laugardagur, desember 03, 2005

Taka 2

Jæja - pistill #2 gekk mun betur :) Hann er sem sagt hér fyrir neðan (fluttur á NFS 2. des):

Bráðum koma blessuð jólin og nú er ekki seinna vænna en að hefja jólagjafainnkaupin. Til að hjálpa okkur að velja gjafir handa börnunum getum við stólað á hina árvissu leikfangabæklinga. Á hverju ári bíð ég í ofvæni eftir bæklingunum. Spennan er yfirþyrmandi og það liggur við að þetta sé eins og biðin eftir jólunum sjálfum. Eftirvæntingin stafar af því að mig langar til að sjá hvað er stelpudót og hvað er strákadót í ár.

Ég lít þannig á að margir barnaleikir séu undirbúningur fyrir fullorðinsárin. Dót sem er í raun barnaútgáfur af fullorðinshlutverkum – eins og eldhúsdót og verkfæri – er að undirbúa börnin fyrir fullorðinsárin. En hvaða hlutverk erum við að undirbúa þau fyrir? Ef við skoðum leikfangabæklingana er alveg ljóst að við ætlum strákum og stelpum ólíka hluti.

Stelpudót er ennþá dúkkur, snyrtidót og eldhúsáhöld á meðan strákadót samanstendur af bílum, byggingarsetti, flugvélum og trommusetti. Þessi skipting strax á unga aldri er furðuleg ef við spáum í að einn af þeim þáttum sem hamlar jafnrétti hvað mest er ójöfn verkaskipting á heimilinu. Konur bera enn hitann og þungan á uppeldi og heimilisstörfum. Karlar eru orðnir mun meiri þátttakendur en samt er enn langt í land. Krafan um aukna þátttöku karla í uppeldi barna og umsjón heimilisins kemur ekki eingöngu frá konum heldur er það greinilega líka kappsmál fyrir karla, eins og sást á karlaráðstefnunni sem haldin var í gær.

Til að jafnrétti náist á fullorðinsárum þýðir ekki að kenna börnum að eldhússtörf og barnauppeldi séu frátekin fyrir stelpur eða að bílar og verkfæri séu einkamál stráka. En það er eins og einhver hræðsla sé í gangi. Mér heyrist að sumir foreldrar haldi ennþá að ef strákur fái að leika sér með dúkkur, potta og pönnur, þá sé verið að ala upp í honum hommann. Fyrir utan hvað þessi sýn er fordómafull þá er heldur ekki heil brú í henni. Strákar verða ekki skotnir í strákum af því að þeir léku sér með potta þegar þeir voru börn. Slík röksemdarfærsla er hreinlega út í hött og ekki sæmandi viti bornu fólki að hugsa á slíkan hátt. Að leika sér með dúkkur getur aftur á móti alið upp í strákum fyrirmyndarpabbann og það er hlutverk sem mörgum fullorðnum karlmanninum finnst eftirsóknarvert.

Það verður að teljast verðugt rannsóknarefni hvers vegna Íslendingar, sem alla jafna eru taldir nýjungagjarnir, skuli ríghalda í gömul kynhlutverk eins fast og raun ber vitni. Það væri sáraeinfalt að breyta merkingum á barnadóti þannig að þar sjáist strákur og stelpa leika sér saman að elda eða byggja. Við eigum ekki í neinum erfiðleikum með að tileinka okkur nýjustu tækninýjungarnar og eltum fatatískuna eins og við eigum lífið að leysa en börnin ætlum við að festa í kynhlutverkum sem þau þurfa síðan að verja fullorðinsárunum í að berjast gegn. Með því að merkja dótið sem annaðhvort strákadót eða stelpudót takmörkum við valfrelsi þeirra til að velja sér dót sem þeim sjálfum finnst spennandi. Þau sjá myndirnar á kössunum og læra fljótt hvaða leikföng þeim eru ætluð. Ef þau slysast til að leika sér með dót sem ekki er fyrir þeirra kyn geta þau búist við háðsglósum frá foreldrum, vinum og
vandamönnum. Afleiðingin af því að kyngera barnadót með þeim hætti sem við gerum í dag er að við viðhöldum misrétti. Börnin læra ekki að það er þeirra sameiginlega framtíðarhlutverk að halda heimili og ala upp börn.

Ef við hættumað kyngera barnaleikföng og hvetjum þess í stað börn til að prófa sig áfram og leika sér með alls konar dót; bæði eldhúsdót, dúkkur, verkfærasett og bíla, getur það í versta falli haft þær ánægjulegu afleiðingar að börnin finna sjálf út sitt áhugasvið og upplifa sameiginlega ábyrgð þegar fram líða stundir. Hættan er sem sagt sú að við gætum náð árangri í jafnréttismálum ef við laumum pottum og pönnum í jólapakkann hjá strákunum og verkfærasetti í pakkann hjá stelpunum.

En það getur auðvitað vel verið að við séum bara sátt og viljum að strákar haldi áfram að vera fyrirvinnur sem vinna myrkranna á milli og vanrækja fjölskylduna og að stelpur haldi áfram að axla tvöfalda ábyrgð á vinnu og heimili. Okkar er valið – og hvað ætlum við að velja fyrir börnin?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sá þennan pistil og þú varst helvíti fín og pistillinn góður.

kv
Hrafnhildur