þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Málefni Álgerðar

Mál Valgerðar Sverrisdóttur hefur valdið mér nokkrum heilabrotum. Hegðun hennar í sambandi við skýrslu Gríms Björnssonar er í engu samræmi við hennar ábyrgð. Auðvitað átti hún að leggja skýrsluna fyrir þingið. Það er allt of ódýrt að segja að niðurstöður hans hafi verið hraktar á fundi með hagsmunaaðilum og því hafi skýrslan ekki komið málinu við. Við fáum víst aldrei að vita hvort að niðurstaðan varðandi Káranhnjúkavirkjun hefði orðið öðruvísi hefðu þingmenn fengið að sjá skýrsluna og efasemdirnar um Kárahnjúkavirkjun áður en þeir greiddu atvkæði með virkuninni. Það er auðvelt að detta ofan í "hvað ef..." og láta sig dreyma.

Í raun finnst mér afglöp hennar það alvarleg að það er ástæða til að íhuga að hún segi af sér. En - og það er alltaf en. Halldór og Dabbi brutu líka gróflega af sér þegar þeir samþykktu Íraksstríðið. Ekki þurftu þeir að segja af sér. Árni Magnússon braut líka af sér. Ekki þurfti hann að segja af sér. Hann hætti að vísu - en af allt öðrum ástæðum. Björn Bjarnason hefur brotið lög. Ekki hefur hann sagt af sér. Valgerður braut ekki lög - en brást trausti og hélt aftur af upplýsingum sem hefðu getað haft úrslitaáhrif. Og þá kemur kynið við sögu. Fyrst karlarnir þurfa ekki að segja af sér, sama hvað þeir gera af sér, af hverju á konan þá að segja af sér? Það er þekkt í gegnum tíðina að konur í stjórnmálum eru dæmdar harðar en karlar og þurfa að segja af sér fyrir minni sakir. Þess vegna hiksta ég á Valgerðar málinu. Tel að þetta sé alveg afsagnarsök - en ekki sú fyrsta í þessari stjórn og þar sem hin afglöpin leiddu ekki til afsagnar finnst mér óhæft að konan sé látin fjúka. Afsökunarbeiðni finnst mér líka of mátlaus. Sem málamiðlun væri ég sátt við að frestað yrði að hleypa vatni á lónið þar til óháðir sérfræðingar hafi gert áhættumat - og að stjórnarandstaðan fái að velja hvaða sérfræðingar eru óháðir... Segir sig svo kannski sjálft en ég stóla líka á að Dóri, Valgerður og Björn Bjarna bjóði sig ekki fram í vor!

mánudagur, ágúst 28, 2006

Rockstar

Eins og örugglega allir vita þá gengur t-póstur til styrktar Magna í Rockstar eins og eldur um sinu um netið. Þar er fólk hvatt til að vakna fyrr og kjósa, t.d. þau sem vakna kl. 7 gætu allt eins vel vaknað aðeins fyrr og kosið af fullum krafti. Í fyrstu útgáfu póstsins var sagt að kosningin endaði kl. 7 og fólk hvatt til að vakna hálftíma fyrr. Þetta var bara bölvuð vitleysa því kosningin endar kl. 5:50 og því þörf á að vakna dálítið mikið fyrr en venjulega. Þetta hefur þó greinilega verið lagað í seinni póstum.

Annars varð ég fyrir verulegum vonbrigðum þegar Supernova debutaði með Dilönu. Fyrir það fyrsta þá var lagið ekkert til að hrópa húrra fyrir og fyrir það næsta þá eru miðaldra kk rokkarar sem "skreyta" sig með ungum hálfberum kvk dönsurum fátt annað en pathetic... Dilana aftur á móti var dúndurflott eins og alltaf :) Ég eiginlega vona að öll sem mér finnst varið í lendi í öðru sæti... líka Magni. Fagmennskan hefur fengið á víkja líka á fleiri sviðum. Til er hljómsveitin Supernova sem nú stendur í ströngu við að fá að halda nafninu sínu...

En hér er pósturinn:
**********
Sæl veriði

Málið er að nú er strákurinn "okkar" búin að vera 2 vikur í röð í einu af 3 neðstu sætunum þrátt fyrir frábæra frammistöðu, og það eru afar miklar líkur á því að verði hann þar 3ju vikuna sé þetta búið hjá honum. Við viljum öll hjálpa honum að komast lengra, helst í úrslitaþáttinn 13. sept. Til að minnka líkurnar á því að hann verði sendur heim í næstu viku, verða allir þeir sem finnst "alveg frábært hvað honum gengur vel" en hafa aldrei gefið honum atkvæði sitt að taka á sig rögg og kjósa hann. Atkvæðagreiðslan fer fram aðfaranótt miðvikudaga á milli klukkan 02 - 06 um morguninn. Næst verður kosið aðfaranótt 30. ágúst .

Nú er ekki hægt að búast við að fólk almennt vaki alla nóttina til að kjósa hann, en þeir sem á annaðborð vakna um 7 leitið til að fara í vinnu eða skóla, gætu, án þess að leggja mikið á sig, vaknað aðeins fyrr, sest við tölvuna sína, á tæknilandinu Íslandi eru allflestir með tölvu og nettengingu, og kosið á - http://rockstar.msn.com/ - þar er hægt að kjósa eins oft og maður hefur úthald til og kostar ekki neitt.

Sérðu í anda íþróttaáhugamenn, sem hefðu tækifæri til að hjálpa landsliðinu í handbolta t.d. sleppa þvílíku tækifæri til að hjálpa þeim áleiðis !!!!!!!!! Nú erum við Íslendingar vön að styðja heilshugar við bakið á okkar fólki sem er að gera það gott á alþjóðavettvangi - svo gott fólk - brettið upp ermar og hjálpið Magna til að komast í úrslitaþáttinn , nú ef það tekst ekki getum við ekki sagt að við höfum ekki reynt !!!!!!!!!!!!

Með baráttukveðjum
Magna aðdáandi

Einu sinni var

Við höfum nú lokið við að mála alla gluggana á húsinu að utan!!! Tekið er á móti hamingjuóskum í kommentakerfinu. Einn girðingarstaur er líka orðinn fallega mahónílitaður og þá er bara restin eftir - og þakkannturinn. Gaman gaman :)

Annars held ég að fríið mitt sé búið þó ég sé í fríi til 1. sept. Note to self - fara fyrr í frí.... Við erum samt búin að hafa það fínt. Fórum í sumarbústað í Munaðarnesi (þar sem ég náði í kvef. Fórum líka í bústað í Kjósinni. Það var ansi ljúft. Ákváðum að gerast dugleg síðasta daginn og slógum grasið. Kipptum svo grindinni úr grillinu með heim til að þrífa hana. Það vakti mikla hrifningu hjá litla bróður helgina á eftir þegar hann fór í bústaðinn með alla fjölskylduna og uppgötvaði um kvöldmatarleitið að það var engin grind í grillinu.... En þá vorum við komin í gott yfirlæti út í Hrísey þar sem var stjanað þvílíkt við okkur að ég er orðin ennþá meira dekurdýr en ég var - og mátti nú eiginlega ekki við því. Í Hrísey var þvílík bongóblíða að við nenntum eiginlega ekki að gera neitt. Fórum í göngutúra á kvöldin þegar hitastigið var orðið hæfilegt. Skelltum okkur einu sinni á sjóinn. Veiddum ekkert en ég afrekaði að búa til stærsta marblett sem ég hef á ævinni fengið. Hann er mjög fallegur á litinn. Í Hrísey fengum við sólþurrkaðan saltfisk, heimatilbúinn. Þvílíkt góðgæti. Besti saltfiskur sem ég hef fengið og ekki spillir fyrir að við vorum aðeins með puttana í sólþurrkuninni.

Hríseyarferðirnar eru alltaf fyrirtaks jarðtenging. Þar fáum við tengingu við söguna og lífið í gamla daga. Þá föttum við (eina ferðina enn) hvað það er ótrúlega stutt síðan allt var öðruvísi. Einhvern veginn er til dæmis erfitt að ímynda sér hvernig lífið var áður en klósett komu til sögunnar... En það er víst ekki svo langt síðan. Við erum strax byrjuð að hlakka til að fara aftur næsta sumar :)

Chippendales og viðbrögðin

Ákvað að birta hérna pistilinn sem ég skrifaði um komu Chippendales. Hann birtist í Viðskiptablaðinu þann 9. ágúst. Verð að viðurkenna að ég fæ pínkulítið kikk út úr því hvað ég var sannspá um viðbrögð við komu þeirra - og hvernig Chippendales verða fyrirmyndar fulltrúar feðraveldisins. Dregur dálítið úr kikkinu að það var eiginlega algjör "no brainer..." Ef þú vilt sönnun, lestu þá endilega líka þessa pistla:

Ekki sama hvort um Jónu eða Jón er að ræða? eftir Ingunni Guðbrandsdóttur á Deiglunni.

Einn og hálfur tími af hreinum unaði... eftir Hauk Skúlason á Tíkinni.

Fullkomnustu folar heims á Íslandi eftir Erlu Margréti Gunnarsdóttur á heimasíðu Heimdallar.

Hérna kemur svo pistillinn minn:

Jafnrétti á fölskum forsendum
Að horfa á karlmennina í Chippendales strippa er betra en kynlíf. Þessu er haldið fram fullum fetum í frétt sem birtist á visir.is í síðustu viku. Margt fleira áhugavert er hægt að lesa í sömu frétt. Laura Bush, forsetafrú Bandaríkjanna, fór til að mynda á sýningu folanna í Las Vegas á dögunum og svo virðist sem sýningin sé fyrirtaks hjónabandsmarkaður því 11 dansarar úr Chippendales hafa gifst konum sem voru á sýningu hjá þeim. Það ber að taka fram að samkvæmt fréttinni eru ekki neinir aukvisar hér á ferð heldur fullkomnustu karlmenn í heimi.

Folar en ekki menn
Tilefnið af ofangreindum fréttaflutningi er að Chippendales munu halda sýningu á Íslandi nú í ágúst. Ef eitthvað er að marka fréttirnar er um þvílíka himnasendingu að ræða fyrir íslenskar konur, eða hvað? Áhugavert er að bera saman orðræðuna í kringum komu Chippendales við nektarsýningar kvenna. Með hástemmdum lýsingarorðum um ágæti á strippsýningu karla fá margir kærkomin mótrök í umræðuna um súlustaði. Nú er hægt að benda á fréttina á visir.is og segja að karlmenn séu hlutgerðir, um þá sé talað sem fola en ekki menn, þeir séu hér í þeim eina tilgangi að fullnægja kynferðislegum löngunum kvenna og þar fram eftir götum. Nú er ég ekki ein af þeim sem gleðst yfir komu Chippendales heldur þvert á móti því ég tel að jafnrétti felist ekki í því að koma öllum í jafnslæma stöðu. Ég lít samt sem áður ekki á komu Chippendales sömu augum og þann iðnað sem byggir á sölu kvenna.

Auga fyrir auga
Í augum sumra snýst jafnrétti um kynblindu en í raun verður kynblinda á tíðum til þess að misréttið nær að þrífast vegna þess að mismunandi staða kynjanna í þjóðfélaginu er ekki tekin með í myndina. Í því ljósi er vert að skoða orðræðuna í kringum komu Chippendales. Borgaryfirvöld hafa sett alls kyns reglur til að koma í veg fyrir súlustaði í miðbænum. Einkadans er bannaður samkvæmt lögreglusamþykkt og ekki á að veita nýjum stöðum vínveitingarleyfi. Þetta er þverbrotið og nú spretta súlustaðir upp eins og gorkúlur í miðborginni. Á sama tíma eru Chippendales fluttir til landsins undir því yfirskyni að skemmta konum landsins. Aðstandendur sýningarinnar eru ekki af verri endanum en það eru Sena, Vífilfell (Viking Light) og útvarpsstöðin Létt Bylgjan. Sýningin er auglýst í sjónvarpinu og eflaust verður reynt að kynda undir stemninguna með margvíslegum hætti. Chippendales sýningin verður að félagslegum viðburði kvenna til að standa upp á stólum og öskra í tilraun til að ná fram örlitlu jafnrétti með að gera karlmönnum það sem karlar hafa gert konum í gegnum tíðina. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn og því skal stemningin vera sýnileg. Ferðir karlmanna á súlustaði eru hins vegar einkaathöfn framin í skjóli ósýnileika. Viðskiptavinir súlustaða sjást aldrei í umræðunni. Fréttamenn dirfast ekki að sýna karlkyns kúnnann því hann skal njóta friðhelgi og nafnleyndar.

Hjónabandsmarkaður eða strippsýning?
Umgjörðin í kringum sýningu Chippendales ber keim af hefðbundnum hlutverkum og valdatengslum kynjanna. Greinilega er ekki gert ráð fyrir því að konur fái sérstaka ánægju út úr því að stunda kynlíf og aðstandendur og fréttamenn því ekki feimnir við að skella því fram að sýningin sé betri en kynlíf. Einnig er hjónabandi blandað inn í sýninguna og bent á að nokkrir karlanna hafi gifst konum sem þeir hittu á sýningunni. Ekki verður betur séð en þarna eigi að höfða til þeirrar mýtu að æðsti draumur hverrar konu sé að giftast og lifa hamingjusöm til æviloka með hinum eina sanna draumaprinsi. Chippendales dönsurunum er síðan lýst sem fullkomnustu karlmönnum í heimi, kannski til að undirstrika að hver kona geti verið stolt af að kynna einn slíkan fyrir mömmu og pabba sem tilvonandi eiginmann?

Leið til að viðhalda völdum
Koma Chippendales merkir þrennt í mínum huga. Í fyrsta lagi munu þeir verða notaðir sem afsökun feðraveldisins til að viðhalda þeirri kúgun sem konur verða fyrir í gegnum kynlífsiðnaðinn. Í öðru lagi verða þeir notaðir til að ýta undir þá þróun að gera karlmenn í auknum mæli að neysluvöru sem hægt er að græða peninga á að selja aðgang að. Í þriðja lagi geta þeir hugsanlega opnað augu einhverra karlmanna fyrir því hvers vegna það er skaðlegt mannlegu samfélagi að koma fram við fólk sem markaðsvörur en ekki manneskjur og að gera kynlíf að neysluvöru. Í öllu falli er ljóst að koma Chippendales er ekki tengd raunverulegri jafnréttisbaráttu heldur öllu frekar feðraveldi sem veit að það verður að þykjast vilja jafnrétti konum til handa. Leiðin sem feðraveldið velur til að viðhalda völdum sínum er að slá ryki í augu viðmælenda með því að ýta konum í þá átt að taka upp skaðlega hegðun karlaveldisins þótt vitað sé að sú hegðun sé á allt öðrum forsendum og með allt önnur valdatengsl en verslun karla með konur.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

For the record

Ég er femínistabelja og það verður að segjast eins og er að maðurinn minn er mjög óheppinn!

Málefnaleg gagnrýni?

Er ekki týpískt að fá kvef loksins þegar ég var komin út úr bænum??? Á degi nr. 1! Mæli ekki með því að sitja hálf upp úr heita pottinum ef hann er of heitur. Gæti þýtt að fólk þurfi að bruna aftur í bæinn í staðinn fyrir að fara út í Hrísey... en Hríseyjarferðin bíður betri tíma. Heilsan að skríða saman og allt í gúddí :)

Mæli með að allir kíki inn á bloggið hjá www.byltingarsinni.blogspot.com og horfi á videoið sem er þar. Alveg óborganlegt. Tær snilld.

Það virðist ekkert lát á fólki sem er mjög umhugað um að gera Femínistafélaginu upp skoðanir. Einn þeirra birtist sem gestapenni inn á www.tikin.is og heitir hann Haukur Skúlason. Því miður veit ég ekki hvernig ég get haft upp á Hauki til að leiðrétta þessa villu og svíma sem hann veður í... en greinina hans er að finna á: http://www.tikin.is/tikin/leitarnidurstodur/frettir/?cat_id=20827&ew_0_a_id=223973. Við Hauk er það helst að segja að áður en hans pistill birtist var ég búin að fara í viðtal um Chippendales á Rás 2, skrifa pistil um komu þeirra í Viðskiptablaðið, blogga um þá og skrifa inn á femínistapóstlistann. Allt sem Haukur skrifar um FÍ ætti því að dæma dautt og ómarktækt og setja spurningamerki við tilgang Hauks. Hvaða hagsmuni hefur hann af því að sverta orðspor FÍ og hvernig dettur honum í hug að gera slíkt án þess að kynna sér málið?

