miðvikudagur, apríl 30, 2008

1. maí ganga

Fulltrúar úr ráði Femínistafélags Íslands verða á Hlemmi kl. 13 á morgun með veifur og borða til að vera með í göngunni. Gangan leggur af stað kl. 13:30 frá Hlemmi og gengur niður á Ingólfstorg þar sem dagskrá hefst kl. 14:10 og lýkur kl. 15:00. Ýmis verkalýðsfélög bjóða upp á kaffi eða mat, við hvetjum femínista til að taka þátt í göngunni, annað hvort með FÍ eða sínu verkalýðsfélagi. Mætum öll í bleiku!

kv,
Ráðið
***

Ávarp Femínistafélags Íslands, 1. maí 2008

Femínistafélag Íslands fagnaði fimm ára afmæli sínu fyrr á árinu. Frá upphafi hefur félagið látið til sín taka á 1. maí, baráttudegi verkalýðsins. Ekki er vanþörf á, því í gegnum tíðina hafa kvennastéttir verið verr launaðar og minna metnar en karlastéttir. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því hæsta sem þekkist. Samt sem áður er mikill munur á atvinnutekjum karla og kvenna. Baráttan fyrir jöfnum launum hefur staðið yfir í meira en 100 ár á Íslandi. Lög um launajafnrétti voru samþykkt hér á landi árið 1961, atvinnurekendur fengu þá sex ára aðlögunartíma en enn sér varla högg á vatni. Nú á árinu gengu loksins í gegn lög sem veita konum aðgang að einu mikilvægasta tækinu í þessari baráttu, en það eru upplýsingar um laun annarra, en með nýjum jafnréttislögum hefur launafólk loks rétt til að tjá sig um kaup og kjör.

Ein stærsta kvennastéttin - kennarar - samdi í vikunni og vonandi verður staðið við þær forsendur samninganna að þessi hópur fái hlutfallslega hærri launahækkun en aðrir. Í núverandi efnahagsástandi er einnig ástæða til þess að fagna því að einungis er samið til eins árs. Aðrar kvennastéttir standa þó í baráttu og nauðsynlegt er að huga að því í kjarasamningum á árinu að vinna gegn launamun kynjanna hjá öllum stéttum.

Nú eru blikur á lofti í efnahagsmálum. Verðbólgan rýkur upp, kaupmáttur rýrnar og talað er um kreppu. Ljóst er að erfiðir tímar eru framundan í íslensku efnahagslífi og mörg heimili munu finna fyrir áhrifunum. Kynin hafa ekki setið við sama borð í gegnum efnhagslægðir og -hæðir í gegnum tíðina. Við upphaf efnahagslægðar er því ekki úr vegi að rifja upp söguna. Með því móti getum við lært af henni og verið vakandi til að láta sömu mistökin ekki henda aftur og aftur.

Gætum þess að nú verði ekki gripið til þess að fórna störfum kvenna og lífsgæðum þeirra fyrir „meiri“ hagsmuni. Tilraunir yfirvalda til að greiða konum smánarlegar upphæðir til að vera heima með börn eru leið til að koma konum út af vinnumarkaðnum, í lengri eða skemmri tíma. Tryggja skal atvinnuöryggi karla á kostnað kvenna - eins og endurspeglast í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Á meðan leggur félagsmálaráðherra 116 milljónir í atvinnusköpun kvenna.

Konur krefjast jafnréttis og jafnrar stöðu - yfirvöld verða að veita þeim sama stuðning og atvinnuöryggi og körlum. Konur, stöndum saman í kjarabaráttunni á árinu og alltaf.

1. maí

Konum er oft sagt að launamunur kynjanna sé þeim sjálfum að kenna af þeirri ástæðu að þær sætta sig við lægri laun. Þær eigi einfaldlega að hætta ef þær eru ekki sáttar við kjörin. Sumir ganga svo langt að hvetja konur til að skipta hreinlega um náms- og starfsval. Jamm... þætti gaman að sjá þjóðfélag þar sem engir eru kennararnir, hjúkkurnar, leikskólakennarar, ófaglærðir leiðbeinendur, ræstingafólk, starfsfólk á dvalarheimilum, í fiskvinnslu, sjúkraliðar... og svo mætti lengi áfram telja.

Þjóðfélagið þarf á þessum stéttum að halda og á auðvitað að sjá sóma sinn í því að borga fyrir þau kvensæmandi laun!

Hins vegar má líka færa rök fyrir því að eins og samfélagið er uppbyggt þá ræður sanngirni og réttlæti ekki för. Það sem blívur er oft á tíðum harkan. Eina leiðin til að fá kvensæmandi laun er hugsanlega að láta hart mæta hörðu, fara í verkfall, hætta! Þegar skorturinn er orðinn aðkallandi þá hækka launin. Þannig er það frumskógarlögmálið sem ræður hver fær sæmandi laun og hver ekki... Það er ekki sanngirni, samvinna og réttlát umbun fyrir störf sem eru þjóðarbúinu nauðsynleg sem hefur úrslitaáhrifin. Hjúkrunarkonur og geislafræðingar láta reyna á þessa leið núna. Ég vona að þeim gangi vel og láti ekki undan fyrr en þær fá sínu framgengt. Vona líka að viðsemjendur fari ofan í kjölin á samfélagsgerðinni og íhugi alvarlega hvort þetta eigi alltaf að vera stemningin - að fólk neyðist til að vera í svona baráttu í staðinn fyrir að fá hreinlega sanngjörn laun.

1. maí á morgun. Tækifæri til að fara í kröfugöngu og krefjast sanngjarna launa. Þegar baráttan er veik er hætt við að launin verði lág! Koma svo!

ps. Endilega kíkið á pistilinn hennar Steinunnar Stefáns í Fréttablaðinu í dag. Frábær pistill.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Að bæta gráu ofan á svart

Ég er ein af þeim sem er ekki hrifin af aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum þessa dagana. Tek undir með þeim sem hafa sagt að afnema þurfi stimpilgjöld hið fyrsta. Það er reyndar ekki rétt að tala um aðgerðarleysi... það flokkast alveg undir aðgerð að gefa út yfirlýsingu þess efnis að stimpilgjöld fyrir kaup á fyrstu íbúð verði afnumin í júlí og öll stimpilgjöld á kjörtímabilinu - eins og segir í stjórnarsáttmálanum ef mig minnir rétt. Með þessari „aðgerð“ er í raun verið að frysta fasteignamarkaðinn. Fólki munar um stimpilgjöldin. Þarna er verið að bæta gráu ofan á svart. Fasteignaverð mun fara lækkandi en með þessu þá er hætt við að hann bókstaflega hrynji.

Nú er líka að koma betur og betur í ljós hversu gallað okkar blessaða kerfi er. Nú situr í Davíð í Seðlabankanum að díla við afleiðingar af ákvörðunum sem hann tók og studdi sem forsætisráðherra. Burtséð frá því hversu hæfur eða óhæfur Davíð er, þá á þetta hreinlega ekki að líðast.

ps. óska svo kennurum til hamingju með nýgerða kjarasamninga :) Loksins.

Konur eru Japanir

Hlustaði á viðtalið við Kristínu Péturs og Höllu Tómas í Morgunvaktinni í morgun. Ég hef ofurtrú á þeim stöllum og held þær eigi eftir að breyta fjármálageiranum til hins betra. Það kom fram í viðtalinu að konur hugsa oft lengra fram í tímann en karlar, sem láta þá væntanlega skammtímasjónarmið frekar ráða för í ákvarðanatöku. Þegar ég var í viðskiptafræðinámi var andstæðuparið ekki karlar vs konur heldur Kanar vs Japanir. Þá var það Kaninn sem var í skammtímahugsuninni en Japanir í langtímahugsun.

Samkvæmt þessu ætti eðlishyggjufólk að komast að þeirri niðurstöðu að konur séu Japanir ;)

Okkar á milli frh

í gær var kona viðmælandi í þættinum Okkar á milli á Rás 1. Yes, kærkomið. Í dag var karlmaður.

Kynjahlutföllin eru því:

10 karlar - 83%
2 konur - 17%

mánudagur, apríl 28, 2008

2 góðar fréttir

Sú fyrri er að viðskiptavinir Íslandspósts hafa aftur öðlast frelsi til að afþakka fjölpóst. Fjölpóstur eru óumbeðnar, óumhverfisvænar auglýsingar sem geta kostað fyrirhöfn og draslsöfnun. Neytandinn lendir í að þurfa að greiða förgunarkostnað (eða sitja uppi með samviskubit yfir að endurvinna ekki) fyrir auglýsingar sem hann eða hún vildi ekki fá fyrir það fyrsta. Ég hringdi í þjónustuver Íslandspósts og komst að því að „þjónustan“, þ.e. að dreifa fjölpósti ekki á þau heimili sem segja „nei takk“ hefst 15. maí.

Hin góða fréttin er sú að Auður Capital hefur fengið starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki! Til hamingju Halla og Kristín! :)

föstudagur, apríl 25, 2008

studningskvedjur

Studningskvedjur til Láru Ómars!

Hvaða skammir?

Hvernig getur eftirfarandi flokkast undir skammir?

Af ruv.is:

Mótmæli: Ráðherra skammaður

Dómsmálaráðherra hafa borist skammarbréf eftir átök lögreglu á Suðurlandsvegi í gær. Þar er hann meðal annars hvattur til að svipta sig lífi. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra fjallar um átökin á bloggsíðu sinni.

Þar birtir hann m.a. þrjú bréf sem honum hafa borist vegna málsins.

Í því fyrsta segir meðal annars: "Ég vona af ollu minu hjarta að þú fáir banvænan og sársaukafullann sjúkdóm og lifir sem lengst í þjáningum, kannski gerir þér grein fyrir hversu mikil mannfýla þú ert undir þeim kringumstæðum, valdasjúkur ofbeldisseggur og geðsjúklingur". Undir skrifar Snorri.

Hilmar Bjarnason er ekki jafn harðorður en segir "sjáðu sóma þinn i því að reka þessa lögreglumenn sem gáfu skipun um þessar aðgerðir. EINIG SKALT ÞÚ SEGJA AF ÞÉR EMBÆTTI NÚ ÞEGAR!!!"

Þriðja bréfið er frá Arnóri Jónssyni,sem segir„Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands".

Ráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa Sjónvarps hafði við hann samband síðdegis.

Þetta er einfaldlega ljótt og ofbeldisfullt - þ.e. úr bréfi 1 og 3. Læt nr 2 liggja á milli hluta. Svona hótanir og mannhatur hafa lítið að gera með skammir.

Forskot með fjölbreytileika

Langar að hvetja fólk til að mæta á þetta málþing í dag:

(af heimasíðu RIKK - www.rikk.hi.is)

Forskot með fjölbreytileika - málþing um jafnrétti

Föstudaginn 25. apríl standa jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisnefnd Kennaraháskóla Íslands og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands fyrir málþingi um jafnrétti í breiðum grundvelli, með yfirskriftinni „Forskot með fjölbreytileika“.

Fjallað verður um jafnréttismál frá ýmsum sjónarhornum, og er markmiðið að skapa samræðu milli fræðafólks í báðum skólum, nemenda, stjórnsýslu, og annarra sem áhuga hafa á jafnréttismálum. Það er stefna Háskóla Íslands að vera ávallt í fararbroddi í jafnréttismálum og liður í því er að skapa og viðhalda umræðu um kynja- og jafnréttismál með margvíslegum hætti.

Á málþinginu verður fjallað um ýmsar þær spurningar sem máli skipta fyrir menntastofnanir sem vilja leggja áherslu á jafnréttismál í sínu starfi og skapa samfélag fjölbreytileikans innan sinna veggja. Þetta verður gert með umræðum í vinnustofum, erindum og pallborðsumræðum.

Kristín Ingólfsdóttir rektor mun setja málþingið og síðan flytja erindi þau Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræði og þróunarstjóri HÍ, Ólafur Páll Jónsson, lektor í heimspeki og formaður jafnréttisnefndar KHÍ, og Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Fundarstjóri verður Brynhildur Flóvenz, lektor í lögfræði og formaður jafnréttisnefndar HÍ.

Fjórar vinnustofur, þar sem jafnréttismál verða rædd frá ýmsum hliðum, verða í boði og er allt áhugafólk um jafnréttismál hvatt til að taka þar þátt. Málþinginu lýkur með pallborðsumræðum, en í pallborði verða fulltrúar úr röðum fræðafólks, stjórnsýslu HÍ, nemenda og Jafnréttisstofu.

Málþingið verður í Öskju og hefst það kl. 13 og lýkur með móttöku kl. 17.

Dagská málþingsins (50kb)

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Kynjavinklar á forsetaframboðinu

Þó ég hafi nú ekki náð að vaka langt fram á nótt til að sjá úrslitin í Pennsylvaníu vakti ég nógu lengi til að sjá fyrstu tölur. Lokaúrslitin voru nokkurn vegin þau sömu. Útgönguspár gáfu til kynna um 6 prósentustiga mun en tekið var fram að yfirleitt sýndu útgönguspár betri útkomu fyrir Obama heldur en lokaúrslit. Það gekk eftir í þetta sinn líka. Sem betur fer :) Ég vil að Hillary Clinton vinni.

Tvennt sem mér finnst mjög áberandi í þessari kosningabaráttu sem hefur kynjavinkil (þeir eru þó fleiri).

Hann á mun auðveldara með að afla fjár en hún. Þetta er algjörlega í takt við söguna - konur eiga ekki eins auðvelt aðgangi að fjármagni og karlar. Í þetta sinn ætti hún að hafa allt til alls. Hún er heimsþekkt, vel liðin, súpergáfuð, yfirmáta gott tengslanet... allur pakkinn. Hann kemur fram á sjónarsviðið nánast óskrifað blað - með sutta þingreynslu að baki. Samt mokar hann inn mun meira fé en hún. Get ekki varist þeirri hugsun að á bak við hans framboð standi hvítir karlar sem fóru í leit að karlkyns frambjóðanda sem ætti möguleika á að stöðva konuna hana Hillary... Sem er reyndar í takt við suman þann áróður sem hefur verið rekinn fyrir því að kjósa hann... sumir segja nefnilega að viðmiðið ætti að vera hvort hvítir karlar hati minna; svartann karl eða hvíta konu! Niðurstaðan úr þeim pælingum var að hvítu karlarnir myndu frekar sætta sig við karlmann „þótt hann væri svartur“ heldur en konu „þótt hún væri hvít“. Held að Jay Leno, sem er nú ekki í miklu uppáhaldi hjá mér sökum karlrembu, hafi nú samt sagt þetta best: „Það er löngu tímabært að hvítir karlar fái að ráða einhverju í þessu samfélagi!“

Hitt sem er áberandi er krafan um að Clinton hætti í framboði. Hún er að skemma fyrir flokknum, hún á ekkert að vera í þessari baráttu, Clinton farðu heim! Maðurinn hennar var samt ekki útnefndur fyrr en í júní og svo á örugglega við um marga fleiri karlkyns frambjóðendur sem fólk hefur ekki séð ástæðu til að hrekja úr baráttunni. Svo segir fólk að konur hafi minni áhuga á stjórnmálum en karlar... Konur mæta bara allt öðru viðmóti og viðbrögðum í stjórnmálum heldur en karlar. Þeim er líka beinlínis skipað að hætta... eins og sést glögglega á umræðunni í kringum Hillary.

Okkar á milli

Í morgun var aftur karlmaður viðmælandi í þættinum Okkar á milli. Kynjahlutfallið er því orðið 9 á móti 1, eða 90% kk og 10% kvk. Ég á þó von á að þetta breytist. Í gær sendi ég ábendingu á RUV og fékk svar tilbaka þar sem þakkað var fyrir ábendinguna og þessu mun verða kippt í liðinn. Þetta eru fagleg og góð viðbrögð - væri óskandi að sumir tækju þetta til fyrirmyndar. Nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn byrjar á Egill Helgason... ;)

þriðjudagur, apríl 22, 2008

11%

Hlutfall kvenna í fjölmiðlum er stundum rætt, þá aðallega vegna þess hversu skakkt kynjahlutfallið er. Rannsóknir leiða oft í ljós að hlutur kvenna er um (og undir) þriðjungi. Rannsóknir hér á landi frá 1999, 2000 og 2005 leiddu í ljós kynjahlutfall sem var í kringum 25% í fréttum og fréttatengdu efni.

Við vöknum oft við Morgunvaktina á morgnanna. Frábær þáttur, vel að merkja! Ég hef nú ekki lagst yfir kynjahlutfallið í þeim þætti en á eftir Morgunvaktinni er þáttur sem heitir Okkar á milli. Undanfarið höfum við hjónaleysin tekið eftir því að það virðast bara vera karlar í þættinum. Síðasta fimmtudag var kona, Halla Helgadóttir, viðmælandi og við rákum upp stór augu, þetta var eitthvað svo út fyrir mynstrið.

Af einskærri forvitni ákvað ég að tékka á hvernig kynjahlutfallið er í þættinum. Á ruv.is er að finna hljóðupptökur fyrir síðustu 2 vikurnar. Þættirnir eru á dagskrá frá mánudegi - fimmtudags og alls eru 9 þættir aðgengilegir á netinu. Kynjahlutfallið er 8 karlar og 1 kona. 89% karlar og 11% konur. Þetta er ekki boðlegt af Ríkisútvarpinu - útvarpi ALLRA landsmanna. RUV hefur ákveðnum skyldum að gegna. Þessi umræða, þ.e.a.s. kynjavinkillinn, er ekki ný af nálinni. RUV ætti að vera löngu búið að koma sér upp úr þessu hjólfari.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Meira frelsi

Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag:

Meira frelsi
„Síminn er víðsýnn, kröftugur og metnaðarfullur leiðtogi. Traustur og skemmtilegur félagi sem er alltaf til staðar“. Þessa skilgreiningu á persónuleika Símans er að finna á heimasíðu fyrirtækisins, nánar tiltekið í Áttavitanum. Áttavitinn er leiðarvísir Símans til framtíðar. Starfsemi og ímynd Símans eiga að vera í samræmi við þá stefnu, framtíðarsýn og gildi sem skilgreind eru í Áttavitanum. Hann er í raun sá grunnur sem starfsemi Símans byggir á og eins og allir vita er árangursrík stefna ekki innantóm orð á pappír. Þess vegna er ágætt að máta reglulega saman orð og athafnir.

Samfélagsleg ábyrgð

Á mánudaginn tilkynnti Síminn, ásamt samtökunum Heimili og skóli, að fyrirtækið hefði ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum ókeypis netvörn. Markmiðið er að mæta kröfum viðskiptavina Símans um aukið öryggi barna á netinu en með netvörninni geta foreldrar lokað á síður sem innihalda t.d. klám eða fjárhættuspil. Haft er eftir Önnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Einstaklingssviðs Símans í viðtali á visir.is að þannig ætli Síminn að leggja sitt af mörkum „til að verja börn og unglinga gegn sumu af því óæskilega efni sem er að finna á Netinu." Hún tiltekur að þetta sé hluti af samfélagslegri ábyrgð Símans. Samfélagsleg ábyrgð er einmitt skilgreind sem eitt af markmiðum Símans í Áttavitanum. Þessi aðgerð er því í samræmi við þau gildi sem Síminn hefur sett sér.

Ávanabindandi póker
Á heimasíðu Símans eru netleikir til sölu. Á forsíðunni eru fjórir tölvuleikir auglýstir og eru tveir þeirra um fjárhættuspil. Öðrum þeirra er lýst á ensku með orðunum „addictive and fun-filled Poker game.“ Við fyrstu sýn er ekki augljóst hvar leikirnir passa inn í Áttavitann en í miðju hans stendur „Síminn auðgar lífið“ og hugsanlega á það best við. Síðan er bara spurning hvort nýja netvörnin nái að verja unga fólkið fyrir netleikjunum sem eru til sölu hjá Símanum.

Markmiðið að koma aftan að fólki
Síminn er mest áberandi þessa dagana vegna nýrrar auglýsingar með Merzedes Club. Þar spranga um fáklæddar konur og massaðir karlmenn. Hlutverkin í takt við þau sem klámvæðingin úthlutar fólki. Í upphafi var lagið kynnt sem kynþokkafyllsta og dýrasta myndband sögunnar. Síðar kom í ljós að lagið er auglýsing Símans. Þessi aðferðarfræði hefur verið gagnrýnd fyrir að stangast hugsanlega á við siðareglur SÍA og lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins en þar segir í 8. grein „ Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.“ Auglýsingin hefur hlotið fjölmiðlaathygli og meðal annars birti visir.is viðtal við Jón Gnarr enn hann ku vera ábyrgur fyrir gerð auglýsingarinnar. Aðspurður um aðferðarfræðina segir Jón að auglýsingin sé á gráu svæði en þar finnist honum skemmtilegast að vera, heila málið sé að koma aftan að fólki. Í því samhengi er viðeigandi að rifja upp nýleg níðskrif Gillzeneggers, einnar aðalstjörnu auglýsingarinnar, um fjórar konur. Þar kallaði hann m.a. eina þingkonu portkonu og um aðra sagði hann að tími væri til kominn að fylla hana eins og hátíðarkalkún í þeim tilgangi að þagga niður í henni.

Áttavitinn er varla upp á punt
Nú má spyrja sig að því hvernig þetta passar við Áttavitann? Er þátttaka í klámvæðingunni og að koma aftan að fólki, svo orð Jóns Gnarr séu notuð, merki um grundvallargildin traust og heilindi? Þá má einnig máta auglýsingaherferðina við framtíðarsýn og persónuleika Símans en hann ætlar sér það hlutverk að leiða okkur inn í framtíðina. Spurningin sem viðskiptavinir Símans hljóta að velta fyrir sér er hvort að þetta sé sú leið sem víðsýnn, kröftugur og metnaðarfullur leiðtogi myndi velja til að koma okkur á samfélagslegan ábyrgan máta á leiðarenda?

Hóprunk hestamanna

Þetta birtist í 24stundum í dag, bls. 12.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Ææ

Verst að ég vissi ekki af hóprúnki hestamanna um daginn. Ég hefði getað mætt með tissjú!

mánudagur, apríl 14, 2008

Árið 1885

Árið 1885 birtist neðangreint í Fjallkonunni.
Verst er farið með vinnukonurnar, og er sú meðferð þrældómi líkust. Vinnukonum er ekki goldið nema að fjórða parti eða þriðjungi á við vinnumenn, og væri hægt að sanna með reikningi, hvé óréttlátt það er. Þó vinnukona sinni sömu vinnu og jafnmikið og karlmaðurinn er henni goldið meir en helmingi minna.
Hvergi hér á landi er jafn þrælslega farið með kvenfólk sem í Reykjavík. [...]
Þar eru kvenmenn hafðir í erfiðustu stritvinnu, er einungis er hraustustu karlmanna, og þó þær beri allan daginn sömu þyngd og karlmennirnir, eða beri börur á móti karlmönnum, og vinni því alveg jafnt og þeir, eru þeir, sem vinnuna borga, svo þrællyndir, að þeir gjalda kvenmanninum helmingi minna en karlmanninum.
Heimild: Íslandsdætur

Önnur gáfuð kona


Fréttablaðið í dag, bls. 18

sunnudagur, apríl 13, 2008

Afrek helgarinnar


Ég er snillingur í að drepa pottablóm. Grétar verður að vera ábyrgur fyrir þessari fjárfestingu...!

Frá gáfaðri konu



miðvikudagur, apríl 09, 2008

We Are The Champions

Gamli skólinn minn vann meistaratitilinn í körfubolta í Bandaríkjunum! Vann síðast árið 1988 - tveim árum áður en ég hóf nám við skólann. Þegar ég var þar komst skólinn einu sinni í 4 liða úrslit og einu sinni í 8 liða úrslit - en tókst ekki að vinna... Tími til kominn á annan sigur. Frábært! Áfram Jayhawks!

þriðjudagur, apríl 08, 2008

„Straujaðu skyrtuna mína“



Merkilegt að fylgjast með hvað kosningabarátta Hillary Clintons og Obama er eins og klippt út úr skólabók... Sama þrástefið endalaust.

mánudagur, apríl 07, 2008

Allt í blóði

Horfði á lokaþátt Dexter í gær. Alltaf jafn hissa á Hunts auglýsingunni fyrir þáttinn. Boxari í rauðum stuttbuxum og með boxhanska hefur leikinn með höggi, síðan er það Hunts og Dexter - allt í blóði. Ég efast einhvern veginn um að mörgum Hunts neytendum finnist spennandi tilhugsun um að vera að gæða sér á blóði þegar tómatsósunni er skellt á diskinn. Velti fyrir mér hvaða markaðsfræði er þarna á bak við, tómatsósa = blóð, tómatsósa = blóð, tómatsósa = blóð. Hvað gerist þegar Hunts nær að festa þessa tengingu í sessi? Efast um að salan aukist...

laugardagur, apríl 05, 2008

Sjöund


Fór á sýninguna Sjöund í Þjóðminjasafni áðan. Þar leiða saman hesta sína snillingarnir Sóley Stefánsdóttir hönnuður og Gunnar Hersveinn rithöfundur. Sjöund samanstendur af ljóðum Gunnars og hönnun Sóleyjar. Útkoman er einstök - ljóðaumslag sem hægt er að senda í pósti auk þess sem ljóðið er til sem mynd sem hægt er að hengja upp á vegg í staðinn fyrir að loka inni í bók. Sýningin verður opin til 19. apríl í Þjóðminjasafninu. Endilega kíkið við...

Til hamingju Sóley og Gunnar :)

föstudagur, apríl 04, 2008

Hvaða leið virkar?


Er þetta rétta leiðin?

Hreint land - fagurt land. Óhreint land - ó...

Hjartað í mér sökk við hlustun á fréttir í morgun. Álver, álver, álver. Þrjú eru yfirdrifið nóg. Ísland er að breytast í Detroit. :´(

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Þotuliðið

Ég er nú ekkert brjálæðislega hrifin af einkaþotum en ég á erfitt með að fordæma nýjasta þotuliðið. Þegar ég var tvítug fannst mér það kostur við starf ef því fylgdu ferðalög.Veit að margt fólk deilir þeirri skoðun með mér á þeim aldri. Hins vegar - þegar á reynir - þegar ferðalögin eru orðinn að veruleika og eru stór hluti af starfinu skipta ansi margir um skoðun. Mikil ferðalög í starfi eru ekki hluti af fríðindum heldur þvert á móti - endalaus þeytingur, að búa í ferðatösku, fjarvera frá fjölskyldu o.s.frv. Þar að auki tekur flug á líkamann. Þó svo að ég hafi varla fundið fyrir því að taka 3 vélar heim frá námi í Bandaríkjunum þá er staðan allt önnur í dag... mörgum árum seinna. Nú tekur flugið sinn toll. Þess vegna skil ég vel að fólk kjósi frekar að nota einkaþotu til að fljúga til Rúmeníu í staðinn fyrir að þurfa að dröslast þetta með millilendingu. Millilending tekur meira á en beint flug og let's face it - ef fólk er á endalausum þeytingi þá er allt í lagi að reyna að gera ferðalögin aðeins þægilegri. Svo framarlega sem einkaþotan verður ekki daglegt brauð og áfangastaðirnir eru í meira en eins flugs fjarlægð og hópurinn nægilega stór og og og... ef aðstæður eru þannig.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Virkjum fjármagn kvenna

Er búin að vera ágætlega dugleg undanfarið að kíkja á ráðstefnur og fundi. Í síðustu viku fór ég t.d. á Virkjum fjármagn kvenna og í hádeginu í dag kíkti ég á Ímark fund um rafrænar mælingar.

Virkjum fjármagn kvenna var samstarfsverkefni FKA, SA, Iðnaðarráðuneytisins og Viðskiptaráðuneytisins. Þátttaka kvenna var framúrskarandi góð - um 300 konur mættu. Karlarnir mættu taka sig á þó mér hafi skilist á Þórönnu Jónsdóttur fundarstýru að það væri um 600% aukning í þátttöku karla síðan ráðstefnan Virkjum kraft kvenna var haldin. Þá mættu 3 karlar - núna 18! Flestir höfðu þeir eitthvað hlutverk á ráðstefnunni þannig að enn vantar greinilega mikið upp á að karlar sýni þessum málaflokki lið - eða hreinlega þori að mæta á svona ráðstefnur. Erindin voru mjög fróðleg og skemmtileg. Miklar kjarnakonur þarna á ferð. Það kom mér ánægjulega á óvart að sjá að andrúmsloftið virðist vera að breytast í orðræðunni. Hingað til hefur verið algjört tabú fyrir konur sem náð hafa langt að segja að kyn skipti máli. Nú brá svo við að þrjár af aðalsprautunum fjölluðu um það og sögðu líka að þær vildu ekki lengur starfa samkvæmt leikreglum karla á þessum vettvangi.

Ég sá að Markaðurinn í Fréttablaðinu fjallaði um ráðstefnuna í blaði dagsins í dag. Athyglisvert er að skoða nálgunina þar. Það helsta sem er dregið út úr erindi Karin Forseke er að konur skorti sjálfstraust til að starfa í fjármálaheiminum. Þetta er algjörlega slitið úr samhengi og í raun slæm tilraun til að varpa ábyrgðinni yfir kynjaskekkjunni alfarið yfir á konur. Það kom nefnilega skýrt fram í máli Karin að þetta væri algjör karlaheimur þar sem leikreglurnar væru þeirra. Hún sagði líka að hún hefði bara spilað með og verið það naive að hún hafi ekki áttað sig á hversu miklu máli kyn skiptir fyrr en hún var komin á fimmtugsaldur. Staðan hjá henni í dag er þannig að hún skipti um starfsvettvang - af því að henni hugnaðist ekki þessi karlaleikur. Hún sagði líka að hún væri mikill femínisti... Svona getur fréttaflutningur skipt öllu máli - hvaða sögu er ákveðið að segja?

Í dag fór ég svo á Ímark fund um rafrænar mælingar. Það var áhugavert... nú gengur viss hópur af fólki um með lítil tæki sem mælir nákvæmlega áhorf á sjónvarp og hlustun á útvarp. Með þessari tækni er hægt að sjá í hversu miklum mæli horft er á auglýsingar en enn vantar mælingu á tengingu á áhorfi og kaupum. Slíkt er víst komið erlendis - þar sem fólk gengur um með mælitækið og skannar jafnframt inn allt sem það kaupir. Markaðsfræðingur í mér er afar hrifinn af þessari tækni - manneskjunni í mér óar hins vegar við öllum þessum persónuupplýsingum og að það sem fólk sækir í skuli hafa öll þessi áhrif því eins og Þórhallur Gunnarsson (sem fylgir með á „hreyfimyndinni“) hjá RUV sagði - þegar það voru dagbókarvikur þá jókst umfjöllun um klám og ofbeldi...

Hvað myndir þú gera?

Femínistar „lenda í því“ að standa frammi fyrir ótrúlegustu siðferðisspurningum. Hér er ein sem dæmi: Í gær var ég veislustýra á Afmælishitti Femínistafélagsins. Eins og mín er von og vísa var ég orðin alltof sein hérna heima en átti enn eftir að gera tvennt - og hafði bara tíma fyrir eitt. Spurningin sem ég þurfti að svara var þá:

Hvort á ég að borða kvöldmat eða mála mig?

Hvað myndir þú gera? Hvað heldurðu að ég hafi gert? ;)

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Síðasti í afmæli

Jæja þá er 5 ára afmælið hér um bil búið. Endaði á frábærri aðgerð fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur - afraksturinn má sjá á myndinni! Takið sérstaklega eftir klórbrúsanum vinstra megin við borðann! Mikið fjölmenni mætti fyrir utan Héraðsdóm enda er langskemmtilegast að fá aktivismann beint í æð :)

Hittið heppnaðist ljómandi vel. Fjöldinn allur af femínistum sem mættu og fullt af skemmtilegum erindum og umræðum - að ógleymdri stuttmyndinni Brjótum upp formið sem er tær snilld! Nánari fréttir af því verða inn á nýju heimasíðu Femínistafélagsins von bráðar...

1. apríl

Hvaða framtíð á Femínistafélag Íslands? 5 ára afmælishitt félagsins er tilvalinn vettvangur til að velta þessu fyrir sér.

Staður: Bertelstofa - Thorvaldsen bar
Stund: 1. apríl kl. 20:00

Dagskrá

Þorgerður Einarsdóttir - ein af ljósmæðrum félagsins, Íris Ellenberger - sigurvegari stuttmyndakeppninnar og Kristín Tómasdóttir hjá Femínísku fréttastofunni ávarpa afmælisbarnið.

Sýnd verður stuttmyndin „Brjótum upp formið“ sem vann stuttmyndakeppnina. Hugmyndabankinn verður á staðnum. Rifjuð verða upp atriði úr starfi félagsins í máli og myndum og að sjálfsögðu verða heitar umræður um hvert beri að stefna.

Leikkonurnar Vala Þórsdóttir og Kolbrún Erna Pétursdóttir flytja okkur femínísk skilaboð frá valinkunnum femínistum.

Veislustýra verður Katrín Anna Guðmundsdóttir fyrrum talskona félagsins.

Hittumst á Hittinu!

**
Og svo er komin ný heimasíða - www.feministinn.is :)