Það er svaka stemming að flytja barátturæðu klædd eins og súffragetta með baráttuborða, í gylltum súffragettuskóm og með hatt! Gleymdi að taka myndir...
Baráttugleði Bríetanna var rosavel heppnuð! Takk fyrir gærdaginn :)
Hæstvirtu áheyrendur.
Til hamingju með daginn. Við erum hér í dag til að hylla það afl sem baráttugleðin er því við viljum jafnrétti núna!
Við lifum og hrærumst í síbreytilegu samfélagi misréttis. Kynjamisrétti birtist okkur í ýmsum myndum og þrátt fyrir mikla baráttu síðustu 100 ár er málið ekki enn í höfn. Ef við lítum yfir söguna þá sjáum við að allan okkar árangur eigum við baráttukonum og -körlum að þakka. Kosningarétturinn datt ekki niður af himnum heldur var áratuga barátta að baki. Fyrsta konan fór á þing fyrir tilstilli kvennalista. Konum fór ekki að fjölga á þingi að ráði fyrr en Kvennalistinn, hinn síðari, var stofnaður. Umræðan um kynbundið ofbeldi fór af stað vegna hugsjónakvenna sem komu henni á kortið. Það voru baráttukonur sem stofnuðu Kvennaathvarfið, Stígamót og Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Við eigum baráttunni allt okkar að þakka.
En baráttan er ekki búin og það ætti að vera okkur bæði ljúft og skylt að halda henni áfram. Sumir halda að baráttan einkennist af þreytu, vonleysi, biturð, reiði og tómum leiðindum. En það er ekki þannig. Baráttan getur verið skemmtileg. Það er kynjamisréttið sjálft sem er það ekki. Þátttaka kvenna á Kvennafrídeginum 1975 og 2005 sýnir okkur þann mátt sem býr í samstöðu kvenna og hvers við erum megnugar þegar við virkjum samstöðuna alla leið! Baráttan gefur okkur kraft og von en síðast en ekki síst þá skilar hún okkur árangri.
Ég á mér tveggja heima framtíðarsýn. Önnur sýnin byggir á samfélagi sem verður til án baráttu fyrir kynjajafnrétti og hin sýnin byggir á samfélagi þar sem baráttan hefur yfirhöndina.
Fyrri sýnin er ekki falleg. Sú sýn miðar við stöðuna í dag, örar tækniframfarir, tregðu samfélagsins til breytinga í jafnréttisátt og peningamátt þeirra afla sem vinna hörðum höndum að því að viðhalda óbreyttri stöðu kvenna í samfélaginu. Afleiðingar þess yrðu:
Launabil milli hinna ríku og fátæku mun halda áfram að aukast. Karlar munu verða í meirihluta þeirra sem lenda efst í pýramídanum og þannig mun tekjuskipting karla og kvenna í samfélaginu verða enn ójafnari en nú er. Sama gildir um eignamyndum.
Konur munu halda áfram að mennta sig en vegna þess að nú er drengjaorðræða allsráðandi mun skólakerfið verða tekið til gagngerrar endurskoðunar til að koma betur til móts við þarfir drengja. Þarfir stúlkna munu ekki hljóta sömu athygli – og þar af leiðandi ekki viðeigandi úrræði við endurskipulagningu grunnskólanáms.
Hörð atlaga verður gerð að rétti kvenna til fóstureyðinga. Aukin ábyrgð karla á uppeldi barna mun leiða til háværrar kröfu um að fá að hafa áhrif á hvort konur fari í fóstureyðingu eða ekki. Þar verður réttindum feðra haldið á lofti og það sjónarhorn gæti vel orðið ofan á einfaldlega vegna þess að konur eru í minnihluta á þingi og geta ekki spornað gegn.
Klámvæðingin mun aukast. Sexið selur, segir einhvers staðar, en það sem meira er – klámvæðingin er tilvalið tæki til að halda konum á mottunni. Með þeim viðhorfum sem birtast í klámvæðingunni mun virðingarleysi milli kynja verða enn meira með þeirri afleiðingu að kynbundið ofbeldi mun aukast í kjölfarið.
Síðast en ekki síst mun fórnarlömbum vændis og mansals fjölga. Við sjáum það í nýlegum tillögum um breytingar á hegningarlögum að það er ekki vilji hjá núverandi valdhöfum að gera kaupendur vændis ábyrga fyrir því ofbeldi sem þeir beita.
Þetta er sú framtíð sem bíður okkar án jafnréttisbaráttu. Þess vegna vil ég frekar halla mér að síðari framtíðarspá minni sem byggir á baráttu. Við þurfum að hafa fyrir hlutunum og berjast. Eins og jafnrétti ætti að vera sjálfsagt mál þá hefur reynslan kennt okkur að svo er ekki. Jafnrétti hefst ekki nema við stöndum fast á okkar rétti. Heimurinn mun aldrei verða fullkominn á þann veg að manneskjan hagi sér alltaf á skynsaman, réttlátan og sanngjarnan hátt. En ef við höldum dampi – látum ekki þagga niður í okkur, stöndum saman og krefjumst þess að fá jafnrétti í reynd þá getum við byggt:
Samfélag þar sem konur fá sömu laun og karlar fyrir sömu störf.
Samfélag þar sem karlar skúra, skrúbba og bóna til jafns á við konur!
Samfélag þar sem konur eru helmingur þingmanna.
Samfélag þar sem ríkisstjórnin og hæstiréttur stjórnast af jafnmörgum konum og körlum.
Samfélag þar sem kaup á vændi eru ólögleg!
Samfélag þar sem skólakerfið verður endurskoðað með þarfir beggja kynja í huga.
Samfélag þar sem karlar bera virðingu fyrir konum og konur bera virðingu fyrir körlum.
Samfélag þar sem klám, vændi og mansal finnur sér ekki samastað.
Samfélag þar sem kynferðisbrotamönnum er refsað!
Samfélag þar sem okkur tekst að draga úr kynbundnu ofbeldi vegna þess að kynin eru jafnmikils metin, hafa jöfn tækifæri og lifa í sátt og samlyndi án þess að þörfin til að deila og drottna spilli þar fyrir.
Við getum fengið allt þetta og það er akkúrat þess vegna sem við verðum að halda kyndli fyrri baráttukvenna á lofti og halda áfram þar sem frá var horfið.
Lengi lifi baráttan!
fimmtudagur, mars 09, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Flott ræða.
Ég verð að segja að ég dáist að starfi þínu og ykkar allra í Femínistafélaginu, þó að ég sé ekki alltaf sammála öllu sem frá félaginu kemur. En ég skil hvað þið eruð að reyna að gera og mér finnst það frábært að enn skuli vera til baráttufólk hér á landi, sem þorir og hefur kraft til þess að halda áfram öflugri jafnréttisbaráttu, þrátt fyrir neikvæð viðbrögð margra í samfélaginu.
Takk fyrir það. Yrði reyndar hissa ef fólk væri almennt sammála öllu sem kemur frá félaginu - en gott ef fólk er sammála flestu :)
Finn reyndar oft fyrir misskilningi út af fjölmiðlaumfjöllun um hin og þessi mál - sérstaklega um mál sem fjölmiðlar hafa samband af fyrra bragði og biðja okkur um að koma með álit á. Oft á tíðum er það misskilið á þann veg að við viljum banna eitthvað eða þess háttar en þá erum við bara að koma fram með sjónarhorn - og fræðslu um kynjavinkilinn á viðkomandi máli. Vona að það séu þau mál sem þú ert yfirleitt ósammála...
Annars er eitt markmiðið með skiptingu í hópa til að fólk geti fundið sér hóp í samræmi við áhugamál og hjartans mál. Oft er það þannig að eitthvað eitt eða tvö málefni innan jafnréttisbaráttunnar brenna heitast á fólki en aðrir málaflokkar hafa minna vægi.
Oh, ég hefði svo viljað vera þarna á baráttufundinum. En gettu hvað? Ég var að vinna ;) Bölvaðar séu kvöldvaktir.
Skrifa ummæli