miðvikudagur, júní 28, 2006
Orkuveituauglýsingarpistillinn (örlítið breyttur)
Dýrasta auglýsing Íslandssögunnar var frumsýnd á dögunum. Það var Orkuveita Reykjavíkur sem hratt af stað ímyndarherferð sem ætlað er að sýna landsmönnum hvað fyrirtækið hefur upp á að bjóða og hvetja okkur til að njóta þess til hins ítrasta. Markaðsfræðingurinn ég sit hins vegar gapandi yfir fortíðarhyggjunni og kynhlutverkum sem birtast í auglýsingunni. Hlutverk kynjanna eru í æpandi mótsögn við alla jafnréttisbaráttu undanfarin 100 ár.
Glamúr eftirstríðsáranna
Í aðalhlutverkum auglýsingarinnar eru faðir og sonur. Þemað er sótt í eftirstríðsárin í Bandaríkjunum, árin sem Hollywood fjöldaframleiddi hverja glamúrmyndina á fætur annarri með dansandi og syngjandi hamingjusömum stórstjörnum á borð við Fred Astair. Þetta eru jafnframt árin sem eru þekkt fyrir áróður stjórnvalda í að koma konum aftur inn á heimilin til að losa um störf fyrir karlana sem sneru stríðshrjáðir heim. Búin var til glamúrmynd af hinni yfirmáta hamingjusömu húsmóður og konum statt og stöðugt talin trú um að göfugasta markmið þeirra í lífinu væri að giftast, eignast börn og hlúa að heimilinu. Samhliða þessu hlutverki áttu þær að vera fínar og sætar. Playboy var stofnað á þessum árum og fegurðarsamkeppnir voru vinsælar. Síðustu árþúsundin á undan höfðu konur mátt þola að líkamar þeirra væru lagaleg eign karlmanna, annaðhvort feðra, eiginmanna eða þrælahaldara. Þegar lagalegur yfirráðaréttur fékkst hófust önnur öfl handa við að svipta konum líkömum sínum á nýjan hátt.
"Ímynd konunnar er hönnuð til að skjalla hann"
Afleiðingin af þessum "glamúrárum" var að konur spurðu sig hvort þetta væri allt og sumt sem lífið hefði upp á að bjóða, enda hafði konum fækkað í háskólanámi og barneignir rokið upp í samræmi við úthlutuð kvenhlutverk. Í framhaldinu skrifaði Simone de Beauvoir bókina The Second Sex, Betty Friedan skrifaði Feminine Mystique um vandamálið sem átti sér ekkert nafn og Íslandsvinurinn Germain Greer skrifaði Kvengeldingin. Annarri bylgju femínismans var hrundið af stað. Rauðsokkurnar mættu á svæðið sem svar kvenna við misréttinu. Hér á Íslandi birtust Rauðsokkurnar fyrst í 1. maí göngunni 1970 undir slagorðinu "manneskja ekki markaðsvara." Hlutverki kvenna var lýst á eftirfarandi hátt af heimspekingnum John Berger: "Karlar horfa á konur. Konur horfa á að horft sé á þær. Þetta ákveður ekki aðeins samband karla við konur heldur sambönd kvenna við sjálfar sig." Hann skrifaði líka: "Konur eru sýndar á allt annan hátt en karlar, ekki vegna þess að hið kvenlega er öðruvísi heldur en hið karllæga, heldur vegna þess að ávallt er gert ráð fyrir að hinn "fullkomni" áhorfandi sé karlkyns, og ímynd konunnar er hönnuð til að skjalla hann." Með þetta í huga er áhugavert að skoða Orkuveituauglýsinguna.
Hundraðþúsund hlutir til að horfa á
Í upphafi auglýsingarinnar er pabbinn að ryksuga og sonurinn spyr hvernig rafmagnið verður til. Pabbinn svífur um gólf og útskýrir fyrir drengnum að rafmagnið komi úr fjöllunum. Það sem á eftir kemur er nánast farsakennt:
*******
Pabbinn syngur “Ljósið leiðir myndir inn í sjónvarpið” og á meðan sjáum við 4 fáklæddar konur í hlutverki kórdansara (chorus girls) hlaupa inn á skjáinn og stilla sér upp. Næst syngur pabbinn “Er ég kalla síðan fram á tölvuskjá” og við sjáum sömu konur frá öðru sjónarhorni. Toppurinn er þegar pabbinn syngur “Ég fæ hundrað þúsund hluti til að horfa á” á meðan fjöldi kvenna svífur yfir skjáinn, fyrst ein og ein en síðan í hóp. Ekki er annað hægt en að skilja mynd og texta saman á þann hátt að konurnar séu hlutir sem Orkuveitan gerir pabbanum kleift að horfa á í hundraðþúsundatali í gegnum sjónvarp og tölvur. Að þessu loknu birtist pabbinn sigurreifur með útbreiddan faðminn fyrir framan Hallgrímskirkju syngjandi “Svona viljum við hafa það. Ekkert vesen og allt í góðu lagi.”
*******
Eiginkonan og móðirin er hvergi nærstödd í auglýsingunni. Í staðinn er pabbinn sáttur við að vera umkringdur fáklæddum, brosandi konum. Hann syngur hástöfum "Svona viljum við hafa það. Ekkert vesen og allt í góðu lagi." Í einum hluta auglýsingarinnar eru konurnar 2, sitthvorumegin við hann. Hann er með 2 í takinu, alvörukarlmaður – eða svo segir klisjan. Hápunktur auglýsingarinnar er í lokin þegar pabbinn og sonurinn eru úti í náttúrunni með fáklæddu konurnar skoppandi í kringum þá. Hverirnir gjósa með hvítum hvelli og minna óneitanlega á hið alræmda "money shot" eða sáðlátið ómissandi í klámmyndunum.
Ryksugan sýnilega framförin í jafnréttismálum
Orkuveituauglýsingin er full af þekktum táknum feðraveldisins. Vísindin eru karlanna. Konurnar eru skrautmunir; hlutir til að horfa á, gleðja og þjóna en hafa enga eftirsóknarverða vitsmuni. Í auglýsingunni er reðurtákn, sáðlát og allur pakkinn. Allt nema jafnrétti. Markaðsfólk Orkuveitunnar segir þó að ekkert af þessu sé meðvitað eða markmiðið með auglýsingunni. Þó eru fullklæddir karlmenn og fáklæddar konur aðalsmerki klámvæðingarinnar sem mikil umræða er um í dag. Þrátt fyrir góða viðleitni reyndist mér ekki unnt að lesa jákvæð tákn út úr auglýsingunni. Jafnréttið er ekki til staðar. Hlutleysið ekki heldur. Það er hægt að hrósa leikurum og dönsurum fyrir góða frammistöðu í hlutverkum sínum en hlutverkunum er úthlutað af feðraveldinu sem erfist greinilega í beinan karllegg frá föður til sonar. Eina sýnilega framförin í jafnréttismálum er að pabbinn lærði að ryksuga. Allt þetta – óvart – í dýrustu auglýsingu Íslandssögunnar.
Vantar í pistilinn minn
*****
Texti: Ljósið leiðir myndir inn í sjónvarpið.
Mynd: Inn á sjónvarpsskjáinn hlaupa 4 fáklæddar konur í hlutverki kórdansara (chorus girls) a la Las Vegas stíl.
*****
Texti: Er ég kalla síðan fram á tölvuskjá.
Mynd: Annað sjónarhorn á fáklæddu konurnar.
*****
Texti: Ég fæ hundraðþúsund hluti til að horfa á.
Mynd: Fjöldi kvenna svífur yfir skjáinn, fyrst ein og ein og síðan í hóp – greinilega hlutirnir sem vísað er til.
*****
Texti: Svona viljum við hafa það. Ekkert vesen og allt í góðu lagi.
Mynd: Pabbinn með útbreiddan faðminn fyrir framan Hallgrímskirkju. Ekki er annað hægt en að sjá kirkjuna sem reðurtákn í beinu framhaldi af textanum og myndefninu á undan.
*****
Þessi síðasti hluti er reyndar með - sem texti undir mynd.
þriðjudagur, júní 27, 2006
Enn af HM
NFS, 26. Júní 2006 22:13
Fátæk börn í boltagerð
Áætlað er að þúsundir barna frá fátækum þorpum í kringum höfuðborg Indlands, Nýju-Delhí, vinni fjölskyldum sínum inn aukatekjur með því að handsauma fótbolta. Börnin sem fréttamenn AP-fréttastofunnar hittu á ferð sinni á dögunum voru allt niður í 10 ára gömul og unnu í átta tíma á dag til að öngla saman smáaurum fyrir fjölskyldur sínar. Hvert barn getur klárað að meðaltali tvo bolta á dag og fær fyrir það rétt rúmar ellefu krónur íslenskar.
Ekkert eftirlit er með vinnu barnanna eða aðbúnaði þeirra en þeim er hætt við sýkingum í skurði sem þau verða fyrir við saumavinnuna.
Alþjóðaknattspyrnusambandið segir alla fótbolta sem notaðir eru í keppnum á vegum samtakanna koma frá framleiðendum sem hafna og fordæma barnaþrælkun. Barnaverndarsamtök á Indlandi segja hins vegar að þar sé enginn opinber eftirlitsaðili sem fylgist með því að börn séu ekki notuð við framleiðslu boltanna, loforð fótboltafyrirtækjanna um að börn vinni ekki við saumaskapinn séu því ekki endilega mikils virði.
mánudagur, júní 26, 2006
Sammála
Femínistar standa fyrir öflugustu hugmyndafræðilegu umræðunni á Íslandi um þessar mundir.... Einn áhugaverðasti þátturinn á NFS þessar vikurnar er þátturinn Óþekkt. Þáttastjórnendurnir, Kristín Tómasdóttir og Alfífa Ketilsdóttir, horfa á samfélagið gagnrýnum femínískum augum. Hressandi umræða á laugardagsmorgnum...
Er nokkuð hægt að vera of sammála????
laugardagur, júní 24, 2006
Maður vikunnar
En það er nú pínku gaman að vera maður vikunnar :)
föstudagur, júní 23, 2006
Eintómir karlmenn
Ekkert lambakjöt á diskinn minn...
Góðan dag.
Mig langar til að þakka ykkur fyrir auglýsinguna sem birtist í Blaðinu þann 16. júní síðastliðinn. Það er alltaf ánægjulegt þegar fyrirtæki sýna sitt rétta andlit og gildismat í auglýsingum. Það verður einhvern veginn svo miklu auðveldara fyrir okkur neytendur að velja vörur við hæfi þegar slíkar upplýsingar eru tiltækar. Í framhaldi af því langar mig einnig til að segja að gildismat Kjarnafæðis er mér alls ekki að skapi og gjörólíkt mínu eigin. Ég lít á konur sem manneskjur en ekki markaðsvörur - og þaðan af síður sem lambakjöt, eins og Kjarnafæði augljóslega gerir. Einnig finnst mér ógeðfellt þegar vísanir í Lolítur eða barnaklám eru viðhafðar í auglýsingum, svo sem með því að nota sleikjóa í kynferðislegum tilgangi.
Af þessum ástæðum hef ég ákveðið að versla ekki neinar vörur sem merktar eru Kjarnafæði í framtíðinni.
Kveðja
Katrín Anna
Ps. Tek fram að ég er talskona Femínistafélagsins þó að þessi póstur sé í mínu eigin nafni en ekki fyrir hönd félagsins.
Hvað er í gangi?
Svo er líka hitt og þetta til að kvarta yfir. T.d. auglýsing frá Kjarnafæði sem birtist í Blaðinu fyrir viku. Heilsíðuauglýsing þar sem auglýst er lambakjöt og ekki verður betur séð heldur en að þeir hafi valið þá leið að tengja lambakjöt við unga ljóshærða konu með tilvísunum í klámið. Stelpan er með sleikjó - bein vísun í Lolitu syndromið (ullabjakkkkkk) og síðan er textinn á þann veg að ekki fer á milli mála að stelpan er bara hlutur - kjötstykki - en ekki manneskja. Þoli ekki svona auglýsingar og Kjarnafæði komið á svarta listann. Sá listi er nú smátt og smátt að lengjast... Ætti eiginlega að taka hann saman bráðum!
miðvikudagur, júní 21, 2006
HA?
HA???? Hefur fólk ekkert fyrir því að kynna sér málin? Aldrei myndi mér detta í hug að skrifa svona um önnur félög án þess að tékka á heimildum og vera viss um að ég færi með rétt mál. Þetta er svo langt út fyrir allt sem félagið hefur gert að það er með ólíkindum að manneskjan skuli láta þetta frá sér.... Búin að senda henni póst og biðja hana annaðhvort um að lagfæra þetta eða finna staðfestar heimildir fyrir því sem hún skrifaði - sem hún mun auðvitað ekki finna.Á Íslandi er femínismi oft tengdur aðgerðum félaga á borð við Femínistafélag Íslands. Hefur það m.a. að markmiði sínu að auka femíníska og gagnrýna umræðu á öllum sviðum þjóðlífsins ásamt því að vinna að jafnrétti kynjanna. (Ok - so far so good) Að mati þeirra eru jákvæð mismunun og kynjakvótar til þess fallin að ná markmiði um jafnrétti. Þá hefur hugmyndum verið skotið á loft sem lúta að því að minnka möguleika karla til setu í stjórnum fyrirtækja til að ná fram jafnrétti. Sú umræða snýst í raun um misréttisbaráttu en ekki jafnréttisbaráttu.
þriðjudagur, júní 20, 2006
Afrekaskrá: 3 kökur og 1 brauð
Stóð svo við það sem ég lofaði í Fréttablaðinu - bakaði 3 kökur og 1 brauð handa mínum heittelskaða í tilefni dagsins. Hann átti það nú líka alveg skilið... svona einu sinni. ;)
Málsháttur dagsins: Oft veltir lítil þúfa þungum steini.
mánudagur, júní 19, 2006
Málum bæinn bleikan er í dag
Rúna, Margrét, Magga Pála, Ahn Dao og Þórhildur - innilega til hamingju :)
ps. ok fyrirsögnin kemur þessu innleggi ekki við en vildi bara minna á daginn!
föstudagur, júní 16, 2006
Special delivery
Framtíðarlandið
Félag um framtíð Íslands stofnað 17. júní
Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands, verður stofnað í Austurbæ 17. júní kl.12.00.
Frumkvæðið að stofnun félagsins kemur frá fólki af ólíkum sviðum þjóðlífsins sem telur að nú sé þörf á afli sem getur komið sterkt inn í umræðuna, upplýst, gagnrýnt og varpað fram nýjum hugmyndum – vettvangi til að hafa áhrif á framtíðarmynd Íslands sem liggur nú á teikniborðinu.
Félagið verður þverpólitískt, með víðtækri þátttöku frumkvöðla, fræðimanna, viðskiptafólks, listamanna og fólks af öllum sviðum atvinnulífsins, félag sem getur þrýst á stjórnvöld með kraftmiklum hætti.
Undanfarin ár hefur Ísland stefnt eins og eftir sjálfstýringu í eina átt þar sem farsæld og fjölbreytni í atvinnulífi hefur verið sett til hliðar fyrir einhæfa stóriðju, þenslu og óþarfa eyðileggingu náttúruverðmæta. Með samtakamætti getum við haft raunveruleg áhrif svo sveigt sé af rangri leið áður en tekist hefur að mála okkur út í horn og ræna okkur um leið þeim ótal spennandi kostum sem eðlilegt væri að stæðu til boða.
Við viljum virkja allt það jákvæða fólk sem vill að Ísland verði mannvænt, vistvænt, skapandi og skemmtileg land. Við viljum verða vettvangur fyrir alla sem eru í vafa um að framtíðaráform stjórnvalda séu landi og þjóð fyrir bestu, hvort sem það eru þeir sem vilja standa vörð um náttúruna, þeir sem hafa menntað sig og langar að starfa hér, þeir sem hafa starfað í sveltum atvinnugreinum, þeir sem eru með snjalla viðskiptahugmynd eða bara þeir sem voru að vakna upp við vondan draum. Fyrir alla sem eiga sér draum.
Fundurinn mun standa tæpa klukkustund og þar munu tala þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir, doktor í grasafræði, Reynir Harðarson deildarstjóri hjá CCP, Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarkona og ferðafrömuður auk leikkvennanna Maríu Ellingsen og Margrétar Vilhjálmsdóttur sem kynna dagskrána.
fimmtudagur, júní 15, 2006
Úr ýmsum áttum
Undirbúningur fyrir 19. júní er í fullum gír. Nú er verið að skipuleggja afhendingu á bleiku steinunum!!! Spennó, spennó hver fær steinana í ár :) Mér finnst þeir fara á góða staði.
Svo er ég búin að komast að því að veðrið í London er betra en hér! Þegar við komum út var svona 23-24°C - sem er með því allra þægilegasta. Svo hitnaði reyndar þegar leið á vikuna og seinni hluta vikunnar var 28-29 stiga hiti. Samt afskaplega þægilegt nema í lestunum, þar var alltof heitt, sérstaklega á rush hour. En kona finnur hvernig streitan líður í burtu í svona þægilegum hita, löngunin í súkkulaði hverfur og þörfin fyrir hreyfingu eykst. Enda var ég endurnærð eftir vikuna :)
Gott að vita um London:
Silver Moon bókabúðin er á 3. hæð í bókabúðinni Foyles á Charing Cross Road (hægt að fara úr lestinni á Tottenham Court Road eða Leicester Square). Í Silver Moon er hægt að kaupa alls konar femínískar bækur. Algjört æði.
Women's Library er á Old Castle Road (lestarstöð Aldgate East, fara til hægri frá lestarstöðinni og gatan er þar rétt hjá). Bókasafnið auðvitað frábært en það þarf að gefa sér tíma til að grúska. Á fyrstu hæðinni eru síðan oft sýningar í gangi. Ég sá sýningu um alls kyns femínískar mótmælaaðgerðir. Mjög skemmtileg.
Ef þú þarft að fara til læknis þá er walk in clinic á Victoria Station. Held það sé á Waterloo Station líka. Algjör lifesafer!
þriðjudagur, júní 13, 2006
Karlaveldi Íslands
Konur voru 4 í ríkisstjórn fyrir nýjustu breytingar þannig að þar er engin framför - nema þessu sé skipt upp á milli flokka, þá fækkar kvenráðherrum Sjálfstæðisflokks um einn en Framsókn bætir einum kvenráðherra við á móti. Í borgarstjórn verður kona forseti borgarstjórnar en á móti kemur að karl verður borgarstjóri í stað konu. Var að hlusta á fréttir nú rétt í þessu. Af 8 nefndum fá Framsókn formennsku í 2 nefndum og konur fá formennsku í 2 nefndum líka. Konur eru 3 í meirihluta borgarstjórnar, Framsókn er með 1 fulltrúa í borgarstjórn. Jöfn bítti? Karlarnir 2 í forsvari lýstu yfir ánægju með þennan hlut kvenna (nema hvað...) og sögðu að enn ætti eftir að skipa í fullt af nefndum. Hlutfall kvenna í sumum nefndum er einnig afburða lélegt. Sjá nánar frétt á mbl.is
Í stjórnir Orkuveitunnar og Faxaflóahafnar voru bara kosnir karlar.
***************
Á morgun verður afbragðspistill í Viðskiptablaðinu um frækilegar ráðningar Háskóla Íslands þar sem kyn ræður för. Á morgun verð ég líka í Ísland í bítið að ræða um klámvæðinguna en danskir unglingar eru helteknir af klámi - nema hvað í vöggu klámvæðingarinnar! Verð líka á RUV rétt fyrir hálf-tvö að ræða um vændi og mansal á HM. Sem sagt busy fjölmiðladagur á morgun. Get svoleiðis svarið að ég hef bloggað áður um hversu skrýtið það er stundum þegar allt lendir á sama deginum - og ekki einu sinni um sama málefnið.
****************
En aðeins um Háskóla Íslands málið - ég skil ekki að konan skuli leyfa sér að fara í fjölmiðla og tala um að kennsla á grunnámskeiðum vegi meira en rannsóknarreynsla og kennsla á framhaldsstigi. Jú, gæti skilið þetta hæfnismat ef verið væri að ráða stundakennara - en ekki dósent í karladeild í karlafagi þar sem sárlega vantar konur. Síðasta hálmstráið notað til að viðhalda karlaklúbbnum - það er svo gaman að vera einkynjaður klúbbur...
****************
Á eftir að blogga um ráðstefnuna á Bifröst, London og örugglega eitthvað fleira.
mánudagur, júní 12, 2006
Afsakið hlé
Jæja - tilraunastarfsemi lokið. Verð að taka út linkinn því hann veldur því að allir tenglarnir detta neðst á síðuna. En ef þið viljið setja 19. júní borða á vefsíðuna ykkur kíkið þá neðarlega á þessa síðu:
19. júní síða frá 2004