þriðjudagur, desember 16, 2008

Tilbaka

Jæja... ég rokka bara fram og tilbaka. Í þetta sinn tilbaka - á moggabloggið. Aftur byrjuð að blogga á hugsadu.blog.is... auglýsingalaust að sjálfsögðu svo það er óhætt að kíkja í heimsókn! :)

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Traust

Traust, traust, traust. Það þarf að vera innihald fyrir því. Því boðar það ekki gott þegar valdhafar beita hörku gegn þeim sem upplýsa um spillinguna. Páll Magnússon hótaði G. Pétri málsókn vegna þess að hann vogaði sér að sýna upptöku af Geir sem sýndi Geir í miður jákvæðu ljósi. Nú hótar Glitnir málsókn vegna þess að fjölmiðlar koma upp um spillingu innan bankans. Löggan handtekur mótmælanda þvert á hans réttindi.

Hvað verður næst?
Allt eru þetta mál sem við sem ekki treystum valdhöfum þökkum fyrir. Við viljum að allt komi upp á borðið og við óttumst að það sem sé í gangi núna þoli ekki dagsins ljós - einmitt vegna þess að vantraustið á sér raunverulegar stoðir í raunveruleikanum.

Vona að fólk láti þetta ekki kúga sig enn frekar. Þau sem búa yfir upplýsingum hafa vissar skyldur gagnvart þjóðinni til að segja frá.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Af fjölmiðlum

Fór ekki á borgarafundinn í gær en frétti að hann hefði verið alveg ágætur - en ekki gallalaus. Vefritið Nei ritar um fundinn hér: http://this.is/nei/?p=697

Málefni fundarins voru fjölmiðlar og hvernig þeir hefðu brugðist. Er að velta fyrir mér hvort ég eigi að vera spæld yfir að hafa ekki drifið mig á fundinn því þetta er mér hugleikið efni. Hef lengi gagnrýnt fjölmiðla fyrir ófagmennsku og lélegheit... og síst hefur tiltrú mín á fjölmiðla tekið kipp upp á við eftir bankahrunið heldur hefur traustið minnkað enn frekar. Er á því að fjölmiðlar hér á landi séu afspyrnulélegir. Sumir hafa kennt um litlu fjármagni og tímaþröng og það er örugglega hluti af skýringunni. Hluta skýringarinnar er væntanlega einnig að leita í einhverjum af þeim ástæðum sem fjölmiðlar gáfu á borgarafundinum - um ægivald ráðamanna og eignarhald útrásarvíkinganna. Hins vegar segir það ekki næstum alla söguna. Fjölmiðlar hafa markaðsvæðst töluvert mikið á síðustu áratugum og það sést augljóslega á fréttum. Að auki er fréttamat og fréttastjórar gegnsýrðir af karlrembu. Sést ágætlega t.d. á lágu hlutfalli kvenna í fjölmiðlum - fréttastjórunum þykir nefnilega svo lítið til kvenna koma að það taki því ekki að tala við okkur eða flytja fréttir af því sem konur eru að gera. Konur eru annars flokks þegnar í þjóðfélaginu. Viðhorf Sigmundar Ernis lýsir sér ágætlega frá því á borgarafundinum í gær en þar líkti hann fjölmiðlafólki við kellingar - af því að þeir sýndu linkind. Þessu var nánast tekið án mótmæla - en væntanlega hefði salurinn ekki tekið því þegjandi og hljóðalaust ef hann hefði lýst fjölmiðlafólki sem niggurum fyrir linkindina. Fólk samþykkir nefnilega ekki svo augljósan rasisma en kvenhatrið er gúdderað.

En aftur að markaðsvæðingunni. Fjölmiðlum er meira í mun að flytja fréttir sem selja en fréttir sem eru bara nákvæmlega það - fréttir. Á sama tíma tönglast þeir á trúverðugleika fjölmiðla, að trúverðugleikinn skipti þá öllu máli. Jamm. Málið er bara að nú er trúverðugleikinn enginn. Nefni hér dæmi af visir.is. Nú er þar að finna á forsíðunni eftirfarandi fyrirsagnir:


Geirvarta Nicole Kidman - myndir.
Vextir af verðtryggðum lánum verði aldrei hærri en 2%.
Þáði kakó og stal bíl.
Skælbrosandi Miley Cyrus og John Travolta - myndir.
Fréttaskýring: Davíð segir ekkert að marka eigin skýrslur.
Angelina og Brad ástfangin - myndir.
Lækkun í Asíu í kjölfar Wall Street.
Þorgerður Katrín hannar kjöl úr gardínuefni.

Og á Mogganum er þetta að finna:

Arnór: áfallið meira hér.
Urban fremri Cruise (þ.e. nýji eiginmaður Kidman betri en sá gamli).
Bjarni móðgar framsóknarmenn.
Konur verða mildari með aldrinum.


Dv á svona spretti:

Ekki flotkróna fyrr en Davíð víkur.
Englar í sexý undirfatnaði - myndir.
Hættulegir menn taka við IMF-láninu.
Dularfulla naflahvarfið.
Óskar eftir pólitísku hæli.
Kate Hudson í sleik - við konu.

Jamm einmitt. Greinilega hugsandi fjölmiðlar - og trúverðugleikinn uppmálaður. Ég meina - hver treystir ekki fjölmiðli sem hefur það fréttamat að það sé í alvörunni alheimsfrétt að kona fór í sleik við konu eða að það sást einhvers staðar í geirvörtu?

Skal reyndar veðja að fjölmiðlar koma með þá skýringu á þessu að lesendur fjölmiðla séu bara svo vitlausir að þetta séu fréttirnar sem þeir vilja... sem er auðvitað drullugóð ástæða til að flytja þessar ekki-fréttir og fullkomnar trúverðugleikann, er það ekki, og fullkomin ástæða fyrir fjölmiðla að standa sig ekki í stykkinu...! Eða þannig.

Annað dæmi um hversu gjörsamlega máttlausir fjölmiðlarnir eru er blaðamannafundurinn í síðustu viku þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að kynna aðgerðir varðandi heimili landsins voru tilefni fundarins. Ég hlustaði á þau Ingibjörgu og Geir kynna aðgerðirnar. Svo komu spurningar fjölmiðlamanna. Ég hlustaði reyndar ekki alveg til enda en heyrði allavega 20 mínútur af spurningunum. Og um hvað snérust þær? Jú, Icesave reikningana. Það kom ekki ein einasta spurning um heimilin og aðgerðirnar. Enginn spurði hvort afnema ætti verðtryggingu. Enginn spurði hvort það ætti virkilega að verða svo að ríkið hirti nánast öll heimili í landinu í gegnum verðtrygginguna - og ætlaði sér svo kannski að selja aftur til auðmanna á slikk þegar bankarnir verða aftur einkavæddir. Enginn spurði út í atvinnuleysisbæturnar, hvort þær væru afturvirkar þannig að fólk sem fór í 50% stöðu um síðustu mánaðarmót fengi bæturnar greiddar. Enginn spurði hvort afnema ætti 10 daga bilið sem engar bætur eru greiddar. Enginn spurði hvað gera ætti fyrir fólk sem var í fjárhagsörðugleikum á tímum gróðæris. Nada...

Held satt best að segja að þetta hafi verið fundurinn sem trú mín á fjölmiðla rauk endanlega út um gluggann...


*
Viðbót - og enginn hefur beðið ríkisstjórnina og seðlabankastjórana um að koma með dæmi um lönd þar sem stýrivaxtahækkunin hefur virkað. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur er búin að nefna slatta af löndum þar sem það hefur ekki virkað.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Þróunaraðstoð

Á í alvörunni að skera niður í þróunaraðstoð þjóðarinnar???? Ég vil ekki trúa því. Við stóðum okkur illa í þróunaraðstoð í gróðærinu, gerðum ekki nándar nærri nóg. Þetta er liður sem við eigum ekki að skera niður. Við stöndum núna frammi fyrir því að lenda sjálf í kreppu. Við erum hrædd um að missa heimili okkar, vinnu, sparnað, lífeyri og að eiga ekki fyrir mat. Við þurfum að finna leiðar til að standa vörð um menntakerfið okkar, velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið - kerfi sem við skilgreinum sem grunnstoðir fyrir velferðarsamfélag og hagsæld til langs tíma litið. En það er fleira sem skiptir máli. Nú upplifa margir Íslendingar reiði vegna þess að þeim finnst alþjóðasamfélagið standa aðgerðarlaust hjá og horfa á okkur sökkva í sæinn. Gleymum því samt ekki að það eru mörg lönd sem eru mun ver stödd heldur en við. Það eru lönd þar sem gróðærið hefur ekki ríkt, þar sem fátæktin er mikil og skortur á lífsnauðsynjum eins og mat, vatni og lyfjum. Síðan eru lönd þar sem ríkir stríð. Hvað er t.d. að gerast núna á Gaza? Erum við að leggja hjálparhönd eða stöndum við bara aðgerðarlaus hjá á meðan matur er tekinn af fólki og skorið á allar þeirra bjargarlínur? Mér sýnist hið síðarnefnda eiga betur við okkar afstöðuleysi. Okkar ríkisstjórn er nefnilega bissí, skiluru??

Nú er okkur tíðrætt um að þeir sem beri ábyrgð verði að líta í eigin barm og átta sig á mistökunum. Auðvitað ætti það að vera sjálfsagt mál þó ráðamenn okkar og útrásarvíkingarnir átti sig ekki á því. En það eru fleiri en þeir sem verða að líta í eigin barm. Ef við ætlum að byggja hér upp betra samfélag þá eigum við auðvitað að taka réttlætið alla leið - ekki bara fyrir Ísland. Það er ekkert réttlátt við það hvernig ríkari þjóðir heims hafa arðrænt fátækari þjóðir í gegnum alþjóðavæðinguna. Við vitum vel af því að hér í þessum heimi eru fleiri milljónir í þrælkun til að framleiða vörur fyrir ríkari löndin. Við höfum oft ekki úrræði til að meta hvort það sem við kaupum er framleitt við mannsæmandi aðstæður þar sem fólk getur lifað af vinnu sinni eða hvort vörurnar eru framleiddar við aðstæður sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem grimmúðlegum, ómannúðlegum og ósanngjörnum. Við erum hins vegar ekki hörð á því að gera kröfur á fyrirtækin sem selja okkur vöruna um að tryggja að framleiðslan fari fram á hátt sem við gætum skammlaust lagt nafn okkar við.

Við þurfum að byggja upp á nýtt. Rísa aftur upp úr öskunni en gætum við í þetta sinn risið upp með réttlætið og mannréttindi að leiðarljósi? Ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir heiminn? Gætum við byrjað að hugsa heildstætt? Og ef við ætlum að hugsa heildstætt þá ættum við líka að sjá að við erum vel aflögufær í þróunaraðstoð. Þar eigum við að taka okkur á og gera miklu meira - ekki skera niður.

**
Ps. Má svo til með að bæta við slóð á pistil sem er alveg brill: „Er hetja á Alþingi?"

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Málefnalegur launamunur kynjanna er ekki til

Mætti ég spyrja borgarráð hvað málefnalegur launamunur sé?

Vísir, 06. nóv. 2008 15:54
Enginn ómálefnalegur launamunur á milli kynja hjá borginni

Enginn ómálefnalegur launamunur á milli kynja reyndist í dagvinnulaunum starfsmanna Reykjavíkurborgar í fyrra samkvæmt nýrri úttekt á launamun kynjanna sem kynnt var í borgarráði í dag.

Könnunin var unnin fyrir mannauðsskrifstofu borgarinnar og hún sýnir að dagvinnulaunamunur kynja hefur minnkað verulega, eða úr 15 prósentum árið 1999 í fjögur prósent í fyrra. Munurinn á heildarlaunum kynjanna hefur á sama tíma farið úr 14 prósentum í níu sem er sambærilegt við það sem lægst gerist í erlendum könnunum. Þegar tekið hefur verið mið af innbyrðis röðun starfa reynist enginn ómálefnalegur launamunur hjá borginni sem fyrr segir.

Borgarráð fagnaði niðurstöðunni og segir í bókuninni að ljóst megi vera að sú áhersla sem Reykjavíkurborg hafi til margra ára lagt á jafnrétti kynjanna og aðgerðir til að eyða launamun séu að skila sér með þessum mikilvæga árangri.

„Rannsóknin sýnir einnig að launaákvarðanir Reykjavíkurborgar og starfsmat ásamt aukinni menntun og starfsreynslu kvenna hefur skilað miklu til að draga úr launamun kynja hjá Reykjavíkurborg. Rannsóknin staðfestir þannig að með kröftugum ásetningi og skýrum markmiðum er hægt að ná árangri sem um munar til að treysta jafnrétti kynjanna. Borgarráð leggur áherslu á að hér eftir sem hingað til sé kynjajafnrétti skýrt og sameiginlegt markmið borgaryfirvalda," segir í bókuninni.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Hver ber ábyrgð?

Kannski á eftir að líða einhver tími þangað til við fáum einhvern botn í hvað raunverulega gerðist en kannski er það heldur ekki svo flókið...

Við erum hluti af alþjóðasamfélagi en þó ekki. Við erum hluti af samfélagi sem byggir á feðraveldis nýfrjálshyggju og kapítalisma en þó ekki. Alþjóðlega regluverkið reyndist gallað. Mér finnst áhugavert að skoða þetta út frá valdatengslum í anda Foucault - hinu allt um lykjandi valdi sem er í öllum og alls staðar en kristallast ekki í einhverri einni yfirstjórn.

Ef við skoðum EES samninginn fyrst þá skilst mér að ákvæði í honum hafi gert bönkunum mögulegt að opna útibú í öðrum löndum með íslenskri ríkisábyrgð án þess að samþykki þyrfti að vera til staðar hjá íslensku ríkisstjórninni (og hvað þá íslensku þjóðinni). Í raun má segja að þetta sé hálfgerð gildra fyrir smáríki. Þarna ráða stóru ríkin för í regluverkinu en reglurnar henta ríkjunum ekki eins og úrræðin til að bregðast við eru ekki þau sömu. Einstök ríki voru ábyrg fyrir úrlausnum, þ.e. að vinna á vandanum þó regluverkið þýddi að útrás væri möguleg án samráðs við ríkið.

Þetta eru fyrst valdatengslin - stórar þjóðir vs smáar þjóðir í alþjóðlegu regluverki sem felur í sér alls kyns gildrur sem stórar þjóðir geta kannski leyst úr en ekki litlar.

Löggjafarvaldið er síðan næsta klúður og spurning hvaða vald löggjafarþingið hefur eftir allt saman? Þar er greinilega hræðsla við að taka á málunum, eins og t.d. með því að hefta þetta margumtalaða frelsi einstaklinga en sérstaklega fyrirtækja til að gera hvað sem er. Þetta er áhugavert út frá þeirri umræðu um að valdið sé að færast í auknum mæli frá þinginu og yfir til fyrirtækja, þ.e. til viðskiptalífsins. Af einhverjum ástæðum var ekki girt fyrir þennan möguleika banka á að stofna útibú erlendis með íslenskum ríkisábyrgðum þrátt fyrir að öllum hefði átt að vera ljóst að það væri algjört glapræði að hafa okkar örþjóð í ábyrgð fyrir sparifé alheimsins.

Það er hlutverk stjórnvalda að vernda þjóðaröryggi landsins. Efnahagslegt öryggi flokkast þar með. Það er þess vegna stjórnvalda að sjá til þess að bankakerfið og útrásin verði ekki of stór fyrir íslenska þjóð. Í því samhengi verður að gera ráð fyrir að allt geti farið á versta veg. Það er ekki leyfilegt að hugsa sem svo að þetta reddist og worst case scenario muni ekki gerast. Í ljósi sögunnar væri það enda einstaklega naive afstaða.

Seðlabankann og FME ætla ég ekki að segja mikið um - en augljóslega á peningamálastefnan sinn þátt í því hvernig fór og auðvitað brást allt eftirlitskerfi. Ég sá einhvers staðar frétt þar sem vitnað var í Jónas Fr. um af hverju ekki hefði verið brugðist við Icesavereikningunum og hann sagði eitthvað á þá leið að það væri út fyrir skilgreint verksvið FME. Þetta er einmitt einn af akkilesarhælum opinberra stofnana. Skilgreiningar á starfsemi eru of stífar og veita ekki nægjanlegt svigrúm til að fylgja eftir síbreytilegum heimi.

Útrásarvíkingarnir og æðstu stjórnendur bankanna eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Ári áður en bankarnir hófu að veita húsnæðislán gerðu þeir skýrslu þar sem þeir vöruðu við 90% lánum til íbúðarkaupa. Sögðu að afleiðingarnar yrðu skelfilegar. Ári seinna stukku bankarnir af stað, ekki með 90% lán heldur 100%. Þetta sýnir vel græðgina. Hagur þjóðarinnar var alltaf aukaatriði.

Fjölmiðlar virðast síðan hafa verið nánast gagnrýnislausir í klappliðinu. Tökum sem dæmi ofangreind húsnæðislán. Þegar verðið hækkaði upp úr öllu valdi þá komu fram spurningar um hvað myndi gerast þegar verðið lækkaði. Þá komu fram „spekingar“ sem héldu því fram að húsnæðisverð lækkaði aldrei, það bara gerðist ekki og hefði aldrei gerst í Íslandssögunni. End of story. Nú er verðið byrjað að lækka. Og viti menn - sjáum við þá ekki í fjölmiðlum dæmi um massíva lækkun í löndunum í kringum okkur, t.d. Finnlandi.

**
Ofangreint er auðvitað bara örlítil mynd af heildarmyndinni en það sem mér finnst skipta mestu máli að skoða er hugmyndafræðin á bakvið þetta allt saman. Auðvitað eru einstaklingar í forsvari en einstaklingar starfa innan hugmyndakerfa. Ég vil ekki fría þá einstaklinga ábyrgð sem komu okkur í þessa stöðu (þvert á móti) en ég veit jafnframt að ef það er það eina sem við gerum þá lagast ekkert og ekkert breytist í raun. Ef sú hugmyndafræði sem hér hefur verið ríkjandi heldur áfram þá munu bara spretta fram nýjir einstaklingar sem gera sömu hlutina. Þar að auki má velta því upp að það er hugmyndafræðin sem kom okkur á hausinn og þeir einstaklingar sem eru við stjórnvölinn kunna ekki aðra hugmyndafræði og þar af leiðandi verða „lausnirnar“ byggðar á hugmyndafræði sem ekki virkar og geta komið okkur enn frekar um koll, þ.e. meiri vandræði en við erum nú þegar í.

Meira um þetta seinna... orðið nógu langt í bili.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Ha?!

Hvílíkur fáránlegur skandall ef rétt er að Landsbankinn hafi lánað JÁJ 1,5 milljarða til að kaupa fjölmiðlahluta 365. Þannig að nú eru allir fjölmiðlar í eigu manna sem eru mjög umdeildir í íslensku samfélagi (og þó víðar væri leitað...) og ættu að sjá sóma sinn í því að skila til íslensku þjóðarinnar því sem þeir tóku hér (að okkur forspurðum en út á okkar skuld). Ef Landsbankinn vildi endilega lána þessa peninga hefði verið nær að lána mér þá! Veitir ekki af að fá hér öðruvísi fjölmiðla - ekki meira af því sama.

miðvikudagur, október 29, 2008

Kvenmannslausir í kulda og trekki

Kristín Marja Baldursdóttir skrifaði snilldargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég held að þar nái hún að orða það sem mörg okkar hugsa, þ.m.t. ég, þó ég eigi ekki börn þá eru komandi kynslóðir mér ofarlega í huga í þessu öllu og ástæðan fyrir því að ég stend í jafnréttisbaráttu yfir höfuð. Finnst að við skuldum þeim að vera manneskjur í þróun (sem mannkynið stendur sig allt of illa í - þekking, reynsla, skynsemi og réttlæti eru ótrúlega vanrækt fyrirbæri).

Hér er tengill á greinina hennar Kristínar Marju.

Sjálf skrifaði ég pistil í Viðskiptablaðið í dag. Læt hann fylgja hér með.Kvenmannslausir í kulda og trekki
Það er óhætt að segja að nú næði um Ísland. Ekki nóg með að veturinn sé
genginn í garð heldur hellist kreppan yfir. Framundan er kuldi og trekkur.
Ráðamenn þjóðarinnar sögðu í upphafi kreppunnar að nú þyrftum við að
endurskoða okkar gildismat og standa saman. Gallinn á gjöf Njarðar er að
það gildismat sem nú skýtur upp kollinum er ekki til þess fallið að efla
samstöðu, nema síður sé.

94% karlar
Ef rýnt er í þætti og sjónvarpsefni liðinna vikna er ljóst að hið lága
hlutfall kvenna í umræðunni hefur lækkað enn frekar. Um síðustu helgi voru
þrír pólitískir umræðuþættir. Vikulokin á Rás 1, Silfur Egils í
Ríkissjónvarpinu og Mannamál á Stöð 2. Gestir Hallgríms Thorsteinssonar í
Vikulokunum voru 4 karlar. Gestir Egils Helgasonar í Silfri Egils voru 6
karlar og 1 kona. Í pólitískum umræðum Sigmundar Ernis Rúnarssonar í
Mannamáli voru 5 karlar. Gerður Kristný fékk að fljóta með í
menningarhlutanum en þar var pólitík ekki til umræðu heldur verk 3 karla
og 1 konu. Kynjahlutfallið í pólitískum umræðum var sem sagt 15 karlar og
1 kona, þ.e. 94% karlar og 6% konur. Hlutfall þáttastjórnanda 100% karlar.

Hvenær verða allir menn taldir menn?
Slagorð RUV er Útvarp allra landsmanna. Þáttur Sigmundar Ernis heitir
Mannamál. Það er greinilegt að konur teljast ekki lengur til manna hér á
landi en kannski táknaði orðið maður aldrei bæði kyn í raun og veru.
„Hvenær verða allir menn taldir menn" sungu Rauðsokkur á Kvennafrídaginn
1975. Greinilega ekki árið 2008! Rétt eins og ég túlka ákvörðun Gordons
Brown um að beita hryðjuverkalögum gegn íslensku fyrirtæki sem
hernaðaraðgerð get ég ekki annað en túlkað útrýmingu íslenskra karlmanna á
kvenfólki úr pólitískri umfjöllun sem hernaðaraðgerð.

Kúgaðar konur eru ekki stoltar
Íslendingar hafa verið stolt þjóð og vonandi getum við haldið áfram að
bera höfuðið hátt þrátt fyrir hremmingar. Hins vegar verður að vera
innistæða fyrir þjóðarstoltinu. Tveir gesta Mannamáls ræddu ímynd Íslands
og að hana þyrfti að endurreisa. Ætla íslenskir fjölmiðlamenn í alvörunni
að skapa þá ímynd að Ísland sé fornaldarlegt karlaveldi þar sem raddir
kvenna skipta ekki máli? Endurreisa þjóðarstoltið á því? Öllum hugsandi
mönnum er ljóst að hvorki þjóðarstolt né góð ímynd getur byggt á útilokun
kvenna. Samstaða ekki heldur.
Stríð eða samstaða?
Í öryggisályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1325 er fjallað um endurreisn
landa eftir stríð og aðrar hremmingar. Þar er kveðið á um að aðkoma kvenna
í endurreisn sé lykilatriði í uppbyggingu. Konur eiga ekki að þurfa að
berjast við feðraveldið á tímum sem þessum. Það var ekki bara
kapítalisminn og nýfrjálshyggjan sem beið skipsbrot í því efnahagslega
hruni sem nú skellur á heimsbyggðinni. Þetta er líka dómur yfir
feðraveldinu og hinum karlmannlegu gildum dirfsku og áhættufíknar. Sönnun
þess að körlum er ekki einum treystandi til að stjórna heiminum. Kannski
er það sú sára staðreynd sem gerir það að verkum að fjölmiðlakarlar
útiloka konur. Fáir eiga auðvelt með að viðurkenna eða horfast í augu við
mistök. Fjölmiðlar eiga þess kost að hjakka í sama farinu, útiloka konur
og vaða áfram kvenmannslausir í kulda og trekki. Sú leið er ávísun á
frekari hremmingar og samfélag sem er á engan hátt eftirsóknarvert, hvorki
fyrir konur né karla. Hinn kosturinn, sem stendur líka til boða, er að
snúa við blaðinu, tryggja jafnvægi og standa sig í stykkinu. Það er
ömurlegt fyrir konur að búa í samfélagi sem þessu. Það er hægt að standa
af sér ýmsar hremmingar en útilokun jafngildir stríðsyfirlýsingu, ekki samstöðu.

þriðjudagur, október 28, 2008

Útvarp hverra?

Það er nokkuð ljóst að breyta þarf slagorði RUV í „Útvarp allra landskarla“

sunnudagur, október 26, 2008

Friður, jafnrétti og samfélag

Gildin mín fyrir það sem framundan er hljóma svona:
Friður, jafnrétti og samfélag
Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands kona að nafni Elisabeth Rehn. Hún er fyrrum varnarmálaráðherra Finnlands og var þátttakandi í ráðstefnu um konur, stríð og öryggi. Á þeirri ráðstefnu sagði hún að hún hefði komist að því að eina verkefnið sem væri þess virði að vinna að væri að stuðla að friði. Þessi orð hafa fylgt mér og vonandi gleymi ég þeim aldrei. Jafnrétti og samfélag eru einnig hluti af gildunum því þetta eru grundvallaratriði til að hægt sé að stuðla að friði. Samfélag jafnréttis er líklegra til að halda friðinn heldur samfélag þar sem misrétti ræður ríkjum eða þar sem engin er samkenndin. Með þessu á ég þó ekki við að einstaklingurinn skipti ekki máli - engan vegin. Ég vil vera einstaklingur í samfélagi. Einstaklingurinn hefur hins vegar lítið gildi ef hann er eyland, ef ekkert er samfélagið.
Sem stendur upplifi ég mjög sterkt að við lifum í samfélagi misréttis. Sú tilfinning hefur styrkst eftir pólitíska umræðuþætti helgarinnar þar sem 94% viðmælenda hafa verið karlar og einungis 6% konur, eða réttara sagt kona, því konan var bara ein. Þetta er ekki boðlegt. Þetta er heldur ekki líklegt til að efla samstöðu, frið eða þjóðarstolt - hvað þá þjóðarsátt.

fimmtudagur, október 23, 2008

Bara konur sem eiga að þegja?

Þetta er aðeins of súrrealískt fyrir minn smekk - reyndar eins og kreppan öll. 10 karlar - 2 konur. Og pointið er....??? Lýðræði mun aldrei verða að raunveruleika í karlaveldi. leiðin fram á við þýðir að við þurfum að prófa það sem ekki hefur verið prófað áður - lýðræðissamfélag getur aldrei orðið að veruleika nema með margbreytilegum röddum þjóðarinnar.
Vísir, 23. okt. 2008 14:08
Mótmæli boðuð vegna þagnar ráðamanna


Boðað hefur verið aftur til mótmæla gegn ráðamönnum þjóðarinnar á Austurvelli á laugardaginn kemur. Á sama tíma á að mótmæla við Ráðhústorgið á Akureyri og á Seyðisfirði.

Yfirskrift mótmælanna er „Rjúfum þögn ráðamanna og göngum til lýðræðis" og er fólk hvatt til að mæta til að sýna fram á að almenningur hafi rödd og hann finni til. Krafan sé einföld, að ráðamenn rjúfi þögnina eins og það er orðað í tilkynningunni. Á Akureyri verður gengið með blys frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorginu klukkan 16 en á sama tíma hefjast mótmælin á Austurvelli og á Seyðisfirði.

Meðal þeirra sem taka munu til máls á Austurvelli eru Þorvaldur Gylfason, Jón Baldvin Hannibalsson, Þráinn Bertelsson, Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýrsson, Jóhannes Gunnarsson, Óli Palli útvarpsmaður, rithöfundarnir Ólafur Gunnarsson, Einar Már Guðmundsson og Einar Kárason ásamt Eddu Björgvinsdóttur og Bryndísi Schram. Þá koma ungliðahreyfingar Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna að mótmælunum ásamt Stúdentaráði.

miðvikudagur, október 08, 2008

The Amazing Truth about Queen Raquela - í hádeginu og í kvöld

Verð hluti af pallborði núna á eftir sem fjallar um myndina The Amazing Truth about Queen Raquela. Mæli að sjálfsögðu með því - og myndinni í kvöld! :)


Miðvikudagur

11:40 – 12:30 Málþing um lady-boys frá Filippseyjum og kvikmyndina sem allir eru að tala um: The Amazing Truth about Queen Raquela. Málþingið fer fram í hringleikasalnum á Háskólatorgi H-101. / A symposium about the movie The Amazing Truth about Queen Raquela in Háskólatorg H-101.

20:00 The Amazing Truth about Queen Raquela forsýnd á Íslandi fyrir stúdenta HÍ í sal H-102. Miðinn kostar 600 kall. / Preview of the movie The Amazing Truth about Queen Raquela for students in H-102 at Háskólatorg . Tickets 600 isk.

þriðjudagur, október 07, 2008

Kapp er best með konum

Í ljósi breyttra samfélagsaðstæðna mun októberhitt Femínistafélagsins verða helgað konum í kreppu.
Hvar eru konurnar? -Hvert er þeirra hlutverk? -Hvaða máli skipta þær? -Hver ákveður það?

Hittið er sem fyrr á efri hæð Sólon - í kvöld kl. 20


Öll velkomin.

**
Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag - 1. okt:

Kapp er best með konum
Um heim allan klóra menn sér í kollinum og velta fyrir sér hvað fór úrskeiðis. Hvernig var hægt að klúðra fjármálamörkuðum með eins miklum stæl og raun ber vitni? Geir Haarde hafði eftir Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, í viðtali við Ísland í dag á mánudagskvöld að viðbúið væri að svona lagað gerðist einu sinni á hverri öld. Ekki veit ég hvaðan Alan hefur þá speki en hins vegar er ég fullviss um að staða mála væri öðruvísi ef konur hefðu setið til jafns á við karla í fjármálageiranum.

Skortur á drápseðli er kostur
Fjármálageirinn hefur löngum verið gagnrýndur fyrir að vera karllægur. Í æðstu stöðum eru karlmenn og markaðurinn dýrkar þá tegund karlmannsímyndar sem hampað er í leikritinu Hellisbúanum. Samkeppnin er gífurleg og reglan er sú að sá sem á mest dót þegar hann deyr vinnur. Sá sem nær langt í þessum geira verður að hafa almennilegt „killer instinct“. Skortur á drápseðli hjá konum er einmitt afsökun sem forstjóri hér í borg bar fyrir sig til að réttlæta rýran hlut kvenna í æðstu stjórnunarstöðum.

Með orðum hellisbúans
Staðalímyndin af hellisbúanum er að hann hafi verið bæði heimskur og árásargjarn. Þetta er ekki góð blanda. Það vita allir viti bornir menn; karlar jafnt sem konur. Þess vegna sætir það furðu að hellisbúinn sé talinn eftirsóknarverð fyrirmynd að góðum fjármálamanni. Ár eftir ár höfum við hlustað á þær réttlætingar að karlar séu áhættusæknir og það sé súpergott því hafið sé yfir allan vafa að það muni leiða til framþróunar og ríkidæmis fyrir okkur öll. Að sama skapi er sagt að konur séu áhættufælnar sem sé ávísun á stöðnun, sult og seyru. Með orðum hellisbúans: karlar = gott, konur = vont.

Þetta er þvert á rannsóknir sem sýna að fyrirtæki með jafnt kynjahlutfall skila að jafnaði betri hagnaði en fyrirtæki sem karlar einoka. Hvort sem körlum líkar betur eða ver þá deila þeir þessari jörð með konum. Að neita að deila stjórnarherbergjum og öðrum áhrifastöðum með konum eru hreinlega slæm viðskipti – í anda hellisbúans. Það ber ekki vott um góða stjórnunarhæfileika að sjá ekki þá kosti sem helmingur mannkyns hefur yfir að búa. Að viðhalda fjármálastöðugleika í síbreytilegum heimi krefst úthalds, forsjálni og langtímahugsunar. Með öðrum orðum, sú áhættumeðvitund sem haldið er að konum er stór kostur að hafa í ábyrgðarstöðum.

Áhættumeðvitað veðmál
Það er fátt sem hefur eins mikil áhrif á líf okkar og kyn. Sama til hvaða menningarsamfélaga við lítum þá sjáum við mismunandi hlutverk fyrir konur og karla. Sú ævaforna karlmennskuímynd sem er hampað í viðskiptalífinu í dag hefur ekki eingöngu áhrif á þá karla sem reyna að fylgja henni út í ystu æsar. Afleiðingarnar sjást á ástandi heimsmála. Áhættusæknin, græðgin, samkeppnin og hamhlaupið spila stóra rullu. Krafan um að vera „sannur karlmaður“ á forsendum feðraveldis sem byggir á yfirráðum og undirgefni leiðir ekki af sér góða útkomu heldur þvert á móti. Við greiningu á hvað fór úrskeiðis væri einmitt áhugavert að skoða karlmennskuímyndina og hvaða þátt hún á í að svo fór sem fór. Heilmikil þekking er fyrirliggjandi um áhrif kynímynda í kynjafræðinni. Það væri óvitlaust hjá nútímamanninum að grúska meira í þeirri þekkingu og nýta hana. Ég þori að veðja að útkoman verði sú merka uppgötvun að kapp er best með konum.

laugardagur, september 13, 2008

Grjóthörðu mjúku málin

Hér er pistllinn minn fyrir Viðskiptblaðið sem birtist 4. september. Margt í honum má yfirfæra yfir á kjarabaráttu ljósmæðra. Velti annars fyrir mér hvort ekki væri við hæfi að ljósmæður kærðu fjármálaráðherra fyrir brot á jafnréttislögum? Einnig velti ég fyrir mér af hverju það tíðkast ekki að fara fram á afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum fyrir brot gegn konum, rétt eins og víða tíðkast að fara fram á afsökunarbeiðnir og jafnvel skaðabætur fyrir brot gegn alls kyns hópum. Eina dæmið sem ég veit um að farið hefur verið fram á að stjórnvöld bæti fyrir gjörðir sínar er varðar kynjajafnrétti er krafa á japönsk stjórnvöld fyrir að neyða konur í kynlífsþrælkun í seinni heimstyrjöldinni. Kannski er kominn tími til að breyta og ljósmæður kannski kjörið dæmi? Fara fram á að fá leiðréttingu launa aftur í tímann + afsökunarbeiðni fyrir misréttið og þegnskylduvinnuna sem þær eru skikkaðar til að vinna í gegnum lág laun!

Þetta er allavega hugmynd ;) En hér kemur pistillinn:


Grjóthörðu mjúku málin
Juanita Elias, kennari í alþjóðastjórnmálum við Háskólann í Adelaide í Ástralíu, fjallar um ríkjandi karlmennskuhugmyndir í alþjóðlegum stórfyrirtækjum í nýlegri grein í tímaritinu Men and Masculinities. Þar greinir hún þátt stórfyrirtækja í að viðhalda og skapa hugmyndir um karlmennsku og kvenleika á alþjóðavettvangi, m.a. með kynskiptingu starfa þar sem stjórnendastöður byggja á karlmennskuhugmyndum en hugmyndir um kvenleika ráða för varðandi illa launuð framleiðslustörf. Greinin er mjög áhugaverð og hér ætla ég að yfirfæra hugmyndina sem greinin byggir á yfir í vangaveltur um hlut stjórnvalda og vinnumarkaðar þegar kemur að verkaskiptingu kynjanna í samfélaginu.

Hagsældin og atvinnuþátttaka kvenna
Hagsæld Íslands og það hvernig landið hefur brotist frá því að vera skilgreint sem þróunarland yfir í að teljast með þeim löndum hvað best eru sett í heiminum má ekki síst þakka hárri atvinnuþátttöku kvenna. Við mælumst ofarlega á heimslistanum yfir þjóðir sem náð hafa hvað mestu jafnrétti og státum okkur iðulega af jöfnum tækifærum óháð kyni, þrátt fyrir að ljóst sé af kynjaskiptingu í störf, launamun kynjanna og ójafnri dreifingu heimilisábyrgðar að slíkt byggir iðulega frekar á ímynduðum jöfnuði frekar en raunverulegum. Útskýringarnar á misjafnri stöðu kynjanna sem gripið er til eiga sér ákveðinn samhljóm við grein Juanitu og fleiri fræðimanna sem fjallað hafa um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Óöruggt ástand
Það er þrennt sem mig langar til að fjalla um í þessu samhengi. Það fyrsta er þetta árvissa ástand sem skapast á hverju hausti vegna þess að ekki er hægt að manna stöður á leikskólum, frístundaheimilum og grunnskólum. Það þýðir óöryggi fyrir bæði foreldra og atvinnurekendur, sem væntanlega vilja bæði sjá hag barnanna borgið sem best og að starfsfólk geti mætt í vinnu og sinnt starfinu án þessara árvissu truflana. Í öðru lagi þá samþykkti leikskólaráð Reykjavíkurborgar í síðustu viku að taka upp heimgreiðslur til foreldra sem eru heima með börnum sínum til tveggja ára aldurs. Heimgreiðslurnar eru langt undir lágmarkslaunum, eða 35.000 kr á mánuði. Í þriðja lagi þá er ekki að finna orð um þetta „ástand“ á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins og í raun má segja að þetta veki furðulitla umræðu út frá áhrifum á atvinnulífið og ójafnri stöðu kynjanna í samfélaginu.

Móðgandi að krefjast hærri launa?
Manneklan sem fjallað er um hér fyrir ofan hefur oft verið rakin til lágra launa í þeim kvennastéttum sem sjá um að annast börnin. Þrátt fyrir langa og stranga baráttu gengur hægt að hækka launin og má velta fyrir sér hversu stóran þátt kvenleikahugmyndir eiga í því. Erlendar rannsóknir á fóstrum (e. nannies) hafa t.d. leitt í ljós að foreldrar ætlast til þess að fóstrunum þyki það vænt um börnin að þeim langi nánast til að annast þau af hugsjóninni einni saman án þess að tilheyrandi launagreiðslur þurfi að fylgja. Lág laun verða þá nokkurs konar mælikvarði á væntumþykju þeirra sem starfanum sinna. Krafa um mannsæmandi laun hljómar þá nánast eins og móðgun. Það má velta því upp hvort sama sé ekki upp á teningnum hér; að stjórnvöld séu treg til að hækka launin því með láglaunastefnu má viðhalda þeirri hugmynd að móðureðli kvenna sé svo sterkt að þær séu tilbúnar til að annast börnin í þegnskylduvinnu.

Mótun karlmennsku og kvenleika
Heimgreiðslurnar hef ég áður fjallað um en það er áhugavert að skoða þær út frá því sjónarmiði að í gegnum söguna hefur verið litið á konur sem varavinnuafl og þær hafa iðulega verið sendar heim þegar skóinn kreppir, rétt eins og núna. Í því endurspeglast mismunandi verðamætamat á virði kynjanna á vinnumarkaði og sömu hugmyndafræði má ef til vill lesa út úr því ósagða á heimasíðu SA. Kannski þykir það einfaldlega ekki karlmannlegt að börnin séu hluti af stjórnun og að sama skapi þyki atvinnurekstur ekki kvenlegur. Heimsgátan verður ekki leyst í þessum stutta pistli en áhugavert er að skoða og greina stöðuna út frá þeim sjónarhóli að stefnumótandi ákvarðanir bæði taka mið af og móta ríkjandi hugmyndir um karlmennsku og kvenleika.

fimmtudagur, september 11, 2008

Enn eitt dæmið...

Enn eitt dæmið um að konur eru konum verstar...! Skil ekki af hverju fólk er í enn að nota þetta orðatiltæki - er einhver sem er í alvörunni til í greiningu og úttekt á hvort þetta sé raunverulega málið?

laugardagur, ágúst 09, 2008

Nálgunarbann sett á

Set hér með nálgunarbann á þá Jón Steinar og Ólaf Börk. Héðan í frá er þeim gert að stíga ekki fæti inn í Hæstarétt vegna þess að rökstuddur grunur leikur á að með því munu þeir raska friði mínum og annarra sem eru þeirrar skoðunar að dómskerfið eigi ekki að vera helsti griðarstaður ofbeldismanna.

Búin að fatta

Aha. Búin að átta mig á hvað það er sem þvælist fyrir Jóni Steinari og Ólafi Berki varðandi nálgunarbannið. Í lögunum segir:

110. gr. a. Heimilt er leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á.


Farið var fram á nálgunarbann vegna þess að rökstudd ástæða er til að ætla að ofbeldismaðurinn muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þessarar KONU sem í hlut á!

Skýr eða ekki skýr?

Ég held ég sé bara alveg sammála Jóni Steinari í því að lögin um nálgunarbann séu alveg nægjanlega skýr hvað þetta tiltekna mál varðar. Öðru máli virðist hins vegar gegna um Jón Steinar...

Starf hæstaréttardómara felst ekki í því að vernda frelsi karla til að beita konur ofbeldi. Væri einhver til í að láta mennina tvo sem fengu jobbið sitt út á kyn og klíku vita?

mánudagur, ágúst 04, 2008

Til upplýsinga

Verslunarmannahelgi þar sem búið er að tilkynna um tvö kynferðisbrot telst ekki hafa farið vel fram. Þarf enn þá að upplýsa fólk um að nauðgun er eitt stærsta áfall sem fólk verður fyrir í lífinu?

Sóley hafði upp á ansi fínu myndbandi á TedTalks. Vel þess virði að dreifa svo ég set það hér inn líka...


föstudagur, ágúst 01, 2008

Kvennasaga

Ég ætlaði út að frelsa heiminn en ég fékk enga barnapíu


Úr Veru. 4 tbl. 1983.

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Vangaveltur

Velti fyrir mér hversu margir foreldrar ætli að fylgja sonum sínum úr hlaði með þeim orðum að þeim beri að nýta sér kengdrukknar kellingar á útihátíðum og dætrum með þeim orðum að þeim hlakki geðveikt til að heyra sögurnar um hversu mörgum strákum hafi tekist að nýta sér að þær væru illa girt grey sem ekki gátu hlaupist á brott úr Heimaey...?

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Enn um Baggalút - en nú um fjölmiðla

Fjölmiðlar hafa greinilega tekið þá ákvörðun að grafa undan skilaboðum karlahóps Femínistafélagsins um að karlar segi nei við nauðgunum. Dæmi um það má sjá í leiðara DV í dag og í Fréttablaðinu á bls 23. Fleiri fjölmiðlara hafa valið þessa leið.

Innihaldið í texta Baggalúts var að ungum strákum sem vilji missa sveindóminn BERI að nýta sér ölvunarástand kvenna. Ég hef aldrei upplifað jafnsterkt áður hversu samtrygging karla er mikil þegar kemur að þeirra rétti til að gera hvað sem er við konur. Vona að fjölmiðlar taki sig saman í andlitinu og átti sig á hvaða ábyrgð þeir bera sem fjórða valdið.

föstudagur, júlí 25, 2008

Baggalútslagið

Það veldur töluverðum áhyggjum að sumt fólk átti sig ekki á að textinn við nýja lag Baggalúts snýst um nauðgun en ekki kynlíf... Held að einfalda reikniformúlan um að við séum komin 42% áleiðis skili alltof bjartsýnni niðurstöðu. Ef það er almennt viðhorf að það sé bara dæmi um týpískt íslensk fyllerísrugl að strákar fari á Þjóðahátíð með það að markmiði að missa sveindóminn með dauðadrukkinni konu sem ekki sleppur frá þeim þar sem hún er innikróuð á eyjunni og þeir þurfi þar að auki að fara við hana í slag til að fá sínu framgengt... þá er það augljóst merki um að fyrir sumum er nauðgun kynlíf... Lýsingin á því sem fram fer í texta Baggalúts gerir hvergi ráð fyrir að konan sé samþykk - hvergi ráð fyrir að henni þyki þetta gott eða gaman - hvergi gert ráð fyrir að þetta sé á forsendum beggja kynja. Strákurinn og það sem hann vill er viðmiðið og aðalatriðið. Vilji konunnar aukaatriði og kynfrelsi hennar virt að vettugi. Mér er ekki skemmt...

mánudagur, júlí 14, 2008

42% frjálsar

Jú er enn í bloggfríi og verð enn um sinn... en ákvað að skella inn Viðskiptablaðspistlinum - sem birtist á miðvikudaginn var:

42% frjálsar
Þessa dagana er ég umvafin ósýnilegum konum. Það byrjaði allt með frétt um að konur væru aðeins 21% viðmælenda fréttafjölmiðla á Íslandi þrátt fyrir að vera helmingur þjóðarinnar. Á laugardaginn var umfjöllun um konur í Pakistan í 24 stundum þar sem sagt var að þær hefðu kannski skoðun á málinu en „væri oftast ráðlagt að þegja“. Sama dag hóf ég lestur bókarinnar Freedom’s Daughters sem fjallar um baráttu kvenna fyrir auknum réttindum svartra í Bandaríkjunum. Þar heyrast raddir kvenna sem hingað til hafa verið ósýnilegar í sögunni.

„Þú ert búin að segja nóg“

Margir þekkja Rosu Parks, konuna sem neitaði að eftirláta hvítum manni strætósæti sitt þann 1. desember 1955 og hratt þar með af stað atburðarrás sem hafði mikil áhrif á endalok aðskilnaðarstefnunnar í Bandaríkjunum. Daginn sem réttað var yfir Rosu var haldinn baráttufundur til að hvetja svarta til að sniðganga strætó þangað til aukin réttindi næðust. Rosa Parks bað um að fá að taka þar til máls. „Af hverju?“, var hún spurð, „þú ert búin að segja nóg.“ Hvorki rödd Rosu né annarra kvenna heyrðist á fundinum en þar steig fram á sjónarsviðið maður sem valinn var andlit baráttunnar, Martin Luther King Jr. Konurnar sem vörðu mörgum mánuðum í undirbúning og hugmyndasmíði aðgerðanna sem á eftir komu voru ósýnilegar. Sömu sögu er að segja um svörtu konurnar sem voru helstu viðskiptavinir strætó. Þær afrekuðu að sniðganga almenningssamgöngur í 381 dag þangað til sigur náðist.

Þrælar, konur og aðrar eignir…
Baráttan fyrir auknum réttindum svartra nær mun lengra aftur en til Rosu Parks. Baráttan fyrir afnámi þrælahalds og kvennabaráttan voru samofnar á 18. öldinni. Susan B. Anthony og Elisabeth Cady Stanton, af mörgum taldar upphafskonur kvennabaráttunnar, voru báðar hvítar og beittu sér ötullega fyrir auknum réttindum kvenna og svartra. Þær töldu réttindabaráttu hópanna óaðskiljanlegar enda bjuggu konur þess tíma við sambærilegt réttleysi og þrælarnir. Þær máttu ekki taka þátt í opinberu lífi, mennta sig, eiga eignir, höfðu ekkert tilkall til barna sinna og voru í raun eign eiginmanna sinna.

Leitin að karlmennskunni
Til að undirstrika tengsl réttindabaráttu kúgaðra hópa er ágætt að skoða hvað gerðist eftir að þrælahald var afnumið í Bandaríkjunum. Nýfrjálsir karlmenn þurftu að finna karlmennsku sína á ný og komust að þeirri niðurstöðu að þrælahaldið hafði ekki einungis svipt þá réttinum yfir eigin líkama heldur einnig eignaréttinum yfir eiginkonunum. Með öðrum orðum þá vildu þeir á tímum frelsis fá sömu stöðu og hinn hvíti karlmaður. Krafan varð að karlar ættu að taka að sér leiðtogahlutverkið og konur áttu að halda sig til hlés. Þetta viðhorf endurspeglast í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni þar sem konur fengu hvorki þá viðurkenningu né stöðu sem þær verðskulduðu.

