sunnudagur, október 26, 2008

Friður, jafnrétti og samfélag

Gildin mín fyrir það sem framundan er hljóma svona:
Friður, jafnrétti og samfélag
Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands kona að nafni Elisabeth Rehn. Hún er fyrrum varnarmálaráðherra Finnlands og var þátttakandi í ráðstefnu um konur, stríð og öryggi. Á þeirri ráðstefnu sagði hún að hún hefði komist að því að eina verkefnið sem væri þess virði að vinna að væri að stuðla að friði. Þessi orð hafa fylgt mér og vonandi gleymi ég þeim aldrei. Jafnrétti og samfélag eru einnig hluti af gildunum því þetta eru grundvallaratriði til að hægt sé að stuðla að friði. Samfélag jafnréttis er líklegra til að halda friðinn heldur samfélag þar sem misrétti ræður ríkjum eða þar sem engin er samkenndin. Með þessu á ég þó ekki við að einstaklingurinn skipti ekki máli - engan vegin. Ég vil vera einstaklingur í samfélagi. Einstaklingurinn hefur hins vegar lítið gildi ef hann er eyland, ef ekkert er samfélagið.
Sem stendur upplifi ég mjög sterkt að við lifum í samfélagi misréttis. Sú tilfinning hefur styrkst eftir pólitíska umræðuþætti helgarinnar þar sem 94% viðmælenda hafa verið karlar og einungis 6% konur, eða réttara sagt kona, því konan var bara ein. Þetta er ekki boðlegt. Þetta er heldur ekki líklegt til að efla samstöðu, frið eða þjóðarstolt - hvað þá þjóðarsátt.

Engin ummæli: