föstudagur, ágúst 26, 2005
Gáfaðir Íslendingar
Ég ákvað að hafa pistil dagsins í Viðskiptablaðinu um World Class málið. Hann birtist í blaðinu í dag, 26. ágúst. Hér fyrir neðan eru svona nokkurs konar fyrstu viðbrögð við fréttum af földum myndavélum í búningsklefanum - eða allavega fyrstu orðin sem rötuðu á blað. Pistillinn í Viðskiptablaðinu var nú samt á alvarlegri nótum og með breiðara sjónarhorn.
Ótrúlega gáfaðir Íslendingar
Við erum sannarlega heppin að búa á þessum síðustu og bestu tímum. Vegna ótrúlegra gáfna mannkynsins höfum við aðgang að alls konar tækjum og tólum sem forverar okkar gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um, t.d. öryggismyndavélum, stafrænum myndavélum, myndavélafarsímum og internetið. Ekki nóg með að tæknin sé til heldur er hún bæði ódýr og aðgengileg. Þess vegna eiga mörg okkur þessar græjur og getum leikið okkur með þær að list.
Sum okkar eru þó gáfaðari en önnur þegar kemur að notkun tækjanna. Sjálf er ég svo hugmyndasnauð að mér hefur ekki dottið í hug að þessa tækni mætti nota til að útrýma glæpum. Ekki bara fækka glæpum heldur útrýma þeim. Í það minnsta tryggja að allir glæpamenn fái makleg málagjöld. En þetta hefur öðrum dottið í hug, til dæmis snillingnum honum Bjössa í World Class. Þessi mikli frumkvöðull lenti í því að sjúkur náungi, svo notuð séu hans eigin orð, tók upp þá iðju að stela af verðmætu viðskiptavinunum hans Bjössa. Bjössi er mikið karlmenni og því þýddi ekkert að láta þetta viðgangast, vernda þurfti viðskiptavinina með öllum tiltækum ráðum og augljósast í stöðunni var að setja upp falda myndavél og grípa þjófinn glóðvolgann. Auðvitað náðust berir bossarnir á nokkrum viðskiptavinum á harða diskinn í leiðinni, en það var ásættanlegur afrakstur og kannski bara bónus fyrir Bjössa. Bjössi hefur jú oftsinnis sagt í auglýsingum sínum að það séu ekki fötin sem menn vilja – heldur það sem þau hylja.
Af minni alkunnu hugmyndasnauð hafði ég aldrei látið mér detta í hug að hinum dýrmætu viðskiptavinum Bjössa myndi þykja þetta í lagi. Ég hef einhvern veginn alltaf trúað því að fólk vilji ekki láta láta taka nektarmyndir af sér í laumi heldur vilji að friðhelgi þeirra sé virt. En þetta virðist ekki vera málið í tilfelli viðskiptavina Bjössa. Þeir eru hér um bil hundrað prósent sáttir, sagði Bjössi í Kastljósinu. Ég er ennþá að melta þennan nýjan veruleika. Ég vissi jú að í tilfelli kvenna er þetta “viðkvæmara” mál, eins og var líka sagt í Kastljósinu, enda það svo að líkamar kvenna eru mun hlutgerðari og miklu meiri söluvara heldur en líkamar karla. En vissulega verða sömu reglur að gilda fyrir bæði kyn og það væri bölvað misrétti ef karlarnir væru þeir einu sem fengju að bera bossann fyrir Bjössa.
World Class rekur 3 líkamsræktarstöðvar og mér skilst að aðsókn hjá þeim sé nokkuð góð. Án þess að vita nákvæman fjölda myndi ég samt segja að með rannsóknargildi í huga væri viðskiptahópur Bjössa nokkuð marktækt úrtak, ef miða á við þjóðina alla. Það þýðir að ef viðskiptavinir Bjössa eru hér um bil 100 prósent sáttir við að láta mynda sig berrasaða með faldri myndavél og að Bjössi og gaurinn hjá Securitas skoði myndirnar þá ætti að vera hægt að leiða nokkuð góðum líkum að því að Íslendingar almennt séu sáttir við þessa aðferðafræði. Bjössi gæti sem sagt orðið nýjasta ofurhetjan og útrýmt glæpum á Íslandi. Eina sem þarf að gera er að fá nokkrar myndavélar lánaðar í viðbót hjá Nýherja og koma þeim fyrir alls staðar þar sem fólk er. Maður veit aldrei fyrirfram hvar glæpir verða framdir og því best að sjá sem mest. Staðir sem hingað til hafa verið friðhelgir, eins og búningsklefar, sturtur, almenningsklósett og mátunarklefar eru nokkuð augljóslega tilvaldir staðir fyrir faldar myndavélar. En það besta við þetta allt saman að nú er hægt að láta allar reglur sem áður hafa gilt lönd og leið. Löggan þarf t.d. alltaf að setja upp skilti sem lætur mann vita að maður sé undir eftirliti en með nýju aðferðarfræði Bjössa er það algjör óþarfi. Árangurinn getur því orðið margfaldur. Auðvitað þarf að ráða fullt af fólki til að fara yfir myndskeiðin. Efast um að Bjössi og gaurinn hjá Securitas nái að dekka þetta allt. Það þarf bara að passa að ráða gáfaða menn eins og Bjössa, svona menn sem treysta sér í jobbið og þjóðin er sátt við.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli