miðvikudagur, mars 05, 2008
„Konurnar heim“
Dagur B. Eggertsson hitti naglann á höfuðið með því að gefa fyrirhuguðum heimgreiðslum nafnið „konurnar heim“. Ég hef áður skrifað um að svona greiðslur eru ekkert annað en handaflsaðgerð til að koma konunum inn á heimilin - með greiðslum sem er langt undir lágmarkslaunum. Stjórnvöld eiga ekkert með slík afskipti. Svona greiðslur eiga sér heiti í femínismanum. Þær eru kallaðar mömmugildra, eða mommy trap upp á enskuna.
Í opinberri orðræðu eru alls kyns aðgerðir til að stuðla að jafnrétti slegnar út af borðinu á þeirri forsendu að þetta eigi nú bara allt að koma af sjálfu sér, eða að sagt sé að konur þurfi nú enga aðstoð, forgjöf eða hvað þetta er nú allt kallað. Sömu stjórnvöld víla ekki fyrir sér handaflsaðgerð eins og þá að greiða konum smánarlegar greiðslur til að vera heima í stað þess að veita þá grundvallarþjónustu sem vitað er að er nauðsynleg til að bæði kyn eigi möguleika á að vera úti á vinnumarkaði - og vera fjárhagslega sjálfstæð. Smánargreiðsla sem er vel undir lágmarkslaunum er ekki til þess fallin að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæðu, auk þess sem hún hefur hamlandi áhrif á möguleika og stöðu á vinnumarkaði.
Nú munu örugglega einhverjir segja að greiðslurnar séu ekki kynbundnar, séu jafnt fyrir konur og karla. Já, í orði en ekki á borði. Reynslan hefur sýnt okkur að það eru konurnar sem fara inn á heimilin, ekki feðurnir. Fyrirvinnuhugtakið er svo nátengt karlmennskuímyndinni á meðan móðurímyndin er nátengd kvenímyndinni. Það er ekki um jafnræði að ræða í pressu varðandi kynhlutverk. Auk þess er staða á vinnumarkaði skekkt - karlar eru með hærri laun og því finnst mörgum lógískt að aðilinn sem er með lægri laun verði heima...
Launaður vinnutími karla er lengri en launaður vinnutími kvenna. Ef stjórnvöld vilja beita handaflsaðgerðum væri nær að aðgerðirnar miðuðu að því að stytta launaðan vinnutíma karla og stuðla að því að þeir axli aukna ábyrgð á heimilisstörfum. Aðgerðin „pabbarnir heim“ væri því mun nærtækari aðgerð í jafnréttisátt heldur en aðgerðin „konurnar heim“ - sem er ekkert annað en bakslag og framlag stjórnvalda til áframhaldandi misréttis.
ps. læt fylgja með mynd úr amerískri aðgerð!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Mér finnst svona greiðslur fáránlegar að öllu leiti. Þetta veikir stöðu kvenna á vinnumarkaði og þetta ýtir undir "svarta vinnu".
Það væri samt gaman ef þetta færi framkvæmd að það yrði sett takmörkun á að umsækjendur þyrftu að vera jafn margir að hvoru kyni. Þá á ég við að ef 500 karlar sækja um þetta þá yrði ekki veitt nema 500 konum þessi greiðslu jafnvel þó 5000 konur myndu sækja um þetta.
Eða setja hreinlega karla kvóta á heimgreiðslur með því að hafa þær eingöngu fyrir karla!
Óttalega þykir mér þetta slappt hjá þér að henda athugasemdinni minni.
Mundu bara næst að vera kurteis - og taka húmorinn með!
Neita því ekki að ég hafi blótað hvað, einusinni-tvisar?
EN, breytir því ekki að það er arfaslakt að eyða athugasemdinni í stað þess að rökstyðja mál þitt.
Mér finndist það arfaslakt ef hver sem er gæti vaðið hingað á skítugum skónum með dónaskap og læti og ég væri ekkert nema elskulegheitin og undirgefnin á móti... Ef þú vilt svör - vertu þá kurteis. Einfalt mál.
Þú hefur nú ekki verið neinn engill á þessari síðu sjálf sko.
En ég færði rök fyrir máli mínu, skrifaði formlega og rétt, en blótaði tvisvar til að koma ótrúlegum pirringi mínum á framfæri. Það er ekki dónaskapur Katrín.
Skrifa ummæli