mánudagur, ágúst 15, 2005

Engin alvörulaun fyrir barneignir hjá KEA

Svona var upphaflegi pistillinn sem átti að fara í Viðskiptablaðið. Síðan kom víst upp trúnaðarbrestur á alla bóga hjá KEA og þá breyttist allt. Væri synd ef orginallinn gufaði bara upp... Það vantar samt í alla þessa umræðu að konum sem hefur verið mismunað fyrir barneignir hafa ekki fengið 20 millur fyrir. Mér finnst það vera umræðugrundvöllur!

Engin alvörulaun fyrir barneignir hjá KEA
Markmið laga um fæðingarorlof
er að tryggja börnum samvistir við foreldra sína og auðvelda foreldrum að
samræma atvinnu- og fjölskyldulíf. Vinnumarkaðurinn hefur hingað til refsað
konum grimmt fyrir að eignast börn. Konur hafa fengið lægri laun fyrir störf sín
og þær hafa ekki jafn greiðan aðgang í ýmis vellaunuð störf vegna barneigna.
Konum hefur verið sagt upp á meðgöngu eða um leið og þær snúa tilbaka eftir
fæðingarorlof. Konur hafa líka mátt þola að vera spurðar út í fyrirhugaðar
barneignir í atvinnuviðtölum og sumar konur hafa verið beðnar um að skrifa undir
samning þar sem þær fallast á að eignast ekki börn innan tiltekins tíma í
ráðningarsamningi. Þetta síðastnefnda heyrir þó sögunni til og viðgengst ekki
lengur í íslensku atvinnulífi, allavega ekki svo upp um hafi komist.
Með
tilkomu nýju fæðingarorlofslaganna þar sem feðrum er tryggður réttur til
fæðingarorlofs bregður svo við að atvinnumarkaðurinn tekur upp á því að refsa
körlum líka fyrir að eignast börn. Nýjasta dæmið um þetta er KEA málið.
Framkvæmdastjóri félagsins gerðist svo kræfur að barna konu sína að tvíburum, og
áttu þau fyrir 4 börn. Hann ákvað að uppfylla sínar skyldur sem ábyrgur faðir og
fara í 9 mánaða samfellt fæðingarorlof, í fullkomnu samræmi við hans lagalegu
réttindi. Eitthvað fór þetta fyrir brjóstið á stjórn KEA sem sá ástæðu til að
funda um málið. Á toppnum hjá KEA liggur greinilega ekki ljóst fyrir að lög ber
að virða og ætti ekki að vera ástæða til að funda um það sérstaklega þrátt fyrir
að það henti ekki alvörustarfsmönnum að haga sínu fæðingarorlofi nákvæmlega eins
og fyrirtækinu þykir best. Eftir langa og stranga fundarsetu komst stjórnin að
því að það væri óásættanlegt að fara eftir lögum í þetta skiptið og lýsti
formaður stjórnar því yfir í blöðum að vegna einhverra mistaka hefði gleymst að
setja í lögin að þau giltu einvörðungu fyrir starfsmenn á gervilaunum en að þau
ættu ekki að gilda um þá starfsmenn sem fengju greidd alvörulaun fyrir sína
vinnu. Honum fannst eðlilegra að fyrirtæki gætu sett ákvæði í ráðningarsamninga
við lykilstarfsmenn um hvernig þeirra barneignum verður háttað í framtíðinni.
Nokkurs konar afturhvarf til fyrri tíma og fullkomlega eðlilegt í ljósi þess að
fólkið er til fyrir fyrirtækið en ekki öfugt. Sem betur fer fyrir stjórn KEA
áttaði framkvæmdastjórinn sig á því að það væri verulega ósanngjarnt af hans
hálfu að fara fram á að nýta réttindi sín og sagði starfi sínu lausu. Þar með
opnaðist leiðin fyrir stjórn KEA að ráða til sín nýjan lykilstarfsmann á
alvörulaunum og sleppa við allt þetta barnastúss.
Það er alveg ljóst að
þetta mál er allt hið leiðinlegasta fyrir KEA. Ekki nóg með að þau misstu
framkvæmdastjórann heldur hefur framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu lýst yfir
vonbrigðum með stjórn KEA, Femínistafélag Íslands og Félag ábyrgra feðra hafa
sent frá sér ályktanir þar sem KEA er gagnrýnt og fjölmiðlar hafa fjallað
ítarlega um málið. En þá vaknar upp spurningin um hvernig er best fyrir KEA að
fyrirbyggja að slíkt slys geti gerst aftur? Það er auðvitað óheppilegt fyrir
fyrirtækið að starfsmenn þess framleiði börn í staðinn fyrir skyr. Helst er
fyrir KEA að ráða eingöngu konur sem komnar eru af barneignaaldri í lykilstöður.
Það er eini hópurinn sem nokkuð tryggt er að fari ekki í fæðingarorlof.
Fyrirtækið gæti skellt nokkrum smokkum í launaumslagið hjá lykilstarfsmönnum með
orðsendingu um að nú væri óheppilegur tími fyrir barneignir. Einnig væri
tilvalið að bjóða kynfræðslu meðal starfsmanna og leggja sérstaka áherslu á
notkun getnaðarvarna og aukaverkanir sem fylgja barneignum, eins og kúkableiur,
andvökunætur og atvinnumissir.
Eina augljósa neikvæða hliðarverkunin sem
getur hlotist af þessu er að erfitt getur reynst fyrir KEA að finna starfsmenn
og viðskiptavini hjá komandi kynslóðum ef ekkert er blessað barnalánið.

Engin ummæli: