Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag:
Meira frelsi
„Síminn er víðsýnn, kröftugur og metnaðarfullur leiðtogi. Traustur og skemmtilegur félagi sem er alltaf til staðar“. Þessa skilgreiningu á persónuleika Símans er að finna á heimasíðu fyrirtækisins, nánar tiltekið í Áttavitanum. Áttavitinn er leiðarvísir Símans til framtíðar. Starfsemi og ímynd Símans eiga að vera í samræmi við þá stefnu, framtíðarsýn og gildi sem skilgreind eru í Áttavitanum. Hann er í raun sá grunnur sem starfsemi Símans byggir á og eins og allir vita er árangursrík stefna ekki innantóm orð á pappír. Þess vegna er ágætt að máta reglulega saman orð og athafnir.
Samfélagsleg ábyrgð
Á mánudaginn tilkynnti Síminn, ásamt samtökunum Heimili og skóli, að fyrirtækið hefði ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum ókeypis netvörn. Markmiðið er að mæta kröfum viðskiptavina Símans um aukið öryggi barna á netinu en með netvörninni geta foreldrar lokað á síður sem innihalda t.d. klám eða fjárhættuspil. Haft er eftir Önnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Einstaklingssviðs Símans í viðtali á visir.is að þannig ætli Síminn að leggja sitt af mörkum „til að verja börn og unglinga gegn sumu af því óæskilega efni sem er að finna á Netinu." Hún tiltekur að þetta sé hluti af samfélagslegri ábyrgð Símans. Samfélagsleg ábyrgð er einmitt skilgreind sem eitt af markmiðum Símans í Áttavitanum. Þessi aðgerð er því í samræmi við þau gildi sem Síminn hefur sett sér.
Ávanabindandi póker
Á heimasíðu Símans eru netleikir til sölu. Á forsíðunni eru fjórir tölvuleikir auglýstir og eru tveir þeirra um fjárhættuspil. Öðrum þeirra er lýst á ensku með orðunum „addictive and fun-filled Poker game.“ Við fyrstu sýn er ekki augljóst hvar leikirnir passa inn í Áttavitann en í miðju hans stendur „Síminn auðgar lífið“ og hugsanlega á það best við. Síðan er bara spurning hvort nýja netvörnin nái að verja unga fólkið fyrir netleikjunum sem eru til sölu hjá Símanum.
Markmiðið að koma aftan að fólki
Síminn er mest áberandi þessa dagana vegna nýrrar auglýsingar með Merzedes Club. Þar spranga um fáklæddar konur og massaðir karlmenn. Hlutverkin í takt við þau sem klámvæðingin úthlutar fólki. Í upphafi var lagið kynnt sem kynþokkafyllsta og dýrasta myndband sögunnar. Síðar kom í ljós að lagið er auglýsing Símans. Þessi aðferðarfræði hefur verið gagnrýnd fyrir að stangast hugsanlega á við siðareglur SÍA og lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins en þar segir í 8. grein „ Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.“ Auglýsingin hefur hlotið fjölmiðlaathygli og meðal annars birti visir.is viðtal við Jón Gnarr enn hann ku vera ábyrgur fyrir gerð auglýsingarinnar. Aðspurður um aðferðarfræðina segir Jón að auglýsingin sé á gráu svæði en þar finnist honum skemmtilegast að vera, heila málið sé að koma aftan að fólki. Í því samhengi er viðeigandi að rifja upp nýleg níðskrif Gillzeneggers, einnar aðalstjörnu auglýsingarinnar, um fjórar konur. Þar kallaði hann m.a. eina þingkonu portkonu og um aðra sagði hann að tími væri til kominn að fylla hana eins og hátíðarkalkún í þeim tilgangi að þagga niður í henni.
Áttavitinn er varla upp á punt
Nú má spyrja sig að því hvernig þetta passar við Áttavitann? Er þátttaka í klámvæðingunni og að koma aftan að fólki, svo orð Jóns Gnarr séu notuð, merki um grundvallargildin traust og heilindi? Þá má einnig máta auglýsingaherferðina við framtíðarsýn og persónuleika Símans en hann ætlar sér það hlutverk að leiða okkur inn í framtíðina. Spurningin sem viðskiptavinir Símans hljóta að velta fyrir sér er hvort að þetta sé sú leið sem víðsýnn, kröftugur og metnaðarfullur leiðtogi myndi velja til að koma okkur á samfélagslegan ábyrgan máta á leiðarenda?
miðvikudagur, apríl 16, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Já, þessar auglýsingar komu mér verulega á óvart. Sérstaklega þar sem ímynd mín á Símanum er nokkuð heil og traust.
Mjög góður pistill hjá þér en það sama rann í gegnum huga minn þegar ég sá nýjustu auglýsingaherferðina þeirra með Gillzenegger í fararbroddi. Ég er ákveðin í að skipta um símafyrirtæki.
Já, þetta kom mér líka á óvart. Sérstaklega vegna þess að þau hafa brennt sig áður - þegar Strákarnir bjuggu til myndband sem þau kostuðu með konum frá Goldfinger. Þau hafa kannski ekki verið eins ósátt við það og ég hélt.
Nú bilaði sjónvarpið mitt um jólin og er enn bilað. Það eina sem mér finnst ég vera að "missa af" eru auglýsingarnar. Ég er svona nokkurnveginn jafn mikið inni í öllum þeim hlutum sem ég var, nema þegar fólk fer að tala um auglýsingar. Þá hef ég nánast undantekningalaust ekki séð auglýsinguna. Þannig að ég get lítið sagt um þessa auglýsingu, enda ekki séð hana.
Veit samt ekki hvort ég taki undir þetta með leikina. Nú spila ég póker á netinu (mjög lítið samt) og tippa á leikina í fótboltanum og tippa á allt mögulegt í kringum þá. Hinsvegar myndi mér aldrei detta það í hug að leggja peninga undir, hvorki í pókernum né í tippinu. Ég hef stundað tippið í nokkur ár og er aðeins að keppa upp á stig. Það er nóg fyrir mig. Ég held að leikirnir sem slíkir séu ekki að reka menn út í að leggja undir peninga. Það er einhver spennuþörf eða eitthvað sem rekur þig út í það.
Óheppinn!! ;)
Það er alveg umræða út af fyrir sig þetta með pókerinn sem spilamót - þ.e. greitt er þátttökugjald en ekki lagt undir. Hins vegar er t.d. annar leikurinn hjá Símanum auglýstur sem ávanabindandi... Einnig er skaðsemi fjárhættuspila löngu ljós og spurningin í þessu tilfelli er hvort að það samræmist gildum Símans að auglýsa og hampa leikjum sem þessum? Það er alveg fyrirfram vitað að markhópurinn er ungur og spilafíkn er ekkert grín - þó ekki verði allir spilafíklar, þá er það einhver hluti.
Skrifa ummæli