Varð óvænt þess heiðurs aðnjótandi að minnst var á mig á Alþingi okkar Íslendinga í dag :) Því miður átti ég heiðurinn ekki skilið - en mér var eignað að hafa reiknað út að miðað við þann gír sem við erum í núna verður launajafnrétti fyrir sömu störf ekki komið á fyrr en eftir 628 ár. Það er atvinnu- og stjórnmálahópur Femínistafélagsins sem á heiðurinn af þessari tölu og kem ég því hér með á framfæri. Hef grun um að nafnið mitt blandist inn í þetta út af þessum pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu 25. okt síðastliðinn:
628 ár í launajafnrétti
Þegar ég skrifa þennan pistil er eitt ár liðið frá Kvennafrídeginum 2005. Eitt ár frá því að 60.000 konur víðs vegar um landið lögðu niður vinnu kl. 14:08 og kröfðust þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá sömu laun og karlar fyrir sína vinnu. Eitt ár síðan ég stóð á Ingólfstorgi og hélt ræðu um hvað þyrfti að gera til að ná fram jafnrétti. Eitt ár frá því að ég var svo stressuð að ég rauk út úr húsi í óðagoti til að verða ekki of sein niður í bæ og skildi dyrnar eftir galopnar.
Hver græðir á launamun?
Baráttan fyrir launajafnrétti hefur varað í yfir 100 ár. Samt miðar okkur lítið miða áfram. Frá því 1994 hefur launamunur kynjanna minnkað úr 16% í 15,7%. Hverjum finnst þetta ásættanlegt? Miðað við tilvitnun í Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA á forsíðu Morgunblaðsins 20. október virðast hann vera sáttur við núverandi stöðu og reynir sitt besta til að afneita staðreyndum. Ef hann er trúverðugur talsmaður atvinnurekenda má túlka það sem svo að atvinnurekendur séu þeir sem álíta sig vera að græða á launamun kynjanna. Allavega virðast þeir ekki tilbúnir til að gera neitt til að leiðrétta hann heldur eru alsælir með að komast upp með að brjóta lög á hverjum degi.
Ekki hægt að tala um háleit markmið
Árið 1961 fengu atvinnurekendur sex ára aðlögunartíma til að leiðrétta launamun kynjanna. Því miður hafa stjórnvöld ekki lagt mikið á sig til að tryggja að atvinnurekendur framfylgi þeim lögum. Í fyrra sendi þáverandi félagsmálaráðherra yfirmáta kurteist bréf til atvinnurekenda þar sem þeim var vinsamlega bent á að það væri vinsælt ef þeir myndu náðarsamlegast muna eftir jafnréttislögum og kannski íhuga að draga úr launamun kynjanna. Núverandi ráðherra jafnréttismála er það nýr í starfi að enn er hægt að binda vonir við að hann grípi til róttækra aðgerða. Hann virðist þó vera á því róli að semja við atvinnurekendur um að draga hægt og rólega úr launamun og semja þannig við þá um að áframhaldandi friðhelgi frá armi laganna. Í hvaða öðrum brotaflokki tíðkast það að semja við lögbrjótanna á þann hátt að gefa þeim formlegt leyfi til að halda áfram að brjóta lögin, bara örlítið minna?
Hægvirkari en snigillinn
Atvinnu- og stjórnmálahópur Femínistafélagsins reiknaði út að miðað við núverandi hraða við að minnka launamun kynjanna munu karlar og konur njóta sömu launa fyrir sömu störf eftir 628 ár. Þessum útreikningi fylgdi áskorun á atvinnurekendur að leiðrétta launamuninn. Konur hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fram sanngjörnum launum með sanngjörnum aðferðum. Konur hafa tekið kröfuna um aukna menntun alvarlega svo ekki er hægt að tala um að karlkynið sé betur menntað í dag. Konur hafa sótt ótal námskeið, beðið um launahækkanir og ítrekað sýnt kröfuna um að fá sanngjörn laun í verki. Sum stéttarfélögin hafa unnið að launajafnrétti kynjanna en þau virðast öll hafa valið mjúku leiðina. Auglýsingaherferðir, námskeið í hvernig á að bera sig að í atvinnuviðtölum og hvatning til kvenna um að biðja um launahækkun einu sinni á ári eru sýnilegustu leiðirnar.
Launaleynd eykur launamisrétti kynjanna
Á allt þetta er greinilega ekki hlustað og því miður hafa fæstar aðgerðir beinst gegn atvinnurekendum sjálfum, þrátt fyrir að lagalega skyldan hvíli á þeirra herðum og þeir hafi aðgang að öllum upplýsingum um laun kynjanna hjá sínum fyrirtækjum. Atvinnurekendur geta sótt upplýsingar og fræðslu til Jafnréttisstofu og eins er hægt að leita til Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands og ráðgjafarfyrirtækja til að reikna út launamun. Atvinnurekendur virðast ekki vera áfjáðir í að styðja aðgerðir eða leiðir sem geta dregið úr launamun. Launaleynd er til dæmis viðtekin venja hér á landi og flestir atvinnurekendur sem ég hef heyrt frá vilja halda henni. Launamunur kynjanna er hins vegar meiri hjá fyrirtækjum þar sem launaleynd ríkir, eins og fram kom í nýafstaðinni könnun sem Félagsmálaráðuneytið lét gera. Þar segir:
“Flestir töldu að launaleynd ýtti undir mismunun en 75% svarenda í Gallupvagni töldu launaleynd hafa mikil áhrif á launamun kynjanna. Niðurstöður launakönnunarinnar benda til þess að heldur meiri munur sé á launum karla og kvenna þar sem launaleynd er fyrir hendi eftir að tekið hefur verið tillit til annarra þátta.” (bls. 11)
Komum í kapp
Spurningin er hversu mikið frumkvæði ætla atvinnurekendur að hafa til að leiðrétta launamuninn? Er verið að bíða eftir að konur fari í hart og fari einfaldlega í verkfall? Sjálf verð ég hlynntari verkfalli með hverri launakönnuninni sem birtist. Það er ekki ásættanlegt að bíða í 628 ár í viðbót eftir launajafnrétti. Það er búið að þrautreyna mjúku leiðirnar. Það er búið að höfða til sanngirni, það er búið að setja lög og konur hafa uppfyllt allar kröfur sem gerðar hafa verið á þær. Því miður efast ég um að samstaða náist um kvennaverkfall akkúrat í augnablikinu en ég held að það sé vel þess virði að koma hugmyndinni í loftið og sjá til hvort hún öðlast ekki meiri vinsældir með tímanum. Kannski er líka ágætt að fara í kapp. Hvort ætli komi á undan – kvennaverkfall eða aðgerðir atvinnurekenda sjálfra til að gerast löghlýðnir borgarar?
miðvikudagur, nóvember 01, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Ég set árið 2634 í reminder á símanum mínum :)
Veistu hver gerði könnunina sem þetta 15,7% launamunur kom útúr?
Gallup fyrir Félagsmálaráðuneytið held ég. Tékkaðu á því inn á www.jafnretti.is. Þar er frétt um málið og linkur inn á skýrsluna í heild sinni.
Má líka til með að benda á að þetta er bjartsýnisleiðin í útreikningi - ef þetta er reiknað miðað við prósentuhlutfall eru árin miklu fleiri...
Ég er til í verkfall!
Takk kærlega fyrir ábendinguna. Þetta er lítur út fyrir að vera stórmerkileg könnun. Þetta er fyrsta könnunin í langan tíma sem virðist vera nokkuð hlutlaus. Ég er reyndar bara búinn að skoða súlu- og línuritin en mun pottþétt lesa hana alla þegar tími gefst. Mér virðist allavega ég hafa stórlega vanmetið launamuninn og þ.a.l málstað ykkar feminista.
Hvað áttu við Manuel að þetta sé fyrsta könnunin sem "virðist vera nokkuð hlutlaus"?
Já kókó sem ég hef séð. Ég hef séð margar niðurstöður en ég hef ekki séð margar kannanir í heild sinni eins og þessa. Ég vill vita á hverju niðurstaðan er byggð áður en ég tek mark á henni. Ég hafði séð eina aðra könnun um kynbundinn launamun í heild sinni og sá að niðurstaðan var að mínu viti misvísandi. Þessi könnun er hinsvegar nokkuð ýtarleg og hlutlaus.
Skrifa ummæli