föstudagur, júní 16, 2006

Framtíðarlandið

Þetta er málið á morgun - hægt að skrá sig sem stofnfélaga á www.framtidarlandid.is. Ég er búin að því... :)

Félag um framtíð Íslands stofnað 17. júní

Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands, verður stofnað í Austurbæ 17. júní kl.12.00.

Frumkvæðið að stofnun félagsins kemur frá fólki af ólíkum sviðum þjóðlífsins sem telur að nú sé þörf á afli sem getur komið sterkt inn í umræðuna, upplýst, gagnrýnt og varpað fram nýjum hugmyndum – vettvangi til að hafa áhrif á framtíðarmynd Íslands sem liggur nú á teikniborðinu.

Félagið verður þverpólitískt, með víðtækri þátttöku frumkvöðla, fræðimanna, viðskiptafólks, listamanna og fólks af öllum sviðum atvinnulífsins, félag sem getur þrýst á stjórnvöld með kraftmiklum hætti.

Undanfarin ár hefur Ísland stefnt eins og eftir sjálfstýringu í eina átt þar sem farsæld og fjölbreytni í atvinnulífi hefur verið sett til hliðar fyrir einhæfa stóriðju, þenslu og óþarfa eyðileggingu náttúruverðmæta. Með samtakamætti getum við haft raunveruleg áhrif svo sveigt sé af rangri leið áður en tekist hefur að mála okkur út í horn og ræna okkur um leið þeim ótal spennandi kostum sem eðlilegt væri að stæðu til boða.

Við viljum virkja allt það jákvæða fólk sem vill að Ísland verði mannvænt, vistvænt, skapandi og skemmtileg land. Við viljum verða vettvangur fyrir alla sem eru í vafa um að framtíðaráform stjórnvalda séu landi og þjóð fyrir bestu, hvort sem það eru þeir sem vilja standa vörð um náttúruna, þeir sem hafa menntað sig og langar að starfa hér, þeir sem hafa starfað í sveltum atvinnugreinum, þeir sem eru með snjalla viðskiptahugmynd eða bara þeir sem voru að vakna upp við vondan draum. Fyrir alla sem eiga sér draum.


Fundurinn mun standa tæpa klukkustund og þar munu tala þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir, doktor í grasafræði, Reynir Harðarson deildarstjóri hjá CCP, Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarkona og ferðafrömuður auk leikkvennanna Maríu Ellingsen og Margrétar Vilhjálmsdóttur sem kynna dagskrána.

Engin ummæli: