Kristín Marja Baldursdóttir skrifaði snilldargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég held að þar nái hún að orða það sem mörg okkar hugsa, þ.m.t. ég, þó ég eigi ekki börn þá eru komandi kynslóðir mér ofarlega í huga í þessu öllu og ástæðan fyrir því að ég stend í jafnréttisbaráttu yfir höfuð. Finnst að við skuldum þeim að vera manneskjur í þróun (sem mannkynið stendur sig allt of illa í - þekking, reynsla, skynsemi og réttlæti eru ótrúlega vanrækt fyrirbæri).
Hér er tengill á greinina hennar Kristínar Marju.
Sjálf skrifaði ég pistil í Viðskiptablaðið í dag. Læt hann fylgja hér með.
Kvenmannslausir í kulda og trekki
Það er óhætt að segja að nú næði um Ísland. Ekki nóg með að veturinn sé
genginn í garð heldur hellist kreppan yfir. Framundan er kuldi og trekkur.
Ráðamenn þjóðarinnar sögðu í upphafi kreppunnar að nú þyrftum við að
endurskoða okkar gildismat og standa saman. Gallinn á gjöf Njarðar er að
það gildismat sem nú skýtur upp kollinum er ekki til þess fallið að efla
samstöðu, nema síður sé.
94% karlar
Ef rýnt er í þætti og sjónvarpsefni liðinna vikna er ljóst að hið lága
hlutfall kvenna í umræðunni hefur lækkað enn frekar. Um síðustu helgi voru
þrír pólitískir umræðuþættir. Vikulokin á Rás 1, Silfur Egils í
Ríkissjónvarpinu og Mannamál á Stöð 2. Gestir Hallgríms Thorsteinssonar í
Vikulokunum voru 4 karlar. Gestir Egils Helgasonar í Silfri Egils voru 6
karlar og 1 kona. Í pólitískum umræðum Sigmundar Ernis Rúnarssonar í
Mannamáli voru 5 karlar. Gerður Kristný fékk að fljóta með í
menningarhlutanum en þar var pólitík ekki til umræðu heldur verk 3 karla
og 1 konu. Kynjahlutfallið í pólitískum umræðum var sem sagt 15 karlar og
1 kona, þ.e. 94% karlar og 6% konur. Hlutfall þáttastjórnanda 100% karlar.
Hvenær verða allir menn taldir menn?
Slagorð RUV er Útvarp allra landsmanna. Þáttur Sigmundar Ernis heitir
Mannamál. Það er greinilegt að konur teljast ekki lengur til manna hér á
landi en kannski táknaði orðið maður aldrei bæði kyn í raun og veru.
„Hvenær verða allir menn taldir menn" sungu Rauðsokkur á Kvennafrídaginn
1975. Greinilega ekki árið 2008! Rétt eins og ég túlka ákvörðun Gordons
Brown um að beita hryðjuverkalögum gegn íslensku fyrirtæki sem
hernaðaraðgerð get ég ekki annað en túlkað útrýmingu íslenskra karlmanna á
kvenfólki úr pólitískri umfjöllun sem hernaðaraðgerð.
Kúgaðar konur eru ekki stoltar
Íslendingar hafa verið stolt þjóð og vonandi getum við haldið áfram að
bera höfuðið hátt þrátt fyrir hremmingar. Hins vegar verður að vera
innistæða fyrir þjóðarstoltinu. Tveir gesta Mannamáls ræddu ímynd Íslands
og að hana þyrfti að endurreisa. Ætla íslenskir fjölmiðlamenn í alvörunni
að skapa þá ímynd að Ísland sé fornaldarlegt karlaveldi þar sem raddir
kvenna skipta ekki máli? Endurreisa þjóðarstoltið á því? Öllum hugsandi
mönnum er ljóst að hvorki þjóðarstolt né góð ímynd getur byggt á útilokun
kvenna. Samstaða ekki heldur.
Stríð eða samstaða?
Í öryggisályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1325 er fjallað um endurreisn
landa eftir stríð og aðrar hremmingar. Þar er kveðið á um að aðkoma kvenna
í endurreisn sé lykilatriði í uppbyggingu. Konur eiga ekki að þurfa að
berjast við feðraveldið á tímum sem þessum. Það var ekki bara
kapítalisminn og nýfrjálshyggjan sem beið skipsbrot í því efnahagslega
hruni sem nú skellur á heimsbyggðinni. Þetta er líka dómur yfir
feðraveldinu og hinum karlmannlegu gildum dirfsku og áhættufíknar. Sönnun
þess að körlum er ekki einum treystandi til að stjórna heiminum. Kannski
er það sú sára staðreynd sem gerir það að verkum að fjölmiðlakarlar
útiloka konur. Fáir eiga auðvelt með að viðurkenna eða horfast í augu við
mistök. Fjölmiðlar eiga þess kost að hjakka í sama farinu, útiloka konur
og vaða áfram kvenmannslausir í kulda og trekki. Sú leið er ávísun á
frekari hremmingar og samfélag sem er á engan hátt eftirsóknarvert, hvorki
fyrir konur né karla. Hinn kosturinn, sem stendur líka til boða, er að
snúa við blaðinu, tryggja jafnvægi og standa sig í stykkinu. Það er
ömurlegt fyrir konur að búa í samfélagi sem þessu. Það er hægt að standa
af sér ýmsar hremmingar en útilokun jafngildir stríðsyfirlýsingu, ekki samstöðu.
miðvikudagur, október 29, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli