mánudagur, maí 05, 2008

Heilsa óháð holdarfari

Megrunarlausi dagurinn er á morgun, 6. maí. Auðvitað ættu allir dagar að vera megrunarlausir, enda löngu búið að sýna fram á að megrun virkar ekki en getur hins vegar valdið ýmsum skaða. Allt of margir eru ennþá keyptir inn á þann pakka að megrun sé heilsubót. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta því megrun gengur í raun út á að svipta líkamann nauðsynlegri næringu. Í megrun líður líkaminn skort (og sálin jafnvel líka) og það er engum hollt.

Þó maðurinn segist vera skynsemisvera þá er margt í þessum heimi langt í frá skynsamlegt. Eitt af því sem er ekki sérstaklega skynsamlegt er að halda að hægt sé að meta heilsu fólks út frá holdarfari. Í okkar samtíma er ímyndin sú að grannt fólk sé heilsuhraust en feitt fólk sé heilsulaust, nánast á grafarbrúninni ef marka má sumar fréttir. Grönnu fólki eru líka eignaðir ýmsir „jákvæðir“ eiginleikar eins og sjálfsstjórn á meðan feitu fólki er ætlað að það hafi bara engan stjórn á átinu.

Reyndin er sú að við erum margbreytileg í vaxtarlagi frá náttúrunnar hendi. Sumir eru stórir, aðir litlir og margir einhvers staðar þar á milli. Það á við hvort sem mælt er á lengdina eða breiddina. Því fyrr sem við áttum okkur á því og hættum að reyna að steypa öllum í sama mót, því betra.

Fitufordómar eru ornðir svo grasserandi í dag að hver arða af fitu er álitin óæskileg. Þannig er fólk byrjað í megrun þegar það er í raun skítlétt - á neðri mörkum „kjörþyngdar“ (hver bjó þennan mælikvarða til...!) eða jafnvel undir kjörþyngd. Lítil stúlkubörn, allt niður í 6, 7 ára gömul, eru byrjuð að tala um megrun. Þetta er ekki eðlilegt ástand og því þarf að bregðast við.

Stjórnvöld og opinberar stofnanir þurfa líka að bregðast við og hætta að tala um offitu og ofþyngd. Of er of gildishlaðið!!

Hver einasti dagur ætti að vera megrunarlaus. Við ættum hvorki að sukka og svína né líða skort. Hinn gullni meðalvegur er bestur í þessu eins og svo mörgu öðru. Markmiðið er heilsa óháð holdarfari.

Set hér að lokum pælingar af gamla blogginu mínu:


Hér eru tvær „pælingaspurningar“ í tilefni af bók sem ég er að klára að lesa um fitufordóma og kúgun sem feitar konur verða fyrir. Spurningarnar eru:

1. Er siðferðislega rangt að vilja vera mjó/r?

2. Er siðferðislega rangt að vilja vera feit/ur?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Katrín, hugsaðu nú aðeins eins og þú predikar okkur hinum að gera. Þessi pistill er vandræðalega lélegur og byggður á litlu öðru en rakalausum þvætting.

"...löngu búið að sýna fram á að megrun virkar ekki en getur hins vegar valdið ýmsum skaða"

Ef þú hafðir yfir einverjum trúverðugleika að ráða, þá er hann horfinn núna.

katrín anna sagði...

Segir hver??? Nafnlaus maður út í bæ?

Ignorance is bliss er sagt - og greinilegt að þú hefur ekki kynnt þér rannsóknir um áhrif og afleiðingar megrunar. Hefði samt auðvitað verið vandræðalegt fyrir þig að koma fram undir nafni með þessa athugasemd...!