þriðjudagur, október 31, 2006

Í rétta skapinu

Er með hausverk og hann greinilega hefur þau áhrif á mig að ég er í skapi til að rífast. Nú er bara að velja rétta fightinginn.... ;)

Veit samt ekki hvað ég á að nenna að standa í miklu stappi á póstlistanum út af þeim "gjörningi" í LHÍ þegar þrír fullklæddir karlkynsnemendur á fyrsta ári tóku sig til og klipptu hár og skapahár af nakinni skólasystur hennar og enduðu svo með pompi og prakt á því að einn þeirra sprændi yfir hana. Rektor og aðrir sem málið er skylt vilja ekki tjá sig um málið!

mánudagur, október 30, 2006

Af frænkum og prófkjörum

Fór áðan inn í Íslendingabók til að athuga hvort hugsanlegt væri að 2 fyrirmyndarfemínistar væru frænkur mínar. Við uppgötvuðum nefnilega að við áttum sameiginlega frænku og því var smá von í gangi. Því miður þá eignaðist ég ekki 2 frábærar frænkur á einu bretti því við reyndumst ekki vera skyldari en Íslendingar svona almennt eru - þ.e. frá sautjánhundurð og súrkál. Ég hugga mig þó við að eiga þó aðra femínistafrænku og ákvað að stela smá af blogginu hennar í tilefni af prófkjörsúrslitum:

Ég tók upp vasareikninn minn um helgina og fór að reikna. Ekki fylgi
vinstriflokka á 19. öld eins og ég ætti að vera að gera skólalega séð heldur
gengi kvenna og karla í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rvk. um helgina.

7 karlar af þeim 11 sem buðu sig fram komust á topp 103 konur af þeim 7 sem buðu sig fram komust á topp 10Karlar sóttust að meðaltali eftir sæti nr. 4,4
Karlar komust að meðaltali í sæti nr.3,1Konur sóttust að meðaltali eftir sæti nr. 5,5.

Konur komust að meðaltali í sæti nr. 6,7.Svo má athuga hvaða lærdóm við getum dregið af þessu og gaukað að þeimkonum sem fara í prófkjör eftir 4 ár:

Til að fá jafn hlutfall karla og kvenna þurfa 11,6 konur að bjóða sig fram á móti 7,8 körlumKonurnar þyrftu að meðaltali að bjóða sig fram í 4. sæti en karlarnirí 7. sæti.

Muna það næst!

I've made up my mind...

Jæja. Ég hef alltaf verið á báðum áttum varðandi kynjakvóta en nú er ég búin að komast að afdráttarlausri niðurstöðu! Ég lít ennþá á kynjakvóta sem síðasta úrræði en eins og kynjakvóti er praktíseraður núna innan flokkana myndi ég frekar vilja sjá hann aflagðan. Af hverju? Jú, mér sýnist að kynjakvótinn í núverandi mynd sé að tryggja körlum áframhaldandi meirihluta á þingi. Ég heyrði smá brot úr Silfri Egils um helgina þar sem Einar Mar var í viðtali að tala um fylgi kynjanna við flokkana. Karlar styðja Sjálfstæðisflokkinn í meira mæli en konur og konur styðja frekar vinstri flokkana. Vinstri flokkarnir, þ.e. VG og Samfylkingin eru með nokkurs konar kynjakvóta í einhverri mynd. En... reyndin virðist sú að þar sem konur aðhyllast frekar þessa flokka er ofgnót af konum í framboði fyrir þessa flokka í sumum kjördæmum og á öðrum stöðum er kynjakvótinn ekki þannig að hann tryggi konum aðgang að þingi, sbr NV kjördæmið þar sem eingöngu er tryggt að bæði kyn séu í fyrstu 3 sætum listans - sem dugar skammt þegar konan sem situr á þingi hlýtur ekki kosningu nema í 3. sætið! Í öðrum flokkum gæti kynjakvótinn orðið til þess að mjög frambærilegar konur komist ekki að, þ.e. að þær þurfi að eftirláta sitt sæti til karla. Á meðan eru flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn ekki með kynjakvóta og þar eru karlarnir kosnir í miklum meirihluta. Þannig leiðir kynjakvótinn í raun til þess að konur komast aldrei í jafna stöðu á þingi.

Sem sagt - mín niðurstaða er sú að ef við ætlum að hafa kynjakvóta þá verða þeir að gilda yfir alla flokka og þingið í heild, ekki einstaka lista þar sem konur eru í meirihluta eða svo fá þingsæti að hann dugar ekki til neins þar sem karlar eru hvort eð er í efsta sætinu - sem er kannski eina sætið sem nær kosningu inn á þing!

sunnudagur, október 29, 2006

Haustþingið

Jæja.... ákvað af einhverri furðulegri ástæðu að ná mér í tveggja daga sjálfssköpuð veikindi og missa þar með af 2 merkisviðburðum sem mig langaði á. Sit núna og hlusta á beina útsendingu frá haustþingi Framtíðarlandsins. Þar er greinilega rífandi stemning :) Mig langar að vera þar en hlusta í staðinn á beina útsendingu frá þinginu. Getið kíkt á www.framtidarlandid.is til að sjá hvernig á að tengjast!

föstudagur, október 27, 2006

Ætlar þú að kjósa?

Prófkjörin eru að hefjast, vei, vei, vei. Ætlar þú að kjósa? Það var verið að benda mér á að svo gæti farið í Norð-vestur kjördæmi að engin kona kæmist á þing!!! Smá sjens að Samfylkingin komi konu inn en það er líka sjens að karlarnir fái það góða kosningu að þeir verði í 2 fyrstu sætunum - sem eru þau sæti sem eru nokkuð örugg inn á þing. Skilst að enn verri sögu sé að segja úr hinum flokkunum, að konur eigi bara ekki möguleika á þingsæti. Arg og garg - hvar er þetta helv#%"& lýðræði? Verst að ég get ekki kosið þar.

Annars er þetta búinn að vera skemmtilegur dagur. Fundurinn með handhöfum Bleiku steinanna var vel lukkaður. Sama marki brenndur og allir aðrir Bleiku steina fundir - það mættu fáir en fundurinn gríðargóður. Algjör synd að það láti ekki fleiri sjá sig því þessir fundir eru alltaf vel þess virði. Fór í Smáralindina áðan til að kaupa mér föt. Var gífurlega dugleg og fjárfesti í einu pari af skóm, kjól og gallabuxum! Sjaldan sem ég er svona dugleg enda fátt leiðinlegra en að versla föt... en gaman þegar það er búið.

Prófkjörsfundurinn í gær var líka vel lukkaður - og fámennur að sama skapi. Ætli þetta sé einkenni góðra funda? Eva María var einstaklega góð í að tala um fjölskyldu málin. Vona að það heyrist meira í henni með þau mál á opinberum vettvangi. Svo er alltaf hægt að velkjast um það hversu hlutlaus talskona Femínistafélagsins á að vera í að lýsa yfir stuðningi við einstaka frambjóðendur. Ég segi enn og aftur - ég er afskaplega þverpólitísk - en ég styð femínista í öllum flokkum og Bryndís er femínisti! Ég er reyndar ekki nógu vel að mér til að geta greint út and-femínistana. Eina sem ég er algjörlega viss um að er andfemínisti - og ég mun ekki kjósa - er Sigríður Andersen. Bendi öllum sem vilja mótmæla því að ég styðji ekki allar konur í framboði á grein eftir hana á www.tikin.is. Þó ég geri ekki endilega kröfu um að konur í framboði séu femínistar til að ég geti kosið þær - þá geri ég kröfu um að þær vinni ekki leynt og ljóst gegn jafnrétti kynjanna. En ég mun að sjálfsögðu ekki taka karl sem er jafnslæmur eða verri framyfir hana.

Þó ég styðji ekki Sigríði er ekki þar með sagt að hún eigi ekki flokkssystur sem gott er að kjósa. Ég t.d. ætla að kjósa Guðfinnu Bjarnadóttur, Ástu Möller og fleiri í hennar flokki. Sömuleiðis fannst mér gífurlega fínt að fá símtal frá manni á kosningaskrifstofu Daggar Pálsdóttur sem minnti mig á að kjósa hana - og á eftir því fylgdi "ert þú kannski konan sem var að brillera í Kastljósinu áðan?" Þetta kalla ég að taka eftir - og kunna að fiska atkvæði ;)

fimmtudagur, október 26, 2006

Bleikir steinar

Morgunverðarfundurinn með handhöfum bleika steinsins er í fyrramálið. Eins skrýtið og það nú er hafa fyrri fundir með handhöfunum verið frekar lítið sóttir. Samt hafa þetta alltaf verið rosalega góðir fundir sem ég hefði engan veginn viljað missa af. Nú sjáum við til hvernig þetta verður í fyrramálið! Endilega mættu ef þú hefur tök á. Staður og stund: kl. 8, föstudagur 27. sept, Blómasal Hótel Loftleiða. Kostar ekkert inn en svangir gestar geta keypt morgunmat á 1500!

Nú er ég að græja mig fyrir framboðsfundinn með Bryndísi. Fyrsti framboðsfundurinn minn! Gaman, gaman. Veit ekki alveg hvernig ég að koma því frá mér á 10 mín sem ég vil sjá gerast í jafnréttismálum.

Þó Femínistafélagið sé ekki með mikið af viðburðum í Femínisavikunni sem þarf að mæta á þá er ég búin að vera á fullu öll kvöld vikunnar. Kíkti á afmæli kynjafræðinnar á þriðjudaginn. Það var meiriháttar gaman. Missti því miður af flestum erindunum :( - sem ég frétti að hefðu verið ógisslega skemmtileg - en ég náði hinum frábæru tónlistaratriðum og að hitta alla skemmtilegu femínistana :) Í gær var það svo Kastljósið. Hringdu í mig kl. rúmlega 4 til að athuga hvort ég gæti ekki mætt til þeirra um kvöldið. Ég sagði auðvitað já - því konur mega ekki segja nei við viðtölum. Vinsamlegast leggið það á minnið og notið næst þegar þið heyrið einhvern verja skort á kvenkynsviðmælendum í fjölmiðlum á þeirri forsendu að konur séu ekki fáanlegar í viðtöl. Við segjum sko víst já - meira að segja þó fyrirvarinn sé stuttur. Það vildi mér til happs að ég er nýbúin að vera kenna í Inngangi að kynjafræði um kven- og karlímyndir í samtímamenningu plús að vera með erindi á Konunni. Þetta var því frekar ferskt í kollinum. Linkur á viðtalið er inn á Femínistavikuheimasíðunni (sjá hér fyrir neðan). Þar er líka linkur á viðtal við Steinunni og Hjálmar.

Ég ætlaði að setja með mynd með vísun á heimasíðuna sem staðalímyndahópur setti upp með kynjuðu fréttunum. En myndakerfið í blogger er greinilega í kaffi þessa stundina svo myndin verður að koma seinna. Linkurinn er www.stadalryni.blogspot.com. Mæli með henni - og fundinum í fyrramálið :)

þriðjudagur, október 24, 2006

Ég á framboðsfundi

Ok ég fór ekki í framboð en ég fæ samt að tala á framboðsfundi, sjá hér: http://www.bryndisisfold.com/

Ætla að tala eins og ég sé í framboði. Sjá hvernig fílingur það er ;)

Til hamingju með daginn

Þá er Femínistavikan formlega hafin :) Yes! Verð í bleiku skapi það sem eftir er vikunnar. Smellið á myndina til að skoða vikuna.

Búið að vera frekar mikið að gera og það skýrir fáar færslur undanfarið. Á eftir að blogga um hvernig var á Konunni á laugardaginn!!! Í stuttu máli þá verð ég að segja eins og er að ég er hálf klofin út af þessari sýningu. Markaðssetningin gekk allt of mikið út á tísku og förðun sýnist mér. Veit að það fældi fullt af konum frá, allavega hafa margar lýst því yfir við mig að þeim hafi litist afskaplega vel á kynninguna í byrjun en svo hafi þetta leiðst út í of mikla útlitsdýrkun. Ég get svo sem tekið undir það en... Ég fór þarna á laugardaginn þar sem ég var með erindið. Byrjaði á að mæta rétt fyrir 9 í útvarpsviðtal hjá Erlu á Rás 2. Við vorum 4 í viðtali. Auk mín var Aðalheiður hjá Kaffitár, Þorbjörg sem er með grunnreglurnar 10 og Selma sem var stílisti fyrir sýninguna. Þetta var meiriháttar gaman og ég hefði alveg getað setið með þeim í marga klukkutíma í viðbót að fjalla um hin og þessi málefni. En ég varð víst að drífa mig heim og græja mig fyrir erindið mitt. Það mættu um 20 á fyrirlesturinn minn. Mættu 40 á fyrirlesturinn á undan og eftir - sem voru báðir tengdir sjálfsstyrkingu. Ég fór á fyrirlesturinn sem var á eftir mínum. Missti reyndar af byrjuninni en var viðstödd seinni hlutann. Líkaði ágætlega það sem ég heyrði en varð samt sorgmædd yfir hversu margar konur þurfa á þessu að halda. Það er greinilegt að sífellt er verið að ráðast á sjálfsmynd kvenna í þessu samfélagi með tilheyrandi afleiðingum. Þess vegna borgar baráttan sig! Reyna að stöðva þetta brjálæði.

Stemningin á sýningunni var líka ágæt. Mér fannst gaman að kíkja á Heimilisiðnaðarskólann, sjá íslenska hönnun og svo fannst mér afskaplega krúttlegt fyrirtækið sem selur allt til brjóstsykursgerðar í gegnum netverslun. Hins vegar líkar mér ekki að aðgreina kynin alltaf hreint - en mér líkar kvennasamstaðan og andrúmsloftið sem skapast í góðra kvenna hópi. Jamm svona er þetta - eilíf togstreita. Mér skilst að sýningin eigi að verða að föstum viðburði og ég vona að næstu sýningar verði þverskurður af konum, þ.e. fjölbreyttari flóra.

Að lokum - er ekki kominn tími til að allar konur fari í langt verkfall og neiti að gera nokkurn skapaðan hlut þar til búið verður að útrýma launamun kynjanna? Mér finnst það...

föstudagur, október 20, 2006

Myrkrið er yndislegt

Ég væri til í svona myrkvun á höfuðborginni aftur fljótlega. Síðast voru engar stjörnur - sem var bömmer - en engu að síður var gott og friðsælt að fara út í myrkrið. Undanfarið hafa oft verið stjörnubjart og í hvert skipti hugsa ég "oh hvað það væri frábært ef allt væri slökkt núna." Síðast voru okkar nágrannar (og við auðvitað) dugleg að slökkva öll ljós.
Anyways - datt þetta bara sí svona í hug því ég er þreytt og vantar smá dekur. Held það sé ekki arfavitlaus hugmynd að skipta súkkulaðinu út sem dekri og setja stjörnurnar inn í staðinn.

Spennandi framundan

Á laugardaginn ætla ég að hætta mér inn á óþekkt svæði og spyrja hvenær kvenleikinn týndist á sýningunni Konan! Verður örugglega ógisslega gaman - þ.e.a.s. ef ég næ að skrifa erindið mitt fyrir laugardaginn ;)

Þann 24. hefst svo Femínistavika Femínistafélagasins. Vei. Byrjum á að hvetja allar konur til að biðja um launahækkun og alla atvinnurekendur að jafna launin.

Þann 29. er svo haustþing Framtíðarlandsins. Verður megaflott!

Annars er helst í fréttum að ég var fundarstjóri á kynningu á niðurstöðum úr rannsókn á klámnotkun unglinga. Margt áhugavert sem þar kom fram. Hefði samt gjarnan viljað hafa endað fundinn áður en spurningin um hvort klám gæti ekki dregið úr barnamisnotkun kom úr salnum. Ef einhver er í vafa þá er svarið nei.

þriðjudagur, október 17, 2006

Kæra dagbók

Sá í fréttum á RUV áðan að allir Bretar eru hvattir til að halda vefdagbók í dag. Ákvað að vera memm þó ég sé ekki bresk svo hér kemur fyrri partur dags.

Vaknaði við útvarpið á slaginu kl. 7. Náði nú samt að dorma í gegnum Morgunvaktina til rúmlega 8 en þá fór ég á fætur, fékk mér lýsi og drakk þennan dýrindis Smoothie sem Grétar gerði handa okkur. Gluggaði í Fréttablaðinu á meðan og sá að eina ferðina enn eru konur hér um bil fjarverandi af forsíðunni. Efst í vinstra horninu sést glitta í pínkulitla mynd af Sigríði Andersen sem segir að líkamsrækt sé lykillinn að velgengni. Ég vitlaus - hélt það væri menntun, gáfur, dugnaður, tengslanet, aðgangur að fjármagni og svo framvegis.... Ákvað í snarhasti að fjölmiðlar yrðu teknir fyrir í pistli dagsins, nánar tiltekið Fréttablaðið. Dundaði mér sem sagt í morgun við að telja og greina forsíðumyndir Fréttablaðsins síðustu viku. Náði að skila pistlinum rétt fyrir 2 en þá var ég búin að afreka að hella upp á kaffi, snara í mig hádegismat, spjalla í hálftíma við Betu kláru í símann og rölta um lóðina með bróðir hennar mömmu sem var svo vænn að lána mér laufryksuguna sína svo ég gæti gert tilraun til að fjarlægja steininguna af lóðinni. Framundan er svo kennsla í Hagnýtum jafnréttisfræðum hjá HÍ, ráðsfundur og halda áfram að undirbúa kennslu fyrir morgundaginn. Sé svo líka fram á að þurfa að redda nýrri mynd fyrir Konuna - en þar verð ég með erindið "Hvenær týndist kvenleikinn?" á laugardaginn. Myndin sem ég sendi er víst ekki í nógu góðum gæðum.

Eitt meiriháttar afrek það sem af er degi! Náði að skila 2 hugleiðingum fyrir dagbókina sem Salka ætlar að gefa út :)

Vona að það verði ekki fleira að frétta af mér í dag.

þriðjudagur, október 10, 2006

Ef ég væri gamblari...

Fjölmiðlar eru mér afar hugleiknir þessa dagana. Skilaði pistlinum í Viðskiptablaðið í hádeginu en hann fjallar einmitt um 100% karla sem álitsgjafa og fjarveru kvenna úr fjölmiðlum. Á póstlistanum eru síðan miklar umræður um Sunnudagskastljósið þar sem margir höfðu búist við að Eva María færi á kostum. Í staðinn hefur hún sýnt á sér mjög svo andlega gagnkynhneigða hlið og rætt við 5 karla og 1 konu, mörgum til mikilla vonbrigða. Ég játa að ég er svekkt því ég hlakkaði til að fá Evu Maríu aftur á skjáinn - en ekki undir þessum formerkjum. Miðað við þessa þróun held ég að það væri næstum óhætt að veðja á að næsti kvenkynsviðmælandinn verði fyrrverandi fegurðardrottningin sem var að skila af sér kórónunni í Póllandi!

mánudagur, október 09, 2006

Fréttir helgarinnar

Tvennt stórmerkilegt í Fréttablaðinu um helgina. Á laugardaginn var fjallað um "pole fitness" sem snýst um konur sem taka þátt í klámvæðinginni og eru óðar og uppvægar að gangast upp í því hlutverki að vera kynlífshjálpartæki fyrir karla. Það þykir víst efla sjálfstraustið til muna...

Á sunnudaginn var síðan yfirlit yfir helstu álitsgjafa þjóðarinnar. Þeir eru víst allir karlkyns. Verður einhver ennþá pissed þegar sagt er að hér ríkir karlaveldi?

ps. Hér er kvótið í mig um pole fitnessið:
Súludansiðnaðurinn byggir á hlutgervingu kvenna þar sem konur eru smættaðar niður í kynlífshjálpartæki sem karlar geta keypt sér aðgang að. Þessu hlutverki er síðan hampað í gegnum aðra miðla þannig að svo virðist sem það eftirsóknarverðasta sem konur hafi fram að færa sé að vera fáklæddar í eggjandi stellingum án nokkurra vitsmunalegra eiginleika. Með alla þessa pressu er ekki skrýtið að sumum konum finnist skemmtilegt eða spennandi að uppfylla hlutverkið og öðlast þannig samþykki sem eftirsóknarverðar verur. Við viljum jú öll vera dýrkuð og dáð. Vandamálið við súludans er hins vegar að hann byggir ekki á kynfrelsi og viðurkenningu á kynhvöt kvenna heldur þátttöku í kúgun sem heldur konum niðri á öllum sviðum. Ef konur vilja í raun og sann öðlast kynfrelsi þá er lausnin ekki fólgin í að vera þátttakendur í einum ljótasta iðnaði sem til er, iðnaði sem lítur á konuna sem söluvöru aðgengilega fyrir alla. Það eru til ótalmargar betri leiðir til að halda sér í formi og dansa sem felast ekki í að læra að bugta sig og beygja eins og undirgefnar og þægar konur.

