Búin að laga það sem fór úrskeiðis í uppfærslunni í beta blogger. Bætti inn nokkrum tengiliðum í leiðinni - sem ég er búin að vera lengi á leiðinni að setja á listann...
Nýbúin að senda pistilinn í Viðskiptablaðið. Að sjálfsögðu er hann um 16 daga átakið. Hvað annað? Er nokkuð beinskeytt í pistlinum hvað varðar þátttöku karla í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Reikna með að mörgum þeirra eigi ekki eftir að líka það vel... en ætli ég orði það bara ekki þannig að það þýðir ekkert að pakka karlkyninu inn í bómull þegar kemur að baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Þetta kemur þeim við rétt eins og okkur konunum.
Annars var Ingólfur Ásgeir með skemmtilega nálgun á málþinginu á laugardaginn. Þar viðraði hann enn og aftur þá hugmynd sína að kenna ætti börnum dans þar sem bæði kyn fá að stjórna - og vera stjórnað. Á þann hátt læra strákar að vera stjórnað af konum og konur læra að vera við stjórnvölinn. Ég hef nokkrum sinnum minnst á þessa hugmynd hans Ingólfs og yfirleitt eru undirtektir blendnar. Oft heyrist æ, látið nú eitthvað í friði. Mér finnst þetta samt bráðsmellin hugmynd, sérstaklega þar sem ég á mjög erfitt með að láta að stjórn í dansi (ok - líka á öðrum sviðum...). Einnig finnst mér þetta áhugavert í ljósi hugmynda um leiðtoga og hversu kynjað það hugtak er. Sjá til dæmis niðurstöður úr prófkjörum undanfarinna vikna þar sem "eðlilegt" þykir að kjósa karla í fyrsta sætið og konur í besta falli í næstu sæti á eftir. Þannig er kosið eftir kyni en ekki hæfni - rétt eins og í dansinum. Þar er stjórnandinn valinn eftir kyni en ekki eftir hæfni. Er eitthvað vit í því?
þriðjudagur, nóvember 28, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Tek undir með þér varðandi dansinn. Ég á einmitt við þetta sama vandamál að stríða, þ.e. að láta illa að stjórn í dansi, einmitt af því ég kann miklu meira að dansa en flestir karlmenn sem ég dansa við (þetta er ekki bara ofmat!) en vegna þessara reglna þarf ég að láta mig hafa að skrönglast einhvern veginn í gegnum dansinn og reyni að leiðbeina honum ef hann hefur áhuga. Hvað er það aftur algengt að konur séu hjálparkokkar, aðstoðarforstjórar og undirmenn?? og gera í rauninni mest allt til að dansinn gangi upp? Eins byggjast flestir dansar á því að konan er skrautið í dansinum (snýr sér endalaust í hringi etc.) Þeir geta líka verið skraut blessaðir.
Heldurðu að þeir samþykki ekki alveg að við fáum að stjórna og þeir að snúa sér í hringi ef við segjum að það sé vegna þess að okkur finnst þeir svo sætir????
Skrifa ummæli