Er búin að vera ágætlega dugleg undanfarið að kíkja á ráðstefnur og fundi. Í síðustu viku fór ég t.d. á Virkjum fjármagn kvenna og í hádeginu í dag kíkti ég á Ímark fund um rafrænar mælingar.
Virkjum fjármagn kvenna var samstarfsverkefni FKA, SA, Iðnaðarráðuneytisins og Viðskiptaráðuneytisins. Þátttaka kvenna var framúrskarandi góð - um 300 konur mættu. Karlarnir mættu taka sig á þó mér hafi skilist á Þórönnu Jónsdóttur fundarstýru að það væri um 600% aukning í þátttöku karla síðan ráðstefnan Virkjum kraft kvenna var haldin. Þá mættu 3 karlar - núna 18! Flestir höfðu þeir eitthvað hlutverk á ráðstefnunni þannig að enn vantar greinilega mikið upp á að karlar sýni þessum málaflokki lið - eða hreinlega þori að mæta á svona ráðstefnur. Erindin voru mjög fróðleg og skemmtileg. Miklar kjarnakonur þarna á ferð. Það kom mér ánægjulega á óvart að sjá að andrúmsloftið virðist vera að breytast í orðræðunni. Hingað til hefur verið algjört tabú fyrir konur sem náð hafa langt að segja að kyn skipti máli. Nú brá svo við að þrjár af aðalsprautunum fjölluðu um það og sögðu líka að þær vildu ekki lengur starfa samkvæmt leikreglum karla á þessum vettvangi.
Ég sá að Markaðurinn í Fréttablaðinu fjallaði um ráðstefnuna í blaði dagsins í dag. Athyglisvert er að skoða nálgunina þar. Það helsta sem er dregið út úr erindi Karin Forseke er að konur skorti sjálfstraust til að starfa í fjármálaheiminum. Þetta er algjörlega slitið úr samhengi og í raun slæm tilraun til að varpa ábyrgðinni yfir kynjaskekkjunni alfarið yfir á konur. Það kom nefnilega skýrt fram í máli Karin að þetta væri algjör karlaheimur þar sem leikreglurnar væru þeirra. Hún sagði líka að hún hefði bara spilað með og verið það naive að hún hafi ekki áttað sig á hversu miklu máli kyn skiptir fyrr en hún var komin á fimmtugsaldur. Staðan hjá henni í dag er þannig að hún skipti um starfsvettvang - af því að henni hugnaðist ekki þessi karlaleikur. Hún sagði líka að hún væri mikill femínisti... Svona getur fréttaflutningur skipt öllu máli - hvaða sögu er ákveðið að segja?
Í dag fór ég svo á Ímark fund um rafrænar mælingar. Það var áhugavert... nú gengur viss hópur af fólki um með lítil tæki sem mælir nákvæmlega áhorf á sjónvarp og hlustun á útvarp. Með þessari tækni er hægt að sjá í hversu miklum mæli horft er á auglýsingar en enn vantar mælingu á tengingu á áhorfi og kaupum. Slíkt er víst komið erlendis - þar sem fólk gengur um með mælitækið og skannar jafnframt inn allt sem það kaupir. Markaðsfræðingur í mér er afar hrifinn af þessari tækni - manneskjunni í mér óar hins vegar við öllum þessum persónuupplýsingum og að það sem fólk sækir í skuli hafa öll þessi áhrif því eins og Þórhallur Gunnarsson (sem fylgir með á „hreyfimyndinni“) hjá RUV sagði - þegar það voru dagbókarvikur þá jókst umfjöllun um klám og ofbeldi...
miðvikudagur, apríl 02, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli