miðvikudagur, apríl 30, 2008

1. maí ganga

Fulltrúar úr ráði Femínistafélags Íslands verða á Hlemmi kl. 13 á morgun með veifur og borða til að vera með í göngunni. Gangan leggur af stað kl. 13:30 frá Hlemmi og gengur niður á Ingólfstorg þar sem dagskrá hefst kl. 14:10 og lýkur kl. 15:00. Ýmis verkalýðsfélög bjóða upp á kaffi eða mat, við hvetjum femínista til að taka þátt í göngunni, annað hvort með FÍ eða sínu verkalýðsfélagi. Mætum öll í bleiku!

kv,
Ráðið
***

Ávarp Femínistafélags Íslands, 1. maí 2008

Femínistafélag Íslands fagnaði fimm ára afmæli sínu fyrr á árinu. Frá upphafi hefur félagið látið til sín taka á 1. maí, baráttudegi verkalýðsins. Ekki er vanþörf á, því í gegnum tíðina hafa kvennastéttir verið verr launaðar og minna metnar en karlastéttir. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því hæsta sem þekkist. Samt sem áður er mikill munur á atvinnutekjum karla og kvenna. Baráttan fyrir jöfnum launum hefur staðið yfir í meira en 100 ár á Íslandi. Lög um launajafnrétti voru samþykkt hér á landi árið 1961, atvinnurekendur fengu þá sex ára aðlögunartíma en enn sér varla högg á vatni. Nú á árinu gengu loksins í gegn lög sem veita konum aðgang að einu mikilvægasta tækinu í þessari baráttu, en það eru upplýsingar um laun annarra, en með nýjum jafnréttislögum hefur launafólk loks rétt til að tjá sig um kaup og kjör.

Ein stærsta kvennastéttin - kennarar - samdi í vikunni og vonandi verður staðið við þær forsendur samninganna að þessi hópur fái hlutfallslega hærri launahækkun en aðrir. Í núverandi efnahagsástandi er einnig ástæða til þess að fagna því að einungis er samið til eins árs. Aðrar kvennastéttir standa þó í baráttu og nauðsynlegt er að huga að því í kjarasamningum á árinu að vinna gegn launamun kynjanna hjá öllum stéttum.

Nú eru blikur á lofti í efnahagsmálum. Verðbólgan rýkur upp, kaupmáttur rýrnar og talað er um kreppu. Ljóst er að erfiðir tímar eru framundan í íslensku efnahagslífi og mörg heimili munu finna fyrir áhrifunum. Kynin hafa ekki setið við sama borð í gegnum efnhagslægðir og -hæðir í gegnum tíðina. Við upphaf efnahagslægðar er því ekki úr vegi að rifja upp söguna. Með því móti getum við lært af henni og verið vakandi til að láta sömu mistökin ekki henda aftur og aftur.

Gætum þess að nú verði ekki gripið til þess að fórna störfum kvenna og lífsgæðum þeirra fyrir „meiri“ hagsmuni. Tilraunir yfirvalda til að greiða konum smánarlegar upphæðir til að vera heima með börn eru leið til að koma konum út af vinnumarkaðnum, í lengri eða skemmri tíma. Tryggja skal atvinnuöryggi karla á kostnað kvenna - eins og endurspeglast í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Á meðan leggur félagsmálaráðherra 116 milljónir í atvinnusköpun kvenna.

Konur krefjast jafnréttis og jafnrar stöðu - yfirvöld verða að veita þeim sama stuðning og atvinnuöryggi og körlum. Konur, stöndum saman í kjarabaráttunni á árinu og alltaf.

Engin ummæli: