þriðjudagur, júní 20, 2006

Afrekaskrá: 3 kökur og 1 brauð

Málum bæinn bleikan tókst ljómandi vel í gær :) Alltaf gaman þegar vel tekst til. Taldi saman að ég fór í 11 viðtöl í gær - og þá eru ekki meðtaldar afhendingar á Bleika steininum, en sjálf sá ég þó bara um að afhenda 1. Þetta er fullmikið af hinu góða þó það sé kannski ágætt að klára þetta bara af á einum degi og vera þá búin með kvótann - eða næstum því. Fer í Ísland í bítið í fyrramálið að tala um afskurð af fúsum og frjálsum vilja.

Stóð svo við það sem ég lofaði í Fréttablaðinu - bakaði 3 kökur og 1 brauð handa mínum heittelskaða í tilefni dagsins. Hann átti það nú líka alveg skilið... svona einu sinni. ;)

Málsháttur dagsins: Oft veltir lítil þúfa þungum steini.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afskurður? Nú er netvandamál hjá mér og allt gerist á hraða snigilsins hjá mér í tölvunni. Þarf að kíkja á þetta á visi þegar allt kemst í lag. En bara svona þangað til, hvað er afskurður af fúsum og frjálsum vilja?

katrín anna sagði...

Afskurður er nýtt nafn á umskurði. Afskurður er mun meira lýsandi orð því það er verið að skera af - en ekki um. Nú eru íslenskar konur byrjaðar að taka upp á því að fara í afskurð - allt í nafni hins fúsa og frjálsa vilja. Afskurður hjá íslenskum konum felst í ferð til "fegrunarlækna" (sárlega vantar nýyrði fyrir þessa starfsstétt) sem skera af hluta af skapabörmunum. Sem sagt afskurður af fúsum og frjálsum vilja.

Nafnlaus sagði...

Veistu Katrín að ég er bara hjartanlega sammála því sem ég heyrði í Ísland í bítið. Ég eiginlega skil ekki þessa fegrunaraðgerð. Ég skil alveg hinar fegrunaraðgerðirnar t.d brjóstastækkun og það (skil en samþyggi ekkert endilega). Þessa bara skil ég ekki. Vantaði eiginlega svolítið einhvern á móti þér sem er fylgjandi þessu. Mér finnst ég bara ekki alveg skilja af hverju stelpur gera þetta.

Nú skil ég alveg af hverju það er verið að ræða um umskurð kvenna, en ef það á að myndast einhver umræða um þetta fyndist mér að hún ætti ekki að vera um umskurð kvenna heldur umskurð. Nú er ég að heyra af fleirri og fleirri strákum sem ég kannast við sem eru búnir að láta umskera sig og þetta þykir bara mjög inn hjá strákum í dag. Miðað við það sem ég heyri þá hljóta að vera gerðar fleirri hundruð aðgerða á ári. En það sem mér finnst skrýtnast af öllu er að þetta er rætt bara eins og að ekkert sé eðlilegra.

En ég er ekkert að skamma þig fyrir að hafa bara rætt bara um umskurð kvenna. Þetta er nýtt og þess vegna rætt á þeim forsendum og allt gott um það að segja.

Ég hvet ykkur til að taka þessa umræðu með trompi. Væri ekki sniðugt ef feministar færu að taka þátt í kynfræðslu í skólum landsins?

katrín anna sagði...

Jú það væri mjög sniðugt að femínistar kæmu að kynfræðslu. Femínisminn hefur allt til að bera í það - mikla áherslu á kynfrelsi, samþykki á alls konar kynhneigðum og meðvitund um alla þá kúgun, hlutgervingu og misnotkun sem fylgir kláminu/hlutgervingunni og því um líku...

Geturðu sagt mér eitthvað fleira um umskurð karla? Það er búin að vera umræða um þetta á póstlistanum en enginn hefur hingað til minnst á að verið væri að gera þessar aðgerðir hér á landi. Veistu af hverju strákarnir eru að gera þetta hér? Er þetta af trúarástæðum, hreinlætisástæðum, "meira næmi" ástæðum, tískubylgja eða hvaða rök eru notuð?

Nafnlaus sagði...

Jú þetta er gert hérna á íslandi í stórum stíl. Sumt af þessum aðgerðum eru gerðar af nauðsyn eins og ef forhúðin er of þröng eða vegna sýkinga. Ég veit ekki alveg hvort þú þurfir einhverja "afsökun" til að aðgerðin sé heimiluð. En það er engin leið fyrir lækni að komast að því hvort forhúðin veldur óþægindum.

Ég hef frétt af strákum sem hafa farið á Domus Medica til að láta gera þessa aðgerð og svo einnig í læknasetrinu Ármúla (held ég að þetta heiti). Þetta með næmnina er held ég ekki ástæða þar sem það er vitað að þetta dregur úr næmni en ekki öfugt. Ég veit ekki hvort strákar séu að gera þetta vegna hreynlætisástæðna. Það eru skiptar skoðanir um hvort þessi aðgerð auki hreynlæti. Allavega finnst mér aðgerðin vera full veigamikil til að sú sé aðalástæðan. Ég get samt útilokað trúarástæður í þeim tilfellum sem ég hef heyrt af.

Þar sem strákar eru ófeimnir við að opinbera það að þeir séu umskornir held ég að þetta sé útlitsaðgerð fyrst og fremst.
Ég eins og þú held að þetta sé afleiðing klámvæðingarinnar. Það er ljóst að það eru lang flestir karlar í klámiðnaðinum sem eru umskornir.

katrín anna sagði...

Þú segir fréttir... Endilega keep me posted ef þú fréttir eitthvað meira um þetta. Ég er líka mjög forvitin að vita ástæðurnar. Erlendis hélt ég nefnilega að þetta væru fyrst og fremst trúarástæður sem réðu för en er einmitt eins og þú nokkuð sannfærð um að slíkt sé ekki ástæðan hér á landi - bæði sökum trúleysis landans og vegna þess að þetta fylgir ekki lútherstrúnni.