þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Af fjölmiðlum

Fór ekki á borgarafundinn í gær en frétti að hann hefði verið alveg ágætur - en ekki gallalaus. Vefritið Nei ritar um fundinn hér: http://this.is/nei/?p=697

Málefni fundarins voru fjölmiðlar og hvernig þeir hefðu brugðist. Er að velta fyrir mér hvort ég eigi að vera spæld yfir að hafa ekki drifið mig á fundinn því þetta er mér hugleikið efni. Hef lengi gagnrýnt fjölmiðla fyrir ófagmennsku og lélegheit... og síst hefur tiltrú mín á fjölmiðla tekið kipp upp á við eftir bankahrunið heldur hefur traustið minnkað enn frekar. Er á því að fjölmiðlar hér á landi séu afspyrnulélegir. Sumir hafa kennt um litlu fjármagni og tímaþröng og það er örugglega hluti af skýringunni. Hluta skýringarinnar er væntanlega einnig að leita í einhverjum af þeim ástæðum sem fjölmiðlar gáfu á borgarafundinum - um ægivald ráðamanna og eignarhald útrásarvíkinganna. Hins vegar segir það ekki næstum alla söguna. Fjölmiðlar hafa markaðsvæðst töluvert mikið á síðustu áratugum og það sést augljóslega á fréttum. Að auki er fréttamat og fréttastjórar gegnsýrðir af karlrembu. Sést ágætlega t.d. á lágu hlutfalli kvenna í fjölmiðlum - fréttastjórunum þykir nefnilega svo lítið til kvenna koma að það taki því ekki að tala við okkur eða flytja fréttir af því sem konur eru að gera. Konur eru annars flokks þegnar í þjóðfélaginu. Viðhorf Sigmundar Ernis lýsir sér ágætlega frá því á borgarafundinum í gær en þar líkti hann fjölmiðlafólki við kellingar - af því að þeir sýndu linkind. Þessu var nánast tekið án mótmæla - en væntanlega hefði salurinn ekki tekið því þegjandi og hljóðalaust ef hann hefði lýst fjölmiðlafólki sem niggurum fyrir linkindina. Fólk samþykkir nefnilega ekki svo augljósan rasisma en kvenhatrið er gúdderað.

En aftur að markaðsvæðingunni. Fjölmiðlum er meira í mun að flytja fréttir sem selja en fréttir sem eru bara nákvæmlega það - fréttir. Á sama tíma tönglast þeir á trúverðugleika fjölmiðla, að trúverðugleikinn skipti þá öllu máli. Jamm. Málið er bara að nú er trúverðugleikinn enginn. Nefni hér dæmi af visir.is. Nú er þar að finna á forsíðunni eftirfarandi fyrirsagnir:


Geirvarta Nicole Kidman - myndir.
Vextir af verðtryggðum lánum verði aldrei hærri en 2%.
Þáði kakó og stal bíl.
Skælbrosandi Miley Cyrus og John Travolta - myndir.
Fréttaskýring: Davíð segir ekkert að marka eigin skýrslur.
Angelina og Brad ástfangin - myndir.
Lækkun í Asíu í kjölfar Wall Street.
Þorgerður Katrín hannar kjöl úr gardínuefni.

Og á Mogganum er þetta að finna:

Arnór: áfallið meira hér.
Urban fremri Cruise (þ.e. nýji eiginmaður Kidman betri en sá gamli).
Bjarni móðgar framsóknarmenn.
Konur verða mildari með aldrinum.


Dv á svona spretti:

Ekki flotkróna fyrr en Davíð víkur.
Englar í sexý undirfatnaði - myndir.
Hættulegir menn taka við IMF-láninu.
Dularfulla naflahvarfið.
Óskar eftir pólitísku hæli.
Kate Hudson í sleik - við konu.

Jamm einmitt. Greinilega hugsandi fjölmiðlar - og trúverðugleikinn uppmálaður. Ég meina - hver treystir ekki fjölmiðli sem hefur það fréttamat að það sé í alvörunni alheimsfrétt að kona fór í sleik við konu eða að það sást einhvers staðar í geirvörtu?

Skal reyndar veðja að fjölmiðlar koma með þá skýringu á þessu að lesendur fjölmiðla séu bara svo vitlausir að þetta séu fréttirnar sem þeir vilja... sem er auðvitað drullugóð ástæða til að flytja þessar ekki-fréttir og fullkomnar trúverðugleikann, er það ekki, og fullkomin ástæða fyrir fjölmiðla að standa sig ekki í stykkinu...! Eða þannig.

Annað dæmi um hversu gjörsamlega máttlausir fjölmiðlarnir eru er blaðamannafundurinn í síðustu viku þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að kynna aðgerðir varðandi heimili landsins voru tilefni fundarins. Ég hlustaði á þau Ingibjörgu og Geir kynna aðgerðirnar. Svo komu spurningar fjölmiðlamanna. Ég hlustaði reyndar ekki alveg til enda en heyrði allavega 20 mínútur af spurningunum. Og um hvað snérust þær? Jú, Icesave reikningana. Það kom ekki ein einasta spurning um heimilin og aðgerðirnar. Enginn spurði hvort afnema ætti verðtryggingu. Enginn spurði hvort það ætti virkilega að verða svo að ríkið hirti nánast öll heimili í landinu í gegnum verðtrygginguna - og ætlaði sér svo kannski að selja aftur til auðmanna á slikk þegar bankarnir verða aftur einkavæddir. Enginn spurði út í atvinnuleysisbæturnar, hvort þær væru afturvirkar þannig að fólk sem fór í 50% stöðu um síðustu mánaðarmót fengi bæturnar greiddar. Enginn spurði hvort afnema ætti 10 daga bilið sem engar bætur eru greiddar. Enginn spurði hvað gera ætti fyrir fólk sem var í fjárhagsörðugleikum á tímum gróðæris. Nada...

Held satt best að segja að þetta hafi verið fundurinn sem trú mín á fjölmiðla rauk endanlega út um gluggann...


*
Viðbót - og enginn hefur beðið ríkisstjórnina og seðlabankastjórana um að koma með dæmi um lönd þar sem stýrivaxtahækkunin hefur virkað. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur er búin að nefna slatta af löndum þar sem það hefur ekki virkað.

Engin ummæli: