fimmtudagur, september 15, 2005

Það er leikur að læra


Er búin að fara í 5 lífsleiknitíma í 2 skólum til að tala um jafnrétti við 9. og 10. bekkinga. Er nokkuð viss um að ég lærði meira á þessu en krakkarnir. Er enn styrkari í þeirri skoðun en áður að það sé bráðnauðsynlegt að fá jafnréttiskennslu inn í námskrá grunnskólana. Mjög mörg þeirra höfðu ekki hugmynd um hvað femínisti er og höfðu lítið pælt í jafnréttismálum. Þau voru ærið misjöfn og það sést greinilega munur eftir bekkjum og eftir hverfum/skólum.

Ég hef heyrt fólk segja aftur og aftur að jafnrétti komi með næstu kynslóð. Á sama tíma gerir fólk sér ekki grein fyrir því að næsta kynslóð er ekki að fá þau tæki og tól sem eru nauðsynleg fyrir jafnrétti. Það eru óhóflegar og óraunsæjar kröfur af fullorðnu fólki að ætlast til þess að krakkarnir komi á jafnrétti þegar eldri kynslóðirnar eru svona tregar til. Þekkingu vantar sárlega. Þau læra ekki um baráttuna sem á undan er gengin, þann árangur sem hefur náðst, stöðuna eins og hún er í dag - og hvað það er mikilvægt að beita gagnrýnni hugsun á því sem að okkur er rétt. Á meðan svo er er útilokað að jafnrétti komi með næstu kynslóð. Spuringin er samt kannski hvar á að byrja. Sumir segja að það eigi að byrja að mennta börnin. Ég vil mennta börn og fullorðna samhliða. Það gilda sömu rökin hér og áður voru notuð fyrir menntun kvenna - menntaðar konur eru betur í stakk búnar til að ala börnin sín upp og miðla menntun sinni áfram til þeirra. Foreldrar sem eru menntaðir í jafnréttismálum eru betur í stakk búnir til að miðla áfram til barna sinna og kenna þeim jafnrétti og birtingamyndir kynjamisréttis.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála um jafnréttisfræðsluna... Það þyrfti hins vegar fyrst að senda alla kennara í Inngang að kynjafræði og gera námskeiðið að skyldu uppí kennó og í kennslufræðinni í HÍ. Það er víst til lítils að láta kennara sem telur að jafnrétti hafi verið náð sjá um jafnréttisfræðsluna...