fimmtudagur, apríl 27, 2006

Orðaleikur

Það er hægt að snúa hlutum á marga vegu og fá mismunandi niðurstöðu. Til dæmis er oft talað um fasisma í kringum umræðu um valfrelsi. Hitt er kallað umburðarlyndi - að hafa ekki skoðun á neinu og láta allt yfir sig ganga. Einnig er vinsælt að tala um boð og bönn í ýmsu samhengi - en það eru alltaf bara bönninn sem eru neikvæð en ekki boðin. Í magadansumræðunni er til dæmis fullt of boðum. Þú átt að sætta þig við magadans sem skemmtiatriði alls staðar - annars eru á móti dansinum og fólkinu sem hann stundar. Þú átt að vera umburðarlynd fyrir þeim sem vilja sjá dansinn á árshátíðum, afmælum, flokksþingum og aðalfundum - í blönduðum hópi karla og kvenna. Þú átt að aðskilja magadansinn frá restinni af klámvæðingunni af því að til er fólk sem nýtur þess að horfa á dansinn í blönduðum hópum á skemmtunum. Mér finnst það ekki skortur á umburðarlyndi að samþykkja magadansinn á sumum stöðum en hafna honum á öðrum. Það finnst mér vera valfrelsi. Að skella umdeildum hlut inn í hversdagslegar athafnir virkar hins vegar sem uppátroðsla - það er boð í sinni tærustu mynd. Þú átt...

Ein líkti þessu við fermingar - hún fer í fermingar þó hún sé á móti kirkjunni. Í sjálfu sér er það ágætis samlíking. Fermingin hefur sitt rými og þar af leiðandi er valfrelsi í kringum fermingar. Það er auðvelt að sýna umburðarlyndi í kringum fermingar - því þar er svo sannarlega val (nema kannski í pakkastússinu í kring - en það er nú önnur saga). Aftur á móti gætum við sett spurningamerki við hvort það væri val ef ferming væri gerð að skemmtiatriði á árshátíðum, fertugsafmælum, flokksþingum og aðalfundi Femínistafélagsins. En kannski er það bara þannig - þú átt!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá hvað ég væri til í að taka slaginn núna og koma minni skoðun uppá þig. Hef samt farið í þessa umræðu við þig og því engin þörf á rematch. Hef prófað að koma með öll mín "eye opening" rök án árangurs:) Þannig að ég sit hjá núna.

katrín anna sagði...

Believe me - það væri jafn árangurslaust núna! :-0

Unknown sagði...

Ég get ómögulega séð magadans sem hluta af klámvæðingu. Maginn á dansmeyjunum sést jú, sem og handleggir og bringa. Þær eru í síðum pilsum og brjóstahaldara. Er það klám?

Er það þá líka hluti af klámvæðingu þegar karlkyns ballettdansarar eru berir að ofan eða þegar karlmenn í fótboltaleik rífa sig úr skyrtunni?

Mér finnst skipta máli að draga mörk á milli baráttu gegn klámvæðingu og púritanisma eða hræðslu við nekt. Var einmitt að horfa á magadans í gær (og hef sjálf farið í magadanstíma) og get ómögulega séð klámvæðinguna í því. :)

katrín anna sagði...

Klám og klámvæðing eru tveir mismunandi hlutir. Það er enginn að tala um magadansinn sem klám... enda væri það fráleitt. Það þarf kannski að spá aðeins betur í skilgreiningarnar. Það er heldur enginn að tala á móti magadansi eða fordæma dansinn sjálfan. Það er aðeins verið að benda á að hann er tilvalið fórnarlamb klámvæðingarinnar ef ekki er passað upp á hann. Eins að hann á ekki heima alls staðar og fólk þarf að geta valið sig frá.

Dæmi um klámvæðingu - MUU auglýsingarnar - ekkert klám í þeim en slatti af klámvæðingu.