Útvarpsstjóri er karlmaður.
Ritstjóri Kastljóssins er karlmaður.
Aðstoðarritstjóri Kastljóssins er karlmaður.
Enginn þeirra flokkast sem femínisti. Ætti þá að koma á óvart að tveim dögum eftir alþjóðlegan baráttudag kvenna draga þeir upp hamingjusömu hóruna til að réttlæta vændi? Nei, kannski ætti það ekki að koma á óvart en það fær samt magann í mér til að snúast á hvolf. Um helgina opnuðu danskir karlmenn heimasíðu til að berjast gegn vændi. Kastljós körlunum finnst meiri gæði falin í því að markaðssetja sölu kvenna. Og já - spyrillinn var karlmaður líka. Greinilegt að hann er ekki heldur femínisti, spurningarnar voru slíkar. Af hverju var ekki spurt út í ofbeldið sem vitað er að vændiskonur verða fyrir í miklum mæli? Af hverju var ekki spurt í hversu hátt hlutfall karla sem kaupa sér konur eru giftir menn? Af hverju ekki að spyrja hana út í hversu fjölskylduvænt vændi er í raun og veru? Neibb, ekki orði á það minnst. Rétt aðeins tæpt á mansali, en þar við sat. Hamingjusama vændiskonan var nú samt ekki hamingjusamari en það að hún vildi ekki koma fram undir nafni og ekki í mynd - barnanna sinna vegna. Hún fullyrti líka að enginn af hennar aðstandendum kæmi að vændissölunni - hún væri í þessu sjálfsstætt. Samt byrjaði hún á þessu sem leik, gift konan. Kom maðurinn hennar þar hvergi nærri? Ákvað hún það alveg upp á eigin spýtur? Hún sagði líka að femínistar hefðu ekki fyrir því að spyrja vændiskonurnar sjálfar hvað þeim finndist. Það er einfaldlega rangt og hér á Íslandi er meira að segja einn sem gerði rannsókn sína í Danmörku - og tók þá viðtöl við fjölmargar danskar vændiskonur. Þeirra saga var ekki sú sama og sögð var í Kastljósinu í kvöld en auðvitað voru strákarnir í Kastljósinu ekki að skoða það. Já, það er margt sem ekki passar en sárast af öllu er að sjá herferð sumra fyrir því að konur gangi kaupum og sölum eins og hver annar búfénaður, nú eða þrælar í gamla daga. Kastljóssmenn setur niður við þetta. Stórlega. Mér finnst þeir í sama flokki og þeir sem réttlættu þrælahald hér til forna. Þetta er ekki veröld sem ég vil og mér blöskrar að ég skuli í alvöru verða að sætta mig við að vera neydd til að borga afnotagjöld fyrir svona kvennakúgun.
Spurning. Ef hægt er að finna sáttan þræl - er þá þrælahald réttlætanlegt?
mánudagur, mars 10, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
34 ummæli:
Ég verð að viðurkenna að ég ákvað að slökkva á sjónvarpinu þegar í yfirliti frétta var tilkynnt að hamingjusömu hórurnar væru fundnar á vefsíðu í Danmörku. Var ekki í skapi fyrir svona r**k...
Ældu bara eins og þú vilt. Það má greinilega aldrei viðra nein önnur sjónarmið en þín eigin. Þetta er bara orwellískur hugsunarháttur.
Í Danmörku hefur umræðan breyst aðeins upp á síðkastið. Fyrir stuttu síðan kom fram hópur vændiskvenna sem segjast vilja berjast fyrir réttindum sínum og fá vændi viðurkennt sem atvinnugrein. Nokkrar konur úr hópnum hafa stigið fram, m.a. ein sem heitir Pernille, en hún hefur komið fram án þess að fela andlit sitt í nokkrum sjónvarpsþáttum. Ég sá einn þeirra; Aftenshowet (sem mætti líkja við íslenska kastljósið) og í honum mætti hún þingmanni SF (systurflokki VG) og hann var gríðarlega vandræðalegur allan þáttinn. Hún spurði hann af hverju hann vildi banna henni að starfa við það sem hún vildi og það var fátt um svör. Hún sagði að það væri enginn að þvinga hana til neins og að þetta væri það sem hún vildi. Það er erfitt að tala gegn slíku.
Mín afstaða í þessu er sú að það eigi að leyfa fólki að gera það sem það vill. Það á að berjast gegn mansali - en ekki gegn vændi, ef sá sem selur sig gerir það af eigin vilja. Þú spyrð hvort þrælahald sé réttlætanlegt ef hægt sé að finna sáttan þræl. Svarið er mjög einfalt: Ef einhver er sáttur við að vera þræll þá á honum að vera frjálst að vera það. Ef aðrir vilja ekki vera þrælar þá eiga þeir ekki að þurfa að vera það. Þetta er ekki flóknara en það.
Rétt að lokum þá langar mig að segja að siðferðilega séð sé ég ekki hvað er rangt við vændi. Og nú er ég augljóslega að tala um vændi án mansals og þrældóms. Ég sé í kynningunni þinni að þú ert pistlahöfundur á Viðskiptablaðinu. Þú leigir sem sagt heila þinn til viðskiptablaðsins og færð peninga greidda í staðinn - m.ö.o. ert þú að selja afnot af hluta af líkama þínum til annars aðila gegn greiðslu. Það er enginn eðlismunur á því að selja afnot af heilanum eða öðrum líkamspörtum, aðeins stigsmunur.
Jón Hrafn
Nei Jón Hrafn - það er nefnilega eðlismunur en ekki stigsmunur. Við sem viljum frjálst samfélag getum ekki samþykkt þrælahald af neinu tagi - hluti af því að vera frjáls er að mega ekki né geta afsalað sér frelsinu... því þá er ekki lengur um frelsi að ræða. Samband þræls og þrælahaldara hefur aldrei verið á jafningjagrundvelli.
Í þessari athugasemd svararðu engum af þeim röksemdum sem ég setti fram. Mér þykir það annars kaldhæðnislegt að þú segist vilja "frjálst samfélag" á sama tíma og þú setur fram þá gerræðislegu skoðun að þú vitir hvað sé fólki fyrir bestu og því megi það ekki endilega gera það sem það vill. Það er forræðishyggja og hrein og bein árás á frelsi fólks.
Ég vil koma tveimur atriðum (aftur) á framfæri.
1) Maðurinn er flókin vera. Fyrir tilstilli náttúruvals eru í honum alls kyns mismunandi líffæri og líffærakerfi misflókin að gerð. Flóknasta líffærið er heilinn. Flest fólk á Íslandi selur afnot af þessu líffæri í störfum sínum gegn greiðslu peninga. Þannig notar lögfræðingurinn þá þekkingu sem hann hefur lært til þess að leysa úr álitamálum, verkfræðingurinn til þess að hanna mannvirki og pistlahöfundurinn til þess að skrifa greinar.
En síðan eru önnur störf. Smiðurinn selur þannig aðgang að höndum sínum og byggir með þeim byggingar. Vörubílstjórinn keyrir bíl.
Vændisseljendur, karlar eða konur, selja aðgang að kynfærum sínum.
Það er enginn eðlismunur á þessum störfum. Í öllum tilvikum ertu að selja aðgang að hluta af þeim líkama sem þú fæddist með og hefur þroskað.
2) Þrælahald merkir það að ein manneskja á aðra og getur skipað henni hvað hún á að gera. Það er ekki þrælahald ef manneskja ákveður sjálf að gera einhvern tiltekin hlut. Það er ekki þrælahald ef hún Pernille ákveður sjálf að selja sig því hana langar til þess.
Í frjálsu þjóðfélagi á auðvitað ekki að vera neitt þrælahald. En hver sem er á að geta unnið við það sem hann kýs, og það inniheldur að sjálfsögðu það að vinna án þess að þiggja greiðslu. Munurinn á því og þrælahaldi er hins vegar að sjálfsögðu sá að þessi einstaklingur getur hvenær sem er hætt að vinna kauplaust. Það sama á að gilda um vændi. Ef einstaklingur ákveður að hann vilji ekki stunda vændi lengur þá á hann að sjálfsögðu að fá að gera það.
Hverju myndir þú svara henni Pernille sem ég minntist á í fyrra svari mínu? "Þú mátt ekki starfa við það sem þú vilt, ég veit hvað er þér fyrir bestu, þú veist það ekki sjálf. Það eru vondir menn að níðast á þér þó að þú gerir þér ekki grein fyrir því. Ég vil ekki leyfa þér að starfa við þetta."
Ég mæli með því að þú lesir Frelsið eftir John Stuart Mill. Sú bók er 150 ára gömul en á alveg jafn vel við í dag og hún átti þá.
Jón Hrafn
Og ég mæli með því að þú lesir Kúgun kvenna eftir sama höfund. Að réttlæta þrælahald á grundvelli frjálshyggju er meirháttar djókur...
Þú hefur ekki fært nein rök fyrir því að það sé stigsmunur á þessum störfum en ekki eðlismunur. Það er ekki nóg fyrir þig að segja að á þessu sé eðlismunur. Varðandi vændi þá er ein „hamingjusöm“ vændiskona ekki nægjanlegt viðmið til alhæfingar. Samfélag jafnréttis (og frelsis) getur aldrei byggst á því að konur séu söluvörur sem karlar kaupa. Eins og þú segir - manneskjan er flókin - og þú ert algjörlega að misskilja í hverju frelsi felst. Mæli með að þú lesir Frelsið aftur - þegar þú ert búinn að lesa Kúgun kvenna.
Er þessi nafn- og andlitslausa hamingja ekki frekar augljós aðgerð gegn þessari aðgerð:
http://www.tagstillingmand.dk/8_marts_2008/program.shtml
Það er greinilega vonlaust að rökræða við þig. Þú ert of blind á ágæti eigin málstaðar þó að hann gangi þvert á atvinnufrelsi og meginreglur mannlegrar tilvistar.
Ég hef gagnrýnt það að íslensk þýðing á titli The Subjection of Women eftir Mill skuli vera Kúgun kvenna. Subjection þýðir undirokun eða undirgefni; kúgun ef allt of sterkt orð fyrir það sem Mill var að meina.
Og það er afstaða þín sem er í grundvallaratriðum andstæð þeim viðhorfum sem Mill setur fram í bókinni - ekki mín. Mill vildi að konur væru jafnréttháar og karlar og fengju að fara út á atvinnumarkað og vinna við það sem þær vildu. Þú vilt kúga konur með því að banna þeim í sumum tilvikum að gera það sem þær vilja.
Þú virðist ekki geta gert þér grein fyrir því að það er ekki þrælahald ef einhver ákveður sjálfviljugur að stunda vændi - eins og hún Pernille gerir.
Og hringbraut: Ég var í Danmörku fyrir stuttu og sá þar fyrrnefnda Pernille í Aftenshowet þar sem hún rökræddi án þess að hylja andlit sitt. Þið viljið hins vegar banna henni að starfa við það sem hún gerir.
Það að vilja banna vændi á grundvelli þess að margar vændiskonur séu óhamingjusamar er álíka gáfulegt og að banna áfengissölu vegna þess að sumir verða alkóhólistar. Þetta eru sömu forræðishyggjugmyndirnar sem eiga ekki heima í frjálsu þjóðfélagi. Svona gerræðishyggjuhugmyndir eiga margt sameiginlegt með evrópskum fasisma 20. aldar og þeim ætti að útrýma sem fyrst.
Jón Hrafn
Jón Hrafn - kannski áttar thú thig einn daginn á muninum á frelsi og frumskógarlögmáls. Frelsi getur aldrei verid óhád og ótakmarkad thví grundvallarforsenda fyrir frelsi er ad geta ekki afsalad sér thví.
Thar fyrir utan gengur misskilin frjálshyggja sumra manna út á ad verja frelsi karlmanna til ad kaupa konur á kostnad thess ad konur séu frjálsar - their hinir sömu eiga thad til ad nota konur eins og umrædda sem skálkaskjól.
Annars komstu ekki hingad til ad ræda málin heldur til ad predika thinn "sannleika" thannig ad thú ættir ekki ad vera hissa á skorti á rökrædum. Audvitad rökrædi ég ekki rétrmæti vændis, rétt eins og ég rökrædi ekki réttmæti thrælahalds eda hvort samkynhneigd er synd.
Ég styð Jón Hrafn algjörlega í því sem hér hefur verið sagt. Fólk sem að starfar í þessum bransa á að fá full atvinnuréttindi á við allar aðrar vinnandi stéttir samfélagsins, annað er yfirgangur, ill meðferð og brot á mannréttindum. Það er nú reyndar í umræðunni núna í Danmörku að veita því fólki sem starfar í þessum iðnaði þessi réttindi og einnig er talað um að erlent vændisfólk sem kemur til starfa í Danmörku fái öll þau réttindi er fylgja öðru erlendu vinnuafli óháð starfi. Hvað þetta varðar finnst mér mjög skynsamlegt að hugsa þetta út frá þessum sjónarhóli og er það von mín að þetta verði niðurstaðan. Nógu erfitt er fyrir þessa einstaklinga að starfa í núverandi laga og siðferðisumhverfi, svo ég tali nú ekki um það forherta umhverfi sem feministar vilja skapa þessu fólki með fordæmingu og lagabanni. Þessi aðför feminista jaðrar við ofsóknir á hendur minnihluta þjóðfélashópi sem nú þegar hefur fáar úrbætur og engin réttindi. Bætum úr og veitum þessu fólki sömu réttindi og öðru fólki er veitt.
Kristján.
Ég styð líka atvinnufrelsi kvenna þegar kemur að vændi og strippi... Nat! Eins og Borat segir.
Furðulegt hvað körlum er umhugað um að konur hafi rétt til að selja líkama sinn kynsveltum körlum. Ég er viss um að enginn þeirra hefði áhuga á að kaupa þjónustuna, ætli það sé ekki "vinur þeirra" sem þeir eru að hugsa um, hehe.
Annars þurfti ég einhver ár til að skilja af hverju vændi var svona slæmt. Hélt því á lofti lengi vel eins og margir að femínistar væru í raun að kúga konur með því að ákveða hvaða starf þær máttu vinna og hvað ekki.
Já manuel þú ert ekki kominn lengra en þetta. Þú átt eftir að fara hringinn, trúðu mér, og styðja vændiskonurnar.
Einn vinnufélagi minn sem er feministi spurði mig áðan hvort ég mundi ekki örugglega vilja banna allt vændi ef að dóttir mín færi í það, hún sagði að þannig ættu karlmenn að hugsa þetta til þess að skilja þetta bann.
Svar mitt var stutt:
Ef að dóttir mín fer í vændi og ég fæ engu um það ráðið þá vil ég að hún sé í landi þar sem vændi er löglegt heldur en hún stundi vændi í landi þar sem það er ólöglegt.
Róbert.
Nú veit ég ekki hvort þú átt raunverulega dóttir Róbert. En ef að dóttir þín færi að stunda vændi og þú vildir frekar að samfélagið myndi gúddera það frekar en að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir það. Þá annaðhvort hefur þú einhverja fáránlega glansmynd af vændi eða þá að þú bærir ekki hag dóttir þinnar fyrir brjósti þér.
Ef dóttir mín (sem ég á ekki) færi í vændi myndi ég vilja að yfirvöld myndu beita sér að öllu afli til að stöðva vændið á einn eða annan hátt!
Mér finnst þetta svona álíka fáránlegt eins og að segja ef dóttir mín verður fyrir heimilisofbeldi og ég get ekki komið í veg fyrir það, þá myndi ég vilja að hún yrði lamin í landi sem það væri löglegt.
Miðað við hversu algjörlega út í hött mér finnst fullyrðing þín þá efast ég um að ég eigi nokkurntíma eftir að fara í hálfhring.
Svo er sagt ad jafnrétti sé handan vid hornid :-/ Róbert hefur thér dottid í hug ad stofna félag óábyrgra fedra?
Karlar sem réttlæta vændi geta auðvitað ekki hugsað sér að kaupa það sjálfir, heldur eru þeir frekar að hugsa um frændur sína sem hafa áhuga á slíkum "viðskiptum"...
Þakka þér fyrir frábæran pistil, Katrín Anna. Eins og talað úr mínu hjarta.
Ég þekki lítillega til konu sem kom mikið fram í dönskum fjölmiðlum fyrir 15-20 árum og sagði stolt frá atvinnugrein sinni sem "escort". Rétt eins og danska hjúkkan í Kastljósi sagðist hún hafa unun af starfinu sem dansaði fyllilega í takt við kynhvöt hennar. Ég var vitni að því að þessa kona brotnaði saman þegar hún horfðist í augu við að þetta hafði allt byggst á blekkingu. Henni tókst sem betur fer að söðla um og er nú vel metin myndlistarkona. Það ætti ekki einu sinni að þurfa að ræða það hvort vændi sé mannskemmandi, bæði fyrir seljanda og kaupanda.
Ungir frjálshyggjumenn hér í landi hafa gengið það langt að leggja til að sala á heróíni og öðru eitri verið lögleidd, allt annað séu höft á frelsi einstaklingsins. Hvað er frelsi og hvað eru frumskógarlögmál? Eitt mikilvægasta verkefni manneskjunnar er að varðveita þann þunna glerjung sem skilur okkur frá villidýrum.
Hildur "Karlar sem réttlæta vændi geta auðvitað ekki hugsað sér að kaupa það sjálfir, heldur eru þeir frekar að hugsa um frændur sína sem hafa áhuga á slíkum "viðskiptum"..."
Já og konur sem eru að réttlæta vændi, afhverju eru þær að gera það. Eru þetta allt vændiskonur eða þá konur sem stunda vændi eða konur sem eru að hugsa um mennina sína sem hafa áhuga á slíkum viðskiptum ?
Þetta er asnalegur útúrsnúningur hjá þér.
Til að stöðva vændi þarf félagslegan stuðning við vændiskonur og kala og þá sem kaupa vændi. Að gera annan hvorn aðila að glæpamanni er ekki lausnin. fólk sem stundar vændi þarf hjálp og fólk sem kaupir vændi þurfa þess líka.
Ópersónulegt og kalt samfélag sem meðal annar einkennist af lagasetningum, boðum og bönnum er ein megin orsök félagslegra vandmála eins og vændis eða fíkniefna, að mínu mati.
ég er bara að meina hvað það er ótrúlegt hvað margir karlmenn réttlæta vændiskaup án þess að viðurkenna að þeir geti hugsað sér slíkt sjálfir. Það er reyndar gott að þeir kunni að skammast sín en betra væri ef þeir sýndu það í verki með því að fordæma vændiskaup.
Og hvar standa konur sem verja vændi. Geturðu sagt það sama um þær, eða eru þetta konur sem eru að verja vændi af því að þær stunda það eða vilja stunda það.
Þetta er ennþá frekar asnalegt hjá þér. Þú vilt meina að karlar sem verja vændi séu að því af því að þeir geti hugsað sér að kaupa það.
Svo finnst mér fáir vera að verja vændi sem slílkt. Heldur rétt fólks til að stunda það, rétt kvenna að selja líkama sinn og rétt karla að kaupa hann.
Sem minnir mig á þessa sænsku leið sem mér finnst alltaf vitlausari og vitlausari. Ef kona hefur rétt á því að selja líkama sinn, eins og hún hefur skv. þeirri leið, afhverju hefur maður þá ekki rétt til að kaupa hann ?
Svo finnst mér fáránlegt að réttur nokkura kvenna sem hafa orðið fyrir mansali sé meir en réttur þeirra þúsunda eða milljóna kvenna sem selja sig af fúsum og frjálsum vilja.
Ég veit að það hafa verið gerðar rannsóknir á slæmum afleiðingum vændis, þetta eru allt viðtalsrannsónir þar sem litlir hópar kvenna eru VALDIR og talað við þær um slæmar afleiðnigar vændis. Þar sem ég hef séð meginlegar rannsóknir sem byggast á tölum þá kemur í ljós að meiri hluti vændiskvenna fer í þetta að fúsum og frjálsum vilja. Er réttur minnihlutans virkilega meiri en meirihlutans ?