Hef tekið eftir því upp á síðkastið að það poppa upp af og til pistlar á tíkinni sem virðast skrifaðir í þeim eina tilgangi að rakka Femínistafélagið niður. Því miður er gagnrýnin sem birtist í pistlunum sjaldnast byggð á málefnalegum grunni heldur eru félaginu (og félagsfólki) gerðar upp skoðanir trekk í trekk. Mér finnst þessi þróun leiðinleg. Femínistafélagið er þverpólitísk samtök og því í raun óskiljanlegt hvers vegna hver hægri sinnaður einstaklingurinn á fætur öðrum telur það vera sitt hlutverk að stilla FÍ upp sem hverjum öðrum pólitískum andstæðingi. Á þessu eru þó ánægjulegar undantekningar, sem betur fer, t.d. heyrði ég Hönnu Birnu tala vel um Femínistafélagið í viðtali um daginn :) en ég man ekki eftir að hafa séð fjallað á jákvæðum nótum um FÍ á tíkinni. Mér detta þó í hug mörg atvik þar sem það hefði verið vel við hæfi - til dæmis allar aðgerðir FÍ sem miða að því að fá markaðinn til að virka með því að gera hann gagnvirkan á milli neytenda og fyrirtækja. Frelsið og frjálshyggjan eiga töluvert mikið undir því að geta komið á þessari gagnvirkri. Ég vona allavega að þau sem ákveða að skrifa neikvæða pistla um FÍ ákveði að kynna sér málin fyrirfram og grennslast fyrir um hvaða skoðanir við höfum áður en okkur eru gerðar upp skoðanir - sem við alls ekki höfum - og það notað til að sverta félagið. Málefnaleg gagnrýni er hins vegar velkomin - eða allaveg umborin ;)

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Mamma mín er femínisti... væri þetta víst í dag!

Andstaðan er efni Viðskiptablaðspistilsins að þessu sinni... Mjög áhugaverð stúdía og uppáhaldsmyndina mína sjáið þið hér!

mánudagur, ágúst 07, 2006

Fleiri gullkorn

Hér er eitt frá One Angry Girl:
“Ég er ekki femínisti, en...
Ég kann að meta réttinn til að aðstoða við að kjósa mína þjóðkjörnu fulltrúa. Ég nýt þess að geta valið um að vera í buxum eða stuttbuxum ef ég vill. Ég er ánægð með að mér var leyft að læra að lesa og skrifa. Það getur verið mjög hagkvæmt að stjórna hversu mörg börn ég vil eignast. Það er hrikalega gagnlegt að geta opnað bankareikning og eiga eignir á mínu nafni. Mér finnst gott að vita að eiginmaður minn eða kærasti hefur ekki lagalegan rétt til að lemja mig. Það er virkilega flott að eiga sjálf peningana sem ég vinn mér inn.”

Íslenskað af yours truly þar sem ég ætlaði að nota þetta í pistli en hætti svo við...

Hvað hefur femínismi ekki gert?


Sumir hitta beint í mark:
"Feminism has fought no wars. It has killed no opponents. It has set up no concentration camps, starved no enemies, practiced no cruelties. Its battles have been for education, for the vote, for better working conditions.. for safety on the streets... for child care, for social welfare...for rape crisis centers, women's refuges, reforms in the law."
(If someone says) 'Oh, I'm not a feminist,' (I ask) 'Why? What's your problem?'"

- Dale Spender, author of For the Record: The Making & Meaning of Feminist Knowledge, 1985

Gloria Steinem í The L-Word

Horfði á The L-Word í gærkvöldi. Mér skilst að þessir þættir séu ekki í uppáhaldi hjá lesbíum svona almennt, enda stútfullir af staðalímyndum og karllægum forsendum. Ég er á báðum áttum þegar kemur að þáttunum. Að hluta til er þetta stórt skref fram á við; sjónvarpsþáttur um lesbíur þar sem þeim leyfist að sýna hvor annarri blíðuhót. Á hinn bóginn gengur þátturinn fulllangt í ástarsenunum og minnir frekar á "lesbíuklám" sem er framleitt fyrir gagnkynhneigða karlmenn frekar en nokkuð annað. Þetta dregur töluvert úr þeim árangri sem þættirnir gætu annars hafa náð. Nokkurs konar eins og karlaveldið hafi gefið leyfi "já þið megið en bara ef það verður fullt af sætum stelpum að stunda kynlíf sem við getum dundað okkur við að horfa á.... Nennum auðvitað ekki að horfa á einhverjar lesbíur nema þær séu naktar að kyssa hvor aðra..."

Þess vegna varð ég svolítið hissa að sjá Gloriu Steinem í þættinum í gær. Hún lék sjálfa sig snilldarvel, að sjálfsögðu. Þegar leið á þáttinn kom kannski betur í ljós hvers vegna hún var þarna en það var sýnt frá henni í ræðustól - að blammera Bush... Aha pólitískur áróður beint í æð - greinilega femíníski vinkill þáttarins að skína í gegn þarna.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Kárahnjúkar

Það er afar áhugavert að fylgjast með fréttaflutningi af "mótmælum" við Kárahnjúka og umræðum á póstlista náttúrverndarsinna. Ég hitti til dæmis eina stelpu um daginn sem var að lýsa stemningunni upp á Kárahnjúkum þar sem allir voru voða jollý í gönguferðum um svæðið og í jóga og hugleiðslu þess á milli. Af fréttum að dæma eru þetta hins vegar stórhættulegt fólk, víkingasveitin í viðbragðsstöðu, löggan með auka mannafla og mikinn viðbúnað, beitir fólk harðræði við handtökur, lokar leiðum og gerir mat upptækan. Áhrif fjölmiðla sem fjórða valdsins koma berlega í ljós þegar fréttaflutningurinn er skoðaður því allt sem heitir einhver ólæti, viðbúnaður lögreglu og þess háttar er hypað upp og hitt er vart sýnilegt. Toppurinn kannski að segja að engir mótmælendur hafi verið á tónleikum Sigur Rósar... Ætli það hafi þá ekki bara allt verið starfsmenn Landsvirkjunar??? Eða hvað ætli fólkið hafi annars verið að gera á þessum slóðum í skipulögðum gönguferðum???

Skilaboðin eru allavega mjög einhliða - best fyrir þegnana að halda KJ og vera ekki að skipta sér of mikið af... þannig virkar lýðræðið best.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Í fríinu...

Er lítið í tölvunni þessa dagana - er komin í 50% frí og framkvæmdir á húsinu ofarlega á blaði. Fíni sófinn kominn í gagnið eftir að Húsgagnahöllinn sendi loksins mann á þriðjudaginn til að setja hann saman (ég byrjaði að hringja í þau á fimmtudeginum...). En sófinn er frábær og stendur fyrir sínu. Allt annað líf að horfa á sjónvarpið núna :) Gerði heiðarlega tilraun til að horfa á Rockstar í beinni í gærkvöldi. Það mistókst vegna bilunar í gervihnattasambandi við USA. En Magni virðist vera nokkuð safe með að vera ekki sendur heim á næstunni. Annars vorum við að tala um þetta í gærkvöldi í afmæli hjá litla bróður - er ekki hinn raunverulegi sigurveigari sá sem lendir í öðru sæti??? Vill einhver í alvörunni vera í hljómsveit með Tommy Lee?

Náðum að nýta sólardagana 2 til að mála megnið af gluggunum á húsinu. Enn eru eftir 5 litlir gluggar, hringglugginn og 2 stórir gluggar. Vona að það kom sól aftur fljótlega svo við getum klárað. Húsið hálf skondið í augnablikinu með mislitum gluggum! Svo er bara þakkannturinn eftir og að bera á útihurðarnar og þá er viðhaldið búið og framkvæmdir við áframhaldandi byggingu geta haldið áfram... :) Eins og segi alltaf - þetta er 10 ára plan.

Er að reyna að vera í fríi frá öllu öðru en það gengur illa. Allt of margt í gangi og ég vil auðvitað ekki missa af neinu :) Karlahópurinn á leið til Eyja með Nei átakið. Djö... standa þeir sig vel. Svo er auðvitað koma Chippendales sem vekur mikla athygli og umræðu. Svo er tekjublað Frjálsrar verslunar, aukin tekjumunur o.s.frv. o.s.frv. Af nógu að taka!

Svo vona ég að Betan fari að koma í bæinn. Hrikalegt að vera skilin eftir ein og yfirgefin í bænum í langan langan tíma! Sóley reyndar bjargaði málum með því að koma til landsins í júlí en nú er hún farin aftur :( Skil ekki af hverju fyrirmyndarfemínistarnir geti ekki bara verið alltaf á landinu - og í Reykjavík...