Nú er búið að dæma í máli Valgerðar Bjarnadóttur gegn íslenska ríkinu. Valgerður fær uppreisn æru með dómnum og ljóst að félagsmálaráðherra braut af sér í starfi. Nú er spurningin hvort hann sé jafn harður á því að þeir aðilar sem brjóti af sér segi af sér? Hann missti traustið gagnvart Valgerði þegar hún var fundin sek um brot á jafnréttislögum fyrir héraðsdómi - ekki í starfi sínu sem framkvæmdastýra Jafnréttisstofu heldur í öðru starfi. Þetta var nóg til að ráðherra missti traustið og vildi að hún hætti. Hann vildi ekki bíða eftir niðurstöðu hæstaréttar - sem - by the way - sýknaði Valgerði. Eins og þetta væri ekki nóg þá samdi hann ekki einu sinni við hana um sómasamleg starfslok og hefur bara látið eins og fúll á móti varðandi allt sem viðkemur málinu.
Mér finnst alveg ljóst að karlmaður í sömu stöðu hefði ekki fengið þessa meðferð enda þekki ég ekkert dæmi um slíkt. Trekk í trekk heyrum við að mönnum sem brjóta af sér í starfi, standa sig ekki í starfi og fá að launum svimandi háa starfslokasamninga. Þetta er því kynjað dæmi út í gegn. Það sem er þó mest spennandi þessa dagana er hvort að félagsmálaráðherra haldi fast í prinsippin sín - hann hefur lýst því yfir að niðurstaða hæstaréttar sé vonbrigði - hann er sem sagt á því að hann hafi verið í fullum rétti og þessi ákvörðun hans hafi verið rétt. Í mínum kokkabókum ætti þetta að þýða að ef hann er sannfærður um að kona sem var fundin sek í héraðsdómi en sýknuð í hæstarétti ætti skilið að hverfa úr starfi án sómasamlegs starfslokasamnings þá ætti ráðherra sem fundinn er saklaus í héraðsdómi en sekur í hæstarétti pottþétt að segja af sér.... traustið hlýtur að vera horfið! En einhvern veginn er ég sannfærð um að hann noti ekki sama mælikvarða á sjálfan sig og konuna sem hann vildi losna við!
föstudagur, desember 09, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli