þriðjudagur, september 20, 2005
Strákarnir á X-inu
Ég fór í viðtal á X-ið 97,7 í morgun til Gunna og Mána til að tala um nýju siðareglurnar þeirra. Verð að játa að fyrirfram vissi ég ekki við hverju ég átti að búast. Hef ekki hlustað á X-ið undanfarið og bara lifað í þeirri trú að þetta væri sama karlrembustöðin og hún var þegar hún skipulagði "hóprúnkið" á Jóni forseta hér í denn... og sem staðalímyndahópur FÍ gagnrýndi á mjög skemmtilegan hátt - þó ég segi sjálf frá :)
En staðan virðist vera breytt og nú eru strákarnir á X-inu komnir með siðareglur sem kveða á um að kvenfyrirlitning eigi ekki að finnast á stöðinni og þeir ætla að starfa í anda femínískra viðhorfa. Frábært!!!! Viðtalið í morgun var hið skemmtilegasta og við ræddum vítt og breitt um efnið. Tókum t.d. fyrir umræðu um skólabúninga - sem Máni er hlynntur en ég og Gunni ekki. Erum þó öll sammála um vandamálið sem fyrir liggur og að það þurfi að leita lausna á því. Gaman líka að spá í bakgrunninn þeirra - Máni segist hafa verið karlremba en orðið femínisti eftir að hann fór að þjálfa unglingsstelpur í fótbolta. Gunni var alinn upp af rauðsokku og hefur alltaf verið meðvitaður. Ég var einu sinni ómeðvituð - þó ég hafi ekki náð að vera karlremba - þá var ég samt frekar mikið vitlaus í þessum málum - en skánaði mikið upp úr tvítugu...
En allavega - strákarnir á X-inu eiga hrós skilið fyrir siðareglurnar. Ég vona að þeim eigi eftir að ganga vel að framfylgja þeim. Með siðareglunum eru þeir í raun frumkvöðlar og eru að gera eitthvað nýtt. Mér hefur nefnilega alltaf fundist svolítið skrýtið þegar fólk markaðssetur eitthvað á karlrembulegan hátt og telur sig vera að gera eitthvað nýtt - karlremba er ævafornt fyrirbæri og hefur verið iðkuð hér á landi frá upphafi Íslandssögunnar. Aftur á móti höfum við aldrei búið í samfélagi þar sem jafnrétti ríkir og að ná slíku fram væri virkilega eitthvað nýtt - og spennandi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Frábært að X-ið skuli vera með svona siðareglur, þar er bráðnauðsynlegt og fleiri mættu fylgja því eftir.
kv
Hrafnhildur
X-id tapaði flestum hlustendum sínum (sem eru í meiri hluta karlkyns)eftir að þeir lögðu útvarpstöðina niður "tímabundið". Spurning hvort þeir ætli að búa til nýjan hlustendahóp.Konur. Allavega mun þetta ekki fá mig til að færa mig af X-fm. Kannski þeir hætti að spila rokk og fari að spila Coldplay,U2 og aðra popptónlist af miklum eldmóð. En mér finnst allt í lagi að það sé til "karla útvarpsstöð" Konurnar eiga sína útvarpsstöð, Létt.
En mér finnst þetta ekki slæm aðgerð hjá þeim. Það er virðingarvert að færa sig nær jafnrétti.
Karlastöð er ekki = karlrembustöð!!! sé mig knúna til að benda á muninn á karlmanni og karlrembu aftur og aftur...
Búin að vera að hlusta á x-ið síðustu daga - þeir spila ágætis lög oft á tíðum.
Í fyrsta skipti á föstudaginn (30.9) ákvað ég að hlusta á þennann blessaða morgunþátt. Það er greinilegt að þú hefur bara verið eitt skemmtiatriði þarna. Ef X-ið er ekki lengur karlrembu útvarpsstöð þá veit ég ekki hvað. Þetta er í raun meiri karlrembustöð en ég átti von á. Það er greinilegt að þeir hafa fengið þig þarna með þeim húmor að segjast ætla að hætta að vera karlrembustöð og gera svo í því að vera með karlrembu.
Í þessum tiltekna þætti sem ég hlustaði á voru þeir að tala um hver væri besti skemmtistaðurinn til að tappa af á (skiluru? þeirra orðalag). Ég ætla ekki að telja allt það sem þeir sögðu upp, en þetta var eitt dæmið.
Já og by the way. Ég ætla að sýna Kötunni minni stuðning og sniðganga x-ið (eins og alltaf). Finnst þetta mjög lélegt hjá þeim að lofa þessu og standa ekki við það.
Skrifa ummæli