Ég fór á fundinn sem Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands héldu sameiginlega í hádeginu í gær. Það var alveg hreint ágætis fundur. Þar var meðal gesta utanríkisráðherra Líberíu - Olubanke King-Akerele. Það var mjög gaman að hlusta á hana og ég hefði gjarnan viljað heyra meira frá henni og þeirra baráttu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti einnig mjög gott erindi. Hún fjallaði m.a. um að það er öðruvísi að vera á fundi þar sem eru bara konur eða fundi þar sem meirihlutinn er karlar og síðan kannski örfáar konur. Hún nefnid fund hennar, Olubanke og Ellen Johnson-Sirleaf, forseta Liberíu sem dæmi. Myndin hér til vinstri er einmitt frá þeim fundi og er birt í Framkvæmdaáætlun utanríkisráðuneytisins um áætlun 1325 - sem má nálgast hér. Kristín Ingólfsdóttir rektor og Joanne Sandler, aðalframkvæmdastýra UNIFEM í New York voru líka góðar. Samstaða kvenna var þemað... og að konur geta breytt heiminum með baráttunni. Tek undir það!!! :) Að sjálfsögðu. Ég hikstaði nú samt aðeins þegar Joanne Sandler kynnti samstarfssamning UNIFEM og Avon - sérstaklega eftir að ég skoðaði heimasíðu Avon og sá þar UNIFEM armbandið selt undir auglýsingu um „Reshape, repair and recontour your eyes“... passar eitthvað svo illa við kvennabaráttu að segja konum á sama tíma að þær séu svo stórkostlega gallaðar að þær þurfi að kaupa krem til að breyta sér... annars séu þær hreinlega ekki nógu góðar fyrir mannlegt samfélag!
En anyways (varð bara að létta þessu af mér), fundurinn var góður og Margrét Pálmadóttir sló aldeilis í gegn þegar hún mætti með þrjá kóra í restina og hífði stemninguna rækilega upp. Mér skilst að Olubanke hafi hrifist svo af að hún vilji ólm að Margrét komi til Líberíu á næsta ári en þar er verið að skipuleggja magnaðan fund fyrir 8. mars 2009 (ef einhver skyldi vilja fara - nótera hjá sér!). Myndin hér til hægri er einmitt af Margréti og hluta af kórnum. Lengst til vinstri sést glitta í Olubanke og Ingibjörgu Sólrúnu. Því miður tók ég ekki þátt í meiru af dagskránni í gær en á föstudaginn fór ég í opið hús hjá Stígamótum og það var yndislegt. Fyrir utan að þar fékk ég heitt kakó og vöfflur þá er eitthvað svo gott að koma í Stígamót. Í húsinu hvílir kraftur og orka allra þeirra kvenna sem dag hvern berjast gegn alvarlegustu og verstu glæpum sem framdir eru gegn konum - en ná samt að halda sönsum í gegnum þetta allt og virkja kraftinn til góðra verka. Hjá þeim fékk ég Zontarósina - sem seld er til styrktar Stígamótum svo þær geti fært þjónustu sína í auknum mæli út á landsbyggðina.
Þó 8. mars sé liðinn heldur baráttan áfram. Einn dagur dugar víst ekki til og af nógu er að taka. Beta er búin að blogga heilmikið um heimilisofbeldi undanfarna daga og við þurfum að bretta upp ermarnar og gera eitthvað í þessu. Okkur vantar réttarkerfi sem dugar - það er ekki nóg að lögin séu til á pappír (þó það sé nauðsynlegt og ósköp gott!). Lögunum þarf líka að framfylgja, brotamenn þurfa að fá dóma og dómarnir þurfa að vera í samræmi við brotin. Best af öllu væri þó að fá brotin burt!
sunnudagur, mars 09, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Spammið byrjað... setti því word verification á. Það ætti að duga og er lítil fyrirhöfn.
Skrifa ummæli