föstudagur, janúar 20, 2006

Í minningu um góðan dreng

Það er enginn föstudagspistill í dag þar sem ég þurfti að fara í jarðarför. Ég var ekki með það í huga þegar ég skrifaði innleggið í morgun - um Guð og kirkjuna. Og í dag sat ég í kirkju. Í fallegri en óendanlega sorglegri athöfn þar sem ungur karlmaður var kvaddur hinstu kveðju. Dauðinn er óumflýjanlegur hluti tilverunnar en þegar ungt fólk fellur frá í blóma lífsins þá sést vel hversu mikið trúin getur hjálpað. Í dag hugsaði ég um hversu lífið er ósanngjarnt, hversu sorginni er misskipt á milli fólks og hvað margt er einfaldlega fyrir utan okkar mannlega mátt - og mér er illt í hjartanu.

Í dag hugsaði ég um hversu gott það væri að geta trúað á æðri máttarvöld, ekki bara þegar sorgin knýr að dyrum heldur alltaf. Og ég hugsaði um hversu marga kirkjan hlýtur að fæla frá með því að vera ekki í fararbroddi í réttlætiskennd. Það er leitt því margir missa af trúnni fyrir vikið og kirkjan nær ekki að vera öllum sú hjálp sem henni er ætlað að vera. Ég er ekki sérfræðingur í biblíunni en ég hugsaði um hvort að trúin sem Jesús boðaði á sínum tíma hafi ekki verið róttæk, byltingarkennd og í fararbroddi á hans tíma. Mér finnst að kirkjan eigi að reyna að endurheimta sitt sæti sem leiðtogi í andlegum málefnum þar sem jafnrétti og réttlæti er haft að leiðarljósi þannig að okkur sé óhætt að fylgja kirkjunni en það sé ekki öfugt, að kirkjan þurfi að fylgja okkur og taka upp réttlætiskennd og jafnrétti þjóðarinnar síðust af öllum. Sú umræða má bíða betri tíma en núna ætla ég að biðja Guð um að gefa foreldrum hans frænda míns styrk til að takast á við þessa stóru sorg.

Engin ummæli: