fimmtudagur, maí 25, 2006

Bíllinn minn er ónýtur :´-(

Var tilkynnt á föstudag að það væri galli í bílnum mínum - víst þekkt vandamál í þessari tegund... sem þýðir að það þarf að skipta um vél í bílnum! Vonandi tekur umboðið vel í að skipta fríkeypis fyrst þeir eru að selja gallaða bíla og sleppa því að innkalla þá. Lágmark að bílar endist fram yfir 50þús km!!!

Það virðist vera að nú sé allsherjarsamsæri í gangi gegn bílnum mínum, þessari elsku sem hefur engum gert mein! Í gær var ég að fara í virðulegt kvöldverðarboð hjá hafmeyjunni bjarna ármannssyni... og viti menn... bakkaði út úr stæðinu og yfir járnbita sem borgarstarfsmenn skildu eftir óvarinn í útkeyrslunni. Járnbiti sem stendur beint upp úr malbikinu - pikkfastur og sperrtur út í loftið. Ekki bílvænn og nú er eitt dekkið ónýtt.

En að öðru - Gísli Marteinn frambjóðandi var leynigestur hafmeyjunnar. Átti að stoppa við í 5 - 10 mínútur en endaði á að staldra við í yfir klukkutíma og útskýra jafnréttisstefnu sína... það var bara nokkuð gaman en mig er farið að dauðlanga til að taka debat um femínismann innan frjálshyggjunnar... þ.e. challenga rökin innan frjálshyggjunnar því eins og allir vita - nema frjálshyggjumenn - geta femínismi og frjálshyggja farið prýðisvel saman!

9 ummæli:

Silja Bára sagði...

vondu borgarstarfsmenn! vona að bílaumboðið verði betra við þig.
Takk fyrir síðast - væri spennandi að fá að snúa hlutverkunum frá því í gær við.

Nafnlaus sagði...

Hmmm... eru það ekki frjálshyggjumenn sem eru einmitt alltaf að segja að þetta tvennt fari saman? Þau vilja meina að allt frelsið sem frjálshyggjan skapar komi jafnréttinu á. Ég sé það einmitt þannig að frelsi í meingölluðu kerfi geti ekki gefið af sér snefil af jafnrétti... Eða hvað? Was meinst du?

katrín anna sagði...

Júmm... málflutningurinn hljómar eins og prýðisgóðar afsakanir fyrir að gera ekki neitt... og eins og allir vita (nema frjálshyggjumenn) þá verða framfarir í jafnréttismálum fyrir tilstilli baráttu og aðgerða - en aðgerðarleysi er algjör dauði fyrir málstaðinn.

Pointið í frjálshyggjunni er að ef fólk fær frelsi þá muni fólk axla ábyrgð og hugsa sjálfstætt - í staðinn fyrir að láta aðra hugsa fyrir sig. Baráttan við batman.is og fleiri vefi á sínum tíma reyndist dýrmæt lexía í því. Talsmaður vefsíðunnar gagnvart FÍ var þá framkvæmdastjóri Frálshyggjufélagsins. Hann varði síðuna út í eitt og sagði að ef markaðurinn vildi þetta ekki þá myndi hann hafna síðunni. Ekkert spáð í eigin ábyrgð fyrir að dreifa þessu efni - og meira að segja sagt að þetta væri í lagi því það væri löglegt... ekki samkvæmt íslenskum lögum þó heldur var allt efni vistað erlendis, síðustjórar pössuðu sig á því að linka bara á efni sem geymt var erlendis og fríuuðu sig ábyrgð með þeim orðum að "þetta væri löglegt" Jamm - frelsið er yndislegt... og fullt af ábyrgð!

Þessi hugsunarháttur - sem virðist allsráðandi meðal þeirra sem hæst láta - mun verða frjálshyggjunni að falli.

Nafnlaus sagði...

Ég væri líklega feministi ef þessi gífurlega forræðishyggja væri ekki til staðar.

Ég væri líklega frjálshyggjumaður ef þessi gífurlega trú á einstaklinginn væri ekki til staðar.

Ég sé frjálshyggju og feminisma alveg geta átt saman. Ég sé hinsvegar ekki að feministafélag Íslands og frjálshyggjufélagið geta átt saman. Þessi tvö félög eru of mikið á jaðrinum. Of róttæk í sitt hvora áttina. Það er himin og haf sem skilur þessi félög að. Það er held ég bara of löng leið að miðjunni fyrir bæði þessi félög.

Ég myndi aldrei vilja búa í ríki þar sem forræðishyggjan væri jafn mikið ráðandi eins og hún er í FÍ.

Ég myndi heldur aldrei vilja búa í ríki þar sem hugmyndafræði frjálshyggjufélagsins væri við lýði.

En þar sem þessi tvö félög mætast er ríki sem ég vildi búa í.

katrín anna sagði...

Hvaða forræðishyggja er við lýði í FÍ? Konkrít dæmi takk fyrir!

Nafnlaus sagði...

Ok! Ég passaði mig ekki nógu vel þarna. Því alltaf ef félagsmenn FÍ segja eitthvað þá er það alltaf á ábyrgð þeirra sjálfra. Það er oft þannig að þegar félagsmenn FÍ gera eitthvað eða segja eitthvað, þá má alls ekki bendla það við FÍ.

En ef þú réðir hér öllu. Væru til súlustaðir? Væri vændi leyft? Væru til erótískar nuddstofur? Væri leyfilegt að selja klám? Væru til fegurðasamkeppnir?

Í draumaheimi feminista væri allt slíkt bannað og þekktist ekki, ekki satt?

Konkrít dæmi um forræðishyggjuna er þegar feministar vildu láta banna súlustaðina en þurftu að láta bann við einkadansi bakvið luktar dyr sér nægja.

katrín anna sagði...

Manuel þú mátt bara ekki rugla saman forræðishyggju og sjálfstæðri, gagnrýnni hugsun. Tökum t.d. fegurðarsamkeppnir. FÍ hefur aldrei lagt til að þær verði bannaðar. Ég veit ekki um neinn femínista sem vill láta banna fegurðarsamkeppnir. Aftur á móti höfum við unnið ötullega í því að benda á skaðsemi fegurðarsamkeppni, hlutverki þeirra í að ýta undir og viðhalda staðalímyndum og útlitsdýrkun, hlutverki þeirra í að viðhalda stöðu kvenna í samfélaginu sem skrautmunum í stað mannvera með margt til brunns að bera, hlutverk þeirra í að stilla konum upp sem hlutum o.s.frv. Ég myndi aldrei amast út í fegurðarsamkeppnir ef þær væru eitthvað jaðarfyrirbæri sem fáir hefðu áhuga á. Aftur á móti er það ekki eðlilegt hversu mikið þessum keppnum er hampað og að látið sé með stúlkurnar sem bestu og jákvæðustu fyrirmyndir ungra stúlkna. Það er hreinlega sorglegt að stúlkum séu sífelld send þau skilaboð að þeirra gildi felist í því að vera sætar - og það þær fái tækifæri í lífinu út á útlitið eitt og sér.

Þetta er sem sagt ekki forræðishyggja heldur reynum við að fá fólk til að velja jafnrétti - í stað staðalímynda og hlutgerðra kvenna. Við berum það mikla virðingu fyrir konum að okkur líkar ekki að þeim sé stillt upp eins og hverjum öðrum nautgripum og dæmdar út frá sömu forsendum og notaðar eru á hunda-, katta-, hrossa-, nautgripa- og hrútasýningum.

Vændi er ofbeldi og því ekkert að því að vilja banna það - rétt eins og morð, nauðganir og líkamlegt ofbeldi - enda á vændi heima í sama flokki. Súlustaðirnir kannski á aðeins grárra svæði en því miður fylgir þeim bransa vændi og mansal. Heppilegast væri auðvitað að karlmenn myndu hafna þessari "menningu", enda einstaklega lítillækkandi fyrir karlþjóðina að sitja uppi með það orðspor að vera súlustaðadýrkendur... Skal alveg viðurkenna að ég myndi gjarnan vilja sjá súlustaðina bannaða - en hef ekki barist fyrir því og það er ekki á stefnuskrá FÍ. Engin forræðishyggja þar á ferðinni því heldur - einungis vinna í viðhorfum - sem þú varla flokkar sem forræðishyggju - eða hvað???

Nafnlaus sagði...

Ég spurði ef þú réðir öllu hvort þetta væri leyfilegt. Svona hypothetical spurning. Ekki tilvitnun í stefnuskrá FÍ eða neitt þannig. Var bara að forvitnast hvort þú myndir vilja að þetta væri bannað.

Þannig að ef ég einfalda svör þín við spurningunni "Ef þú mættir ráða væru..." Fegurðasamkeppnir leyfðar. Kemur mér svolítið á óvart. Ég hélt einhvernvegin að ef feministar fengju að ráða myndu þeir leggja keppnina niður. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Legg svo til að þú lesir aftur yfir það sem þú skrifaðir um fegurðarsamkeppnir. Af hverju talar þú bara um stúlkur? Er fegurðasamkeppni kvenna verri en fegðurðarsamkeppni karla? Af hverju talar þú ekki um þetta í hvorukyni? Er jafnrétti ekki fyrir alla?

Þú myndir vilja banna Súlustaði og vændi ef þú fengir að ráða. Það er í mínum kokkabókum forræðishyggja (af þinni hálfu).

Eins og ég sagði í hinu innlegginu passaði ég mig ekki að aðskilja félagsmenn FÍ frá félaginu. Þetta virðist oft vera tvennt ólíkt. FÍ sem slíkt er kannski ekki að boða mikla forræðishyggju. En félagsmenn hennar boða hana. En það er oft ansi strembið að átta sig á því hvenar félagsmaður FÍ er að tala sem slíkur eða einstaklingur óháður FÍ.

Mér finnst alltaf jafn skrítið að hugsa til þess að FÍ vilji ekki banna súlustaði. Í sömu andrá og þið segið að þar viðgangist klám,nauðganir,ofbeldi og niðurlæging kvenna viljið þið leyfa súlustaðina.

Hvað stendur í "akkúrat" póstinum þínum? "Þú berð ábyrgð á því sem þú gerir ekki". Mér þætti gaman að heyra rökin fyrir því af hverju FÍ hefur tekið þá afstöðu að "leyfa" súlustaðina þrátt fyrir þann meinta viðbjóð sem þar viðgengst!

Stór hluti feminista er á móti súlustöðum og einhver hluti þeirra berjast/börðust opinberlega gegn súlustöðum. Af hverju er/var FÍ ekki tilbúið að styðja félagsmenn sína í því að banna súlustaðina? Hvaða hagsmuni eða sjónarmið er FÍ að vernda í þessu máli???

katrín anna sagði...

Manuel - ég hugsa að þetta sé í fyrsta skipti sem ég skrifa opinberlega að ég væri alveg sátt við að súlustaðir væru bannaðir... þori samt ekki að sverja fyrir það. FÍ hefur ekki tekið þá afstöðu að súlustaðir eigi að vera löglegir frekar en að þeir eigi að vera bannaðir. Ráð FÍ hefur einfaldlega ekki tekið þá spurningu fyrir og svarað henni. FÍ á að sjálfsögðu engra hagsmuna að gæta varðandi það að halda súlustöðunum opnum... held það sé alveg skýrt að mörg okkar yrðu himinlifandi happý ef þeir færu allir á hausinn! Þyrfti bara slatta af góðum karlmönnum til að slíkt myndi gerast... þ.e. að karlmenn nútímans tækju sig saman og ákveddu að verða fyrsta kynslóð jafnréttissinnaðra karlmanna í árþúsundir :)

Svo ertu greinilega selektívur á það sem ég skrifa... hef oft tjáð mig um fegurðarsamkeppnir karla líka. Konusýningin bara ofar í huga þessa dagana. Annars er fegurðarsamkeppni karla mun nær því að vera það jaðarfyrirbæri sem ég talaði um í fyrra svari þannig að augljóslega er munur á keppnunum tveimur. Hef samt sagt það oft áður - og skal segja einu sinn enn... að karlar eru á hraðleið í sömu skítasúpuna og konur eru í. Það er ekki út af femínistum heldur þeim sem ekki aðhyllast femínismann og velja útlits- og æskudýrkun ásamt neysluhyggju fram yfir mannleg gildi.