Á í alvörunni að skera niður í þróunaraðstoð þjóðarinnar???? Ég vil ekki trúa því. Við stóðum okkur illa í þróunaraðstoð í gróðærinu, gerðum ekki nándar nærri nóg. Þetta er liður sem við eigum ekki að skera niður. Við stöndum núna frammi fyrir því að lenda sjálf í kreppu. Við erum hrædd um að missa heimili okkar, vinnu, sparnað, lífeyri og að eiga ekki fyrir mat. Við þurfum að finna leiðar til að standa vörð um menntakerfið okkar, velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið - kerfi sem við skilgreinum sem grunnstoðir fyrir velferðarsamfélag og hagsæld til langs tíma litið. En það er fleira sem skiptir máli. Nú upplifa margir Íslendingar reiði vegna þess að þeim finnst alþjóðasamfélagið standa aðgerðarlaust hjá og horfa á okkur sökkva í sæinn. Gleymum því samt ekki að það eru mörg lönd sem eru mun ver stödd heldur en við. Það eru lönd þar sem gróðærið hefur ekki ríkt, þar sem fátæktin er mikil og skortur á lífsnauðsynjum eins og mat, vatni og lyfjum. Síðan eru lönd þar sem ríkir stríð. Hvað er t.d. að gerast núna á Gaza? Erum við að leggja hjálparhönd eða stöndum við bara aðgerðarlaus hjá á meðan matur er tekinn af fólki og skorið á allar þeirra bjargarlínur? Mér sýnist hið síðarnefnda eiga betur við okkar afstöðuleysi. Okkar ríkisstjórn er nefnilega bissí, skiluru??
Nú er okkur tíðrætt um að þeir sem beri ábyrgð verði að líta í eigin barm og átta sig á mistökunum. Auðvitað ætti það að vera sjálfsagt mál þó ráðamenn okkar og útrásarvíkingarnir átti sig ekki á því. En það eru fleiri en þeir sem verða að líta í eigin barm. Ef við ætlum að byggja hér upp betra samfélag þá eigum við auðvitað að taka réttlætið alla leið - ekki bara fyrir Ísland. Það er ekkert réttlátt við það hvernig ríkari þjóðir heims hafa arðrænt fátækari þjóðir í gegnum alþjóðavæðinguna. Við vitum vel af því að hér í þessum heimi eru fleiri milljónir í þrælkun til að framleiða vörur fyrir ríkari löndin. Við höfum oft ekki úrræði til að meta hvort það sem við kaupum er framleitt við mannsæmandi aðstæður þar sem fólk getur lifað af vinnu sinni eða hvort vörurnar eru framleiddar við aðstæður sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem grimmúðlegum, ómannúðlegum og ósanngjörnum. Við erum hins vegar ekki hörð á því að gera kröfur á fyrirtækin sem selja okkur vöruna um að tryggja að framleiðslan fari fram á hátt sem við gætum skammlaust lagt nafn okkar við.
Við þurfum að byggja upp á nýtt. Rísa aftur upp úr öskunni en gætum við í þetta sinn risið upp með réttlætið og mannréttindi að leiðarljósi? Ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir heiminn? Gætum við byrjað að hugsa heildstætt? Og ef við ætlum að hugsa heildstætt þá ættum við líka að sjá að við erum vel aflögufær í þróunaraðstoð. Þar eigum við að taka okkur á og gera miklu meira - ekki skera niður.
**
Ps. Má svo til með að bæta við slóð á pistil sem er alveg brill: „Er hetja á Alþingi?"
laugardagur, nóvember 15, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Mótmæli!
http://this.is/nei/?p=525
Ríkið hefur ekki efni á þessu. Punktur, basta.
Einar
Skrifa ummæli