri kúgun sem klám felur í sér og viðheldur í samfélaginu.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er búinn að velta þessu fyrir mér lengi.

Þegar ég sé einhvern nokkurntímann koma með almennilega skilgreiningu á orðinu klám þá mun ég taka afstöðu.

Þangað til ætla ég að njóta þess að það sé til.

Þegar að kona afklæðist á hvíta tjaldinu þá sé ég ekki kúgunina né niðurlæginguna í því.

Mannslíkaminn er bara það fallegur hlutur að við eigum ekki að kvarta yfir því að neinn skuli sýna hann.

En svona út í aðrar nótur þá væri gaman að sjá feministafélagið fara út í aðra sálma.

Kærastan mín sem dæmi er orðinn svakalega þreytt á þessu félagi vegna þess að henni finnst að félagið sé að berjast um hluti sem að ekki þarf nauðsynlega að laga.

Launamál eru sem dæmi mál sem þarf virkilega að laga og þegar fólk er farið að væla undan karllægri stafsetningu þá segja sumir nóg.

Kveðja :)

katrín anna sagði...

Segðu kærustunni þinni að þetta hangi allt á sömu spýtunni... Viðhorfin sem birtast í karllægu tungumáli endurspeglast í launaumslaginu. Endalaust framboð af fáklæddum konum en fullklæddum körlum eru líka hluti af valdakerfi.
Á meðan þig langar til að horfa á þitt klám þá áttu væntanlega ekki eftir að hlusta á nein rök hvort sem er þannig að litlu skiptir að koma með góðar skilgreiningar (eins og Diana Russell hefur þegar sett fram), vísanir í rannsóknir um skaðsemi kláms eða almennt jafnréttistal. Hef komist að því að það er fátt sem karlar ríghalda eins mikið í og þeirra "réttur" að líkömum kvenna. Þú hittir reyndar naglann á höfuðið í kommentinu þínu að einu leyti - litið er á líkama konunnar sem hlut. Samfélag sem lítur á konur sem hluti er ekki að gera það gott...

Þórfreður sagði...

Góður pistill!

Ég get alveg verið sammála Arnari um að mannslíkaminn sé fallegur. En það er eins og hann hafi ekki lestið pistilinn sem hann gerir athugasemd við. Þar er ekki stafkrókur um að ekki megi sýna mannslíkamann.

Það að mannslíkaminn sé sýndur er líka ekki það andstyggilega við klámið. Það sem er andstyggilegt við klám er það hvernig manneskjur eru þar sýndar sem hlutir – einber kynlífsleikföng – en ekki sem einmitt manneskjur með mannlegar kenndir og tilfinningar. Þar birtist munurinn á erótík og klámi.

Mér finnst þetta augljóst og tek undir með dómaranum, sem Katrín Anna vitnar til, um að ég þekki klám þegar ég sé það. Hið sama held ég að gildi um Arnar hvað sem tali hans um óskýrar skilgreiningar á klámi líður.

Annars finnast mér skilgreiningarnar fremst í pistlinum mjög góðar og fæ því ekki séð að hugtakið klám sé óskýrt og illa skilgreint.

Nafnlaus sagði...

sæl ég las pistilinn og fannst mikið til hanns koma þar sem að ég er feministi á sinn hátt en það er sumt sem að ég hef miið verið að pæla í og langar rosalega til að spyrja þig útí(helst í gegnum email ef hægt væri) og þar brennur einna helst á vörum mínum að ég stóð í þeirri meiningu að feminismi væri barátta fyrir jafnrétti kvenna OG karla, það sem mér fynnst miður og sérlega sárt er að eins og feministafélag íslands hefur látið skína þá er ekki verið aðð berjast fyrir jafnrétti heldur kvennrétti og þar sem að stefnan er tekin í þá áttina frá félagi sem á að gegna mikilvægu og uppbyggilegu starfi fyrir að fræða fólk í eitthvað sem að er mun meira skilt við það sem ég kýs að kalla mæðraveldi þá fynnst mér mál til komið að skoða aðeins mál frá báðum hliðum.

ég vona innilega katrín að þú svarir mér þessu á emailið

Groftur@visir.is

og að ég geti spjallað við þig aðeins og fengið svör við spurningum mínum

Virðingarfyllst

Gunnar Þórólfsson

Nafnlaus sagði...

Þessar Lýsingar þínar á klámi og afleiðinga þinna eru algjörlega út í hött.
Sjálfur horfi ég á klám og finnst ekkert að því, alltaf betra að stunda frekar samfarir en þær standa því miður ekki alltaf til boða og þá lætur maður klámmynd duga.
Ég horfi ekki á klám til að kúga kvenfólk, svala ofbeldishneigð minni eða minnimáttarkennd...Ég horfi á það því að það er erótískt og kemur mér til og það er ekkert nema gott.
Gredda er einfaldlega í eðli karla og ekkert sem er hægt að gera við því! Face it!

Ég held bara að þú sért að missa þig í því að gera úlfalda úr mýflugu, finnur alltaf að öllu og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að allt sem þér líkar ekki við sé karlremba og út af því að við karlar erum með leynileg samtök sem sjá um að kúga kvenfólk!

Hefurðu einhvern tímann í alvörunni hlustað á sjálfa þig eða lesið það sem þú skrifar og pælt í því hvað þetta er sjúkt!

Virðingarfyllst.

Nafnlaus sagði...

Mér er ekki ætlað að geta tjáð mig á síðunum þínum. Fyrst ætlaði ég ekki að tjá mig þar sem ég er búinn að boycotta moggann. Nú hefur hinsvegar verið mikil feminísk umræða þannig að ég hef þurft að breyta forsendum boycottsins. Nú ætlaði ég að hafa það þannig að ég ætlaði bara að skoða þína síðu og aldrei klikka á tengla inn á moggafréttir. Nú þarf ég hinsvegar að vera notandi á blog.is til að geta tjáð mig. Ef ég yrði nú notandi á blog.is væri boycottið orðið með öllu marklaust.

En ég er allavega búinn að gefa sjálfum mér leyfi til að lesa bloggið þannig að ég dett nú ekki út úr þessu :)

Ps'
Sé sjálfan mig fyrir svona 3 árum í skrifum Jóns Óskars hér að framan. Hann á örugglega líkt og ég eftir að átta sig og skilja þetta um síðir.

Nafnlaus sagði...

Eða þá að þú skiljir eftir 3 ár að ég hef rétt fyrir mér.....er það ekki alveg jafn líklegt?

Megi pólitísk rétthugsun fara til fjandans!

Virðingarfyllst.

Nafnlaus sagði...

þess má geta að hún hefur ennþá ekki verið nógu mikil manneskja til að geta svarað mér hvorki hér né í email, ég hefði haldið að hún ætti að geta rætt málin en þetta virkar á mig eins og hún lesi þetta og hunsi því að sennilega verður mér ekki bjargað!

það er að segja ef hún les þetta sem er skrifað hér á annað borð og ef hún gerir það ekki jafn og þétt þá er hún einstaklega lélegt

viðringarfyllst og von um svar frá þér

Gunnar Þórólfsson

katrín anna sagði...

Gunnar - það hefur verið mikið að gera hjá mér og ég hef ekki haft tíma í tölvupóstsamskipti... Hvetur mig líka ekki sérlega mikið til dáða að vera kölluð einhverjum leiðinlegum nöfnum. Heillast einhvern veginn alltaf meira af kurteisinni ;)

En til að svara þér í örstuttu máli. Femínisimi er barátta fyrir jafnrétti kynjanna - karlar græða heilan helling á jafnréttisbaráttunni, augljósasta dæmið er feðraorlofið og rétturinn til að taka þátt í uppeldi barna sinna. Sambönd á milli jafningja eru líka alltaf miklu skemmtilegri heldur en sambönd sem byggjast á yfirráðum og undirgefni... Gæti haldið áfram að telja upp fleiri atriði en læt þetta duga í bili!

Manuel - gaman að þú skulir vera komin yfir :) Vonast til að geta opnað athugasemdakerfið sem fyrst aftur. Neyddist til að loka því vegna ótrúlegs dónaskapar og haturs frá strákum sem fíla klám - og ást þeirra á klámi brýst út í hatri á femínistum... Vonandi gengur sú bylgja yfir fljótlega og þá verður kommentakerfið opnað aftur fyrir óskráða notendur.

Nafnlaus sagði...

Uh, Ted Bundy var klínískur 'psychopath'... Fyrir þá sem ekki vita þýðir það á einfölduðu sálfræðimáli að hann var tilfinningadofinn, sem aftur hefur þau áhrif að til þess að upplifa tilfinningu þarf áreitið að vera þeim mun 'meira spennandi' (sterkara). Að kenna klámhorfi um hegðun hans er jafn absúrd og að kenna Bítlunum um morð Charles Manson (Manson er snælduklikk), Guði um morð Andreu Yates (fæðingarþunglyndi), eða Allah um verk hryðjuverkamanna (sem eru pólitísk frekar en trúarleg).

Ég er hvorki að mæla með né móti klámi, en þetta er öskrandi rökvilla.

Unknown sagði...

Hvað er að mönnum???
Þetta er hann Ingólfur sem bloggar eftirfarandi..

http://ingo.blog.is/blog/ingo/

Kveðja
Hildigunnur

Nafnlaus sagði...

hey beib, ég var að vafra og datt inn á soldið hræðilegt. http://www.youtube.com/watch?v=H9VHjNczO2I
þetta er video af ungri íslenskri stúlku og ég fékk fyrir hjartað þegar ég sá að innihald videosins var klám.

hvar er ungdómurinn?
afhverju gera folreldrar hennar ekkert í þessu?

þetta er stúlkan http://nfmh.is/nfmh/skaramuss/63/1616/

ég treysti því að þú komir með góða
afstöðu á málinu.

Kv. Jens

Nafnlaus sagði...

Er í alvöru til eitthvað sem heitir "Öryggisráð Feministafélags Íslands" sbr. frétt á www.mbl.is?
Ef svo er, hver er tilgangur Öryggisráðsins? Eiga feministar svo mjög undir högg að sækja að nauðsynlegt er að starfrækja sérstakt öryggisráð?

Kær kveðja,
Sigurður.

nafnlaus sagði...

ég persónulega þoli ekki þetta klám.. finnst þetta vera algera niðurlæging fyrir konur.. og einnig fyrir þær stelpur sem eru að sofa hjá þessum strákum sem kanski hafa hangið heima hja sér allan daginn og horfa á klám.. og svo kemur stelpan i heimsokn og hann þykist vera voða spenntur fyrir henni og þau sofa saman.. en það sem gerði hann virkilega spenntan var klámið sem hann var að horfa á... þad sem ég skil ekki er það að afhverju leyfum við körlum að horfa á aðrar naktar og verulega flottar konur þegar við erum í sambandi með þessum strákum.. ég meina erum við ekki nóg fyrir þá.. þurfa þeir lika að vera alltaf að skoða klám?? ekki held ég að þeir væru alveg sáttir ef við værum alltaf að skoða myndir af nöktum karlmönnum

Nafnlaus sagði...

Lífið er gott þegar þú hefur ástina þína í kringum þig, ég er að segja þetta vegna þess að þegar ég átti mál við elskan minn sá ég aldrei lífið sem gott en þökk sé Dr. AGBAZARA AGBAZARA TEMPLE, til að hjálpa mér að kasta álögum færði elskhugi minn aftur til mín innan 48 klst. Maðurinn minn skilaði mér eftir aðra konu eftir 7 ára hjónaband, en Dr.AGBAZARA hjálpaði mér að kasta álögum sem leiddi hann aftur til mín innan 48 klst. Ég ætla ekki að segja þér meiri upplýsingar um mig heldur vil ég aðeins ráðleggja þeim sem eru með vandamál í því sambandi eða hjónabönd að hafa samband við Dr.AGBAZARA TEMPLE með þessum upplýsingum um;
(agbazara@gmail.com) eða hringdu í Whatsapp: +2348104102662