Þetta er greinin sem ég skrifaði í nemendablað KHÍ. Skrifaði og sendi greinina áður en ég sá miðann...
Hvar er sterka, sjálfstæða konan?
Íslendingasögurnar eru sneisafullar af sögum af sterkum, sjálfstæðum íslenskum konum. Þetta voru kvenskörungar sem létu ekki bjóða sér neitt kjaftæði heldur stóðu fast á sínu. Ég sakna þessara kvenskörunga oft í dag þegar svo virðist sem klámvæðingin sé að yfirtaka flest vígi. Það er einhvern veginn eins og konur sætti sig bara við þetta undirgefna hlutverk og séu jafnvel hæstánægðar með það.
Bakslag í jafnréttisbaráttunni
Klámvæðingin er ekki það sama og klám en fyrirbrigðin eru tengd. Í klámvæðingunni er myndmáli klámsins smeygt inn í daglegar athafnir okkar. Stundum á lúmskan, óljósan hátt en stundum þannig að það blasir beint við að verið sé að nota líkingar úr klámi. Eitt augljósasta dæmið um klámvæðingu eru tónlistarmyndbönd þar sem algengt er að sjá fullklædda karlkyns tónlistarmenn skreyta sig með fáklæddum ungum konum í eggjandi dansi. Í klámvæðingunni eru send skýr skilaboð til kvenna um þeirra hlutverk í samfélaginu. Það virðist sem klámvæðingunni vaxi ásmegin í sama hlutfalli og konur hasla sér völl á öðrum sviðum samfélagsins. Eftir því sem konur öðlast meiri menntun, komast í fleiri stjórnunarstöður, eignast meiri peninga, verða sjálfstæðari – því sterkari verður klámvæðingin. Því má líta á klámvæðinguna sem bakslag í jafnréttisbaráttunni. Klámvæðingin er andsvar við sjálfstæðu konunni. Klámvæðingin og útlits- og æskudýrkun haldast í hendur við að telja konum trú um að þeirra eftirsóknarverðustu eiginleikar felist í hversu kynferðislega aðlaðandi þær eru í augum hins kynsins. Það fer heldur ekki á milli mála að það þykir ekki kynferðislega aðlaðandi að vera sjálfstæð, vel menntuð eða í áhrifastöðu. Skilaboðin í klámvæðingunni sýna svart á hvítu að undirgefni er það sem blívur. Konur eru hlutgerðar og smættaðar niður í líkamlega eiginleika sína. Manneskjan skiptir harla litlu máli eða afrek á öðrum sviðum.
Þægustu konurnar
Það sorglegasta er að það virðist ganga ansi vel að telja konum trú um að það að gangast klámvæðingunni á hönd sé eftirsóknarvert hlutverk. Konum er talin trú um að með því að bera sig sýni þær sterka sjálfsmynd og ánægju með líkama sinn. Í rauninni er það svo að kona sem er ánægð með líkama sinn þarf ekki utanaðkomandi staðfestingu. Hún þarf ekki á því að halda að bera hann til að öðlast aðdáun og hrós frá öðrum. If you got it – why not flaunt it? Heyrist stundum sagt – en samt þykir engum töff að sofa sér leið á toppinn.
Í bókinni Female Chauvinist Pigs, eða kvenkyns karlrembur, eins og hún útleggst á íslensku, er farið yfir þátttöku kvenna í klámvæðingunni. Höfundurinn, Ariel Levy, kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að konur telji að þær öðlist völd og virðingu í gegnum þátttöku í klámvæðingunni sé reyndin allt önnur. Þátttaka í klámvæðingunni er ávísun á áframhaldandi stöðu kvenna sem undirgefna og þæga kynið. Þátttaka karla í klámvæðingunni er síst minni en kvenna, enda hvetja þeir margir hverjir konur til að taka þátt og verðlauna þær þægustu með yfirgengilegu hrósi.
Til að eiga möguleika á að sporna gegn klámvæðingunni þarf fólk að vera meðvitað um birtingarmyndir hennar og afleiðingar. Undanfarið hafa birst fjölmörg dæmi um hvernig klámvæðingunni er að takast að smeygja sér inn á ólíklegustu staði. Fyrir jólin var auglýst ball fyrir nemendur þriggja háskóla þar sem auglýsingaplakat var myndskreytt með konu á undirfötum. Aðstandendur jólaballsins fengu áminningu frá rektor Háskóla Íslands þar sem þeim var bent á að umrædd auglýsing stangaðist á við jafnréttisstefnu skólans. Nýlega auglýstu ungir drengir tónleika sína með slagorðinu “Rape Time” eða “Tími til að nauðga.” Hið 8 ára gamla barn, Solla stirða, var kosin 8. kynþokkafyllsta kona landsins á Rás 2. Hefði það viðgengist þegjandi og hljóðalaust fyrir 10 árum að barn væri á lista yfir kynþokkafyllstu konurnar? Nýjasta dæmið er síðan tilefni þessa pistils – upphaflegt árshátíðarplakat Kennaraháskóla Íslands. Þar gat á að líta fullklæddan karlkyns kennara og tvær fáklæddar námsmeyjar. Myndin er augljóslega hluti af klámvæðingunni og margvíslegar tengingar í klámið. Það er einnig hægt að lesa tengingar í barnaklám í myndinni. Önnur stúlkan er í pilsi sem minnir á skólastelpubúninga og hin er að leika sér með tyggigúmmí. Umhverfið er skólastofan og kennaranemar ættu að þekkja valdatengslin á milli kennara og nemenda. Hin forboðna fantasía í kláminu – karlkyns kennarinn og skólastelpurnar – birtist ljóslifandi á plakatinu. Í ofanálag eru stúlkurnar brosandi. Þetta er þeim greinilega ekki á móti skapi og látið er líta þannig út að þær séu við stjórnvölinn í skólastofunni en ekki kennarinn. Plakatið smellpassar inn í skilgreiningar á klámvæðingunni þar sem myndmál klámsins smeygir sér inn í hversdagslífið og okkur er talin trú um að í þessu felist völd og eftirsóknarvert hlutverk kvenna. Með öðrum orðum er verið að selja konum þá hugmynd að það sé eftirsóknarvert að vera kynlífshjálpartæki karla. Körlum er jafnframt seld sú hugmynd að konur njóti þess að vera vegnar og metnar út frá líkamlegum eiginleikum einum saman. Nú er ég nokkuð viss um að aðstandendur plakatsins hafi ekki ætlað sér að vera með ofangreindar tilvísanir, sérstaklega ekki í barnaklámið. En þær eru engu að síður til staðar og sýna vel fram á mikilvægi þess að vera meðvituð um birtingarmyndir klámvæðingarinnar. Mistök eins og þessi eiga ekki að eiga sér stað hjá tilvonandi kennurum.
Ábyrg viðbrögð
Kennarar bera mikla ábyrgð á framtíðarkynslóðum og það er nauðsynlegt að kennaranemar reyni að átta sig á því hversu gegnumsýrt okkar samfélag, og þar af leiðandi okkar hugsun, er orðin af klámvæðingunni. Í tilfelli Kennaraháskólans skilst mér að tekin hafi verið ákvörðun um að skipta út plakatinu og fjarlægja stúlkurnar af myndinni. Það verða að teljast ánægjuleg og ábyrg viðbrögð. Vonandi verður plakatið til þess að vekja áhuga kennaranema á jafnréttismálum og birtingarmyndum kynjamisréttis í samfélaginu. Hið allt um lykjandi kynjakerfi hefur áhrif á hugsanir okkar, langanir og þrár en er ekki til þess fallið að geta af sér sterkar sjálfstæðar konur og karlmenn sem kunna að meta þær.
mánudagur, mars 13, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
12 ummæli:
"Það er einnig hægt að lesa tengingar í barnaklám í myndinni. Önnur stúlkan er í pilsi sem minnir á skólastelpubúninga og hin er að leika sér með tyggigúmmí."
Mér finnst það ótrúlegt að þú getir séð tengingar í barnaklám á veggspjaldinu eingöngu vegna þess að önnur stúlkan er með tyggjó og hin er í pilsi sem þér finnst minna á skólastelpubúninga.
Á þá til dæmis ekki að banna fólki bara almennt að vera með tyggjó?...svona fyrst það minnir á barnaklám.
Yfir höfuð skil ég reyndar ekki neitt af því sem þú ert að tala um vegna þess að mér fannst nákvæmlega ekkert að þessari mynd. Að mínu mati ert þú að oftúlka hana alveg svakalega.
Hvað um það. Það eina sem mig langar að fá nánari útskýringar við...svona ef þú nennir...er þetta með barnaklámið. Sérð þú þá ekki barnaklám í nánast öllu, bara svona dags daglega?
Ég verð nú að vera svolítið sammála honum Jóa.
Annað sem ég er að velta fyrir mér. Klámvæðingin snýst um að konur séu undirgefnar. Samt segir þú það vera hluti af klámvæðingunni að konur séu við stjórnvölin (s.b stelpurnar á plakatinu). Það er greinilega mjög vandasamt verk að vera kona!
Ég er ekki að sjá vandamálið við þetta plakat heldur. Hvað svo sem þessar stúlkur eru að gera þarna gefur eini karlmaðurinn á myndinni það til kynna að þetta sé honum ekki að skapi. Plakatið er þá kannski í rauninn að segja að þegar konur reyni að passa inn í klámvæðinguna munu þær ekki ná athygli karlmanna. Mér finnst sú túlkun á plakatinu vera alveg jafn rétt og þín.Held reyndar líka að þeir sem reyna að búa sér til klámfengið efni úr öllu geti séð eitthvað klámfengið við þetta.
Þegar ég horfði á þessar stelpur sá ég það fyrir mér að þær væru að reyna stæla svolítið Silvíu Nótt. Þessi svipur á þeim gaf það svona helst til kynna.
Konur eru vissulega oft fáklæddar í tónlistarmyndböndum eins og karlar. 50 cents og Usher eru m.a undantekningalaust berir að ofan í sínum myndböndum. Þetta sendir strákum skýr skilaboð hvernig þeir eigi að tilheyra klámvæðingunni eins og söngkonur senda stúlkum þessi skilaboð, ekki satt?
“Klámvæðingin og útlits- og æskudýrkun haldast í hendur”
Mér finnst svolítið skondið að hugsa um ömmu mína sem kaupir öll heimsins krem til að hægja á öldrun húðarinnar. Amma er þá í raun og veru á bólakafi í klámvæðingunni :lol:.
Útlits- og æskudýrkun hefur verið til staðar í mörg þúsund ár. Þannig að klámvæðingin er í raun nokkur þúsund ára þróun. Ég er nokkuð viss um að þessi útlits- og æskudýrkun sé ekki meiri nú en áður. Það sem hefur hins vegar breyst er að staðalýmyndir fyrir karla eru orðnar svo miklu sterkari nú en áður. Þetta er að auðvitað hluti af þessari klámvæðingu sem konur halda að karlmönnum. Klámvæðing kvenna hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár og nú er þessi klámvæðing kvenna farin að segja verulega til sín. Fyrir ekki meira en 10 árum var klámvæðingin aðeins bundin við karlmenn (sem bitnaði auðvitað á konum). Nú er staðan sú að klámvæðing kvenna er að taka fram úr klámvæðingu karla. Konur eru jafnvel orðnar klámvæddari nú en karlarnir (og nú er komin tími á karlana að laga sig að klámýmindum kvennanna).
Hér fyrir neðan ætla ég að reyna að útskýra þetta á skiljanlegan hátt - vona að þið séuð opnir fyrir að hugsa málið en séuð ekki fyrirfram búnir að ákveða að þið hafið allar upplýsingar, þekkið allt og vitið allt - og séuð þar af leiðandi ekki að hlusta. Sumt af þessu þarf að íhuga og spá í í einhvern tíma til að sjá tenginguna. Myndlæsi er t.d. ekki kennt í skólum, þ.e. ekki á almennri námskrá þó að sumir kennarar sem hafa þekkinguna geti miðlað henni áfram. Það er töluvert byrjað að tala núna um að samfara nýrri tækni sé þörf á að kenna börnum (og fullorðnum) bæði auglýsinga- og myndlæsi - til að við náum þeim skilaboðum sem haldið er að okkur í samfélaginu.
1. Tenging við barnaklám. Barnaklám er útbreitt vandamál - sem og hneigðir til barna. Til er bæði pjúra barnaklám, þ.e. klám þar sem börn eru notuð við að búa til klámið. Við erum ekki að tala um það í þessu samhengi. Síðan er til klám þar sem fullorðnar konur eru notaðar (oft mjög ungar samt sem áður) en þá eru konurnar settar í aðstæður með alls konar vísanir í börn. Það eru ýmsar táknmyndir sem eru notaðar í þessu samhengi. Skólastelpupilsið eitt sterkasta táknið. Eins eru "konurnar" oft með tíkó, sleikjó, tyggjó o.s.frv. Stundum eru barnaleikföng á myndinni. Það sem þarf að spá í hér er ekki endilega aldur fyrirsætanna heldur þær kenndir sem verið er að höfða til - eða búa til. Strákar sem alast upp við það að sjá sífellt fullorðnar konur í "barnalegum" aðstæðum á klámfenginn/erótískan hátt eru í raun að verða fyrir skilaboðum eða áreiti sem tengir saman börn og kynlíf. Til að geta forðast þetta þá þarf fólk að vera meðvitað um táknmyndirnar og síðan þarf að hafna þeim.
Eitt gott dæmi um markaðssetningu þar sem klámvæðing í anda barnakláms er útgangspunkturinn er markaðssetningin á Britney Spears í upphafi hennar ferils sem poppsöngkona. Í fyrsta smellnum sínum er hún einmitt klædd í skólastelpupils og með tíkó. Ofan á það bættist stöðug umræða um að hún væri hrein mey. Ætlaði að láta fylgja með mynd af Britney í einmitt svona set-uppi - en fattaði svo að það er ekki hægt að setja myndir í kommentakerfið - en á umræddri mynd stendur hún upp í rúmi í barnaherbergi, fáklædd með undirgefið augnaráð. Sumir vilja meina að myndin sé fölsuð... ég hef ekki hugmynd um það en myndin sýnir vel þetta umhverfi, þ.e. sexualiseringu á börnum sem er náð fram með því að setja fullorðnar konur í aðstæður með heilmiklum tengingum við barnaklám og hneigðir til barna.
Það eru bæði til klámblöð + aragrúi af vefsíðum sem ganga út á þessar tengingar. b2.is var t.d. með tenginu beint á slíka síðu nýlega (8. mars ef þið viljið kynna ykkur málið). Eins er hægt að kaupa kynferðislega skólastelpubúninga á netinu. Hef ekki athugað hvort þeir séu til sölu í kynlífshjálpartækjabúðum hér heima.
Vandamálið er að fólki er "seld" sú hugmynd að þetta sé allt í lagi með því að gera þetta mainstream. Leiðin til að gera þetta mainstream er að setja fullorðnar konur í barnalegar aðstæður - því þá er svo auðvelt að fá fólk til að hunsa gagnrýni. Þar af leiðandi sofnar fólk á verðinum og smátt og smátt er hægt að ganga lengra. Við erum komin það langt að nú vermir barn 8. sæti listans yfir kynþokkafyllstu konur landsins - valin af hlustendum Rásar 2, athugasemdarlaust og mótmælalaust.
Leiðin til að sporna við þessu er að kynna sér uppruna hlutanna - hvaðan er þetta myndmál komið? Til hvers er það notað og hvaða áhrif hefur það?
Klámvæðingin er einmitt þegar myndmálið úr kláminu, í þessu tilfelli barnakláminu, er sett út í mainstreamið og verður hluti af okkar daglega lífi. Þeir sem þekkja myndmálið og hafa þessar hneigðir fá þá sitt - úr dags daglega umhverfinu - á meðan hinir taka þátt, óafvitandi um hvaðan hlutirnir sem þau gera eiga uppruna sinn eða hvaða skilaboð liggja að baki.
********
ps. hér er annars greining á myndinni í stuttu máli:
1. einn kk og tvær kvk = með tvær í takinu
2. Önnur stelpan í skólastelpupilsi og hin með tyggjó - sem hægt er að lesa sem tilvísun í barnaklám, eða réttara sagt, fullorðnar(ungar) konur settar í aðstæður með tilvísun í eitthvað barnalegt í tengslum við kynlíf. Svipað og slatti af kláminu sem er til af fullorðnum konum í hlutverki lítilla stelpna - í skólastelpupilsum, með tíkó, sleikjó, tyggjó...
3. Valdatengsl á milli kennara og nemenda (forboðna fantasían) - og auðvitað kennarinn kk og nemendur kvk - sem ýtir enn og aftur undir atriði nr 2.
4. Fáklæddar konur og fullklæddur karlmaður. Sýnir enn og aftur valdatengslin á milli kynjanna. Þetta er reglan - ekki undantekningin.
**********
Þetta er orðið svo langt svar að ég þarf eiginilega að svara þér seinna manuel - en hafðu í huga að þú ert ekki búinn að sjá miðann. Þar er kennarinn langt í frá að vera afskiptur með þetta mál.
Er alveg sammála þér að strákar eru næsta fórnarlamb þessarar markaðsvæðingar og hún er farin að færa sig ansi mikið upp á skaptið. Samt ekki komin með tærnar þar sem útlitsdýrkun kvenna hefur hælanna... en er á hraðri leið þangað. Sumum finnst það jafnrétti og vilja fara þá leið - ég er ekki ein af þeim. En þú? Hvort er betra að bakka með bæði kyn eða sitja alla í sömu súpuna?
**********
Ég reyndi að vera opinn. Kannski var ég það ekki ómeðvitað, eða þá að ég er bara ósammála eins og ég held að ég sé.
"1. einn kk og tvær kvk = með tvær í takinu"
Þarna finnst mér þú vera breyta aðstæðum sem þú lýsir á myndinni eftir hentisemi.
Þú byrjar á að segja að þær séu með völdin þarna en ekki hann. Þannig að þær tvær eru með einn í takinu. Svo breytir þú aðstæðunum vegna þess að það hentar betur málflutningnum og segir að hann sé með þær tvær í takinu. Það hljómar jú betur þegar þú lýsir "forboðnu fantasíunni" að segja að þær hafi völdin. En það hljómar betur þegar þú talar um klámvæðinguna að hann hafi völdin og þær séu undirgefnar.
Hvor er með tökin á þessari mynd. Karlinn eða stelpurnar tvær?
2.
Gæti verið að þegar plakatið var gert að viðkomandi hafi hugsað hvernig hann ætti að koma því til skila í myndformi að þær væru nemendurnir. Viðkomandi hefur þá kannski hugsað um skólapils sem eina táknmynd kvk nemanda og svo þarf hann að láta það líta út fyrir að þær séu yngri en hann. Það kom allt til skila þarna og það tókst mjög vel.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru feministar ekki á móti Sylvíu Nótt og finnst klæðaburður hennar ekki ámælisverður. Þessi klæðnaður er samt sem áður íhaldsamur í samanburði við hana.
Ég myndi samt alveg skilja allt þetta ef ég væri að ná því hvað væri klámfengið við myndina. Ég er farinn að halda að þetta sé nokkurskonar sálfræði test eins og þegar þú horfir á klessu og sérð eitthvað. Einhvernveginn næ ég ekki að það sé neitt æsandi eða klámfengið eða að það sé verið að gefa neitt svoleiðis í skyn.
Á meðan þú sérð tvær barnalegar stelpur sé ég tvær stelpur í uppreisn. Þú sérð undirgefinn kennara á meðan ég sé kennara sem er þreyttur og áhugalaus.
Myndlæsið okkar beggja er líklega í góðu lagi. En túlkun okkar er mjög ólík. Það er yfirleitt eitthvað í undirmeðvitundinni sem fær þig til að hugsa um þetta á klámfenginn hátt á meðan ég bara fæ mig ekki til þess þó að ég reyni. Ég ætti kannski að fara horfa meira á klám til að geta séð þetta frá þínu sjónarhorni.
3.
Þú verður að átta þig á því að þetta plakat var gert fyrir árshátíð KHÍ. Það er ekkert annað viðeigandi en að hafa kennara og nemanda á plakatinu, Þá gildir einu hvort klámmyndir -blöð o.fl. nýti sér þessar aðstæður.
Mér finnst eins og við getum ekki lengur gert neitt í sakleysi okkar án þess að það séu alltaf fólk sem er tilbúið að tengja allt við klám. Hvernig getur samfélagið náð tökum á klámvæðingunni ef það er svo alltaf tilbúið að láta klámvæðinguna ná tökum á sér?
4.
Prufaðu að ganga inn í skólastofu og sjá hvernig klæðaburður kennara og nemanda er misjafn. Yfirleitt eru kvk. nemendur léttklæddari en kk. kennari. Þetta er bara staðreyndin í dag og þegar plakatið var gert var líklegast reynt að láta kennarann falla inn í staðalýmind kennarans og nemendurnar falla inn í staðalýmind nemandans. Mér finnst það hafa tekist frábærlega á þessari mynd hjá þeim. Kennarinn var mjög kennaralegur. Svona virðulegur eldri maður með skegg. Á meðan stúlkurnar voru svona eins og skólastúlkur á leið á árshátíð.
**********
Útlitsdýrkun hjá báðum kynjum hefur sína kosti og galla. Á tímum þar sem offita er orðið eitt mesta vandamál vestrænna ríkja í dag er gott mál að fólk hugsi um útlitið. Ókostirnir eru einnig fjölmargir. Klámvæðing kvenna er í mínum huga jafn mikið áhyggjuefni og klámvæðing karla. Ég hef þannig séð ekki sterkar skoðanir á áhrifum klámvæðingar. En mér finnst baráttan gegn henni mjög oft fara út í öfgar. Ég vildi bara minna á þar sem þú hefur aðalega talað um klámvæðingu karla að hitt væri líka til.
1. manuel - þú verður að muna að lesa það sem ég skrifa... ;) Þegar ég tala um að stelpurnar hafi völdin - mundu þá að ég hef líka skrifað um að þetta sé leiðin til að láta þessar aðstæður líta út fyrir að vera eftirsóknarverðar. T.d. í kláminu er mjög algengt að konurnar stynji og brosi yfir öllu ofbeldinu sem þær eru beittar - ergo - fólk fær á tilfinninguna að þær njóti þess í tætlur... sama aðferð er notuð til að fá fólk til að kaupa þá hugmynd að hitt og þetta sé eftirsóknarvert, sbr myndin á plakatinu.
Einn karl + tvær konur er vel þekkt dæmi. Þó karlinn líti út fyrir að vera áhugalaus á plakatinu þá er hann langt í frá áhugalaus á miðanum. Ítreka enn og aftur - manuel þú þarft að sjá miðann. Plakatið + miðinn er framhaldssaga.
Bendi svo á bókina Female Chauvinist Pigs - sem fjallar einmitt um hvernig stelpum er seld sú hugmynd að þær öðlist völd í gegnum það að hlutgera sjálfar sig og aðrar konur - þegar reyndin er allt önnur.
Eitt enn varðandi völdin - stelpum er kennt í klámvæðingunni að þær öðlist völd í gegnum það að nota kynþokkann - þ.e. í formi líkamans. Þetta eru ömurleg skilaboð - hvort heldur sem er í formi þess að kenna þetta, nota þetta eða veita völd út á þetta.
2. Silvía Nótt er efni í allt aðra umræðu. Mundu að Silvía Nótt er ádeila - á klámvæðinguna. Silvía Nótt er ádeila á það sem birtist á plakatinu í Kennó. Varðandi það að undirstrika kennara vs nemendur þá ættu nemendur í Kennó að læra það á dvöl sinni þar að þarna er um mjög vandmeðfarið samband að ræða. Samband á milli kennara og nemenda eru bönnuð af siðferðislegum ástæðum. Í skólastofunni er það kennarinn sem er með völdin - hann gefur einkunnir, þekkingu o.fl. Hann ber ábyrgð á nemendum og þarf að taka á ýmsum ástæðum sem upp koma. Kennaranemar sem íta undir fantasíu á milli kennara og nemenda eru á hættulegri braut. Uppsetning í skólastofu ýtir enn frekar undir tengsl við barnaklám ef eitthvað er.
Sérstaklega ættu karlkyns kennaranemar að spá í hvaða ímynd er verið að gefa af þeim. Traust á milli kennara og nemenda er gífurlega mikilvægt - og ekki gott ef sá stimpill er settur á kk kennara að þeir fantaseri um þá nemendur sem þeir bera ábyrgð á.
3. Nemendur í Kennó eru væntanlega ekki að halda árshátíðina til að kk kennarar í Kennó geti nálgast kvk nemendur í Kennó - eða öfugt (kvk nemendur að nálgast kk kennara). Þetta setup passar því ekki inn í árshátíðarþemað. Kennslustofuumhverfið + kk kennari og kvk nemendur gerir tenginguna við barnaklám sterkari og ætti ekki að eiga sér stað.
Og það er rétt hjá þér að klámvæðingin tekur frá okkur það sem ætti að vera saklaust, fallegt og gott. Klámvæðingin er eyðileggjandi afl og sérstaklega í því tilfelli þegar vísanir í barnaklám eru notaðar. Sú þróun sem við erum að sjá núna er alltaf að aukast. Við verðum að berjast gegn því og átta okkur á hvað er í gangi til að geta haldið í það að vera "eðlileg".
3. Veit vel að klæðnaður kk og kvk er mismunandi. Föt kk eru oft á tíðum víðari - og þægilegri - en föt kvk. Þau hylja líka líkamann betur. Föt kvk eru oft efnisminni, flegnari, styttri, þrengri og meira heftandi. Það að þetta skuli vera málið þýðir ekki að þetta sé "jafnrétti". Getur einmitt verið ein birtinarmynd misréttis...
"Mér finnst eins og við getum ekki lengur gert neitt í sakleysi okkar án þess að það séu alltaf fólk sem er tilbúið að tengja allt við klám. Hvernig getur samfélagið náð tökum á klámvæðingunni ef það er svo alltaf tilbúið að láta klámvæðinguna ná tökum á sér?"
Það sem ég átti við þarna er að á meðan ég get horft á plakatið og séð það sem ég hef sagt áður, er fólk sem er svo djúpt sokkið í klámvæðinguna að það getur JAFNVEL séð klám í þessu plakati. Þeir sem eru hvað dýpst sokknir í klámvæðingunni geta jafnvel horft á plakatið og séð barnaklám í því. Þá þarf sá hinn sami að vera mjög djúpt sokkin/n í klámvæðingunni.
Nú ætla ég að rifja upp svolítið sem ég lærði hjá Kristjáni sálfræðisnillingi í kúrs hjá honum. Hann lét okkur hafa nokkur blöð með myndum sem voru ekki af neinu sérstöku. Þegar þú horfðir á myndina gerðist nokkuð skrýtið. Myndin fór að breyta um form í huganum og skipti mjög reglulega um form. Ástæðan fyrir því að hugurinn lætur svona er vegna þess að hann er að reyna að láta myndina passa við einhverja mynd sem fyrir er í huganum.
Önnur tilraun sem við gerðum í tíma hjá honum var að fá mynd sem var af tveimur mismunandi hlutum í einu (maður á skíðum og flugvél). Hann lék sér að því segja við fyrsta bekkinn sem hann fékk í tíma til sín frá skíðaferðinni sem hann fór einu sinni í og seinni bekknum sagði hann sögu af flugferð sem hann fór í. Þegar fyrsti bekkurinn fékk myndina sáu allir það strax út að á myndinni væri maður á skíðum. Seinni bekkurinn sá að sjálfsögðu flugvél út myndinni. Þetta var vegna þess að sú mynd sem þau voru nýbúin að rifja upp í huganum er sú mynd sem undirmeðvitundin er fljótari að grípa.
Nú kemur tengingin við klámvæðinguna.
Sá sem horfir á þetta plakat og sér klám er líklega aðili sem er mjög djúpt sokkinn í klámi. Ef að plakatið vekur eftirtekt hjá þeim sem sér það gæti verið að hann tengi það við eitthvað. Klámvæddi aðilinn myndi líklega tengja það við klám og þær byrtingamyndir sem þar byrtast. Aðili sem reynir að sniðganga klámvæðinguna myndi kannski sjá kennara og nemendurna og hugsa til baka um skólavist sína.
Þetta er þannig allt spurning um hvernig undirmeðvitund einstaklinga fúnkerar. Fúnkerar hún á klámfengin hátt eða ekki.
Annað dæmi sem ég man eftir er þegar nýju Pepsi flöskurnar komu á markað. Mér fannst þær líkjast handlóðum. Eitt skiptið þegar ég er í sjoppu í miðjum frímúnútum einhvers skólans heyri ég unglingsstrák segja við vin sinn sem er með pepsi í höndinni að flaskan líktist einnahelst typpi.
Já svona geta hin ýmsu form klámvæðingar komið í ljós. Það sem er jákvætt við plakatið er að það nánast enginn tengdi plakatið við klám (jha nema you know hwo). Þetta segir mér að klámvæðingin í kennó er blessunarlega lítil og er það gott mál að tilvonandi kennarar séu ekki með hugan við klámefni. Það er frábært ef tilvonandi kennarar haldi áfram á þeirri braut sem þau eru á við að láta klámvæðinguna ekki hafa áhrif á sig. Þeir eiga jú eftir að vera fyrirmyndir barna þessa lands.
Úff - nenni ekki að svara þessu eina ferðina enn. Það er munur á handahófskenndum blekslettum og þekktum táknmyndum!
manuel - var að lesa síðasta kommentið frá þér aftur. Hef einhvern veginn hlaupið yfir seinna dæmið sem þú nefnir fyrst þegar ég las þetta...
Við erum kannski aðeins farin að tala um sama hlutinn í seinna dæminu. Þar nefnir þú mynd sem inniheldur mynd af flugvél og skíðamanni. Báðar myndirnar eru þarna og síðan fer eftir mindsetti hvers og eins hvernig það er lesið. Það má yfirfæra þetta að einhverju leiti yfir á plakatið í Kennó. Frávikið er helst í því að fólk þarf ekki að vera dirty minded til að sjá klámvæðinguna heldur upplýst - þ.e. hafa þekkinguna á birtingarmyndunum. Ef að fólk er orðið svo samdauna birtingarmyndunum að það er farið að líta á myndmál klámsins sem eðlilegan part af uppstillingu kynjanna þá er full ástæða til að staldra við og skoða málið. Eins er það þessi notkun á kennar og nemendum í þessu samhengi - í Kennó er verið að mennta leikskóla- og grunnskólakennara - og þar eru allir nemendur börn.
Já eins og ég sagði áður þá dreg ég það til baka að þú sért dyrty minded. Ég veit vel að þú ert það ekki og mjög heimskulegt að rökstyðja mál mitt á þann hátt.
En ég er enn ósammála þér í þessum efnum. En í raun og veru er hægt að sjá vísun í klám í nánast öllu í okkar samfélagi ef þú reynir. Klámið er orðið svo fjölbreytt að það er hægt að laga nánast allt að klámi.
Eins og þú segir sjálf voru þeir sem gerðu plakatið ekki með þessa vísun í klámið í huga þegar þeir gerðu það. Vissir þú það til dæmis að það eru til fjöldinn allur af klámsíðum sem ganga út á fólk í gallabuxum (var linkur einusinni á tilveran.is minnir mig með topp 20 klámsíðum sem ganga út á þessa áráttu). Nú eru gallabuxur orðnar hluti af klámvæðingunni. Ef við látum klámvæðinguna ná yfirtökum á okkar lífi munum við fljótlega fara rífa niður plaköt þar sem fólk klæðist gallabuxum, því það er tilvísun í klám.
Það má svosem vel vera að klám sé orðið svo mikið í samfélaginu að það þarf grófari byrtingamyndir til að sjokkera fólk.
Mitt mat er auðvitað það allt kapp er best með forsjá. Í vafatilfellum væri kannski réttara að sjá hvort fólk geti tengt það við eðlilega hluti, frekar en að sjá hvort hægt sé að tengja þetta við klám. Því eins og ég sagði er hægt að tengja nánast alla hluti við klám ef viljinn er fyrir hendi.
Nú er ég ekki að draga það í efa að hægt sé að týna út atriði á myndinni um byrtingarmynd barnakláms. En væri ekki líka hægt að sjá myndina sem saklausa auglýsingu sem fæli ekkert í sér annað en það sem ég sé út úr henni?
Við verðum að passa okkur líka á því að vera ekki svo passasöm á klámvæðinguna að við þurfum að tipla á tám í kringum allt sem við segjum og gerum af ótta við að einhver sjá kannski hugsanlega eitthvað sem kannski hugsanlega væri tengt einhverju klámfengnu.
Það að vernda sakleysið má ekki snúast upp í andhverfu sína.
ps'
Nei ég er ekki enn búinn að sjá miðann;)
manuel þú þarft að sjá miðann!! Miðinn og plakatið eru framhaldssaga...
En varðandi klámvæðinguna - í myndunum eru þekktar vísanir í barnaklám - táknmyndir sem eru mjög oft notaðar.
1. Tengsl á milli kennara og nemenda.
2. Skólastelpupils
Þetta eru sterkustu táknmyndirnar varðandi barnaklámið. Þar að auki er myndin með sterkum kynferðislegum undirtón - í myndbirtingu stelpnanna - og kennarinn verður ansi spenntur þegar þær eru búnar að taka sig til og komnar upp á borð að dansa. Stelpurnar eru þarna í hlutverki tálkvendisins - og það hefði ég haldið að væri ljóst öllum!
Ég skil annars hvað þú meinar með að vera ekki að lesa of mikið inn í allar myndir. Get tekið undir það með sumar myndir - en ekki þessa hjá Kennó því þar eru táknmyndirnar svo sterkar og skýrar. Hef sýnt nokkrum sem ég þekki plakatið og miðann og það er samdómaálit að þetta sé ekki viðeigandi fyrir þennan hóp.
Það er slæmt þegar hópur tekur sig til og predikar annarra manna boðskap - vegna þess að það veit ekki betur. Það má segja að Kennó plakatið sé þannig - ef gengið er út frá því að þau sjá ekki vísanirnar, þekki þær ekki og ætli sér ekki að senda þau skilaboð sem myndirnar sýna. Þá eru þau orðin að sendiboðum skilaboða sem þau ekki skilja - en taka samt þátt í að breiða út og normalisera.
Tek því þannig fyrst þú hamrar svona mikið á því að ég þurfi að sjá miðann að plakatið eitt og sér sé ekki vandamál. Eða hvað? Ég get að sjálfsögðu ekki dæmt um það hvort plakatið og miðinn í samhengi séu klámfengin.
Nú er ég kannski enginn sérfræðingur í klámi en skólastelpu pils? Er þetta pils algengt í svoleiðis klámi? Ég hefði allavega aldrei kveikt á því eða getað á nokkurn hátt tengt það við klám vegna þess að ég hef ekki séð klám sem er svona. Ég er ekki að segja að ég hafi aldrei séð klám eða eitthvað þannig. Var meira segja bara þónokkuð áhugasamur á yngri árum :) En ég man ómögulega eftir að hafa séð þetta í klámi.
Ef ég væri beðinn um skilgreiningu á pilsinu í samhengi við stúlkuna myndi ég segja að mér þætti þetta svona frekar klappstýrulegt án þess að geta rökstutt það nokkuð frekar. En ég hefði líklegast ekkert spáð í það nema ég væri beðinn um það. En kannski hef ég bara ekki séð "rétta" klámið :)
Kannski maður þurfi bara að fara sökkva sér í klámið til að geta verið með á nótunum í þessari klámvæðingaumræðu?
Reyndar fór ég fyrst upp í Kennó til að skoða eingöngu plakatið og skrifaði þessa grein eftir að hafa séð eingöngu plakatið. Það er heill hellingur af táknmyndum í plakatinu. Miðann sá ég svo 2 dögum seinna en hann er í raun framhaldssaga - þ.e. næsta skref og styður allar þær hugmyndir sem ég las út úr plakatinu. Á miðanum eru stelpurnar komnar upp á kennaraborðið að dansa. Önnur að lyfta pilsinu upp svo hér um bil sést í rassinn. Hin er í stellingu sem ég held að sé kölluð brjóstaskot á "fagmáli!" Kennarinn er allur að hressast og þessi aðferð stúlknanna greinilega að virka.
Skólastelpupilsið er mjög algengt í kláminu - því miður. Til er myndaþáttur í Bleiku og bláu sem kom út fyrir nokkrum árum þar sem íslenskar stelpur eru íklæddar þessum búningi. Til eru klámblöð þar sem konur klæðast alls konar barnalegum hlutum eða eru í barnalegum aðstæðum og internetið er fullt af þessum vibba. Á klámsíðum þar sem hægt er að skoða ýmsa flokka er ekki óalgengt að einn flokkurinn heiti schoolgirls. Leikur með barnaklám og tilvísanir í það eru því mjög algengar.
Þó ég mæli ekkert sérstaklega með því að fólk helli sér í klámið til að sjá tenginguna yfir í klámvæðingu samtímans þá er ég samt hlynnt því að fólk spái í og þekki táknmyndirnar og merkin - til þess einmitt að geta hafnað þessu flóði yfir í dags daglegt líf og normaliseringu.
Skrifa ummæli