Jæja þá er ég loksins búin að sjá Brokeback Mountain. Er enn harðari á því en áður að það borgar sig ekki að vera með miklar væntingar fyrirfram - það veldur nánast alltaf vonbrigðum... ég var sem sagt ekki eins hrifin af myndinni og ég hélt að ég myndi verða - eða ætti að vera. Fyrir það fyrsta þá fannst mér hún óhemju langdreginn, sérstaklega fyrri helmingurinn. Fyrir það næsta setti ég nokkur spurningamerki við hvernig sambandið á milli kúrekanna hófst. Þegar fyrstu ástarsenunni lauk spurði ég Grétar hvort þetta hefði verið ástarsena eða nauðgun. Er það á hreinu??????? Hafði ekki tíma til að kíkja á þetta aftur þar sem skila þurfti spólunni um leið og áhorfi lauk til að ná fyrir lokun.
Fannst ástarsenurnar líka soldið skrýtnar á köflum - fannst þeir yfirleitt frekar ofbeldisfullir eða harkalegir í kynlífinu/kossum en þegar sýnd var ástúð og kærleikur var það í kúri og þessi háttar - eða allavega stoppað áður en "of" langt var gengið. Það er svona eins og það hafi átt að tryggja að karlmönnum myndi nú örugglega ekki þykja fallegt að sjá 2 karla saman (hvað þá konum...). Svo er auðvitað týpískt að í Hollywood ástarmynd um homma þurfi að sýna konurnar þeirra nánast naktar - til hvers var það?
En auðvitað var margt gott í myndinni líka. Ég sat samt ekki eftir myndina með verk í hjartanu yfir hvað þessar aðstæður eru ömurlegar og hvað mörg líf fara forgörðum vegna fordóma og gagnkynhneigðum yfirráðum. Fannst á köflum að túlkunin næði frekar grunnt og áhorfandanum eftirlátið að fylla of mikið inn í eyðurnar - því það var vel hægt að fylla út í eyðurnar á hómófóbískan hátt á köflum. Eins fannst mér ekki takast að byggja upp þessi sterku tengsl/ást þeirra á milli í fyrri hluta myndarinnar sem gerði það að verkum að ég var frekar lengi að tengjast persónunum og fá samúð með þeim. Þetta fannst mér hins vegar takast mun betur í seinni hlutanum.
Myndin náði samt vel að sýna hvað hommafóbía og fordómar út í samkynhneigð eru mannskemmandi öfl sem vonandi tekst að útrýma. Það er nógu erfitt fyrir fólk að koma út úr skápnum í samfélagi eins og okkar þar sem baráttan er töluvert lengra á veg komin og fordómarnir minni en nánast ómögulegt á svæðum þar sem hommar eru lamdir og drepnir ef upp um þá kemst. Þannig er samt staðan enn sums staðar. Ég var að reyna að rifja upp hvernig þetta var í mínu ástkæra rauða sveitafylki, Kansas. Komst þó að því að ég hefði verið í of vernduðu umhverfi til að geta dæmt um það. Í háskólasamfélaginu voru hommar og lesbíur opinskátt út úr skápnum fjarri fjölskyldu og nágrönnum. Morð og ofbeldi voru fátíð. Ég man ekki eftir neinum hate crimes gegn hommum eða lesbíum - en fór á netið að leita. Fann mér til mikils léttis quote í queer theory prófessor í skólanum sem lýsti campusnum sem opnu og frjálslyndu samfélagi - sem er akkúrat mín upplifun af minni skólagöngu þarna. Tilefnið var þó ekkert skemmtilegt en það var vegna þess að fáni samkynhneigðra var brenndur (hate crime - en eftir minn tíma) og prófessorinn var hissa....
Allavega. Þarna varð ég femínisti, hlynnt réttindum samkynhneigðra og kynntist mörgu sem sneri að margbreytileika. Þótt það hljómi kannski skringilega þá var Kansas miklu betri uppspretta lærdóms fyrir þessa hluti heldur en Ísland. Ástæðan einfaldlega sú að í 26þús manna háskóla í miðríkjum Bandaríkjanna er fólk frá öllum heimshlutum, af mismunandi kynhneigðum, kynþáttum, með mismunandi trúarbrögð o.s.frv. Þangað koma líka alls kyns fáráðlingar. Ég sé enn eftir að hafa ekki farið á fyrirlesturinn með Ku Klux Klan... damn! Til samanburðar get ég sagt að á Íslandi hafði ég hitt einn svartan mann fram að tvítugu og kynnst einum homma! Jamm, litla verndaða, einsleita Ísland... Og ég veit ekki til þess að Klanið hafi nokkurn tímann komið hingað með fyrirlestur...!
En þó að háskólasamfélagið hafi iðað af margbreytileika, fjölbreytileika og frjálslyndi þá verður það sama seint sagt um Kansas. Eftir að hafa googlað minn fyrrum heimabæ komst ég að því að staðan hefur langt í frá batnað - og örugglega bara versnað eftir Bush og co. Sennilega myndi Brokeback Mountain passað vel inn í suma litlu sveitabæina í Kansas (bara ekki Lawrence!!! :-þ), og víðar. Því miður. Bandaríkjunum sárvantar góðan forseta - demókrata. Það vantar líka fleiri myndir eins og Brokeback Mountain - bara ekki eins langdregnar!