Fyrrum JC félagi minn Gunnar Jónatansson kom á mjög áhugaverð og góðu verkefni sem miðar að því að virkja frumkvöðlagenið í framhaldsskólanemum með því að kenna þeim að koma viðskiptahugmynd í framkvæmd. Þó nokkur öflug fyrirtæki hafa styrkt verkefnið. Ég fylgist alltaf með fréttum af verkefninu af því mér finnst þetta spennandi. Nú síðast vann hópur sem ætlar að selja mjús, drykk sem er sambland af mysu og appelsínusafa! Alvöru nýsköpun það :)
Hins vegar var ég ekki alveg jafnsátt við val dómnefndar á frumlegustu hugmyndinni. Það var hópur sem ætlar að dreifa nestisboxum með auglýsingum á til krakka í 1., 2. og 3. bekk grunnskóla. 6, 7 og 8 ára börn eiga sem sagt að fá auglýsingamerktan varning. Mér finnst þetta eiginlega sýna hvað dómnefndin er úr takt við þau siðferðislegu álitamál sem eru hvað heitust í umræðunni núna - nefnilega markaðssetningu til barna og unglinga. Í dag er t.d. frétt á bls 2 í Fréttablaðinu um að talsmaður neytenda og umboðsmaður barna ætla að taka höndum saman og skoða markaðssókn gegn börnum. Umræðan hér á landi hefur reyndar mest snúist um markaðssókn hvað varðar óholla matvöru en t.d. í Bandaríkjunum er einnig mikið talað um auglýsingaáreiti, og þá sérstaklega í skólum, sem beint er til barna og foreldrar hafa ekkert val um - ef barnið fer í skóla þá skal það taka við auglýsingaflóðinu!
Mörkin eru alltaf færð til með því að fara eitt lítið skref í einu - og á tíðum nægjanlega lítið skref til að þau sem fá ónotatilfinningu í magann og vilja mótmæla þegja vegna þess að þau vita að þau verða stimpluð sem nöldurskjóður og fá að heyra að það taki því ekki að agnúast út í svona smáræði... en viti menn? Þetta er bara fyrsta skrefið. Nú er komin hefð... sem þýðir að við erum komin með grundvöll fyrir næsta skrefi og svo því næsta! Að lokum er of seint að bakka því umfangið er orðið óviðráðanlegt. Þetta á við um auglýsingar til barna í skólum. Skólinn á ekki að dreifa auglýsingum til barna.
Fyrir nokkrum vikum fór ég á mjög áhugaverða ráðstefnu sem fjallaði um markaðssetningu til barna og unglinga. Þar kom fram mikið af upplýsingum sem lúta að þessu - til dæmis um auglýsingalæsi barna - hvenær eru þau farin að átta sig á því að auglýsingar til þeirra er bara pjúra bisness? Ekki þegar þau eru 6, 7 og 8 ára!
7 ummæli:
Hæ Kata.
Þar sem ég á tvö börn á þessum aldri þá hittir þetta beint í mark. Hvar er sagt frá þessum hugmyndum og hvar er hægt að nöldra?
Spörri
Hæ Spörri og til hamingju með öll afmælin! :)
Þú getur lesið frétt um hitt málið t.d. á heimasíðu Glitnis. Hér er slóðin:
http://www.glitnir.is/UmGlitni/Frettir/?GroupId=1&ItemId=542
Þar má m.a. lesa:
"Í dómnefnd voru Bjarni Bærings frá Actavis, Hildur Kristmundsdóttir, útibússtjóri Glitnis á Seltjarnarnesi, og Lára Jóhannesdóttir, stjórnarformaður JA - Ungra frumkvöðla og gæðastjóri hjá Sjóvá."
Tek enn og aftur fram að mér finnst þetta mjög flott verkefni - dómnefndin bara aðeins út úr kú...
Meira að segja ég er sammála þér að það sé of mikið gert af því að auglýsingar séu ætlaðar börnum. Mér finnst það ódýr hugmyndafræði að fara bakdyramegin að kúnnanum (foredrinu).
Gott að við erum sammála um eitthvað!!! :)
Mikið fannst mér bankarnir almennilegir, já og bara virkilega gjafmildir og vinalegir, þegar ég var 12 ára og þeir voru allir ólmir í að gefa mér fílófax. Markaðssetning var það síðasta sem mér datt í hug og þó var ég þarna helmingi eldri en sum börnin sem eiga að fá nestisboxin... Sama hugsaði 11 ára bróðir minn þegar hann bauð mér í bíó í boði Glitnis, litli bróðir er hamingjusamur viðskiptavinur.
Mér finnst það ansi lúaleg aðferð hjá fyrirtækjum að reyna að höfða beint til barnanna sem skilja ekki baun og eru bara kát með gjafirnar sem þau fá.
Já, þetta er bara lowest of the low.
Ég hnaut líka um þetta. Man þegar "síminn" kynnti nýtt lógó á hátíð í Smáralind /líklega 2 ár síðan) og "bauð" uppá andlitsmálningu fyrir börn. Það var sumsé að mála nýja lógóið framaní þau!!! Dööööhhhh
Skrifa ummæli