þriðjudagur, apríl 22, 2008

11%

Hlutfall kvenna í fjölmiðlum er stundum rætt, þá aðallega vegna þess hversu skakkt kynjahlutfallið er. Rannsóknir leiða oft í ljós að hlutur kvenna er um (og undir) þriðjungi. Rannsóknir hér á landi frá 1999, 2000 og 2005 leiddu í ljós kynjahlutfall sem var í kringum 25% í fréttum og fréttatengdu efni.

Við vöknum oft við Morgunvaktina á morgnanna. Frábær þáttur, vel að merkja! Ég hef nú ekki lagst yfir kynjahlutfallið í þeim þætti en á eftir Morgunvaktinni er þáttur sem heitir Okkar á milli. Undanfarið höfum við hjónaleysin tekið eftir því að það virðast bara vera karlar í þættinum. Síðasta fimmtudag var kona, Halla Helgadóttir, viðmælandi og við rákum upp stór augu, þetta var eitthvað svo út fyrir mynstrið.

Af einskærri forvitni ákvað ég að tékka á hvernig kynjahlutfallið er í þættinum. Á ruv.is er að finna hljóðupptökur fyrir síðustu 2 vikurnar. Þættirnir eru á dagskrá frá mánudegi - fimmtudags og alls eru 9 þættir aðgengilegir á netinu. Kynjahlutfallið er 8 karlar og 1 kona. 89% karlar og 11% konur. Þetta er ekki boðlegt af Ríkisútvarpinu - útvarpi ALLRA landsmanna. RUV hefur ákveðnum skyldum að gegna. Þessi umræða, þ.e.a.s. kynjavinkillinn, er ekki ný af nálinni. RUV ætti að vera löngu búið að koma sér upp úr þessu hjólfari.

Engin ummæli: