föstudagur, nóvember 25, 2005

Frumraunin

Jæja þá er frumraunin sem pistlahöfundur í sjónvarpinu búin - og þetta var heldur betur hræðilegt... :-/ Þá er það sem sagt officialt að það fer mér engan vegin að tala hægt og ég mun halda áfram að gassast á mínum hraða hraða í framtíðinni! :)

En hér kemur pistillinn - fluttur á NFS 25. nóv:

Heilsa kvenna, heilsa mannkyns: stöðvum ofbeldið. Þetta er yfirskrift á 16 daga alþjóðlegu átaki gegn kynbundu ofbeldi sem hófst í dag.

Í tilefni af átakinu langar mig til að fjalla um samskipti kynjanna og ofbeldi gegn konum. Ofbeldi er alltof útbreitt og því brýn þörf á aðgerðum og í dag langar mig til að ræða hvað við getum gert til að stöðva ofbeldið sjálft – hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér stað? Ég ætla að ganga út frá ákveðnum forsendum þegar ég tala um hvað við getum gert til að stöðva ofbeldi. Ég til dæmis neita að trúa eða samþykkja að ofbeldi sé eitthvað sem er karlmönnum í blóð borið. Það er ekkert í eðli karlmanna sem gerir suma þeirra að nauðgurum, fær þá til að misnota börn eða lemja konuna sína. Ofbeldið á sér rætur í félagslegu umhverfi og það snýst um vald. Ofbeldi er valdbeiting.

Ég held að ofbeldið eigi að stórum hluta rætur sínar að rekja til þeirra viðhorfa að karlmenn eigi að vera sterkari aðilinn – þeir eiga að vera sá sem hefur töglin og haldirnar og konur eiga að vera undirgefnar og hlýðnar. Við vitum öll að í raunveruleikanum er þetta ekki svona – en einhversstaðar djúpt inn í þjóðarsálinni er þessi gamli hugsunarháttur enn við lýði og birtist okkur á ýmsan hátt.

Eitt dæmi er sú klámvæðing sem tröllríður vestrænum samfélögum þessa dagana. Þar birtist kvenlíkaminn sem neysluvara sem karlmenn hafa óheftan og ótakmarkaðan aðgang að. Þeir þurfa ekkert að hafa til brunns að bera sjálfir sem veitir þeim þennan aðgang – þeir eiga einfaldlega þennan rétt óháð eigin verðleikum. Svona kristallast húsbóndavaldið í breyttri mynd frá því hér á árum áður þegar konan var eign eiginmannsins – kynlífið var réttur fyrir hann en ein af skyldum hjónabandsins fyrir hana.

Sá hugsunarháttur að strákar eigi að vera betri en stelpur sést líka í uppeldi barna. Kannast einhver við að hafa heyrt sagt við strák að hann verði að standa sig í stykkinu – hann megi ekki tapa fyrir stelpu? Það er ekki nóg með að það sé ekki nógu gott að tapa – það fylgir því sérstaklega mikil skömm að tapa fyrir stelpu – af hverju? Jú, af því að strákurinn á að vera betri.

Ofan á þetta bætist að karlmennskuímynd nútímans er gegnumsýrð af ofbeldi og yfirráðum. Þegar við hömpum gildum sem slíkum ættum við ekki að furða okkur á að ofbeldi verði útbreitt. Þetta eru hlutir sem við verðum að breyta. Í staðinn fyrir að hampa fornaldarlegum hugmyndum um samskipti kynjanna sem byggjast á að kynin séu andstæðar fylkingar ættum við frekar að horfa á hvað kynin eiga sameiginlegt og krefjast þess að virðing, samvinna og jafnræði sé sett í fyrsta sætið.

Til að við getum stöðvað ofbeldið verðum við að sporna við þeim viðhorfum sem birtast til beggja kynja í okkar samfélagi. Við þurfum að spá alvarlega í hvaða þýðingu orðin virðing og jafnrétti hafa. Það er nefnilega allt sem bendir til þess að virðing sé af skornum skammti og að enn sé ekki litið á kynin sem jafningja með sömu réttindi, sömu skyldur og sömu verðleika. Við sem byggjum þetta land getum öll haft áhrif á tíðni og útbreiðslu ofbeldis. Við getum haft áhrif með því að neita að vera umurðarlynd gagnvart viðhorfum sem byggja á yfirráðum, ofbeldi og virðingarleysi. Ofbeldið er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera til – ofbeldið þrífst við ákveðnar aðstæður og það eru í rauninni góðar fréttir því það þýðir að við getum breytt því. Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að til þess að stöðva ofbeldið þurfum við að breyta ansi miklu – og spurningin er – erum við, ég og þú, tilbúin til að leggja það á okkur?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst það eiginlega vera synd að konur skuli vera að mótmæla þessu. Það eru auðvitað karlmenn sem ættu að heya baráttu gegn kynbundnu ofbeldi í garð kvenna. Karlmenn svona yfir höfuð taka mjög fljótt á lífsleiðinni afstöðu gegn ofbeldi í garð kvenna. Það held ég að sé ekki rétt að tengja ofbeldi í garð kvenna við karlmennskuýmindina. Það er viðurkennt að það sé ræfilsháttur og til minnkunar manns ef hann beitir konu ofbeldi.

Ofbeldi karlmanna gegn konum má held ég að mestu leyti rekja til geðrænna vandamála eða er það tengt áfengi eða eiturlyfjum. Ef sá hópur væri fjarlægður úr breytunni held ég að hlutfall kvenna og karla sem beyta maka ofbeldi væri mjög áþekkt (veit samt ekkert um það). En það er engin afsökun fyrir svoleiðis hegðun, og gerir vandamálið vissulega ekkert minna.

En leiðinlegt að hafa misst af þér í TV þarf að fara að fá mér þessa sjónvarpsstöð.

Nafnlaus sagði...

Held að í þessu tilfelli hafi verið betra að lesa bara pistilinn... ;)

En varðandi ofbeldið - menn sem beita ofbeldi geta verið ofur venjulegir menn - það sést ekki á þeim að þeir séu ofbeldismenn og geta verið afskaplega indælir svona að öllu jöfnu. Hinir auðvitað líka til. En það hefur verið sýnt fram á tengsl á milli karlmennskuhugmynda og ofbeldis - þ.e. það er eitthvað í menningunni sem gerir það að verkum að ofbeldi líðst. Sumar karlmennskuímyndir hampa ofbeldi og kvenfyrirlitningu - gott dæmi t.d. þeir tölvuleikir sem hafa verið í umræðunni núna, rappararnir Snoop og 50 cent, klámvæðingin - klámbylgjan og þess háttar hlutir. Til að stöðva ofbeldið þurfum við líka að hafa fyrirmyndir sem byggja á gagnkvæmri virðingu milli kyna - og þar eigum við mjög langt í land. Því miður.