Nafnlaus - þú ferð með fleipur. Mér finnst þetta of mikilvægt mál til að líða svona nafnlausar umræður. Þeir sem vilja að konur séu kúgaðir kynlífsþrælar verða að gjöra svo vel að koma fram undir nafni ef þeir vilja ræða málin hér.
Sænska leiðin er á mjög einföldum og skiljanlegum rökum byggt; með henni er verið að berjast gegn vændi en setja gerendunum, þeim sem hafa val, stólinn fyrir dyrnar í stað þess að refsa vændiskonum sem -hvort sem þú trúir því eður ei- eru sjaldnast í sínu drauma"starfi" í vændinu og búa þegar við félagsleg vandamál sem ýmist eru orsök eða afleiðing vændisins. Hin mikla eftirspurn sem er eftir vændi er stór hluti orsakar mansals hvort sem þér líkar betur eða verr. Er þá ekki skynsamlegra að reyna að ráða niðurlögum eftirspurnarinnar heldur en refsa vændiskonum?
Að verja "rétt" karla til að kaupa konur (nú eða karla) er að stinga höfðinu í sandinn. Hví skyldi maður ekki álykta að meginþorri þeirra sem slíkt gera telji sjálfa sig eiga að hafa "rétt" á að kaupa fólk?
Katrín,
Ég held að eitt mikilvægt atriði týnist í þessari umræðu.
Þeir sem tala fyrir vændi halda því fram að í eðli sínu sé ekki munur á því að stunda vændi og að stunda hvaða starf sem felur í sér að nota líkama sinn til að veita þjónustu; svo sem að grafa skurð eða þjóna til borðs.
Sem femínisti get ég ekki annað en fallist á að þetta sé rétt. Það er ekkert sérstaklega dýrmætt eða persónulegt við kynlíf sem gerir það að verkum að það sé rangt að stunda það gegn greiðslu. (Í mörgum tilfellum er kynlíf auðvitað dýrmæt persónuleg reynsla, en það sama gildir um margt fleira, til dæmis að sinna litlum börnum, en samt er í lagi að fólk geri það gegn greiðslu.) Að halda því fram að það sé í eðli sínu rangt fyrir konu að stunda kynlíf gegn greiðslu er held ég einmitt arfleifð gildismats sem lítur svo á að gildi kvenna ráðist fyrst og síðast af kynhegðun þeirra, fremur en verðleikum. Sem lítur á meydóminn sem helstu auðlindina sem konan hefur til ráðstöfunar og sem felur í sér að konur séu 'líkamlegri' og minni skynsemisverur en karlmenn.
Lykilatriðið er þetta (afsakaðu hvað ég er lengi að koma mér að efninu):
Þótt vændi sé ekki niðurlægjandi eða mannskemmandi í eðli sínu, getur það engu að síður verið það í ákveðnu samhengi. Það sem er til umræðu er ekki vændi í ídeal samfélagi þar sem allir taka fullkomlega frjálsar ákvarðanir í tómarúmi, heldur í samfélagi eins og okkar sem hefur einstaklega hræsnisfull viðhorf til kynlífs almennt og kynhegðunar kvenna sérstaklega. Þar sem lauslátar konur eru fordæmdar umfram lausláta karlmenn en á sama tíma mótast sjálfsmynd ungra kvenna meðal annars af öllu því sem sendir þau skilaboð að konur fái gildi sitt af því að vera fallegar og kynferðislega aðlaðandi í augum karlmanna.
Eins og margir benda á þá rýrir það gildi kvenna í augum samfélagsins að stunda vændi. Meira að segja þeir sem kaupa þjónustuna myndu í flestum tilfellum líta á það sem mikla vansæmd ef dóttir þeirra eða eiginkona seldi líkama sinn. Á meðan svo er komið er engum blöðum um það að fletta að vændi er bæði niðurlægjandi og mannskemmandi. Þótt einstaka vændiskona sé nógu sterk til að láta það ekki á sig fá (og ég tek ofan fyrir þeim) þýðir það ekki að þetta sé ekki raunveruleikinn.
Ég held að málstað femínista sé ekki greiði gerður með því að halda í þá hugmynd að kynlíf sé óaðskiljanlega tengt því hver maður er sem persóna. (Það er það vafalaust fyrir suma, en það er ekkert náttúrulögmál. Fyrir suma er líka golf eða star trek óaðskiljanlegur hluti af sjálfsmyndinni, en það gildir alls ekki fyrir alla.) Þeir sem tala fyrir vændi eiga aldrei eftir að samþykkja það að vændi sé í eðli sínu rangt - enda er það það ekki. Það þarf að beina athyglinni að því að það vill svo til að vændi hefur hræðilegar afleiðingar í okkar samfélagi, og því að í mörgum tilfellum hafa konur sem leiðast út í vændi skaddaða sjálfsmynd og/eða ekki raunverulega frjálst val þótt það sé kannski frjálst að nafninu til.
Sem femínistum er okkur ekki stætt á að segja að allar vændiskonur séu fórnarlömb án þess að neita því að konur geti tekið frjálsar og upplýstar ákvarðanir yfirhöfuð.
Kær kveðja,
Þórdís H
Sæl Þórdís.
Það er langt í land með að konur (og karlar) búi við kynfrelsi. Kvennahreyfingin hefur verið ötulust af öllum í þeirri baráttu og sú barátta snýst um að konur eigi sinn líkama sjálfar, geti valið með hverjum þær stundi kynlíf án þess að vera dæmdar fyrir það á forsendum karlaveldisins (að konur eigi að vera hreinar meyjar við giftingu, megi ekki hafa sofið hjá mörgum etc. - þessi dæmi sem þú nefnir).
Kynfrelsi getur hins vegar aldrei falist í því að vera brunddolla fyrir einhvern annan - söluvara sem einhver getur keypt til að fá kynferðislega útrás á. Sama hvort litið sé á kynlíf sem mjög persónulega, innilega, tilfinningaþrungna athöfn - eða bara sem líkamlega skemmtun á milli einstaklinga - þá stangast hugmyndin um vændi við báðar þessar hugmyndir og allt sem er þar á milli.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á brotinn bakgrunn þeirra sem leiðast út í vændi - mansal, kynferðisbrot, fíkniefni, skortur á öðrum efnahagslegum úrræðum. Þetta er staðan í dag. Ef svo skyldi vilja til að til séu nokkrar konur sem velja vændi af öðrum ástæðum - þá eiga þessar konur í öllum tilfellum aðra valkosti - og ættu að nýta þá. Okkar siðmenntaða samfélag byggir að hluta til á mannlegri reisn - partur af því er að fólk sé ekki söluvara. Ég ítreka aftur fyrri framtíðarsýn:
Siðmenntuðu samfélagi
Jafnrétti
Frelsi
**
Að líta svo á að vændi sé eins og hvert annað starf lítur fram hjá ansi mörgu:
1. Stöðunni eins og hún er í dag með hliðsjón af því hvað er verið að kaupa (í flestum tilfellum konur sem eru þar vegna mansals, kynferðislegrar misnotkunnar, fíkniefna eða skorts á öðrum efnahagslegum úrræðum (sem er forsenda fyrir því að hægt sé að tala um frjálst val - aðrir valkostir verða að vera í boði).
