miðvikudagur, október 29, 2008

Kvenmannslausir í kulda og trekki

Kristín Marja Baldursdóttir skrifaði snilldargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég held að þar nái hún að orða það sem mörg okkar hugsa, þ.m.t. ég, þó ég eigi ekki börn þá eru komandi kynslóðir mér ofarlega í huga í þessu öllu og ástæðan fyrir því að ég stend í jafnréttisbaráttu yfir höfuð. Finnst að við skuldum þeim að vera manneskjur í þróun (sem mannkynið stendur sig allt of illa í - þekking, reynsla, skynsemi og réttlæti eru ótrúlega vanrækt fyrirbæri).

Hér er tengill á greinina hennar Kristínar Marju.

Sjálf skrifaði ég pistil í Viðskiptablaðið í dag. Læt hann fylgja hér með.



Kvenmannslausir í kulda og trekki
Það er óhætt að segja að nú næði um Ísland. Ekki nóg með að veturinn sé
genginn í garð heldur hellist kreppan yfir. Framundan er kuldi og trekkur.
Ráðamenn þjóðarinnar sögðu í upphafi kreppunnar að nú þyrftum við að
endurskoða okkar gildismat og standa saman. Gallinn á gjöf Njarðar er að
það gildismat sem nú skýtur upp kollinum er ekki til þess fallið að efla
samstöðu, nema síður sé.

94% karlar
Ef rýnt er í þætti og sjónvarpsefni liðinna vikna er ljóst að hið lága
hlutfall kvenna í umræðunni hefur lækkað enn frekar. Um síðustu helgi voru
þrír pólitískir umræðuþættir. Vikulokin á Rás 1, Silfur Egils í
Ríkissjónvarpinu og Mannamál á Stöð 2. Gestir Hallgríms Thorsteinssonar í
Vikulokunum voru 4 karlar. Gestir Egils Helgasonar í Silfri Egils voru 6
karlar og 1 kona. Í pólitískum umræðum Sigmundar Ernis Rúnarssonar í
Mannamáli voru 5 karlar. Gerður Kristný fékk að fljóta með í
menningarhlutanum en þar var pólitík ekki til umræðu heldur verk 3 karla
og 1 konu. Kynjahlutfallið í pólitískum umræðum var sem sagt 15 karlar og
1 kona, þ.e. 94% karlar og 6% konur. Hlutfall þáttastjórnanda 100% karlar.

Hvenær verða allir menn taldir menn?
Slagorð RUV er Útvarp allra landsmanna. Þáttur Sigmundar Ernis heitir
Mannamál. Það er greinilegt að konur teljast ekki lengur til manna hér á
landi en kannski táknaði orðið maður aldrei bæði kyn í raun og veru.
„Hvenær verða allir menn taldir menn" sungu Rauðsokkur á Kvennafrídaginn
1975. Greinilega ekki árið 2008! Rétt eins og ég túlka ákvörðun Gordons
Brown um að beita hryðjuverkalögum gegn íslensku fyrirtæki sem
hernaðaraðgerð get ég ekki annað en túlkað útrýmingu íslenskra karlmanna á
kvenfólki úr pólitískri umfjöllun sem hernaðaraðgerð.

Kúgaðar konur eru ekki stoltar
Íslendingar hafa verið stolt þjóð og vonandi getum við haldið áfram að
bera höfuðið hátt þrátt fyrir hremmingar. Hins vegar verður að vera
innistæða fyrir þjóðarstoltinu. Tveir gesta Mannamáls ræddu ímynd Íslands
og að hana þyrfti að endurreisa. Ætla íslenskir fjölmiðlamenn í alvörunni
að skapa þá ímynd að Ísland sé fornaldarlegt karlaveldi þar sem raddir
kvenna skipta ekki máli? Endurreisa þjóðarstoltið á því? Öllum hugsandi
mönnum er ljóst að hvorki þjóðarstolt né góð ímynd getur byggt á útilokun
kvenna. Samstaða ekki heldur.
Stríð eða samstaða?
Í öryggisályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1325 er fjallað um endurreisn
landa eftir stríð og aðrar hremmingar. Þar er kveðið á um að aðkoma kvenna
í endurreisn sé lykilatriði í uppbyggingu. Konur eiga ekki að þurfa að
berjast við feðraveldið á tímum sem þessum. Það var ekki bara
kapítalisminn og nýfrjálshyggjan sem beið skipsbrot í því efnahagslega
hruni sem nú skellur á heimsbyggðinni. Þetta er líka dómur yfir
feðraveldinu og hinum karlmannlegu gildum dirfsku og áhættufíknar. Sönnun
þess að körlum er ekki einum treystandi til að stjórna heiminum. Kannski
er það sú sára staðreynd sem gerir það að verkum að fjölmiðlakarlar
útiloka konur. Fáir eiga auðvelt með að viðurkenna eða horfast í augu við
mistök. Fjölmiðlar eiga þess kost að hjakka í sama farinu, útiloka konur
og vaða áfram kvenmannslausir í kulda og trekki. Sú leið er ávísun á
frekari hremmingar og samfélag sem er á engan hátt eftirsóknarvert, hvorki
fyrir konur né karla. Hinn kosturinn, sem stendur líka til boða, er að
snúa við blaðinu, tryggja jafnvægi og standa sig í stykkinu. Það er
ömurlegt fyrir konur að búa í samfélagi sem þessu. Það er hægt að standa
af sér ýmsar hremmingar en útilokun jafngildir stríðsyfirlýsingu, ekki samstöðu.

þriðjudagur, október 28, 2008

Útvarp hverra?

Það er nokkuð ljóst að breyta þarf slagorði RUV í „Útvarp allra landskarla“

sunnudagur, október 26, 2008

Friður, jafnrétti og samfélag

Gildin mín fyrir það sem framundan er hljóma svona:
Friður, jafnrétti og samfélag
Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands kona að nafni Elisabeth Rehn. Hún er fyrrum varnarmálaráðherra Finnlands og var þátttakandi í ráðstefnu um konur, stríð og öryggi. Á þeirri ráðstefnu sagði hún að hún hefði komist að því að eina verkefnið sem væri þess virði að vinna að væri að stuðla að friði. Þessi orð hafa fylgt mér og vonandi gleymi ég þeim aldrei. Jafnrétti og samfélag eru einnig hluti af gildunum því þetta eru grundvallaratriði til að hægt sé að stuðla að friði. Samfélag jafnréttis er líklegra til að halda friðinn heldur samfélag þar sem misrétti ræður ríkjum eða þar sem engin er samkenndin. Með þessu á ég þó ekki við að einstaklingurinn skipti ekki máli - engan vegin. Ég vil vera einstaklingur í samfélagi. Einstaklingurinn hefur hins vegar lítið gildi ef hann er eyland, ef ekkert er samfélagið.
Sem stendur upplifi ég mjög sterkt að við lifum í samfélagi misréttis. Sú tilfinning hefur styrkst eftir pólitíska umræðuþætti helgarinnar þar sem 94% viðmælenda hafa verið karlar og einungis 6% konur, eða réttara sagt kona, því konan var bara ein. Þetta er ekki boðlegt. Þetta er heldur ekki líklegt til að efla samstöðu, frið eða þjóðarstolt - hvað þá þjóðarsátt.

fimmtudagur, október 23, 2008

Bara konur sem eiga að þegja?

Þetta er aðeins of súrrealískt fyrir minn smekk - reyndar eins og kreppan öll. 10 karlar - 2 konur. Og pointið er....??? Lýðræði mun aldrei verða að raunveruleika í karlaveldi. leiðin fram á við þýðir að við þurfum að prófa það sem ekki hefur verið prófað áður - lýðræðissamfélag getur aldrei orðið að veruleika nema með margbreytilegum röddum þjóðarinnar.
Vísir, 23. okt. 2008 14:08
Mótmæli boðuð vegna þagnar ráðamanna


Boðað hefur verið aftur til mótmæla gegn ráðamönnum þjóðarinnar á Austurvelli á laugardaginn kemur. Á sama tíma á að mótmæla við Ráðhústorgið á Akureyri og á Seyðisfirði.

Yfirskrift mótmælanna er „Rjúfum þögn ráðamanna og göngum til lýðræðis" og er fólk hvatt til að mæta til að sýna fram á að almenningur hafi rödd og hann finni til. Krafan sé einföld, að ráðamenn rjúfi þögnina eins og það er orðað í tilkynningunni. Á Akureyri verður gengið með blys frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorginu klukkan 16 en á sama tíma hefjast mótmælin á Austurvelli og á Seyðisfirði.

Meðal þeirra sem taka munu til máls á Austurvelli eru Þorvaldur Gylfason, Jón Baldvin Hannibalsson, Þráinn Bertelsson, Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýrsson, Jóhannes Gunnarsson, Óli Palli útvarpsmaður, rithöfundarnir Ólafur Gunnarsson, Einar Már Guðmundsson og Einar Kárason ásamt Eddu Björgvinsdóttur og Bryndísi Schram. Þá koma ungliðahreyfingar Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna að mótmælunum ásamt Stúdentaráði.

miðvikudagur, október 08, 2008

The Amazing Truth about Queen Raquela - í hádeginu og í kvöld

Verð hluti af pallborði núna á eftir sem fjallar um myndina The Amazing Truth about Queen Raquela. Mæli að sjálfsögðu með því - og myndinni í kvöld! :)


Miðvikudagur

11:40 – 12:30 Málþing um lady-boys frá Filippseyjum og kvikmyndina sem allir eru að tala um: The Amazing Truth about Queen Raquela. Málþingið fer fram í hringleikasalnum á Háskólatorgi H-101. / A symposium about the movie The Amazing Truth about Queen Raquela in Háskólatorg H-101.

20:00 The Amazing Truth about Queen Raquela forsýnd á Íslandi fyrir stúdenta HÍ í sal H-102. Miðinn kostar 600 kall. / Preview of the movie The Amazing Truth about Queen Raquela for students in H-102 at Háskólatorg . Tickets 600 isk.

þriðjudagur, október 07, 2008

Kapp er best með konum

Í ljósi breyttra samfélagsaðstæðna mun októberhitt Femínistafélagsins verða helgað konum í kreppu.
Hvar eru konurnar? -Hvert er þeirra hlutverk? -Hvaða máli skipta þær? -Hver ákveður það?

Hittið er sem fyrr á efri hæð Sólon - í kvöld kl. 20


Öll velkomin.

**
Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag - 1. okt:

Kapp er best með konum
Um heim allan klóra menn sér í kollinum og velta fyrir sér hvað fór úrskeiðis. Hvernig var hægt að klúðra fjármálamörkuðum með eins miklum stæl og raun ber vitni? Geir Haarde hafði eftir Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, í viðtali við Ísland í dag á mánudagskvöld að viðbúið væri að svona lagað gerðist einu sinni á hverri öld. Ekki veit ég hvaðan Alan hefur þá speki en hins vegar er ég fullviss um að staða mála væri öðruvísi ef konur hefðu setið til jafns á við karla í fjármálageiranum.

Skortur á drápseðli er kostur
Fjármálageirinn hefur löngum verið gagnrýndur fyrir að vera karllægur. Í æðstu stöðum eru karlmenn og markaðurinn dýrkar þá tegund karlmannsímyndar sem hampað er í leikritinu Hellisbúanum. Samkeppnin er gífurleg og reglan er sú að sá sem á mest dót þegar hann deyr vinnur. Sá sem nær langt í þessum geira verður að hafa almennilegt „killer instinct“. Skortur á drápseðli hjá konum er einmitt afsökun sem forstjóri hér í borg bar fyrir sig til að réttlæta rýran hlut kvenna í æðstu stjórnunarstöðum.

Með orðum hellisbúans
Staðalímyndin af hellisbúanum er að hann hafi verið bæði heimskur og árásargjarn. Þetta er ekki góð blanda. Það vita allir viti bornir menn; karlar jafnt sem konur. Þess vegna sætir það furðu að hellisbúinn sé talinn eftirsóknarverð fyrirmynd að góðum fjármálamanni. Ár eftir ár höfum við hlustað á þær réttlætingar að karlar séu áhættusæknir og það sé súpergott því hafið sé yfir allan vafa að það muni leiða til framþróunar og ríkidæmis fyrir okkur öll. Að sama skapi er sagt að konur séu áhættufælnar sem sé ávísun á stöðnun, sult og seyru. Með orðum hellisbúans: karlar = gott, konur = vont.

Þetta er þvert á rannsóknir sem sýna að fyrirtæki með jafnt kynjahlutfall skila að jafnaði betri hagnaði en fyrirtæki sem karlar einoka. Hvort sem körlum líkar betur eða ver þá deila þeir þessari jörð með konum. Að neita að deila stjórnarherbergjum og öðrum áhrifastöðum með konum eru hreinlega slæm viðskipti – í anda hellisbúans. Það ber ekki vott um góða stjórnunarhæfileika að sjá ekki þá kosti sem helmingur mannkyns hefur yfir að búa. Að viðhalda fjármálastöðugleika í síbreytilegum heimi krefst úthalds, forsjálni og langtímahugsunar. Með öðrum orðum, sú áhættumeðvitund sem haldið er að konum er stór kostur að hafa í ábyrgðarstöðum.

Áhættumeðvitað veðmál
Það er fátt sem hefur eins mikil áhrif á líf okkar og kyn. Sama til hvaða menningarsamfélaga við lítum þá sjáum við mismunandi hlutverk fyrir konur og karla. Sú ævaforna karlmennskuímynd sem er hampað í viðskiptalífinu í dag hefur ekki eingöngu áhrif á þá karla sem reyna að fylgja henni út í ystu æsar. Afleiðingarnar sjást á ástandi heimsmála. Áhættusæknin, græðgin, samkeppnin og hamhlaupið spila stóra rullu. Krafan um að vera „sannur karlmaður“ á forsendum feðraveldis sem byggir á yfirráðum og undirgefni leiðir ekki af sér góða útkomu heldur þvert á móti. Við greiningu á hvað fór úrskeiðis væri einmitt áhugavert að skoða karlmennskuímyndina og hvaða þátt hún á í að svo fór sem fór. Heilmikil þekking er fyrirliggjandi um áhrif kynímynda í kynjafræðinni. Það væri óvitlaust hjá nútímamanninum að grúska meira í þeirri þekkingu og nýta hana. Ég þori að veðja að útkoman verði sú merka uppgötvun að kapp er best með konum.