föstudagur, desember 09, 2005

#3

#3 NFS 9 des 2005:

Ég rakst á frétt á visir.is í gær þar sem haft var eftir rektor kennaraháskólans að auka þyrfti kjör, aðbúnað og virðingu fyrir umönnunar- og uppeldisstörfum til að fjölga karlmönnum í þessum stéttum. Það sem vakti sérstaka athygli mína var orðalagið. Það hljómaði einhvern veginn eins og að umönnunar- og uppeldisstörf væru ekki nógu góð fyrir karla miðað við núverandi aðstæður en þau væru nógu góð fyrir konur. Ég er reyndar nokkuð viss um að rektor meinti þetta ekki þannig en engu að síður fór ég að hugsa um viðhorfin til kennarastéttarinnar.
Eitt sinn var kennarastéttin með mest metnu stéttum landsins. Starfinu fylgdi virðing og há laun. Í þá daga voru nær allir kennarar karlar. Síðar fóru konur að sækja í stéttina í auknum mæli og þá fór að síga á ógæfuhliðina. Launin hríðlækkuðu og virðingin hvarf eftir því sem konunum fjölgaði. Þessi þróun ætti að segja okkur sitthvað um gildismat okkar á framlagi kynjanna. Það er ekki að ástæðulausu að konur hafa staðið í jafnréttisbaráttu í áratugi. Hér áður fyrr ríkti feðraveldi sem gekk út frá því að karlar væru æðri en konur og það sem þeir gerðu var mikilvægara, merkilegra og meira virði. Þessi viðhorf eru enn áberandi í okkar samfélagi þó að við virðumst vera orðin svo samdauna þeim að við tökum varla eftir því. Í dag segjum við að kynin séu jafningjar og eigi að vera metin til jafns. En ef við notum peninga sem mælikvarða til að athuga hvort þetta sé staðan sjáum við að enn er töluverður munur á hvernig framlag kynjanna til samfélagsins er metið. Konur hafa lægri atvinnutekjur en karlar, lægri laun fyrir jafnlangan vinnudag og lægri laun fyrir sömu störf.

Kennarastéttin er líka gott dæmi til að skoða hvaða virðingu við berum fyrir kynjunum. Umræðan í kringum kennararstarfið hefur að vissu leyti náð sér á strik síðustu ár og ég held að við séum orðin nokkuð mörg sammála um að kennarar eigi skilið væna launahækkun og miklu meiri virðingu fyrir þeirra verðmæta framlag til uppeldis- og menntunar barna. Þetta er jákvætt. En á hinn bóginn heyrum við líka ýmislegt sem er ekki eins gott. Til dæmis hefur verið töluverð umræða um slakt gengi drengja í skólum miðað við frammistöðu stúlkna. Útskýringin er oft á tíðum sögð vera að það vanti fleiri karla í kennarastéttina. Það er eins og sumir haldi að það hafi skaðleg áhrif á drengi að vera innan um kvenkyns kennara. Eins og einkunnir drengja muni hækka bara ef kennarinn er karlkyns. Þetta orðalag lýsir vanvirðingu á starfi kvenna í kennarastétt. Sérstaklega í ljósi þess að allt aðrar ástæður hafa verið nefndar fyrir stöðu drengja í skólum heldur en að verða fyrir því óláni að þurfa læra allt af konum. Ein ástæða sem hefur verið nefnd fyrir lakari frammistöðu drengja er að karlmennskuímyndirnar sem haldið er að þeim hafa skaðleg áhrif. Ofbeldisdýrkun, krafan um snilligáfu án þess að hafa fyrir því að læra og væntingar um að strákar eigi að vera ærslabelgir eru dæmi um ímyndir sem hafa skaðleg áhrif á frammistöðu og líðan drengja í skólum. Bæði konur og karlar eru fær um að halda þessum ímyndum að drengjum og því ekkert sem segir að kyn kennarans hafi neikvæð eða jákvæð áhrif í þessu sambandi.

Þrátt fyrir þetta er ekki þar með sagt að kyn skipti ekki máli og ekki þurfi að fjölga körlum í kennarastétt. Kyn skiptir máli á ýmsan hátt og ég efast ekki um að karlmenn hafi ýmislegt fram að færa til skólastarfs til jafns á við konur. Það er mikilvægt að umönnun og menntun barna sé í höndum beggja kynja. Aukin virðing, bætt kjör og betri aðbúnaður er allt af hinu góða. En það skiptir máli að skilaboðin séu þau að það sé fyrir konurnar, og þá karla, sem sinna þessum störfum nú þegar en ekki bara fyrir karlana sem á að reyna að fá inn í þessi störf. Framlag kvenna til samfélagsins hefur verið vanmetið svo langt sem saga okkar nær og það er kominn tími til að breyta því. Það er löngu kominn tími á að meta störf þeirra sem sjá um umönnun, uppeldi og menntun barna betur – einfaldlega vegna þess að þetta eru verðmætustu störfin og þau sem sinna þeim eiga það skilið!

Engin ummæli: