föstudagur, maí 23, 2008

Sumarfrí

Komin í sumarfrí. Aðrir hlutir í forgang núna en að blogga. Því miður sé ég mér ekki annað fært en að loka fyrir athugasemdir á meðan, enda fáir sem nenna að lesa þennan óskapnað sem sumir kjósa að láta hingað inn í þeim tilgangi að þagga alla málefnalega umræðu.

Hafið það gott.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Tjáningarfrelsi

Það skal ekki bregðast að í hvert skipti sem málefni eins og t.d. GTA og fleira í þeim dúr ber á góma þá hrúgast inn fólk í athugasemdarkerfið, hér um bil tryllt af bræði - með persónulegt skítkast. Til upplýsinga fyrir þessa einstaklinga þá missir þetta algjörlega marks - ég tek ekki mark á einhverjum nafnlausum einstaklingum út í bæ sem kunna ekki að ræða málin og vita ekki um hvað tjáningarfrelsi snýst. Fólk sem virðir tjáningarfrelsi ræðst ekki að öðrum með kommentum eins og „ef ég mætti drepa einhvern myndi ég drepa þig“ eða upphrópunum um heimsku og annað þess háttar. Tjáningarfrelsi byggir á því að mega ræða skoðanir sínar - þar með talið ofbeldisfulla tölvuleiki eins og GTA. Ef fólk er ósammála því að leikinn megi ræða - þá um að gera að beita sér fyrir takmörkunum á tjáningarfrelsi - eða velja þá leið sem margir hafa valið hér - að sleppa því að ræða málin en fara þess í stað út í persónulegt og ómálefnalegt skítkast. Þetta er kallað þöggun - tilraun til þess að fá fólk til að hætta að tjá sig og er mjög svo andstætt ríkjandi hugmyndum um skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Endurtekinn málflutningur í þessa veru flokkast líka sem andlegt ofbeldi - svona talandi um þetta GTA spilandi einstaklinga sem myndi aldrei detta í hug að gera nokkuð á annarra hlut...

Þau ykkar sem eruð að tapa ykkur í kommentakerfinu hér ættuð að vita það að svona ómálefnalegheit og skítkast eru í raun aðför að tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi einstaklinga. Þau sem hafa þessi gildi í alvörunni í heiðri ræða skoðanir - og eru fær um að ræða málin á þeim nótum. Málflutningur eins og sá sem sést hér í kommentakerfinu er heldur ekki til þess fallinn að styrkja þau rök að tölvuleikir séu skaðlausir, nema síður sé.

Ódýr líkamsrækt í boði

Ódýr líkamsrækt í boði. Byggir á nýju en geysiárangursríku æði þar sem þátttakendur byggja upp þol og styrk með venjubundinni vinnu eins og garðvinnu og almennum heimilisstörfum. Bætir svefn og heilsu. Greiðsla skv samkomulagi. Blóm, runnar og pallaefni fyrirtaks greiðslumátar.

mánudagur, maí 19, 2008

Fæ ekki líftryggingu

Búin að hafa það mjög gott undanfarna viku, takk fyrir. Fórum út úr bænum í helgina og nutum þess að slaka á og lesa um Foucault. Í morgun beið mín það „ánægjulega“ verkefni að tékka á ástæðu þess að okkur var hafnað um líftryggingu af okkar ástkæra tryggingarfyrirtæki - fyrirtækinu sem við erum búin að vera einstaklega trú og trygg - svo trygg að við pössum okkur sérstaklega á að lenda ekki í miklum tjónum. Í allri okkar tjónasögu er ein brotin framrúða og eitt minniháttar vatnstjón. Hins vegar teljumst við ekki nægjanlega góð til að fá líftryggingu. Ástæðan??? Jú, á umsóknareyðublaðinu er eftirfarandi spurning:

Eru foreldrar eða systkini með, eða hafa þau greinst með eftirtalda sjúkdóma fyrir 60 ára aldur: Hjarta- eða æðasjúkdóma, heilablóðfall, háan blóðþrýsting, sykursýki, nýrnasjúkdóma, krabbamein, MS, MND, parkinsonsjúkdóm eða alzheimersjúkdóm? (já, nei)
Ef já, skýrðu nánar
Nú teljum við það ekki vera í okkar verkahring að gefa upp sjúkrasögu annarra. Það er fráleitt að hafa ströng lög um persónuvernd og meðferð heilsufarslegra upplýsinga en leyfa síðan tryggingafélögum að krefja fólk um sjúkrasögu náinna ættingja. Við neituðum því að svara þessari spurningu og fengum synjun af þeirri ástæðu eingöngu. Ég á eftir að skoða þetta nánar en mér skilst að um síðustu áramót hafi lögunum verið breytt á þann hátt að þessir 3. aðilar þurfi nú að gefa samþykki fyrir upplýsingagjöfinni. Þau sem vilja fá líftryggingu, en vilja annaðhvort af prinsippástæðum ekki gefa upp sjúkrasögu 3. aðila eða ef 3. aðili neitar um samþykki, eru sem sagt úti í kuldanum varðandi líftryggingu.

Rök tryggingafélaganna sýnast mér vera tvenn:
  1. Þau fá ekki endurtryggingu ef þessar upplýsingar eru ekki veittar.
  2. Þau segja að fjölskyldusaga skipti máli varðandi áhættuþættina og þess vegna þurfi þau þessar upplýsingar. Ef fólk svarar spurninginni játandi getur það leitt til synjunnar eða aukaálags á iðgjaldið.
Mér er jafnframt tilkynnt að viðskiptasaga mín við tryggingafélagið skipti engu máli - umsækjendur eru metnir út frá sömu forsendum. Jafnréttið á að gilda. Gott og vel. Raunverulegt jafnrétti fælist í því að líftrygging sé öllum aðgengileg gegn sama iðgjaldi. Ef við eigum öll að sitja við sama borð þá skiptir heilsufarssaga, bæði þess sem tryggir sig og fjölskyldunnar, ekki minnsta máli. Það er jafnrétti í reynd. Beiðnin um upplýsingarnar byggir á því að hægt sé að mismuna fólki. Þar með sitja ekki allir við sama borð. Það er ranglæti.

Ef einhver skyldi ekki hafa tekið eftir því þá er ég alvarlega fúl út í tryggingabransann núna. Að neita fólki um tryggingu á grundvelli þess að vilja ekki gefa upp annarra manna sjúkrasögu finnst mér hreinlega skítlegt - og mér er slétt sama þó til sé lagaheimild sem heimili þetta. Mér finnst þetta einfaldlega rangt.

föstudagur, maí 09, 2008

Nýir tölvuleikir á markað

Ku Klux Klan hefur sent frá sér nýjan tölvuleik. Í tölvuleiknum geta hvítir menn skemmt sér við að drepa svarta karlkyns þræla og nauðgað svörtum kvenkyns þrælum. Sömuleiðis hafa nýnasistar sent frá sér leik þar sem hægt er að smala gyðingum saman í útrýmingabúðir og pynda þá alls kyns vegu. Báðir leikirnir ku vera hin besta skemmtun og alls ekki til marks um fordóma, hatur og fyrirlitningu gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum - ekkert frekar en leikurinn Grand Theft Auto þar sem karlmenn geta skemmt sér við að murka lífið úr konum sér til skemmtunar.

Ku Klux Klan, nýnasistar og karlmenn segja jafnframt í sameiginlegri yfirlýsingu að við lifum á tímum þar sem fordómum og misrétti hefur verið útrýmt og mannréttindi og mannvirðing séu allsráðandi í þessum boring politically correct heimi.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Fortíðin er hér

Iss piss... Ég er viss um að Sigrúnu Stefáns munar ekkert um þennan 90 þúsund kall á mánuði sem Þórhallur Gunnars er með meira í laun en hún fyrir sama starf... Þetta er ekki nema 1.080.000 + einhver lífeyrissjóðsréttindi á ári... Þórhallur er nú fyrirvinna, for crying out loud...

Næsti forseti...?

Alveg afskaplega er ég ánægð með að Clinton skuli ætla að halda áfram í framboði. Að sama skapi fer það hrikalega í taugarnar á mér að henni skuli sífellt sagt að hún eigi að hætta keppni og að hún skuli ekki fá jafn mikið fé og Obama. Það þýðir að þau geta ekki keppt á jafningagrundvelli. Honum er sagt að halda áfram. Henni er sagt að hætta. Það er ausað í hann peningum. Hún fær mun minna - miklu minna.

Það er margt gagnrýnivert við „lýðræðið“ sem við búum við, eða réttara sagt, sem Bandaríkjamenn búa við. Það er ekkert lýðræðislegt við það að eingöngu forríkir einstaklingar, með rétt tengsl og af réttum ættum (og af réttu kyni, kynþætti, kynhneigð...) eigi möguleika á að verða forsetar Bandaríkjanna. Það er svo sannarlega ekki „land of the free“ í því samhengi. Sést vel á því að Bush jr náði kjöri. Eins hefði Hillary örugglega aldrei átt séns nema vegna þess að kallinn hennar var áður forseti. Engu að síður... gott að vita til þess að kona fái nú loksins að vera memm í framboðsslagnum...

ps. „skemmtilegasta“ samsæriskenningin er samt sú að nú fái konan og svarti karlmaðurinn að heyja baráttuna sín á milli svo það líti út fyrir að fólk af öðru kyni og öðrum kynþætti en hvítur karlmaður eigi sjens - en að svo muni nást sátt að lokum um að Al Gore bjóði fram! ;)

miðvikudagur, maí 07, 2008

Hjólað í vinnuna

Í dag hefst átakið „Hjólað í vinnuna“. Þetta er ágætis átak og umhverfisvænt - hvetur allavega slatta af fólki til að hjóla. Veit samt ekki alveg hversu hrifin ég er af þessu keppniskonsepti - á það til að stuðla að of miklum hópþrýstingi - en ég læt það liggja á milli hluta. Bottom line - þá er ég hrifin af átakinu. Vonandi leiðir það líka til vitundarvakningar um að bæta hjólaleiðir. Það er til dæmis alls ekki auðvelt að hjóla úr Grafarholtinu og niður í bæ. Það þarf annaðhvort að taka stóran krók yfir í Árbæinn eða Grafarholtið til að komast greiða leið.

Grétar ætlar að hjóla! Mega mega duglegur. Kannski ég hjóli með honum af og til sem leið liggur niður í Háskóla. Erfitt fyrir mig að hjóla í vinnuna þegar ég er heima að læra...!

Þótt ég sé hrifin af átakinu þá er eitt sem stingur sérstaklega í augun. Aðalstyrktaraðili átaksins er Rio Tinto Alcan. Mér finnst það jaðra við dónaskap að vera aðalstyrktaraðili svona átaks. Umhverfismál eru mjög umdeild og ég held það sé með sanni hægt að segja að þjóðin skiptist nokkurn veginn í tvennt. Álfyrirtækin eiga ekki upp á pallborðið hjá mörgum umhverfisverndarsinnum og fleirum. Ástæðan ekki endilega að fólk vilji losna akkúrat við Alcan heldur sú græðgi sem álfyrirtækin sýna gagnvart landinu - vilja stækka, stækka, stækka - og byggja ný. Þangað til það er komin þjóðarsátt um að stoppa núna - ekki fleiri álver - þá ætti Alcan, að sjá sóma sinn í því að gefa fólki smá speis. Ekki troða sér inn alls staðar þar sem umhverfisverndarsinnar eru. Álfyrirtækin verða ekki umhverfisvænni þrátt fyrir að vera styrktaraðilar átaks eins og Hjólum í vinnuna. Þetta flokkast bara sem PR, tilraun til að kaupa sér velvild á sviði sem fyrirtækið er harkalega gagnrýnt fyrir. Ef Alcan vill í raun og veru vinna sér inn punkta fyrir umhverfisvernd væri nær að lýsa því yfir að það væri hætt við öll stækkunaráform. Láta bara gott heita.

Aðstandendur átaksins ættu líka að hafna styrktaraðilum eins og Rio Tinto Alcan. Þau ættu að vita sem er að þetta getur sett slæma ímynd á átakið og fælt fólk frá þátttöku - nú eða normaliserað áganginn á íslenska náttúru svo fólk verði sofandi fyrir því hvernig verið er að breyta Íslandi úr hreinu og fallegu landi í Detroit í einni svipan. Óafturkræfar skemmdir á landinu - mengun sem ekki fer í burtu þegar fólk rankar allt í einu við sér og vill fá landið sitt tilbaka.

Eftir sem áður er ég á því að það sé sniðugt að hjóla í vinnuna og hvíla einkabílinn. Kannski væri ráð að efna til hliðarátaks þar sem fólk hjólar - bara ekki í boði Rio Tinto Alcan??? Sá valmöguleiki er í öllu falli í boði eftir að keppninni lýkur!

þriðjudagur, maí 06, 2008

Til hamingju með megrunarlausa daginn!

Unglingsstúlkur þekkja mörkin - perrarnir ekki

Eruð þið búin að lesa þessa frétt inn á visir.is?

Þar segir lögmaður prestsins Gunnars meðal annars:

"Mín skoðun er að unglingstúlkur eigi afskaplega erfitt með að gera sér grein fyrir hvar mörkin liggja í þessum efnum.

Hann bendir á umræðu um þessi mál undanfarin ár og segir að meðal femínista hafi verið haldið úti háværum umræðum samfara miklum áróðri sem einkennst hefur að miklu leyti að því að karlmenn kunni að vera úlfar í sauðgæru sýni þeir á einhvern hátt umhyggju eða áhuga á viðkomandi.

Umfjöllun fjölmiðla jafnt sem það viðhorf sem kvikmyndir túlka varpa afar mismunandi sýn á þessa hluti og út frá mismunandi viðmiði. Því sé afskaplega auðvelt fyrir áhrifagjarna og óharðnaða unglinga að mistúlka hlýju og umhyggju frá öðrum en þeim sem eru bundnir þeim fjölskylduböndum, " segir Sigurður Þ. Jónsson lögmaður séra Gunnars Björnssonar.

**
Það er sem sagt unglingsstúlkum og femínistum að kenna að presturinn situr í súpunni!

Ég er alltaf að komast að því betur og betur hversu sumir álíta sig eiga mikinn eignarétt yfir líkömum kvenna. Kannski áttar lögmaðurinn sig ekki á því að hann hljómar eins og reynslubolti í því að sýna unglingsstúlkum „hlýju og umhyggju“ sem þær kunna bara hreint ekki að meta - nema síður sé? Fjölmiðlar ættu að krefja hann skýringa á því af hverju hann telur það vera á valdsviði fullorðinna karlmanna að skilgreina hvað þeir mega ganga langt gagnvart líkömum unglingsstúlkna.

Svona viðhorf heyra því miður ekki til fortíðarinnar en þau sýna okkur hvað við eigum í raun mikið eftir í baráttunni. Vonandi hefur presturinn nægilega trú til að láta þennan lögfræðing róa og játa syndir sínar, lögfræðingurinn nógu mikinn sans til að draga ummæli sín til baka og kirkjan nógu mikið siðferðisþrek til að segja þessum karlpungum að þeir eigi að gjöra svo vel að virða sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama.

Með blátt blóð í æðum

Í Evrópu eru ennþá 10 konungsríki. Það vekur athygli að 3 þeirra tilheyra Norðurlöndunum. Konungsdæmi er ein mesta andstæða lýðræðis sem til er. Fólk annaðhvort fæðist eða giftist inn í hlutverkin drottning, kóngur, prinsessa og prins. Af hverju ætli haldið sé í þessa gömlu, kostnaðarsömu, ólýðræðislegu hefð?

Þetta eru löndin 10 sem enn eru með kóngafólk:

Belgía
Danmörk
Bretland
Holland
Liechtenstein
Luxemborg
Mónakó
Noregur
Spánn
Svíþjóð

mánudagur, maí 05, 2008

Helv...

Fara þeir ekki til helvítis kristnu mennirnir sem ekki játa syndir sínar?

Heilsa óháð holdarfari

Megrunarlausi dagurinn er á morgun, 6. maí. Auðvitað ættu allir dagar að vera megrunarlausir, enda löngu búið að sýna fram á að megrun virkar ekki en getur hins vegar valdið ýmsum skaða. Allt of margir eru ennþá keyptir inn á þann pakka að megrun sé heilsubót. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta því megrun gengur í raun út á að svipta líkamann nauðsynlegri næringu. Í megrun líður líkaminn skort (og sálin jafnvel líka) og það er engum hollt.

Þó maðurinn segist vera skynsemisvera þá er margt í þessum heimi langt í frá skynsamlegt. Eitt af því sem er ekki sérstaklega skynsamlegt er að halda að hægt sé að meta heilsu fólks út frá holdarfari. Í okkar samtíma er ímyndin sú að grannt fólk sé heilsuhraust en feitt fólk sé heilsulaust, nánast á grafarbrúninni ef marka má sumar fréttir. Grönnu fólki eru líka eignaðir ýmsir „jákvæðir“ eiginleikar eins og sjálfsstjórn á meðan feitu fólki er ætlað að það hafi bara engan stjórn á átinu.

Reyndin er sú að við erum margbreytileg í vaxtarlagi frá náttúrunnar hendi. Sumir eru stórir, aðir litlir og margir einhvers staðar þar á milli. Það á við hvort sem mælt er á lengdina eða breiddina. Því fyrr sem við áttum okkur á því og hættum að reyna að steypa öllum í sama mót, því betra.

Fitufordómar eru ornðir svo grasserandi í dag að hver arða af fitu er álitin óæskileg. Þannig er fólk byrjað í megrun þegar það er í raun skítlétt - á neðri mörkum „kjörþyngdar“ (hver bjó þennan mælikvarða til...!) eða jafnvel undir kjörþyngd. Lítil stúlkubörn, allt niður í 6, 7 ára gömul, eru byrjuð að tala um megrun. Þetta er ekki eðlilegt ástand og því þarf að bregðast við.

Stjórnvöld og opinberar stofnanir þurfa líka að bregðast við og hætta að tala um offitu og ofþyngd. Of er of gildishlaðið!!

Hver einasti dagur ætti að vera megrunarlaus. Við ættum hvorki að sukka og svína né líða skort. Hinn gullni meðalvegur er bestur í þessu eins og svo mörgu öðru. Markmiðið er heilsa óháð holdarfari.

Set hér að lokum pælingar af gamla blogginu mínu:


Hér eru tvær „pælingaspurningar“ í tilefni af bók sem ég er að klára að lesa um fitufordóma og kúgun sem feitar konur verða fyrir. Spurningarnar eru:

1. Er siðferðislega rangt að vilja vera mjó/r?

2. Er siðferðislega rangt að vilja vera feit/ur?

föstudagur, maí 02, 2008

„Það breytist ekkert“

kl. 11:30 stundvíslega (ok - næstum því) bárum við Grétar skilti fyrir 1. maí gönguna inn á Kaffi Roma á Rauðarárstíg. Eldri kona á næsta borði leit á okkur vorkunnaraugum og sagði „eruð þið að fara í gönguna?“. Við játtum því. „Það þýðir ekki neitt“ sagði hún þá. „Þið eruð bara að sóa tímanum. Það breytist ekkert hvort sem er“. Við gerðum einhverja tilraun til að malda í móinn og hófumst svo handa við að rífa niður efni í bleika fána. Eftir smá stund hallaði konan sér yfir til okkar og spurði „fáið þið eitthvað borgað fyrir þetta?“. Við svöruðum því neitandi, allt væri þetta nú sjálfboðastarf. Hún var ekki par hrifin af því. Sagði sitt mottó að gera ekki neitt nema fá greiðslu fyrir. Annars væri fólk bara misnotað - og baráttan skilaði hvort eð er engu. Við bentum henni á að baráttan hefði nú skilað konum kosningaréttinum. Hún fussaði og sveiaði yfir því. „Hverju skiptir kosningaréttur?“ Sams konar fólk væri hvort sem er alltaf kosið á þing - týpan sem lofar og lofar öllu fögru en svíkur svo allt. „Það breytist ekkert sama hvað er gert“ var viðkvæðið.

Í ljós kom að konan átti langa sögu af verkalýðsbaráttu að baki. Fór í allar kröfugöngur, vann sjálfboðastarf og þar fram eftir götum, þar til börnin komust á legg. Þá hætti hún. Þetta skipti hvort sem er engu máli. Það breytist ekkert.

**
Stuttu síðar fór konan og ráð Femínistafélagsins birtist smátt og smátt. Við héldum ótrauð áfram við að búa til bleika fána. 200 stk., nánar tiltekið, sem við dreifðum í göngunni. Við trúum því að baráttan borgi sig - en við þurfum nú kannski að setja meira fútt í hana - fleiri þurfa að taka þátt - og sýna þarf samstöðu. Hjúkkurnar núna gott dæmi! (Frábærar - eru algjörlega að slá í gegn).

**
Gangan lukkaðist vel. Góð mæting, gott veður, slagorð, kröfuskilti, bleikir fánar - og alls konar fánar. Við stilltum okkur upp á Ingólfstorgi og settum okkur í stellingar til að hlusta á barátturæður. Verkalýðshreyfingin bauð fram 2 karla á mælendaskrá. Konan fékk að vera fundarstjóri (nú eða -stýra!?). Félag framhaldsskólanema bjargaði heiðri verkalýðshreyfingarinnar og sendi kvenkyns fulltrúa á staðinn.

En verkalýðshreyfingin sá um „skemmtiatriðin“. Á krepputímum þykir víst nauðsynlegt að ráða bara karlmenn í slík verk... gegn greiðslu, geri ég ráð fyrir. Strákarnir í Sprengjuhöllinni voru bráðskemmtilegir, eins og þeirra er von og vísa. Fullkomlega sátt við þá. Hins vegar sá verkalýðshreyfingin af einhverjum ástæðum til að hafa Gísla Einarsson fréttamann á dagskrá með „gamanmál“. Gísli þuldi upp hvern karlrembu„brandarann“ á fætur öðrum. Við konurnar (og jafnréttissinnuðu karlarnir!) sem stóðum á torginu máttum sitja undir „glensi“ um að hann krefðist þess að það væri ekki vaskað upp á hans heimili á meðan enski boltinn er í gangi - og að Ingólfur Arnarson hefði stofnað fyrsta súlustaðinn - og því væri viðeigandi að hafa fundinn á Ingólfstorgi. Þetta er bara brotabrot af karlrembunni. Verkalýðshreyfingin á að vera vandari að virðingu sinni. Þetta er henni til skammar. Og Gísla að sjálfsögðu líka. Það er ekki við hæfi að fá karlrembu til að flytja gamanmál á útifundi þar sem yfirskriftin er „Verjum kjörin“. Hverra kjör? Verkalýðshreyfingin á að baki sögu þar sem hagsmunamálum kvenna hefur verið hent þegar harðnar í ári. Má sem dæmi nefna árið 1926 þegar Dagsbrún fórnaði verkakonum. Laun þeirra voru lækkuð (já lækkuð - ekki hækkuð) um 11% til að halda mætti launum verkakarla óbreyttum.

Hvað er að gerast núna? Í fyrra fékk Verkalýðshreyfingin Baggalút á útifundinn til að syngja um „femínistabeljur sem eflaust súpa hveljur“. Í ár var það Gísli Einarsson að tala um súlustaði og uppvaskið.

Öllu gríni fylgir einhver alvara. Verkalýðshreyfingin þarf að taka sig margfalt á til að vinna gegn kynbundnum launamun og karlrembu. Þetta er ekki mál sem tekið hefur verið á af þeim myndugleika sem þarf. Ofan á það sendir forystan svona karlrembuskilaboð til félagsmanna á sjálfum baráttudegi verkalýðsins.

Er nema von að kona spyrji hvort hin karllæga verkalýðshreyfing sé hæf til að gæta að hagsmunum beggja kynja. Hver er baráttan? Svarið felst kannski í Internationalnum sem sunginn var í restina:

„Bræður! Fylkjum liði í dag“

Skiptir ekki máli

Ef þú átt 9 milljarða skiptir ekki máli þótt þú tapir 8 milljörðum. Hvað þá ef þú átt fleiri...