Kannski á eftir að líða einhver tími þangað til við fáum einhvern botn í hvað raunverulega gerðist en kannski er það heldur ekki svo flókið...
Við erum hluti af alþjóðasamfélagi en þó ekki. Við erum hluti af samfélagi sem byggir á feðraveldis nýfrjálshyggju og kapítalisma en þó ekki. Alþjóðlega regluverkið reyndist gallað. Mér finnst áhugavert að skoða þetta út frá valdatengslum í anda Foucault - hinu allt um lykjandi valdi sem er í öllum og alls staðar en kristallast ekki í einhverri einni yfirstjórn.
Ef við skoðum EES samninginn fyrst þá skilst mér að ákvæði í honum hafi gert bönkunum mögulegt að opna útibú í öðrum löndum með íslenskri ríkisábyrgð án þess að samþykki þyrfti að vera til staðar hjá íslensku ríkisstjórninni (og hvað þá íslensku þjóðinni). Í raun má segja að þetta sé hálfgerð gildra fyrir smáríki. Þarna ráða stóru ríkin för í regluverkinu en reglurnar henta ríkjunum ekki eins og úrræðin til að bregðast við eru ekki þau sömu. Einstök ríki voru ábyrg fyrir úrlausnum, þ.e. að vinna á vandanum þó regluverkið þýddi að útrás væri möguleg án samráðs við ríkið.
Þetta eru fyrst valdatengslin - stórar þjóðir vs smáar þjóðir í alþjóðlegu regluverki sem felur í sér alls kyns gildrur sem stórar þjóðir geta kannski leyst úr en ekki litlar.
Löggjafarvaldið er síðan næsta klúður og spurning hvaða vald löggjafarþingið hefur eftir allt saman? Þar er greinilega hræðsla við að taka á málunum, eins og t.d. með því að hefta þetta margumtalaða frelsi einstaklinga en sérstaklega fyrirtækja til að gera hvað sem er. Þetta er áhugavert út frá þeirri umræðu um að valdið sé að færast í auknum mæli frá þinginu og yfir til fyrirtækja, þ.e. til viðskiptalífsins. Af einhverjum ástæðum var ekki girt fyrir þennan möguleika banka á að stofna útibú erlendis með íslenskum ríkisábyrgðum þrátt fyrir að öllum hefði átt að vera ljóst að það væri algjört glapræði að hafa okkar örþjóð í ábyrgð fyrir sparifé alheimsins.
Það er hlutverk stjórnvalda að vernda þjóðaröryggi landsins. Efnahagslegt öryggi flokkast þar með. Það er þess vegna stjórnvalda að sjá til þess að bankakerfið og útrásin verði ekki of stór fyrir íslenska þjóð. Í því samhengi verður að gera ráð fyrir að allt geti farið á versta veg. Það er ekki leyfilegt að hugsa sem svo að þetta reddist og worst case scenario muni ekki gerast. Í ljósi sögunnar væri það enda einstaklega naive afstaða.
Seðlabankann og FME ætla ég ekki að segja mikið um - en augljóslega á peningamálastefnan sinn þátt í því hvernig fór og auðvitað brást allt eftirlitskerfi. Ég sá einhvers staðar frétt þar sem vitnað var í Jónas Fr. um af hverju ekki hefði verið brugðist við Icesavereikningunum og hann sagði eitthvað á þá leið að það væri út fyrir skilgreint verksvið FME. Þetta er einmitt einn af akkilesarhælum opinberra stofnana. Skilgreiningar á starfsemi eru of stífar og veita ekki nægjanlegt svigrúm til að fylgja eftir síbreytilegum heimi.
Útrásarvíkingarnir og æðstu stjórnendur bankanna eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Ári áður en bankarnir hófu að veita húsnæðislán gerðu þeir skýrslu þar sem þeir vöruðu við 90% lánum til íbúðarkaupa. Sögðu að afleiðingarnar yrðu skelfilegar. Ári seinna stukku bankarnir af stað, ekki með 90% lán heldur 100%. Þetta sýnir vel græðgina. Hagur þjóðarinnar var alltaf aukaatriði.
Fjölmiðlar virðast síðan hafa verið nánast gagnrýnislausir í klappliðinu. Tökum sem dæmi ofangreind húsnæðislán. Þegar verðið hækkaði upp úr öllu valdi þá komu fram spurningar um hvað myndi gerast þegar verðið lækkaði. Þá komu fram „spekingar“ sem héldu því fram að húsnæðisverð lækkaði aldrei, það bara gerðist ekki og hefði aldrei gerst í Íslandssögunni. End of story. Nú er verðið byrjað að lækka. Og viti menn - sjáum við þá ekki í fjölmiðlum dæmi um massíva lækkun í löndunum í kringum okkur, t.d. Finnlandi.
**
Ofangreint er auðvitað bara örlítil mynd af heildarmyndinni en það sem mér finnst skipta mestu máli að skoða er hugmyndafræðin á bakvið þetta allt saman. Auðvitað eru einstaklingar í forsvari en einstaklingar starfa innan hugmyndakerfa. Ég vil ekki fría þá einstaklinga ábyrgð sem komu okkur í þessa stöðu (þvert á móti) en ég veit jafnframt að ef það er það eina sem við gerum þá lagast ekkert og ekkert breytist í raun. Ef sú hugmyndafræði sem hér hefur verið ríkjandi heldur áfram þá munu bara spretta fram nýjir einstaklingar sem gera sömu hlutina. Þar að auki má velta því upp að það er hugmyndafræðin sem kom okkur á hausinn og þeir einstaklingar sem eru við stjórnvölinn kunna ekki aðra hugmyndafræði og þar af leiðandi verða „lausnirnar“ byggðar á hugmyndafræði sem ekki virkar og geta komið okkur enn frekar um koll, þ.e. meiri vandræði en við erum nú þegar í.
Meira um þetta seinna... orðið nógu langt í bili.
miðvikudagur, nóvember 05, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli