laugardagur, september 13, 2008

Grjóthörðu mjúku málin

Hér er pistllinn minn fyrir Viðskiptblaðið sem birtist 4. september. Margt í honum má yfirfæra yfir á kjarabaráttu ljósmæðra. Velti annars fyrir mér hvort ekki væri við hæfi að ljósmæður kærðu fjármálaráðherra fyrir brot á jafnréttislögum? Einnig velti ég fyrir mér af hverju það tíðkast ekki að fara fram á afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum fyrir brot gegn konum, rétt eins og víða tíðkast að fara fram á afsökunarbeiðnir og jafnvel skaðabætur fyrir brot gegn alls kyns hópum. Eina dæmið sem ég veit um að farið hefur verið fram á að stjórnvöld bæti fyrir gjörðir sínar er varðar kynjajafnrétti er krafa á japönsk stjórnvöld fyrir að neyða konur í kynlífsþrælkun í seinni heimstyrjöldinni. Kannski er kominn tími til að breyta og ljósmæður kannski kjörið dæmi? Fara fram á að fá leiðréttingu launa aftur í tímann + afsökunarbeiðni fyrir misréttið og þegnskylduvinnuna sem þær eru skikkaðar til að vinna í gegnum lág laun!

Þetta er allavega hugmynd ;) En hér kemur pistillinn:


Grjóthörðu mjúku málin
Juanita Elias, kennari í alþjóðastjórnmálum við Háskólann í Adelaide í Ástralíu, fjallar um ríkjandi karlmennskuhugmyndir í alþjóðlegum stórfyrirtækjum í nýlegri grein í tímaritinu Men and Masculinities. Þar greinir hún þátt stórfyrirtækja í að viðhalda og skapa hugmyndir um karlmennsku og kvenleika á alþjóðavettvangi, m.a. með kynskiptingu starfa þar sem stjórnendastöður byggja á karlmennskuhugmyndum en hugmyndir um kvenleika ráða för varðandi illa launuð framleiðslustörf. Greinin er mjög áhugaverð og hér ætla ég að yfirfæra hugmyndina sem greinin byggir á yfir í vangaveltur um hlut stjórnvalda og vinnumarkaðar þegar kemur að verkaskiptingu kynjanna í samfélaginu.

Hagsældin og atvinnuþátttaka kvenna
Hagsæld Íslands og það hvernig landið hefur brotist frá því að vera skilgreint sem þróunarland yfir í að teljast með þeim löndum hvað best eru sett í heiminum má ekki síst þakka hárri atvinnuþátttöku kvenna. Við mælumst ofarlega á heimslistanum yfir þjóðir sem náð hafa hvað mestu jafnrétti og státum okkur iðulega af jöfnum tækifærum óháð kyni, þrátt fyrir að ljóst sé af kynjaskiptingu í störf, launamun kynjanna og ójafnri dreifingu heimilisábyrgðar að slíkt byggir iðulega frekar á ímynduðum jöfnuði frekar en raunverulegum. Útskýringarnar á misjafnri stöðu kynjanna sem gripið er til eiga sér ákveðinn samhljóm við grein Juanitu og fleiri fræðimanna sem fjallað hafa um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Óöruggt ástand
Það er þrennt sem mig langar til að fjalla um í þessu samhengi. Það fyrsta er þetta árvissa ástand sem skapast á hverju hausti vegna þess að ekki er hægt að manna stöður á leikskólum, frístundaheimilum og grunnskólum. Það þýðir óöryggi fyrir bæði foreldra og atvinnurekendur, sem væntanlega vilja bæði sjá hag barnanna borgið sem best og að starfsfólk geti mætt í vinnu og sinnt starfinu án þessara árvissu truflana. Í öðru lagi þá samþykkti leikskólaráð Reykjavíkurborgar í síðustu viku að taka upp heimgreiðslur til foreldra sem eru heima með börnum sínum til tveggja ára aldurs. Heimgreiðslurnar eru langt undir lágmarkslaunum, eða 35.000 kr á mánuði. Í þriðja lagi þá er ekki að finna orð um þetta „ástand“ á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins og í raun má segja að þetta veki furðulitla umræðu út frá áhrifum á atvinnulífið og ójafnri stöðu kynjanna í samfélaginu.

Móðgandi að krefjast hærri launa?
Manneklan sem fjallað er um hér fyrir ofan hefur oft verið rakin til lágra launa í þeim kvennastéttum sem sjá um að annast börnin. Þrátt fyrir langa og stranga baráttu gengur hægt að hækka launin og má velta fyrir sér hversu stóran þátt kvenleikahugmyndir eiga í því. Erlendar rannsóknir á fóstrum (e. nannies) hafa t.d. leitt í ljós að foreldrar ætlast til þess að fóstrunum þyki það vænt um börnin að þeim langi nánast til að annast þau af hugsjóninni einni saman án þess að tilheyrandi launagreiðslur þurfi að fylgja. Lág laun verða þá nokkurs konar mælikvarði á væntumþykju þeirra sem starfanum sinna. Krafa um mannsæmandi laun hljómar þá nánast eins og móðgun. Það má velta því upp hvort sama sé ekki upp á teningnum hér; að stjórnvöld séu treg til að hækka launin því með láglaunastefnu má viðhalda þeirri hugmynd að móðureðli kvenna sé svo sterkt að þær séu tilbúnar til að annast börnin í þegnskylduvinnu.

Mótun karlmennsku og kvenleika
Heimgreiðslurnar hef ég áður fjallað um en það er áhugavert að skoða þær út frá því sjónarmiði að í gegnum söguna hefur verið litið á konur sem varavinnuafl og þær hafa iðulega verið sendar heim þegar skóinn kreppir, rétt eins og núna. Í því endurspeglast mismunandi verðamætamat á virði kynjanna á vinnumarkaði og sömu hugmyndafræði má ef til vill lesa út úr því ósagða á heimasíðu SA. Kannski þykir það einfaldlega ekki karlmannlegt að börnin séu hluti af stjórnun og að sama skapi þyki atvinnurekstur ekki kvenlegur. Heimsgátan verður ekki leyst í þessum stutta pistli en áhugavert er að skoða og greina stöðuna út frá þeim sjónarhóli að stefnumótandi ákvarðanir bæði taka mið af og móta ríkjandi hugmyndir um karlmennsku og kvenleika.

fimmtudagur, september 11, 2008

Enn eitt dæmið...

Enn eitt dæmið um að konur eru konum verstar...! Skil ekki af hverju fólk er í enn að nota þetta orðatiltæki - er einhver sem er í alvörunni til í greiningu og úttekt á hvort þetta sé raunverulega málið?

laugardagur, ágúst 09, 2008

Nálgunarbann sett á

Set hér með nálgunarbann á þá Jón Steinar og Ólaf Börk. Héðan í frá er þeim gert að stíga ekki fæti inn í Hæstarétt vegna þess að rökstuddur grunur leikur á að með því munu þeir raska friði mínum og annarra sem eru þeirrar skoðunar að dómskerfið eigi ekki að vera helsti griðarstaður ofbeldismanna.

Búin að fatta

Aha. Búin að átta mig á hvað það er sem þvælist fyrir Jóni Steinari og Ólafi Berki varðandi nálgunarbannið. Í lögunum segir:

110. gr. a. Heimilt er leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á.


Farið var fram á nálgunarbann vegna þess að rökstudd ástæða er til að ætla að ofbeldismaðurinn muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þessarar KONU sem í hlut á!

Skýr eða ekki skýr?

Ég held ég sé bara alveg sammála Jóni Steinari í því að lögin um nálgunarbann séu alveg nægjanlega skýr hvað þetta tiltekna mál varðar. Öðru máli virðist hins vegar gegna um Jón Steinar...

Starf hæstaréttardómara felst ekki í því að vernda frelsi karla til að beita konur ofbeldi. Væri einhver til í að láta mennina tvo sem fengu jobbið sitt út á kyn og klíku vita?

mánudagur, ágúst 04, 2008

Til upplýsinga

Verslunarmannahelgi þar sem búið er að tilkynna um tvö kynferðisbrot telst ekki hafa farið vel fram. Þarf enn þá að upplýsa fólk um að nauðgun er eitt stærsta áfall sem fólk verður fyrir í lífinu?

Sóley hafði upp á ansi fínu myndbandi á TedTalks. Vel þess virði að dreifa svo ég set það hér inn líka...


föstudagur, ágúst 01, 2008

Kvennasaga

Ég ætlaði út að frelsa heiminn en ég fékk enga barnapíu


Úr Veru. 4 tbl. 1983.

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Vangaveltur

Velti fyrir mér hversu margir foreldrar ætli að fylgja sonum sínum úr hlaði með þeim orðum að þeim beri að nýta sér kengdrukknar kellingar á útihátíðum og dætrum með þeim orðum að þeim hlakki geðveikt til að heyra sögurnar um hversu mörgum strákum hafi tekist að nýta sér að þær væru illa girt grey sem ekki gátu hlaupist á brott úr Heimaey...?

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Enn um Baggalút - en nú um fjölmiðla

Fjölmiðlar hafa greinilega tekið þá ákvörðun að grafa undan skilaboðum karlahóps Femínistafélagsins um að karlar segi nei við nauðgunum. Dæmi um það má sjá í leiðara DV í dag og í Fréttablaðinu á bls 23. Fleiri fjölmiðlara hafa valið þessa leið.

Innihaldið í texta Baggalúts var að ungum strákum sem vilji missa sveindóminn BERI að nýta sér ölvunarástand kvenna. Ég hef aldrei upplifað jafnsterkt áður hversu samtrygging karla er mikil þegar kemur að þeirra rétti til að gera hvað sem er við konur. Vona að fjölmiðlar taki sig saman í andlitinu og átti sig á hvaða ábyrgð þeir bera sem fjórða valdið.

föstudagur, júlí 25, 2008

Baggalútslagið

Það veldur töluverðum áhyggjum að sumt fólk átti sig ekki á að textinn við nýja lag Baggalúts snýst um nauðgun en ekki kynlíf... Held að einfalda reikniformúlan um að við séum komin 42% áleiðis skili alltof bjartsýnni niðurstöðu. Ef það er almennt viðhorf að það sé bara dæmi um týpískt íslensk fyllerísrugl að strákar fari á Þjóðahátíð með það að markmiði að missa sveindóminn með dauðadrukkinni konu sem ekki sleppur frá þeim þar sem hún er innikróuð á eyjunni og þeir þurfi þar að auki að fara við hana í slag til að fá sínu framgengt... þá er það augljóst merki um að fyrir sumum er nauðgun kynlíf... Lýsingin á því sem fram fer í texta Baggalúts gerir hvergi ráð fyrir að konan sé samþykk - hvergi ráð fyrir að henni þyki þetta gott eða gaman - hvergi gert ráð fyrir að þetta sé á forsendum beggja kynja. Strákurinn og það sem hann vill er viðmiðið og aðalatriðið. Vilji konunnar aukaatriði og kynfrelsi hennar virt að vettugi. Mér er ekki skemmt...

mánudagur, júlí 14, 2008

42% frjálsar

Jú er enn í bloggfríi og verð enn um sinn... en ákvað að skella inn Viðskiptablaðspistlinum - sem birtist á miðvikudaginn var:

42% frjálsar
Þessa dagana er ég umvafin ósýnilegum konum. Það byrjaði allt með frétt um að konur væru aðeins 21% viðmælenda fréttafjölmiðla á Íslandi þrátt fyrir að vera helmingur þjóðarinnar. Á laugardaginn var umfjöllun um konur í Pakistan í 24 stundum þar sem sagt var að þær hefðu kannski skoðun á málinu en „væri oftast ráðlagt að þegja“. Sama dag hóf ég lestur bókarinnar Freedom’s Daughters sem fjallar um baráttu kvenna fyrir auknum réttindum svartra í Bandaríkjunum. Þar heyrast raddir kvenna sem hingað til hafa verið ósýnilegar í sögunni.

„Þú ert búin að segja nóg“

Margir þekkja Rosu Parks, konuna sem neitaði að eftirláta hvítum manni strætósæti sitt þann 1. desember 1955 og hratt þar með af stað atburðarrás sem hafði mikil áhrif á endalok aðskilnaðarstefnunnar í Bandaríkjunum. Daginn sem réttað var yfir Rosu var haldinn baráttufundur til að hvetja svarta til að sniðganga strætó þangað til aukin réttindi næðust. Rosa Parks bað um að fá að taka þar til máls. „Af hverju?“, var hún spurð, „þú ert búin að segja nóg.“ Hvorki rödd Rosu né annarra kvenna heyrðist á fundinum en þar steig fram á sjónarsviðið maður sem valinn var andlit baráttunnar, Martin Luther King Jr. Konurnar sem vörðu mörgum mánuðum í undirbúning og hugmyndasmíði aðgerðanna sem á eftir komu voru ósýnilegar. Sömu sögu er að segja um svörtu konurnar sem voru helstu viðskiptavinir strætó. Þær afrekuðu að sniðganga almenningssamgöngur í 381 dag þangað til sigur náðist.

Þrælar, konur og aðrar eignir…
Baráttan fyrir auknum réttindum svartra nær mun lengra aftur en til Rosu Parks. Baráttan fyrir afnámi þrælahalds og kvennabaráttan voru samofnar á 18. öldinni. Susan B. Anthony og Elisabeth Cady Stanton, af mörgum taldar upphafskonur kvennabaráttunnar, voru báðar hvítar og beittu sér ötullega fyrir auknum réttindum kvenna og svartra. Þær töldu réttindabaráttu hópanna óaðskiljanlegar enda bjuggu konur þess tíma við sambærilegt réttleysi og þrælarnir. Þær máttu ekki taka þátt í opinberu lífi, mennta sig, eiga eignir, höfðu ekkert tilkall til barna sinna og voru í raun eign eiginmanna sinna.

Leitin að karlmennskunni
Til að undirstrika tengsl réttindabaráttu kúgaðra hópa er ágætt að skoða hvað gerðist eftir að þrælahald var afnumið í Bandaríkjunum. Nýfrjálsir karlmenn þurftu að finna karlmennsku sína á ný og komust að þeirri niðurstöðu að þrælahaldið hafði ekki einungis svipt þá réttinum yfir eigin líkama heldur einnig eignaréttinum yfir eiginkonunum. Með öðrum orðum þá vildu þeir á tímum frelsis fá sömu stöðu og hinn hvíti karlmaður. Krafan varð að karlar ættu að taka að sér leiðtogahlutverkið og konur áttu að halda sig til hlés. Þetta viðhorf endurspeglast í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni þar sem konur fengu hvorki þá viðurkenningu né stöðu sem þær verðskulduðu.

Einfalt reikningsdæmi
Fjölmiðlar þess tíma áttu það til að segja mest lítið frá baráttu kvennanna. Kvenmannsverk þóttu einfaldlega ekki nægjanlega fréttnæm þó augljóst væri að á baráttufundum var meirihluti fundargesta yfirleitt konur og þær sáu um alla vinnuna í kringum fundina. Það hefur komið í hlut sagnfræðinga að uppgötva framlag kvennanna, áratugum eftir að atburðirnir áttu sér stað, og þá kemur í ljós fjöldinn allan af stórmerkilegum, hugrökkum konum. Einn blaðamaðurinn sem fjallaði um atburði þess tíma lét hafa eftir sér að það hefðu einfaldlega ekki verið neinar konur í baráttunni. Konur eins og Pauli Murray, Rosa Parks, Daisy Bates, Diane Nash, Ella Baker, Lillian Smith og ótal fleiri voru ósýnilegar í bókstaflegri merkingu, rétt eins og meirihluti íslenskra kvenna er í dag. Þögnin sem umlykur framlag svartra kvenna endurspeglar misrétti þess tíma. Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvort hægt sé að nota hlutfall kvenna í fréttum sem mælikvarða á frelsi, enda fjölmiðlar spegill samfélagsins. Íslenskar konur eiga 21% rödd í fréttafjölmiðlum en eiga tilkall til helmings. Samkvæmt því eru íslenskar konur 42% frjálsar.

föstudagur, júní 27, 2008

Útiveran



Ég held hreinlega að sumarið sé ekki hentugur tími til að blogga... allavega ekki fyrir mig á meðan veðrið er svona gott. Ég tók upp á því að gerast útivera í sumar og má mest lítið vera að því að sitja fyrir framan tölvuna. Hef því ákveðið að blogga lítið sem ekkert í sumar heldur njóta þess að vera úti í góða veðrinu!

Sumarið búið að vera gott so far (eins og sést á bloggleysi). Fræðslan fyrir unglingavinnuna byrjuð og hóparnir hver öðrum skemmtilegri. Síðan er það garðurinn... ef einhver vill er hægt að skemmta sér við að spá í hvort komin verði mynd á garðinn í sumarlok eður ei... spennó spennó! ;) Annars er ég byrjuð að spá í hvort það sé ekki nauðsynlegt að dansa regndansinn af og til nú þegar komnar eru nokkrar plöntur í garðinn. Rigningin er allt í einu mun eftirsóknarverðari en áður.

Að lokum - það er spurning hvort mun teljast meira afrek þegar upp er staðið - að koma garðinum í horf eða að hafa loksins tekist að leysa töfrateninginn!! :)

Hafið það gott í sumar. :)

fimmtudagur, júní 19, 2008

93 ár frá kosningaréttinum

Til hamingju með daginn. Í dag eru liðin 93 ár síðan konur fengu kosningarétt, þ.e. konur 40 ára og eldri! Þetta er því merkisdagur og risastór áfangi í jafnréttisbaráttunni. En það var ekki allt fengið með kosningaréttinum. Það var ekki fyrr en árið 1961 að sett voru lög um launajafnrétti og jafnréttislög komu mun síðar. Í nýjustu Jafnréttislögunum, þeim sem samþykkt voru í vetur, er í fyrsta sinn minnst á kynferðisofbeldi. Já, ekki seinna vænna.

Sýnum stuðning við jafnrétti með því að bera eitthvað bleikt í dag - málum bæinn bleikan.

mánudagur, júní 16, 2008

sunnudagur, júní 15, 2008

Vogaðu þér að vita

Dare to know var mottó Upplýsingarinnar sem hófst um miðja átjánda öld, eða þar um bil. Mér finnst þetta flott mottó. Ætla að taka það upp varðandi femínismann og jafnréttismál almennt. Vogaðu þér að vita. Það er málið!

föstudagur, júní 13, 2008

Það er von

Þá er Héraðsdómur búinn að skila nýjum dómi í Hótel Sögu nauðgunarmálinu. Í þetta sinn var sakfellt í málinu - réttlætinu sem sagt framfylgt. Það gerist því miður allt of sjaldan í nauðgunarmálum.

Fjórða valdið

Úr fjölmiðlum síðustu daga - oggulítið brot af efni í sama dúr:

Visir.is
Heather Locklear í annarlegu ástandi - Myndir
Pamela brjóstahaldaralaus í Montreal - Myndir
Playboystelpurnar styðja Lakers - Myndir
Lindsay Lohan og Samantha í faðmlögum - Myndir
Drengur mikið brenndur eftir spreningu í húsbíl - MYNDBAND

24 stundir
Fallegustu makar fótboltakappa - 24 stundir - Blað sem kemur þér við! (auglýsing á RUV)

Morgunblaðið
Glæst glyrðuheit í Eyjafirði


**
Jebbs. Ég get ekki lýst því hvað ég er glöð að búa í skynsömu upplýsingasamfélagi með hugsandi verum en ekki aftur í grárri fornöld þegar fólk hreinlega vissi ekkert í sinn haus og óð um í myrkrinu sökum lélegs upplýsingaflæðis... Augljóst að fjórða valdinu er vel treystandi til að flytja fréttir af því sem skiptir máli - enda veit ég fyrir víst að fjölmiðlar leggja ofuráherslu á að trúverðugleiki þeirra skipti öllu máli varðandi hversu vel þeim er treyst.

ps. ætla að hafa þetta hér fyrir neðan því mér finnst það ekki falla í sama flokk og hitt...

Myndbirting í Mogganum með grein um mansal - mynd af kvenmannslegg í netasokkabuxum. Best að hafa umfjöllunina soldið sexý... Sérlega spælandi vegna þess að umfjöllunin sjálf er mjög góð og stendur fyllilega fyrir sínu - algjör óþarfi að ætla að nota „sexið selur“ trixið - það dregur úr vægi fréttarinnar.

þriðjudagur, júní 10, 2008

Þrælahald

Jæja, spurning um að byrja aftur að blogga eftir sumarfrí... við gerðum heilmikið í garðinum en samt er fullt eftir! Hefði verið ljúft að vera lengur en skyldan kallar. Sem betur fer fyrir mig ákvað Skjár 1 að fara í massaherferð til að stuðla að aukningu vændis og mansals í heiminum, ekki veitir af. Áhrifin sú að ég er hætt að geta horft á stöðina og get í staðinn dútlað í garðinum :) Ef ég væri yfirmáta sjálfselsk myndi ég örugglega segja meira svona... hver hefur ekki gott af massívum heilaþvotti til að tryggja viðgang mannréttindabrota?

Nú eru umræður um mansal í kringum EM að komast á skrið. Sá afar furðulega heimasíðu sem ætlað er að berjast gegn mansali. Þar eru kúnnarnir hvattir til að hafa augun opin gagnvart grunsamlegum aðstæðum, svona ef allt lítur ekki út eins og það á að gera... en að öðru leyti látið eins og vændi sé bara í fínu lagi svo framarlega sem ofbeldi er ekki beitt... Algjörlega litið fram hjá því að vændi er í sjálfu sér ofbeldi, samþykkt af sumum en þegar upp er staðið ekkert annað en borguð naugðun. Það sem er enn furðulegra er að körlunum er sagt að hafa ekki samband við yfirvöld heldur frekar hringja í þau samtök sem standa að síðunni ef þá grunar að um mansal sé að ræða. MTV virðist vera með skástu sketsana gegn mansali og öðru þrælahaldi. Mæli sérstaklega með þessum tveim:



og þessu:

föstudagur, maí 23, 2008

Sumarfrí

Komin í sumarfrí. Aðrir hlutir í forgang núna en að blogga. Því miður sé ég mér ekki annað fært en að loka fyrir athugasemdir á meðan, enda fáir sem nenna að lesa þennan óskapnað sem sumir kjósa að láta hingað inn í þeim tilgangi að þagga alla málefnalega umræðu.

Hafið það gott.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Tjáningarfrelsi

Það skal ekki bregðast að í hvert skipti sem málefni eins og t.d. GTA og fleira í þeim dúr ber á góma þá hrúgast inn fólk í athugasemdarkerfið, hér um bil tryllt af bræði - með persónulegt skítkast. Til upplýsinga fyrir þessa einstaklinga þá missir þetta algjörlega marks - ég tek ekki mark á einhverjum nafnlausum einstaklingum út í bæ sem kunna ekki að ræða málin og vita ekki um hvað tjáningarfrelsi snýst. Fólk sem virðir tjáningarfrelsi ræðst ekki að öðrum með kommentum eins og „ef ég mætti drepa einhvern myndi ég drepa þig“ eða upphrópunum um heimsku og annað þess háttar. Tjáningarfrelsi byggir á því að mega ræða skoðanir sínar - þar með talið ofbeldisfulla tölvuleiki eins og GTA. Ef fólk er ósammála því að leikinn megi ræða - þá um að gera að beita sér fyrir takmörkunum á tjáningarfrelsi - eða velja þá leið sem margir hafa valið hér - að sleppa því að ræða málin en fara þess í stað út í persónulegt og ómálefnalegt skítkast. Þetta er kallað þöggun - tilraun til þess að fá fólk til að hætta að tjá sig og er mjög svo andstætt ríkjandi hugmyndum um skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Endurtekinn málflutningur í þessa veru flokkast líka sem andlegt ofbeldi - svona talandi um þetta GTA spilandi einstaklinga sem myndi aldrei detta í hug að gera nokkuð á annarra hlut...

Þau ykkar sem eruð að tapa ykkur í kommentakerfinu hér ættuð að vita það að svona ómálefnalegheit og skítkast eru í raun aðför að tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi einstaklinga. Þau sem hafa þessi gildi í alvörunni í heiðri ræða skoðanir - og eru fær um að ræða málin á þeim nótum. Málflutningur eins og sá sem sést hér í kommentakerfinu er heldur ekki til þess fallinn að styrkja þau rök að tölvuleikir séu skaðlausir, nema síður sé.