miðvikudagur, nóvember 30, 2005
Smávægileg leiðrétting
Er gott að fá jafnréttisverðlaun?
Aðrar fréttir eru ekki eins góðar - mér skilst að jólaballið hjá Háskólanum í ár verði klámball - og skólinn var að vinna jafnréttisverðlaun fyrir örfáum vikum. Það er kannski satt sem sagt er að eftir að fyrirtæki og stofnanir fái þessi verðlaun þá sé ástæða til að byrja að óttast... Eins og Hans Petersen sem sá enga ástæðu til að taka þátt í Kvennafrídeginum því fyrirtækið hafði unnið jafnréttisverðlaun fyrir langa löngu þegar kona var forstjóri og þar með var ekki þörf á að sinna jafnrétti meir! Og verðlaunin meira að segja notuð sem réttlæting fyrir að sýna ekki samstöðu á Kvennafrídeginum. Vonandi stendur HÍ sig betur og breytir ballinu úr klámballi í jólaball...
mánudagur, nóvember 28, 2005
Afrek helgarinnar
Síðan var auðvitað mini afrek að hjálpa tengdó að flytja ofan af 4. hæð. Helgin var sem sagt bara skemmtileg - og afmælið hjá Guðrúnu Margréti alveg frábært. Það var gott að komast aðeins út að mingla með femínistunum - enda afburðarskemmtilegt fólk :)
2 nýjar bækur komnar á bókalistann:
- Jörðin - lúkkar rosalega flott af auglýsingunni að dæma!
- Opið hús - girnilegar uppskriftir frá ýmsum löndum auk þess sem hægt er að kynnast heiminum betur. Búin að ákveða fyrirfram að þetta sé frábær bók :)
föstudagur, nóvember 25, 2005
Frumraunin
En hér kemur pistillinn - fluttur á NFS 25. nóv:
Heilsa kvenna, heilsa mannkyns: stöðvum ofbeldið. Þetta er yfirskrift á 16 daga alþjóðlegu átaki gegn kynbundu ofbeldi sem hófst í dag.
Í tilefni af átakinu langar mig til að fjalla um samskipti kynjanna og ofbeldi gegn konum. Ofbeldi er alltof útbreitt og því brýn þörf á aðgerðum og í dag langar mig til að ræða hvað við getum gert til að stöðva ofbeldið sjálft – hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér stað? Ég ætla að ganga út frá ákveðnum forsendum þegar ég tala um hvað við getum gert til að stöðva ofbeldi. Ég til dæmis neita að trúa eða samþykkja að ofbeldi sé eitthvað sem er karlmönnum í blóð borið. Það er ekkert í eðli karlmanna sem gerir suma þeirra að nauðgurum, fær þá til að misnota börn eða lemja konuna sína. Ofbeldið á sér rætur í félagslegu umhverfi og það snýst um vald. Ofbeldi er valdbeiting.
Ég held að ofbeldið eigi að stórum hluta rætur sínar að rekja til þeirra viðhorfa að karlmenn eigi að vera sterkari aðilinn – þeir eiga að vera sá sem hefur töglin og haldirnar og konur eiga að vera undirgefnar og hlýðnar. Við vitum öll að í raunveruleikanum er þetta ekki svona – en einhversstaðar djúpt inn í þjóðarsálinni er þessi gamli hugsunarháttur enn við lýði og birtist okkur á ýmsan hátt.
Eitt dæmi er sú klámvæðing sem tröllríður vestrænum samfélögum þessa dagana. Þar birtist kvenlíkaminn sem neysluvara sem karlmenn hafa óheftan og ótakmarkaðan aðgang að. Þeir þurfa ekkert að hafa til brunns að bera sjálfir sem veitir þeim þennan aðgang – þeir eiga einfaldlega þennan rétt óháð eigin verðleikum. Svona kristallast húsbóndavaldið í breyttri mynd frá því hér á árum áður þegar konan var eign eiginmannsins – kynlífið var réttur fyrir hann en ein af skyldum hjónabandsins fyrir hana.
Sá hugsunarháttur að strákar eigi að vera betri en stelpur sést líka í uppeldi barna. Kannast einhver við að hafa heyrt sagt við strák að hann verði að standa sig í stykkinu – hann megi ekki tapa fyrir stelpu? Það er ekki nóg með að það sé ekki nógu gott að tapa – það fylgir því sérstaklega mikil skömm að tapa fyrir stelpu – af hverju? Jú, af því að strákurinn á að vera betri.
Ofan á þetta bætist að karlmennskuímynd nútímans er gegnumsýrð af ofbeldi og yfirráðum. Þegar við hömpum gildum sem slíkum ættum við ekki að furða okkur á að ofbeldi verði útbreitt. Þetta eru hlutir sem við verðum að breyta. Í staðinn fyrir að hampa fornaldarlegum hugmyndum um samskipti kynjanna sem byggjast á að kynin séu andstæðar fylkingar ættum við frekar að horfa á hvað kynin eiga sameiginlegt og krefjast þess að virðing, samvinna og jafnræði sé sett í fyrsta sætið.
Til að við getum stöðvað ofbeldið verðum við að sporna við þeim viðhorfum sem birtast til beggja kynja í okkar samfélagi. Við þurfum að spá alvarlega í hvaða þýðingu orðin virðing og jafnrétti hafa. Það er nefnilega allt sem bendir til þess að virðing sé af skornum skammti og að enn sé ekki litið á kynin sem jafningja með sömu réttindi, sömu skyldur og sömu verðleika. Við sem byggjum þetta land getum öll haft áhrif á tíðni og útbreiðslu ofbeldis. Við getum haft áhrif með því að neita að vera umurðarlynd gagnvart viðhorfum sem byggja á yfirráðum, ofbeldi og virðingarleysi. Ofbeldið er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera til – ofbeldið þrífst við ákveðnar aðstæður og það eru í rauninni góðar fréttir því það þýðir að við getum breytt því. Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að til þess að stöðva ofbeldið þurfum við að breyta ansi miklu – og spurningin er – erum við, ég og þú, tilbúin til að leggja það á okkur?
fimmtudagur, nóvember 24, 2005
Meira dót, meira dót, meira dót...
Eftirvæntingin liggur í skoðun á hvað er strákadót og hvað er stelpudót í ár! Og niðurstaðan kemur alltaf jafnmikið á óvart:
Stelpudót: dúkkur, snyrtidót, eldhúsáhöld og að syngja lög eins og Crazy in love í karíókí.
Strákadót: bílar, byggingasett, flugvélar, trommusett.
Jamm - börnin velja þetta allt saman sjálf - enda um það bil helmingur dótsins í boði fyrir hvort kyn. Að búa til konur og karla er þrusuvinna sem byrjar strax á day #1.
miðvikudagur, nóvember 23, 2005
Hvað á ég að lesa?
- Brosað gegnum tárin
- Í fylgd með fullorðnum
- Gæfuspor
- Auður Eir
- Hrafninn
- Sá sterki (sterkasti??) eitthvað svoleiðis - skáldsaga um nýfrjálshyggjuna - veit einhver hvernig hún er?
Vantar einhverjar bækur á listann?
þriðjudagur, nóvember 22, 2005
DV sukkar
Svo byrjar 16 daga átak gegn ofbeldi gegn konum á föstudag.
Það veitti ekki af að taka DV fyrir í átakinu. Forsíða blaðsins í dag er ógeðsleg. Þar er mynd af manni sem hefur verið dæmdur fyrir nauðgun og til hliðar er mynd af konu sem sögð er vera þolandi. EN - myndin er af henni á naríunum einum fata og er væntanlega úr einhverri fegurðarsamkeppninni, efri parturinn "blörraður". Það eru svona atriði sem fá mig til að trúa því að ábyrgðarmönnum DV er slétt sama um hvort hægt sé að draga úr ofbeldi eða ekki - þeim er bara sama um söluna. Og það er skítt... Forsíðan er ekki inn á visir.is í augnablikinu - ég vona að það sé vegna þess að þeir hafi tekið hana út af samfélagslega ábyrgum ástæðum!
mánudagur, nóvember 21, 2005
Eitt allsherjar samsæri!
Til að losna við orminn þurfti ég að skipta um template. Þetta verður að duga í bili og ég held að það sé bara ágætt því það eru að koma jól og þetta er eins og vel skreytt jólatré - allavega eru litirnir nógu margir :)
En annars er það helst í fréttum að Herra Ísland keppnin er á fimmtudaginn... vei, vei, vei - uhhh svei, svei, svei - meinti ég.
Frumraunin á NFS verður svo kl. 16:10 á föstudag...!
fimmtudagur, nóvember 17, 2005
mánudagur, nóvember 14, 2005
sunnudagur, nóvember 13, 2005
Betan
miðvikudagur, nóvember 09, 2005
Blaðið og Hitt húsið
Annars er Hitt húsið með Lifandi bókasafn þessa dagana. Var að senda eftirfarandi tilkynningu á femínistapóstlistann:
Hitt húsið stendur fyrir Lifandi bókasafni dagana 9. 10. og 11. nóvember
frá kl. 14 - 18. Hægt er að mæta í Hitt húsið og tryggja sér eintak af alls
konar spennandi bókum - þar á meðal femínistabók...
"Hugmyndin að lifandi bókasafni er þróuð á Norðurlöndunum til þess að
stuðla að því að ókunnugir hittist og ungt fólk skiptist á skoðunum. Í stað þess
að fá lánaða bók á bókasafninu, fær maður manneskju að láni. Fólkið sem er til
útlána, er fólk sem aðrir eru fullur fordóma gagnvart. Það getur verið
lögreglumenn, samkynhneigðir, femínistar, múslimar, o.s.frv. Markmiðið er, að
með því að tala við annað fólk getum við komist að því að við erum ekki eins
ólík og við höldum, og þar með losnað við fordóma okkar."
mánudagur, nóvember 07, 2005
Samruni
Held að það sé full ástæða til að spyrja að þessu því í síðustu viku lét blaðið að því liggja að Þórdís Sigurðardóttir hefði verið kosin stjórnarformaður Dagsbrúnar vegna þess að hún er systir hans Hreiðars Más.... en ég er inn á línu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum - konur á að meta að eigin verðleikum en ekki eiginmanna, feðra og bræðra!
Stórmerkilegar fréttir
föstudagur, nóvember 04, 2005
Eftirmálar
Er búin að lesa nokkra yfirmáta asnalega pistla eftir einhverja karla sem þykjast vera jafnréttissinnar en sjá ofsjónum yfir Kvennafrídeginum og þátttökunni þar. Heimskulegast af öllu eru þeir sem halda því fram að þarna hafi verið barátta hinna hálaunuðu millistéttarkvenna sem láti sig láglaunakonurnar engu varða... jamm - á Íslandi eru einmitt 60.000 hálaunakonur! Eða kallinn sem er prófessor (og hér er vert að hugsa aðeins um hæfni...) í viðskiptafræði sem skrifar hverja greinina á fætur annarri í Moggann og margtyggur að hann sé jafnréttissinni - en að jafnrétti geti vel verið þannig að konur sinni umönnunarstörfum og fái fyrir það skítalaun - sinni börnum og búi svo kallinn geti unnið langan vinnudag og fengið svimandi há laun fyrir... jamm - hann kann allavega ekki að hlusta, það er á hreinu.
Sem betur fer las ég líka góðar greinar frá körlum... gott að þeir jafnréttissinnuðu þegja ekki!
fimmtudagur, nóvember 03, 2005
Konur eru konum bestar
Líka á því að konur verða að hvetja hverja aðra áfram í baráttunni - styðja við hverja aðra - þó það þýði að fyrirgefa mistök af og til - enda mistök ákaflega mannleg og partur af prógrammet - líka þegar kona verður fyrir barðinu á þeim sjálf... stundum geri ég meira að segja mistök (ok - það kemur alveg nokkuð oft fyrir) og stundum gera aðrir mistök líka - meira að segja femínistarnir (þó það sé auðvitað sjaldnast). Og stundum gera þeir sem verða fyrir barðinu á mistökunum mistök - og einstaka sinnum gerir það mig fúla - þegar það bitnar á baráttunni. Er þetta nokkuð orðið of flókið? Niðurstaðan er allavega sú að árangur næst með samstöðunni - ekki með sundrung eða leiðindum - og ég ætla ekki að vera með bein leiðindi (bara óbein) þó mig langi stundum til þess.
ps. þetta er hálfgerð prívat færsla - til að pústa :)
Prófkjör
þriðjudagur, nóvember 01, 2005
Dagurinn í dag...
Síðan var teiti með þeim sem tóku þátt í lagasamkeppninni - nokkuð góð mæting :) og erfiðar spurningar en þetta var bara stórfínt þegar upp var staðið og ég held að það sé léttir fyrir ansi margar að þetta mál sé búið.
Og svo var ráðsfundur á Ban Thai - það ætti auðvitað að vera bannað!
ps. skil ekki í þessu með Fróða - ég bauð þeim langbesta dílinn - og besta við það er að ég sótti um starfið en gaurinn sem fékk það var sóttur í starfið... athyglisverður kynjavinkill þar - en auðvitað ber að taka það fram að ég ætlaði ekki að gera klámblað - heldur bara rosafínt blað fyrir hugsandi og flotta stráka - en slefandi klámhundar þykja greinilega betri markhópur... er á því að það sé arfavitlaust viðskiptavit - auk þess sem ég er líka að spá í þessa kalla og hvort þeim sé alveg sama um að þeirra mannorð sé bendlað við klám...??? Klám og klámhundar þykja ekki flottir í dag.