2. Stöðu kynjanna - it's a man's world segir lagið - og það er enn í fullu gildi. Staðan í vændi er sú að yfirleitt eru það konur og börn sem eru söluvaran og karlar sem eru kaupendur. Það er ekki í einhverju tómarúmi heldur út af því hvernig staðan er.
3. Hugmyndum um mannlega reisn, siðmenntað samfélag og jafnrétti.
Að réttlæta vændi á þeirri forsendu að hugsanlega séu einhverjar konur sáttar „í vistinni“ er ekkert öðruvísi en að réttlæta þrælahald á þeirri forsendu að sumir þrælar séu nú bara happy í þeirri stöðu - eða að það sé í lagi að konur hafi ekki verið með kosningarétt því sumar þeirra séu bara sáttar við það og þar fram eftir götum. Vændi eru kaup á annarri manneskju, rétt eins og þrælahald, en kauptíminn er styttri - ekki heil ævi heldur á klukkustunda basis. Og það eru kaup karla á konum og börnum - rétt eins og þrælahald var kaup hvítra á svörtum. Það er allt saman merkingarbært um stöðu jafnréttis.
**
En að lokum - ekki rugla saman kynfrelsi og vændi. Þetta eru andstæður en ekki samstæðupar. Vændi felur ekki í sér kynfrelsi heldur þvert á móti afsal á kynfrelsi - og andstæðan við frelsi er þrælkun. Og vændi snýst um það - konur sem eru kynlífsþrælar fyrir karla í ákveðinn, afmarkaðan tíma. Og við eigum aldrei að samþykkja hugmyndir sem fela í sér afsal á frelsi - ekki heldur þegar fólk heldur að það sé í þessu af fúsum og frjálsum vilja óháð öllu öðru. Það verður alltaf hægt að finna fólk sem er tilbúið til að gera hvað sem er - en við látum það ákvarða mörkin - þá sitjum við uppi með þrælahald, misrétti og siðlaust samfélag. Og það er einfaldlega óásættanlegt
vantaði eitt ef þarna inn í. Átti að vera:
en EF við látum það ákvarða mörkin - þá sitjum við uppi með þrælahald, misrétti og siðlaust samfélag. Og það er einfaldlega óásættanlegt
Já og eitt enn - svo má bæta því við að lífið er ekki dans á rósum fyrir karla í vændi og þar með kollvarpast kenningar um að slæmar afleiðingar vændis eigi rætur sínar að rekja til þess að kynfrelsi kvenna sé ekki það sama og karla.
Sæl aftur Katrín og takk fyrir greinargott svar.
Ég er sammála öllu sem þú segir um
a) það að flestir byrji að stunda vændi af nauð (fátækt, þvingunum, brotinni sjálfsmynd, skorti á tækifærum o.s.fr.) og
b) því að vændiskaup í okkar samfélagi séu hluti af flóknu mynstri misréttis og kúgunar.
Ég held að í samfélagi þar sem fullu jafnrétti væri náð yrðu sennilega ekki margar vændiskonur eftir.
En ég er ósammála þér um að vændi samræmist ekki mannlegri reisn í prinsippinu. Mér er ekki ljóst nákvæmlega af hverju þú heldur þessu fram.
Þú líkir vændi við þrælahald. Í sumum tilfellum eru vændiskonur beinlínis hnepptar í þrældóm. Það er mansal og enginn lifandi maður mælir því bót. En í öðrum tilfellum er grundvallarmunur á vændi og þrældóm. Það er ekki hægt að semja um það að vera þræll í klukkutíma, það er ekki þrældómur. Sá sem er þræll er neitað um allan ákvörðunarrétt um hvað hann gerir og hversu lengi. Vissulega eru mörg tilfelli á gráu svæði, þar sem vændiskona hefur ekki frelsi til að velja nema að nafninu til. En þú virðist vilja neita því að það sé einu sinni til sá möguleiki að það geti verið frjáls og upplýst ákvörðun manneskju í andlegu jafnvægi að taka við greiðslu fyrir kynlíf.
Ég held að þú hafir ekki góð rök fyrir þessu viðhorfi. Þegar þú segir að það sé andstætt mannlegri reisn að vera "brunddolla" fyrir einhvern ertu að tala um eitthvað sem er niðurlægjandi. En þú segir ekki nákvæmlega hvað það er sem er niðurlægjandi. Það sem ég var að reyna að segja í fyrri athugasemd er að það að peningar skipti um hendur sé ekki það sem geri athöfnina niðurlægjandi. Það sem gerir hana niðurlægjandi er að hún fer fram í tilteknu samhengi, nefnilega í samfélagi þar sem sterklega eimir eftir af gildismati sem er andstætt kynfrelsi kvenna. Það er út af þessu gildismati sem kaupandinn lítur niður á vændiskonuna og þess vegna fordæmir restin af samfélaginu hana; hún er að stunda kynhegðun sem ekki er leyfileg - það vegur að heilindum konu að fá borgað fyrir kynlíf.
Og með því að halda því fram að vændiskona hljóti undir öllum hugsanlegum kringumstæðum að vera fórnarlamb, hvort sem er í okkar samfélagi eða réttlátara samfélagi, ert þú líka að fordæma - þú ert að gera lítið úr tilteknum hóp fólks, sem er til þótt hann sé ekki stór, sem telur sig geta tekið frjálsa og upplýsta ákvörðun um að taka við greiðslu fyrir kynlíf.
Það liggur undir því sem þú segir að það sé eitthvað sérstakt við kynlíf, að kynlíf sé ekki bara eitt af því sem hægt er að gera með líkamanum heldur eitthvað sem stendur að einhverju leiti nær mannlegri reisn.
En hver eru þessi nánu tengsl milli kynlífs og mannlegrar reisnar? Ég ítreka að ég skil það fullvel að sjálfsákvörðunarrétturinn er nauðsynlegur mannlegri reisn og þar af leiðandi kynfrelsi og yfirráð yfir eigin líkama. En af hverju ætti það að vega meira að mannlegri reisn einhvers að stunda kynlíf gegn greiðslu en að moka skurð gegn greiðslu - að því gefnu að við höfnum gildismati feðraveldisins? Hvað er það í eðli kynlífs sem gerir kynlífssölu í sjálfu sér verri en sölu á handafli sínu? Þú svarar þessu ekki í þinni athugasemd, heldur gerir bara ráð fyrir því.
Að lokum vinsamleg ábending: Gættu þess að tala ekki niður til fólks. Ég er líka femínisti og ég hef hugsað um þetta mál í mörg ár. Ég veit að það er sennilega ekki þannig meint en það getur hljómað yfirlætislega þegar þú segir hluti eins og "...ekki rugla saman kynfrelsi og vændi. Þetta eru andstæður en ekki samstæðupar." Það felast engin rök í því að skilgreina vændi sem afsal á kynfrelsi og segja svo að það sé þrælkun. Það er bara dæmi um það að gefa sér það sem maður er að reyna að sýna fram á.
Ég vona að þú takir ekkert af þessu illa upp. Ég er ekki að reyna að stofna til rifrildis heldur að leggja til umræðunnar eitthvað sem ég held að geti skýrt línurnar og hjálpað málstað femínista - sem mér er mjög annt um. Markmiðið er að sannfæra fólk um að vændi sé böl og ég held að rétta leiðin til þess sé sú að benda á hverjar séu dæmigerðar afleiðingar vændis í hinum óréttláta raunveruleika sem við byggjum - ekki að halda í þá kenningu að vændi sé slæmt í eðli sínu undir öllum kringumstæðum. Eins og ég sagði áður eiga þeir sem mæla fyrir vændi aldrei eftir að samþykkja hið síðarnefnda, enda stenst það ekki nánari skoðun.
Kveðja,
Þórdís
Fyrir mér er þetta einfalt. Vændi hefur akkúrat ekkert með kynlíf að gera. Ekki frekar en Breiðavík hafði eitthvað með umönnun barna að gera.
Ætli Þórdísi finnist ég tala niður til einhverra með þessari athugasemd. En ef ég væri karlmaður?
Hringbraut ég veit ekki hvað þú átt við með orðinu kynlíf ef þú telur að það sé ekki það sem er verið að borga fyrir í vændi.
Ég skil heldur ekki hvað þú ert að fara með seinni málsgreininni, en mér finnst hún ókurteisleg.
Katrín skrifaði mér langt og málefnalegt svar og ég svaraði málefnalega á móti. Ég gagnrýndi framsetningu hennar á einum stað: það hefði farið betur á því að segja að það væri hennar álit að ég væri að rugla tveimur hlutum saman - ég held alls ekki að það sé til marks um neitt raunverulegt yfirlæti, enda ber ég virðingu fyrir Katrínu og hennar framkomu.
Ég veit hins vegar ekki hvað vakir fyrir þér með svona glósum. Ef þú vilt ræða athugasemdir mínar efnislega er það velkomið.
Kveðja,
Þórdís
Þórdís - málið er nefnilega að kynlíf er alls ekki stærsti hlutinn af vændinu. Aðalmálið eru völdin - að geta keypt aðra manneskju.
Þar fyrir utan - mín barátta er fyrir kynfrelsi. Sú barátta felst ekki í því að snúa kynlífi í einhvern ópersónulega tilfinningasnauða athöfn, eins og að moka skurð.
Sama hversu mikið fólk reynir að telja sér trú um að vændi sé handaflsaðgerð - þá hef ég enga trú að sá tími muni nokkurn tíma koma. Kynlíf mun alltaf vera merkingarbært í okkar samfélagi á annan hátt en sem hver önnur vinna. Peningar hafa líka merkingu. Frjáls vilji og frelsi sömuleiðis - og manneskjan er tilfinningavera. Vændi er þar að auki byggt á einni mestu kúgun og ofbeldi sem til er - og sú saga mun aldrei hverfa.
**
Hins vegar - ég hef fulla trú á því að það sé hægt að telja sumum konum trú um að fara í vændi með því að hæpa það upp, búa til glamúr í kringum klámið og vændið og þar fram eftir götum. Þegar á hólminn á komið munu þessar sömu konur hins vegar upplifa allt annan veruleika - og það mun ekki verða frábært kynlíf, ríkidæmi eða frelsi.
Takk fyrir svarið Katrín.
Ég held að þarna séum við komnar að kjarnanum í því sem við erum ósammála um. Þú segir að það samræmist ekki kynfrelsi að stunda kynlíf á ópersónulegan og tilfinningasnauðan hátt. Það held ég að sé rangt. Margt fólk stundar kynlíf sér til skemmtunar án þess að vera í ástarsambandi. Ég held að það væri ósatt að halda því fram að hver sem það gerir lifi í sjálfsblekkingu (þótt auðvitað séu sumir eflaust í sjálfsblekkingu og/eða með skaddaða sjálfsmynd). Fólk sem er heilbrigt og í jafnvægi kýs að haga kynlífi sínu með ýmsum ólíkum hætti.
Þú segir að það að borga fyrir kynlíf sé "að kaupa aðra manneskju". En til þess að þetta tvennt sé jafngilt - að manneskja sé keypt þegar henni er borgað fyrir kynlífsathafnir en ekki þegar henni er borgað fyrir aðrar athafnir - þurfum við að gera ráð fyrir því að kynlíf sé eitthvað alveg sérstakt og sérstaklega nátengt því hver maður er sem manneskja. Það er þetta sem við erum ósammála um.
Ég ítreka að við erum sammála um að vændi sem er stundað í okkar samfélagi er í langflestum tilfellum skaðlegt þeim sem það stundar, form af kúgun og oftast gert af neyð. Það er rétt að saga kúgunar hverfur ekki, en það er ekki þar með sagt að kynlíf muni "alltaf vera merkingarbært í okkar samfélagi á annan hátt en hver önnur vinna." Þetta er þín skoðun og ég skil hana og ber virðingu fyrir henni en held að þú hafir ekki rök fyrir henni önnur en eigið gildismat og tilfinningu. Ég held að með því að brjóta niður eðlishyggju og tvískinnung um kynlíf byggjum við upp það viðhorf að kynlíf sé bara eitt af öllu því sem manneskjur geta gert við líkama sinn og að það séu engar forsendur fyrir því að dæma neinn fyrir kynhegðun.
Varðandi fyrstu málsgrein þína: Já í vændi felst oft kúgun og valdbeiting. En það veldur því ekki að vændi hætti að hafa neitt að gera með kynlíf, þvert á móti: þú heldur því fram að vændi sé rangt einmitt af því að það felur í sér kynlíf, ef greiðslan væri fyrir eitthvað annað væri það ekki vændi og ekki í eðli sínu slæmt í þínum augum. Þótt það sé kynlíf undir kringumstæðum sem flestir vilja ekki stunda kynlíf breytir það því ekki að það sem allt snýst um eru kynferðislegar athafnir.
Að lokum, jafnvel þótt ég féllist á að kynlíf sé alltaf óaðskiljanlegt frá tilfinningum - sem ég er ekki sammála - væri það ekki nóg til að sýna fram á að vændi sé í eðli sínu slæmt. Mörg störf er ekki hægt að vinna án þess að þau hafi áhrif á mann tilfinningalega: spurðu dagforeldri, hjúkrunarfræðing eða kennara, svo fátt eitt sé nefnt.
Bestu kveðjur,
Þórdís
Skoða þetta betur seinna - þegar ég hef tíma - en verð að koma því strax að að þetta er ekki rétt túlkun hjá þér þegar þú segir:
„Þú segir að það samræmist ekki kynfrelsi að stunda kynlíf á ópersónulegan og tilfinningasnauðan hátt.“
Þú ert að hrapa að ályktunum þarna - en ég skoða restina frá þér betur þegar ég hef tíma.
Já, það er í góðu lagi.
Svo það sé á hreinu var ég að túlka þessi orð þín:
"...mín barátta er fyrir kynfrelsi. Sú barátta felst ekki í því að snúa kynlífi í einhvern ópersónulega tilfinningasnauða athöfn, eins og að moka skurð."
Þ.
Sæl Þórdís - já ég veit hvaðan þú tekur þessa túlkun en þarna ertu að snúa orðunum á hvolf og draga allt of stóra - og ranga - ályktun út frá því sem ég sagði.
Mér er slétt sama hvort fólk stundar ópersónulegt og tilfinningasnautt kynlíf - tel það vera part af kynfrelsi fólks að mega það. Það er allt annar handleggur en að ætla að fara í baráttu til að afmá öll tilfinningatengsl og merkingu úr kynlífi og snúa því upp í hverja aðra athöfn - eins og að moka skurð. Það er líka allt annað að stunda ópersónulegt og tilfinningalaust kynlíf með einhverjum sem fólki langar til að stunda slíkt með heldur en að vera keypt/ur í slíka athöfn. Peningarnar setja annan vinkil á málið.
Kjarninn snýst um valdatengsl, jafnrétti og frelsi. Ég held ég sé búin að útskýra þau áður. Kynlíf hefur allt aðra merkingu í okkar samfélagi heldur en skurðgröftur. Ég held ég þurfi ekkert að útskýra þann mun. Sú merking kemur frá fleiru en tilfinningunum - líka frá því að svona getur fólk börn, heitir hvort öðru trúnað og margt, margt fleira.
Siðferði kemur vissulega við sögu varðandi vændið - og það tel ég af hinu góða - enda er siðferði forsenda til að samfélag geti kallað sig siðmenntað. Hins vegar held ég að við eigum við sitthvorn hlutinn þegar við tölum um siðferðið - enda er það í þessu máli ekkert tengt „lauslæti“ eða kynhvöt kvenna - enda tel ég konur eigi rétt á hvorutveggja.
Ég veit ekki hvað ég á að reyna að útskýra þetta miklu betur - ég er hér um bil (og afsakaðu það) komin í að hugsa um að ég þurfi að útskýra muninn á kynlífi og legókubbum... sem mér finnst sambærilegur og munurinn á kynlífi og skurðgreftri. Skilurðu hvað ég meina? Ég held að allir þekki þennan mun - og held að það sé frekar þitt að útskýra hvernig þetta tvennt getur fengið sömu merkingu í okkar samfélagi og af hverju þér finnst eftirsóknarvert að berjast fyrir því að þetta tvennt fái sömu stöðu?
Setjum til hliðar allar empírískar pælingar, gleymum þrælahaldinu, mansalinu og öllum þeim hryllingi, og fókusum á spurninguna "Af hverju er kynlíf af öðrum siðferðislegum kalíber en aðrar athafnir mannfólksins?" Þú segir:
"Það er líka allt annað að stunda ópersónulegt og tilfinningalaust kynlíf með einhverjum sem fólki langar til að stunda slíkt með heldur en að vera keypt/ur í slíka athöfn. Peningarnar setja annan vinkil á málið."
Samfélagið er fullt af niðrandi störfum. Ég vann um tíma í þjónustustarfi, og fannst niðrandi og ömurlegt að taka við skipunum frá mönnum sem ég áleit mér síðri, hirða upp ógeðslegar matarleyfar eftir fólk, hreinsa klósett, tæma illa lyktandi öskubakka o.s.fv. Í minni reynslu lítur fólk yfirleitt niður á þá sem starfa í þjónustustörfum, og kemur dónalega fram. Ég lét mig þó hafa þetta starf um tíma vegna þess að ég þurfti á peningunum að halda.
Hver er mismunurinn á svona starfi og vændi?
Þetta voru athafnir framkvæmdar fyrir peninga. Eini munurinn er mismunandi eiginleikar þjónustunnar sem var verið að veita. Ég þurfti ekki að eiga kynmök við neinn í mínu starfi þá. Hefði það *í eðli sínu* verið eitthvað meira niðrandi? Ef þú svarar því játandi, þá hlýturðu að fallast á það sem hún Þórdís sagði -- að þú álítir kynlíf vera einhvers konar "sui generis" athöfn með algjöra sérstöðu meðal mannlegra athafna. Þú hefur ekki rökstutt þetta á neinn hátt. Það er þá auðvitað bara þín persónubundna skoðun, en það er þá tæpast réttlætanlegt að þröngva henni upp á alla aðra með lagasetningu. Það myndi enginn pína *þig* í vændi, þótt það væri löglegt.
Það dugar heldur ekki að segja að það að eiga mök *fyrir peninga* sé eitthvað sérstaklega niðrandi, peninganna vegna. Það sem fólki finnst niðurlægjandi er mjög mismunandi. E.t.v. finnst sumum, ólíkt mér, ekkert niðrandi að þrífa upp skítinn eftir ókunnuga. E.t.v. finnst sumum ekkert niðrandi að stunda kynmök gegn greiðslu. Dæmigerða svarið við þessu er "Það finnst enginn sem finnst ekki niðrandi að stunda kynmök gegn greiðslu", en þarna er auðvitað bara verið að alhæfa um mannkynið í heild sinni út frá mjög tamörkuðum gögnum. Og þótt málum sé svo háttað að 99% af vændiskonum finnist starf sitt niðrandi, þá breytir það engu. Fullt af fólki vinnur við hluti sem það hatar, peninganna vegna. Hversu mörgum sem hreinsa klósett finnst það niðrandi? Fólk lætur sig hafa allan andskotann fyrir peninga, af hverju er kynlíf sér á báti?
Enn fremur: Forsendurnar sem fólk metur hæst í ákvörðunum um hvort það ætli að eiga kynmök með e-m geta verið margar: Er viðkomandi myndarleg/ur? Er viðkomandi skemmtileg/ur? Getur viðkomandi fært mér þá hluti sem ég sækist eftir -- e.t.v. fjárhagslegt öryggi, börn, etc. Af hverju eru *peningar* sem slíkir svona illir í ákvörðunum af þessari gerð? Hvað er það við peningaskiptin sjálf sem gerir kynlíf skítugt, óheilagt, rangt o.s.fv. Ég sé ekki hvað það er, og eina mögulega svarið sem mér dettur í hug væri í anda Marx -- að kapítalísk skipti séu í sjálfu sér óréttlát -- en þú ert nú tæpast á þeim pól.
"Kjarninn snýst um valdatengsl, jafnrétti og frelsi"
Auðvitað snýst þetta um valdatengsl, eins og öll kaup og sala á þjónustu og vörum. Þeir sem eru með peninga hafa vald til að kaupa sér vörur og þjónustur eftir eigin geðþótta. Þeir sem eiga lítið af peningum eru knúnir til að selja þjónustu sína og vörur til að framfleyta sér. Þetta er engin kjarneðlisfræði. Spurningin hérna er af hverju ákveðin þjónusta -- kynlífsþjónusta -- eigi að lúta öðrum lögum. Ég sé *ekkert* í þinni orðræðu -- annað en persónubundnar, tilfinningalegar skoðanir þínar -- sem útskýrir það.
Hvað frelsi varðar, þá er það auðvitað skerðing á frelsi fólks að leyfa þeim ekki að selja þær þjónustur sem þeim sýnist. Í öllu þínu tali, eins og Þórdís benti réttilega á, beitir þú því ódýra mælskubragði að blanda saman hugtökunum vændi og þrælahaldi, sem er langt frá því að vera það sama, þótt það fari vissulega oft hönd í hönd. Þú misnotar orðatiltækið að "vera keypt/ur" til þess að ýja að því að þarna sé fólk að fórna e-u æðra frelsi en því sem það lætur af hendi þegar það vinnur störf af annari gerð, án þess að koma með nokkurn rökstuðning fyrir því. Í sannindum þá eru það þeir sem vilja banna vændi sem vilja minnka frelsi fólks. Í stað þess að berjast gegn vændi, per se, ætti að berjast gegn alvöru frelsisskerðingu: kúgun, þrælahaldi, mansali.
Að lokum sé ég síðan ekki hvernig jafnrétti tengist vændi á nokkurn hátt. Annað hvort ætti vændi að vera leyfilegt (og ég er því fylgjandi) eða ólöglegt. Hvernig sem það fer, þá ættu sömu reglur að gilda um bæði kynin. Annað væri misrétti.
Virðingarfyllst,
Sveinbjörn
Sæl aftur Katrín,
Sveinbjörn orðar ágætlega margt af því sem ég vildi segja til að svara síðustu athugasemd þinni. En ég vil aðeins bæta við.
Þú segir annars vegar að fólk eigi að hafa kynfrelsi til að stunda kynlíf eins og því sýnist; þar með talið án þess að eiga í persónulegu eða tilfinningalegu sambandi við bólfélagann.
En svo segirðu að kynlíf hafi "aðra merkingu" í okkar samfélagi en aðrar athafnir og að allir skilji muninn. Ef þú átt við að þessi merking ráðist á einhvern hátt af því hvernig kynlíf sé í eðli sínu ertu komin í mótsögn við það sem þú segir um kynfrelsi: það jafngildir því að segja að sumar kynlífsathafnir séu bara rangar punktur og fólki ætti ekki að vera frjálst að stunda þær.
Það að kynlíf öðlist tiltekna merkingu í tilteknu samfélagi er á hinn bóginn augljóst og í samræmi við allt sem ég hef sagt. Ég held reyndar að viðhorfin til kynlífs í okkar samfélagi séu mjög brengluð og lít á það sem eitt af mikilvægum baráttumálum femínista til lengri tíma að breyta þeim. Það er gegnumgangandi tvískinnungur og hræsni í þeim skilaboðum sem samfélagið sendir um kynhegðun kvenna sérstaklega, og ég held að ef það tækist að uppræta hann myndi það meðal annars hafa þessar tvær afleiðingar:
1) Færri myndu stunda vændi, bæði vegna þess að eftirspurnin yrði minni og vegna þess að stúlkum væri ekki innrætt að kynþokki væri þeirra helsta tæki til að bjarga sér í lífinu.
2) Það væri ekkert athugavert við það vændi sem ennþá yrði stundað.
Rökstuðningurinn fyrir fullyrðingu númer 2 er þessi: Helsta ástæða þess að vændi er mannskemmandi í okkar samfélagi er sú að það á sér stað í umhverfi með brengluðu gildismati. Fólk lítur niður á vændiskonur og fordæmir þær. Vændiskona eða -karl sem hefði tekið frjálsa og upplýsta ákvörðun og þyrfti ekki að búa við fyrirlitningu og fordóma samfélagsins myndi ekki skemmast á sálinni við að stunda vændi.
Varðandi það sem þú segir um siðferði: ég minntist reyndar ekki á siðferði berum orðum. En það má kristalla það sem ég er að reyna að segja svona: Þótt tiltekin athöfn (í þessu tilfelli kaup á vændi) geti verið siðferðilega röng undir tilteknum kringumstæðum er ekki þar með sagt að hún sé siðferðilega röng í eðli sínu. Það er mikilvægt að greina þarna á milli. Það getur verið siðferðilega rangt að segja sannleikann í sumum tilfellum - ímyndaðu þér til dæmis nasistaforingja sem spyr þig hvar gyðingafjölskylda sé í felum, svo við notum frægt dæmi - en að segja sannleikann er í eðli sínu ekki siðferðilega rangt.
Ástæðan til þess að ég skrifa allar þessar athugasemdir er sú að ég held að það komi sér sérstaklega illa fyrir málstað femínista að missa sjónar á því að það sama er tilfellið um vændi.
Þú hefur verið í forsvari fyrir íslenska femínista undanfarin ár og haft mótandi áhrif á umræðuna. Þar sem ég er í hópi íslenskra femínista finnst mér ég bera nokkur skylda til að benda á atriði eins og þetta. Það er líka ástæða til að leggja áherslu á það að femínismi er vítt hugtak og helstu femínískir hugsuðir og aktívistar eru ósammála um vændi, klám og mörg önnur málefni.
Mér sýnist á síðustu færslu að þú hafir tekið þér páskafrí frá blogginu. Eigðu gott frí, og ég vona að þú komir aftur inn í þessa umræðu endurnærð í næstu viku.
Kveðja,
Þórdís
Skrifa ummæli