fimmtudagur, október 05, 2006

Gaman og ekki gaman

Ég er ennþá undir áhrifum eftir Hittið á þriðjudaginn. Hrikalega var þetta gaman. Það var hrein unun að sitja út í sal og hlusta á þær Rúnu, Þorgerði, Kristínu, Gyðu og Steinunni viðra sínar skoðanir á stefnu, áherslum og aðgerðum. Hittið varð allt öðruvísi en ég og fleiri bjuggumst við - en ég held miklu skemmtilegra. Eins og svo oft áður eru engin einhlít svör eða ein uppskrift en svakalega tókst þeim að fá heilabúið til að synda af stað og spá og spekúlera í framtíðinni. Ef einhver heldur að baráttan sé leiðinleg - think again! Fátt er eins gefandi og spennandi og að brjóta heilann um hvað þarf til að fá þá veröld sem við viljum. Ég skrifaði allt samviskusamlega niður og nú er bara að vinna úr öllu þessu...

Svo er fleira gaman í gangi. Sóley er á landinu :) Veit ekki hvort ég næ að hitta hana eitthvað meira áður en hún fer út en ég er hvort sem er á leiðinni að heimsækja hana fljótlega... ætla að droppa við hjá henni á leiðinni heim frá Finnlandi.

Svo er líka sitthvað leiðinlegt í gangi. Nenni ekki að blogga um það :( Er samt orðin ansi heit fyrir breytingum á heilbrigðiskerfinu - en ekkert einkavæðingarkjaftæði samt. Það alversta sem við gætum gert er að einkavæða heilbrigðiskerfið.

Ertu búin að skrá þig?

mánudagur, október 02, 2006

Bríet 150 ára

Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti 150 ára fæðingarafmæli í síðustu viku. Sem betur fer skellti ég mér á Bríetarþingið sem haldið var á föstudaginn. Það var hrikalega skemmtilegt og fróðlegt - fyrir utan að það vantaði hlé. Keypti bókinna Strá í hreiðrið sem fjallar um Bríeti. Er aðeins búin að glugga í bókina um helgina. Það er alveg magnað að lesa um æviskeið hennar og hvernig hún upplifði hlutina.
Bríet áttaði sig snemma á kynjamisrétti. Það sá hún bæði í því að stelpur fengu ekki að mennta sig í sama mæli og strákar og eins í verkaskiptingu á heimilinu. Þar sést glöggt að það voru ekki karlmennirnir sem unnu lengstan vinnudag - því þó þeir púluðu og strituðu allan liðlangan daginn þá gátu þeir komið heim og hvílt sig á kvöldin og á sunnudögum. En þá puðuðu stelpurnar líka. Þurftu til dæmis að draga af karlmönnunum stígvélin og sokkana.
Þar sem Bríet var mjög fróðleiksþyrst var hún dugleg að útvega sér bækur til að lesa. Hún kenndi í smá tíma - fyrir mun minni laun og meiri vinnuskyldi en karlmaðurinn sem var ráðinn á eftir henni í starfið. Okkur hefur miðað fram á við á mörgum þessum sviðum - sérstaklega hvað varðar lagalegt jafnrétti en það er merkilegt hvað við erum enn að glíma við mörg af sömu vandamálum, s.s. launamun og verkaskiptingu. Textar Bríetar eru sérlega skemmtilegir og sumt af því er hægt að nota í baráttunni enn þann dag í dag - óbreytt! Mér skilst að Kvennablaðið (sem Bríet gaf út) sé aðgengilegt á www.timarit.is - ætla að skoða það í nánustu framtíð.