Einfalt reikningsdæmi
Fjölmiðlar þess tíma áttu það til að segja mest lítið frá baráttu kvennanna. Kvenmannsverk þóttu einfaldlega ekki nægjanlega fréttnæm þó augljóst væri að á baráttufundum var meirihluti fundargesta yfirleitt konur og þær sáu um alla vinnuna í kringum fundina. Það hefur komið í hlut sagnfræðinga að uppgötva framlag kvennanna, áratugum eftir að atburðirnir áttu sér stað, og þá kemur í ljós fjöldinn allan af stórmerkilegum, hugrökkum konum. Einn blaðamaðurinn sem fjallaði um atburði þess tíma lét hafa eftir sér að það hefðu einfaldlega ekki verið neinar konur í baráttunni. Konur eins og Pauli Murray, Rosa Parks, Daisy Bates, Diane Nash, Ella Baker, Lillian Smith og ótal fleiri voru ósýnilegar í bókstaflegri merkingu, rétt eins og meirihluti íslenskra kvenna er í dag. Þögnin sem umlykur framlag svartra kvenna endurspeglar misrétti þess tíma. Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvort hægt sé að nota hlutfall kvenna í fréttum sem mælikvarða á frelsi, enda fjölmiðlar spegill samfélagsins. Íslenskar konur eiga 21% rödd í fréttafjölmiðlum en eiga tilkall til helmings. Samkvæmt því eru íslenskar konur 42% frjálsar.

föstudagur, júní 27, 2008

ÚtiveranÉg held hreinlega að sumarið sé ekki hentugur tími til að blogga... allavega ekki fyrir mig á meðan veðrið er svona gott. Ég tók upp á því að gerast útivera í sumar og má mest lítið vera að því að sitja fyrir framan tölvuna. Hef því ákveðið að blogga lítið sem ekkert í sumar heldur njóta þess að vera úti í góða veðrinu!

Sumarið búið að vera gott so far (eins og sést á bloggleysi). Fræðslan fyrir unglingavinnuna byrjuð og hóparnir hver öðrum skemmtilegri. Síðan er það garðurinn... ef einhver vill er hægt að skemmta sér við að spá í hvort komin verði mynd á garðinn í sumarlok eður ei... spennó spennó! ;) Annars er ég byrjuð að spá í hvort það sé ekki nauðsynlegt að dansa regndansinn af og til nú þegar komnar eru nokkrar plöntur í garðinn. Rigningin er allt í einu mun eftirsóknarverðari en áður.

Að lokum - það er spurning hvort mun teljast meira afrek þegar upp er staðið - að koma garðinum í horf eða að hafa loksins tekist að leysa töfrateninginn!! :)

Hafið það gott í sumar. :)

fimmtudagur, júní 19, 2008

93 ár frá kosningaréttinum

Til hamingju með daginn. Í dag eru liðin 93 ár síðan konur fengu kosningarétt, þ.e. konur 40 ára og eldri! Þetta er því merkisdagur og risastór áfangi í jafnréttisbaráttunni. En það var ekki allt fengið með kosningaréttinum. Það var ekki fyrr en árið 1961 að sett voru lög um launajafnrétti og jafnréttislög komu mun síðar. Í nýjustu Jafnréttislögunum, þeim sem samþykkt voru í vetur, er í fyrsta sinn minnst á kynferðisofbeldi. Já, ekki seinna vænna.

Sýnum stuðning við jafnrétti með því að bera eitthvað bleikt í dag - málum bæinn bleikan.

mánudagur, júní 16, 2008

sunnudagur, júní 15, 2008

Vogaðu þér að vita

Dare to know var mottó Upplýsingarinnar sem hófst um miðja átjánda öld, eða þar um bil. Mér finnst þetta flott mottó. Ætla að taka það upp varðandi femínismann og jafnréttismál almennt. Vogaðu þér að vita. Það er málið!

föstudagur, júní 13, 2008

Það er von

Þá er Héraðsdómur búinn að skila nýjum dómi í Hótel Sögu nauðgunarmálinu. Í þetta sinn var sakfellt í málinu - réttlætinu sem sagt framfylgt. Það gerist því miður allt of sjaldan í nauðgunarmálum.

Fjórða valdið

Úr fjölmiðlum síðustu daga - oggulítið brot af efni í sama dúr:

Visir.is
Heather Locklear í annarlegu ástandi - Myndir
Pamela brjóstahaldaralaus í Montreal - Myndir
Playboystelpurnar styðja Lakers - Myndir
Lindsay Lohan og Samantha í faðmlögum - Myndir
Drengur mikið brenndur eftir spreningu í húsbíl - MYNDBAND

24 stundir
Fallegustu makar fótboltakappa - 24 stundir - Blað sem kemur þér við! (auglýsing á RUV)

Morgunblaðið
Glæst glyrðuheit í Eyjafirði


**
Jebbs. Ég get ekki lýst því hvað ég er glöð að búa í skynsömu upplýsingasamfélagi með hugsandi verum en ekki aftur í grárri fornöld þegar fólk hreinlega vissi ekkert í sinn haus og óð um í myrkrinu sökum lélegs upplýsingaflæðis... Augljóst að fjórða valdinu er vel treystandi til að flytja fréttir af því sem skiptir máli - enda veit ég fyrir víst að fjölmiðlar leggja ofuráherslu á að trúverðugleiki þeirra skipti öllu máli varðandi hversu vel þeim er treyst.

ps. ætla að hafa þetta hér fyrir neðan því mér finnst það ekki falla í sama flokk og hitt...

Myndbirting í Mogganum með grein um mansal - mynd af kvenmannslegg í netasokkabuxum. Best að hafa umfjöllunina soldið sexý... Sérlega spælandi vegna þess að umfjöllunin sjálf er mjög góð og stendur fyllilega fyrir sínu - algjör óþarfi að ætla að nota „sexið selur“ trixið - það dregur úr vægi fréttarinnar.

þriðjudagur, júní 10, 2008

Þrælahald

Jæja, spurning um að byrja aftur að blogga eftir sumarfrí... við gerðum heilmikið í garðinum en samt er fullt eftir! Hefði verið ljúft að vera lengur en skyldan kallar. Sem betur fer fyrir mig ákvað Skjár 1 að fara í massaherferð til að stuðla að aukningu vændis og mansals í heiminum, ekki veitir af. Áhrifin sú að ég er hætt að geta horft á stöðina og get í staðinn dútlað í garðinum :) Ef ég væri yfirmáta sjálfselsk myndi ég örugglega segja meira svona... hver hefur ekki gott af massívum heilaþvotti til að tryggja viðgang mannréttindabrota?

Nú eru umræður um mansal í kringum EM að komast á skrið. Sá afar furðulega heimasíðu sem ætlað er að berjast gegn mansali. Þar eru kúnnarnir hvattir til að hafa augun opin gagnvart grunsamlegum aðstæðum, svona ef allt lítur ekki út eins og það á að gera... en að öðru leyti látið eins og vændi sé bara í fínu lagi svo framarlega sem ofbeldi er ekki beitt... Algjörlega litið fram hjá því að vændi er í sjálfu sér ofbeldi, samþykkt af sumum en þegar upp er staðið ekkert annað en borguð naugðun. Það sem er enn furðulegra er að körlunum er sagt að hafa ekki samband við yfirvöld heldur frekar hringja í þau samtök sem standa að síðunni ef þá grunar að um mansal sé að ræða. MTV virðist vera með skástu sketsana gegn mansali og öðru þrælahaldi. Mæli sérstaklega með þessum tveim:og þessu:

föstudagur, maí 23, 2008

Sumarfrí

Komin í sumarfrí. Aðrir hlutir í forgang núna en að blogga. Því miður sé ég mér ekki annað fært en að loka fyrir athugasemdir á meðan, enda fáir sem nenna að lesa þennan óskapnað sem sumir kjósa að láta hingað inn í þeim tilgangi að þagga alla málefnalega umræðu.

Hafið það gott.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Tjáningarfrelsi

Það skal ekki bregðast að í hvert skipti sem málefni eins og t.d. GTA og fleira í þeim dúr ber á góma þá hrúgast inn fólk í athugasemdarkerfið, hér um bil tryllt af bræði - með persónulegt skítkast. Til upplýsinga fyrir þessa einstaklinga þá missir þetta algjörlega marks - ég tek ekki mark á einhverjum nafnlausum einstaklingum út í bæ sem kunna ekki að ræða málin og vita ekki um hvað tjáningarfrelsi snýst. Fólk sem virðir tjáningarfrelsi ræðst ekki að öðrum með kommentum eins og „ef ég mætti drepa einhvern myndi ég drepa þig“ eða upphrópunum um heimsku og annað þess háttar. Tjáningarfrelsi byggir á því að mega ræða skoðanir sínar - þar með talið ofbeldisfulla tölvuleiki eins og GTA. Ef fólk er ósammála því að leikinn megi ræða - þá um að gera að beita sér fyrir takmörkunum á tjáningarfrelsi - eða velja þá leið sem margir hafa valið hér - að sleppa því að ræða málin en fara þess í stað út í persónulegt og ómálefnalegt skítkast. Þetta er kallað þöggun - tilraun til þess að fá fólk til að hætta að tjá sig og er mjög svo andstætt ríkjandi hugmyndum um skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Endurtekinn málflutningur í þessa veru flokkast líka sem andlegt ofbeldi - svona talandi um þetta GTA spilandi einstaklinga sem myndi aldrei detta í hug að gera nokkuð á annarra hlut...

Þau ykkar sem eruð að tapa ykkur í kommentakerfinu hér ættuð að vita það að svona ómálefnalegheit og skítkast eru í raun aðför að tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi einstaklinga. Þau sem hafa þessi gildi í alvörunni í heiðri ræða skoðanir - og eru fær um að ræða málin á þeim nótum. Málflutningur eins og sá sem sést hér í kommentakerfinu er heldur ekki til þess fallinn að styrkja þau rök að tölvuleikir séu skaðlausir, nema síður sé.

Ódýr líkamsrækt í boði

Ódýr líkamsrækt í boði. Byggir á nýju en geysiárangursríku æði þar sem þátttakendur byggja upp þol og styrk með venjubundinni vinnu eins og garðvinnu og almennum heimilisstörfum. Bætir svefn og heilsu. Greiðsla skv samkomulagi. Blóm, runnar og pallaefni fyrirtaks greiðslumátar.

mánudagur, maí 19, 2008

Fæ ekki líftryggingu

Búin að hafa það mjög gott undanfarna viku, takk fyrir. Fórum út úr bænum í helgina og nutum þess að slaka á og lesa um Foucault. Í morgun beið mín það „ánægjulega“ verkefni að tékka á ástæðu þess að okkur var hafnað um líftryggingu af okkar ástkæra tryggingarfyrirtæki - fyrirtækinu sem við erum búin að vera einstaklega trú og trygg - svo trygg að við pössum okkur sérstaklega á að lenda ekki í miklum tjónum. Í allri okkar tjónasögu er ein brotin framrúða og eitt minniháttar vatnstjón. Hins vegar teljumst við ekki nægjanlega góð til að fá líftryggingu. Ástæðan??? Jú, á umsóknareyðublaðinu er eftirfarandi spurning:

Eru foreldrar eða systkini með, eða hafa þau greinst með eftirtalda sjúkdóma fyrir 60 ára aldur: Hjarta- eða æðasjúkdóma, heilablóðfall, háan blóðþrýsting, sykursýki, nýrnasjúkdóma, krabbamein, MS, MND, parkinsonsjúkdóm eða alzheimersjúkdóm? (já, nei)
Ef já, skýrðu nánar
Nú teljum við það ekki vera í okkar verkahring að gefa upp sjúkrasögu annarra. Það er fráleitt að hafa ströng lög um persónuvernd og meðferð heilsufarslegra upplýsinga en leyfa síðan tryggingafélögum að krefja fólk um sjúkrasögu náinna ættingja. Við neituðum því að svara þessari spurningu og fengum synjun af þeirri ástæðu eingöngu. Ég á eftir að skoða þetta nánar en mér skilst að um síðustu áramót hafi lögunum verið breytt á þann hátt að þessir 3. aðilar þurfi nú að gefa samþykki fyrir upplýsingagjöfinni. Þau sem vilja fá líftryggingu, en vilja annaðhvort af prinsippástæðum ekki gefa upp sjúkrasögu 3. aðila eða ef 3. aðili neitar um samþykki, eru sem sagt úti í kuldanum varðandi líftryggingu.

Rök tryggingafélaganna sýnast mér vera tvenn:
  1. Þau fá ekki endurtryggingu ef þessar upplýsingar eru ekki veittar.
  2. Þau segja að fjölskyldusaga skipti máli varðandi áhættuþættina og þess vegna þurfi þau þessar upplýsingar. Ef fólk svarar spurninginni játandi getur það leitt til synjunnar eða aukaálags á iðgjaldið.
Mér er jafnframt tilkynnt að viðskiptasaga mín við tryggingafélagið skipti engu máli - umsækjendur eru metnir út frá sömu forsendum. Jafnréttið á að gilda. Gott og vel. Raunverulegt jafnrétti fælist í því að líftrygging sé öllum aðgengileg gegn sama iðgjaldi. Ef við eigum öll að sitja við sama borð þá skiptir heilsufarssaga, bæði þess sem tryggir sig og fjölskyldunnar, ekki minnsta máli. Það er jafnrétti í reynd. Beiðnin um upplýsingarnar byggir á því að hægt sé að mismuna fólki. Þar með sitja ekki allir við sama borð. Það er ranglæti.

Ef einhver skyldi ekki hafa tekið eftir því þá er ég alvarlega fúl út í tryggingabransann núna. Að neita fólki um tryggingu á grundvelli þess að vilja ekki gefa upp annarra manna sjúkrasögu finnst mér hreinlega skítlegt - og mér er slétt sama þó til sé lagaheimild sem heimili þetta. Mér finnst þetta einfaldlega rangt.

föstudagur, maí 09, 2008

Nýir tölvuleikir á markað

Ku Klux Klan hefur sent frá sér nýjan tölvuleik. Í tölvuleiknum geta hvítir menn skemmt sér við að drepa svarta karlkyns þræla og nauðgað svörtum kvenkyns þrælum. Sömuleiðis hafa nýnasistar sent frá sér leik þar sem hægt er að smala gyðingum saman í útrýmingabúðir og pynda þá alls kyns vegu. Báðir leikirnir ku vera hin besta skemmtun og alls ekki til marks um fordóma, hatur og fyrirlitningu gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum - ekkert frekar en leikurinn Grand Theft Auto þar sem karlmenn geta skemmt sér við að murka lífið úr konum sér til skemmtunar.

Ku Klux Klan, nýnasistar og karlmenn segja jafnframt í sameiginlegri yfirlýsingu að við lifum á tímum þar sem fordómum og misrétti hefur verið útrýmt og mannréttindi og mannvirðing séu allsráðandi í þessum boring politically correct heimi.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Fortíðin er hér

Iss piss... Ég er viss um að Sigrúnu Stefáns munar ekkert um þennan 90 þúsund kall á mánuði sem Þórhallur Gunnars er með meira í laun en hún fyrir sama starf... Þetta er ekki nema 1.080.000 + einhver lífeyrissjóðsréttindi á ári... Þórhallur er nú fyrirvinna, for crying out loud...

Næsti forseti...?

Alveg afskaplega er ég ánægð með að Clinton skuli ætla að halda áfram í framboði. Að sama skapi fer það hrikalega í taugarnar á mér að henni skuli sífellt sagt að hún eigi að hætta keppni og að hún skuli ekki fá jafn mikið fé og Obama. Það þýðir að þau geta ekki keppt á jafningagrundvelli. Honum er sagt að halda áfram. Henni er sagt að hætta. Það er ausað í hann peningum. Hún fær mun minna - miklu minna.

Það er margt gagnrýnivert við „lýðræðið“ sem við búum við, eða réttara sagt, sem Bandaríkjamenn búa við. Það er ekkert lýðræðislegt við það að eingöngu forríkir einstaklingar, með rétt tengsl og af réttum ættum (og af réttu kyni, kynþætti, kynhneigð...) eigi möguleika á að verða forsetar Bandaríkjanna. Það er svo sannarlega ekki „land of the free“ í því samhengi. Sést vel á því að Bush jr náði kjöri. Eins hefði Hillary örugglega aldrei átt séns nema vegna þess að kallinn hennar var áður forseti. Engu að síður... gott að vita til þess að kona fái nú loksins að vera memm í framboðsslagnum...

ps. „skemmtilegasta“ samsæriskenningin er samt sú að nú fái konan og svarti karlmaðurinn að heyja baráttuna sín á milli svo það líti út fyrir að fólk af öðru kyni og öðrum kynþætti en hvítur karlmaður eigi sjens - en að svo muni nást sátt að lokum um að Al Gore bjóði fram! ;)

miðvikudagur, maí 07, 2008

Hjólað í vinnuna

Í dag hefst átakið „Hjólað í vinnuna“. Þetta er ágætis átak og umhverfisvænt - hvetur allavega slatta af fólki til að hjóla. Veit samt ekki alveg hversu hrifin ég er af þessu keppniskonsepti - á það til að stuðla að of miklum hópþrýstingi - en ég læt það liggja á milli hluta. Bottom line - þá er ég hrifin af átakinu. Vonandi leiðir það líka til vitundarvakningar um að bæta hjólaleiðir. Það er til dæmis alls ekki auðvelt að hjóla úr Grafarholtinu og niður í bæ. Það þarf annaðhvort að taka stóran krók yfir í Árbæinn eða Grafarholtið til að komast greiða leið.

Grétar ætlar að hjóla! Mega mega duglegur. Kannski ég hjóli með honum af og til sem leið liggur niður í Háskóla. Erfitt fyrir mig að hjóla í vinnuna þegar ég er heima að læra...!

Þótt ég sé hrifin af átakinu þá er eitt sem stingur sérstaklega í augun. Aðalstyrktaraðili átaksins er Rio Tinto Alcan. Mér finnst það jaðra við dónaskap að vera aðalstyrktaraðili svona átaks. Umhverfismál eru mjög umdeild og ég held það sé með sanni hægt að segja að þjóðin skiptist nokkurn veginn í tvennt. Álfyrirtækin eiga ekki upp á pallborðið hjá mörgum umhverfisverndarsinnum og fleirum. Ástæðan ekki endilega að fólk vilji losna akkúrat við Alcan heldur sú græðgi sem álfyrirtækin sýna gagnvart landinu - vilja stækka, stækka, stækka - og byggja ný. Þangað til það er komin þjóðarsátt um að stoppa núna - ekki fleiri álver - þá ætti Alcan, að sjá sóma sinn í því að gefa fólki smá speis. Ekki troða sér inn alls staðar þar sem umhverfisverndarsinnar eru. Álfyrirtækin verða ekki umhverfisvænni þrátt fyrir að vera styrktaraðilar átaks eins og Hjólum í vinnuna. Þetta flokkast bara sem PR, tilraun til að kaupa sér velvild á sviði sem fyrirtækið er harkalega gagnrýnt fyrir. Ef Alcan vill í raun og veru vinna sér inn punkta fyrir umhverfisvernd væri nær að lýsa því yfir að það væri hætt við öll stækkunaráform. Láta bara gott heita.

Aðstandendur átaksins ættu líka að hafna styrktaraðilum eins og Rio Tinto Alcan. Þau ættu að vita sem er að þetta getur sett slæma ímynd á átakið og fælt fólk frá þátttöku - nú eða normaliserað áganginn á íslenska náttúru svo fólk verði sofandi fyrir því hvernig verið er að breyta Íslandi úr hreinu og fallegu landi í Detroit í einni svipan. Óafturkræfar skemmdir á landinu - mengun sem ekki fer í burtu þegar fólk rankar allt í einu við sér og vill fá landið sitt tilbaka.

Eftir sem áður er ég á því að það sé sniðugt að hjóla í vinnuna og hvíla einkabílinn. Kannski væri ráð að efna til hliðarátaks þar sem fólk hjólar - bara ekki í boði Rio Tinto Alcan??? Sá valmöguleiki er í öllu falli í boði eftir að keppninni lýkur!

þriðjudagur, maí 06, 2008

Til hamingju með megrunarlausa daginn!

Unglingsstúlkur þekkja mörkin - perrarnir ekki

Eruð þið búin að lesa þessa frétt inn á visir.is?

Þar segir lögmaður prestsins Gunnars meðal annars:

"Mín skoðun er að unglingstúlkur eigi afskaplega erfitt með að gera sér grein fyrir hvar mörkin liggja í þessum efnum.

Hann bendir á umræðu um þessi mál undanfarin ár og segir að meðal femínista hafi verið haldið úti háværum umræðum samfara miklum áróðri sem einkennst hefur að miklu leyti að því að karlmenn kunni að vera úlfar í sauðgæru sýni þeir á einhvern hátt umhyggju eða áhuga á viðkomandi.

Umfjöllun fjölmiðla jafnt sem það viðhorf sem kvikmyndir túlka varpa afar mismunandi sýn á þessa hluti og út frá mismunandi viðmiði. Því sé afskaplega auðvelt fyrir áhrifagjarna og óharðnaða unglinga að mistúlka hlýju og umhyggju frá öðrum en þeim sem eru bundnir þeim fjölskylduböndum, " segir Sigurður Þ. Jónsson lögmaður séra Gunnars Björnssonar.

**
Það er sem sagt unglingsstúlkum og femínistum að kenna að presturinn situr í súpunni!

Ég er alltaf að komast að því betur og betur hversu sumir álíta sig eiga mikinn eignarétt yfir líkömum kvenna. Kannski áttar lögmaðurinn sig ekki á því að hann hljómar eins og reynslubolti í því að sýna unglingsstúlkum „hlýju og umhyggju“ sem þær kunna bara hreint ekki að meta - nema síður sé? Fjölmiðlar ættu að krefja hann skýringa á því af hverju hann telur það vera á valdsviði fullorðinna karlmanna að skilgreina hvað þeir mega ganga langt gagnvart líkömum unglingsstúlkna.

Svona viðhorf heyra því miður ekki til fortíðarinnar en þau sýna okkur hvað við eigum í raun mikið eftir í baráttunni. Vonandi hefur presturinn nægilega trú til að láta þennan lögfræðing róa og játa syndir sínar, lögfræðingurinn nógu mikinn sans til að draga ummæli sín til baka og kirkjan nógu mikið siðferðisþrek til að segja þessum karlpungum að þeir eigi að gjöra svo vel að virða sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama.

Með blátt blóð í æðum

Í Evrópu eru ennþá 10 konungsríki. Það vekur athygli að 3 þeirra tilheyra Norðurlöndunum. Konungsdæmi er ein mesta andstæða lýðræðis sem til er. Fólk annaðhvort fæðist eða giftist inn í hlutverkin drottning, kóngur, prinsessa og prins. Af hverju ætli haldið sé í þessa gömlu, kostnaðarsömu, ólýðræðislegu hefð?

Þetta eru löndin 10 sem enn eru með kóngafólk:

Belgía
Danmörk
Bretland
Holland
Liechtenstein
Luxemborg
Mónakó
Noregur
Spánn
Svíþjóð

mánudagur, maí 05, 2008

Helv...

Fara þeir ekki til helvítis kristnu mennirnir sem ekki játa syndir sínar?

Heilsa óháð holdarfari

Megrunarlausi dagurinn er á morgun, 6. maí. Auðvitað ættu allir dagar að vera megrunarlausir, enda löngu búið að sýna fram á að megrun virkar ekki en getur hins vegar valdið ýmsum skaða. Allt of margir eru ennþá keyptir inn á þann pakka að megrun sé heilsubót. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta því megrun gengur í raun út á að svipta líkamann nauðsynlegri næringu. Í megrun líður líkaminn skort (og sálin jafnvel líka) og það er engum hollt.

Þó maðurinn segist vera skynsemisvera þá er margt í þessum heimi langt í frá skynsamlegt. Eitt af því sem er ekki sérstaklega skynsamlegt er að halda að hægt sé að meta heilsu fólks út frá holdarfari. Í okkar samtíma er ímyndin sú að grannt fólk sé heilsuhraust en feitt fólk sé heilsulaust, nánast á grafarbrúninni ef marka má sumar fréttir. Grönnu fólki eru líka eignaðir ýmsir „jákvæðir“ eiginleikar eins og sjálfsstjórn á meðan feitu fólki er ætlað að það hafi bara engan stjórn á átinu.

Reyndin er sú að við erum margbreytileg í vaxtarlagi frá náttúrunnar hendi. Sumir eru stórir, aðir litlir og margir einhvers staðar þar á milli. Það á við hvort sem mælt er á lengdina eða breiddina. Því fyrr sem við áttum okkur á því og hættum að reyna að steypa öllum í sama mót, því betra.

Fitufordómar eru ornðir svo grasserandi í dag að hver arða af fitu er álitin óæskileg. Þannig er fólk byrjað í megrun þegar það er í raun skítlétt - á neðri mörkum „kjörþyngdar“ (hver bjó þennan mælikvarða til...!) eða jafnvel undir kjörþyngd. Lítil stúlkubörn, allt niður í 6, 7 ára gömul, eru byrjuð að tala um megrun. Þetta er ekki eðlilegt ástand og því þarf að bregðast við.

Stjórnvöld og opinberar stofnanir þurfa líka að bregðast við og hætta að tala um offitu og ofþyngd. Of er of gildishlaðið!!

Hver einasti dagur ætti að vera megrunarlaus. Við ættum hvorki að sukka og svína né líða skort. Hinn gullni meðalvegur er bestur í þessu eins og svo mörgu öðru. Markmiðið er heilsa óháð holdarfari.

Set hér að lokum pælingar af gamla blogginu mínu:


Hér eru tvær „pælingaspurningar“ í tilefni af bók sem ég er að klára að lesa um fitufordóma og kúgun sem feitar konur verða fyrir. Spurningarnar eru:

1. Er siðferðislega rangt að vilja vera mjó/r?

2. Er siðferðislega rangt að vilja vera feit/ur?

föstudagur, maí 02, 2008

„Það breytist ekkert“

kl. 11:30 stundvíslega (ok - næstum því) bárum við Grétar skilti fyrir 1. maí gönguna inn á Kaffi Roma á Rauðarárstíg. Eldri kona á næsta borði leit á okkur vorkunnaraugum og sagði „eruð þið að fara í gönguna?“. Við játtum því. „Það þýðir ekki neitt“ sagði hún þá. „Þið eruð bara að sóa tímanum. Það breytist ekkert hvort sem er“. Við gerðum einhverja tilraun til að malda í móinn og hófumst svo handa við að rífa niður efni í bleika fána. Eftir smá stund hallaði konan sér yfir til okkar og spurði „fáið þið eitthvað borgað fyrir þetta?“. Við svöruðum því neitandi, allt væri þetta nú sjálfboðastarf. Hún var ekki par hrifin af því. Sagði sitt mottó að gera ekki neitt nema fá greiðslu fyrir. Annars væri fólk bara misnotað - og baráttan skilaði hvort eð er engu. Við bentum henni á að baráttan hefði nú skilað konum kosningaréttinum. Hún fussaði og sveiaði yfir því. „Hverju skiptir kosningaréttur?“ Sams konar fólk væri hvort sem er alltaf kosið á þing - týpan sem lofar og lofar öllu fögru en svíkur svo allt. „Það breytist ekkert sama hvað er gert“ var viðkvæðið.

Í ljós kom að konan átti langa sögu af verkalýðsbaráttu að baki. Fór í allar kröfugöngur, vann sjálfboðastarf og þar fram eftir götum, þar til börnin komust á legg. Þá hætti hún. Þetta skipti hvort sem er engu máli. Það breytist ekkert.

**
Stuttu síðar fór konan og ráð Femínistafélagsins birtist smátt og smátt. Við héldum ótrauð áfram við að búa til bleika fána. 200 stk., nánar tiltekið, sem við dreifðum í göngunni. Við trúum því að baráttan borgi sig - en við þurfum nú kannski að setja meira fútt í hana - fleiri þurfa að taka þátt - og sýna þarf samstöðu. Hjúkkurnar núna gott dæmi! (Frábærar - eru algjörlega að slá í gegn).

**
Gangan lukkaðist vel. Góð mæting, gott veður, slagorð, kröfuskilti, bleikir fánar - og alls konar fánar. Við stilltum okkur upp á Ingólfstorgi og settum okkur í stellingar til að hlusta á barátturæður. Verkalýðshreyfingin bauð fram 2 karla á mælendaskrá. Konan fékk að vera fundarstjóri (nú eða -stýra!?). Félag framhaldsskólanema bjargaði heiðri verkalýðshreyfingarinnar og sendi kvenkyns fulltrúa á staðinn.

En verkalýðshreyfingin sá um „skemmtiatriðin“. Á krepputímum þykir víst nauðsynlegt að ráða bara karlmenn í slík verk... gegn greiðslu, geri ég ráð fyrir. Strákarnir í Sprengjuhöllinni voru bráðskemmtilegir, eins og þeirra er von og vísa. Fullkomlega sátt við þá. Hins vegar sá verkalýðshreyfingin af einhverjum ástæðum til að hafa Gísla Einarsson fréttamann á dagskrá með „gamanmál“. Gísli þuldi upp hvern karlrembu„brandarann“ á fætur öðrum. Við konurnar (og jafnréttissinnuðu karlarnir!) sem stóðum á torginu máttum sitja undir „glensi“ um að hann krefðist þess að það væri ekki vaskað upp á hans heimili á meðan enski boltinn er í gangi - og að Ingólfur Arnarson hefði stofnað fyrsta súlustaðinn - og því væri viðeigandi að hafa fundinn á Ingólfstorgi. Þetta er bara brotabrot af karlrembunni. Verkalýðshreyfingin á að vera vandari að virðingu sinni. Þetta er henni til skammar. Og Gísla að sjálfsögðu líka. Það er ekki við hæfi að fá karlrembu til að flytja gamanmál á útifundi þar sem yfirskriftin er „Verjum kjörin“. Hverra kjör? Verkalýðshreyfingin á að baki sögu þar sem hagsmunamálum kvenna hefur verið hent þegar harðnar í ári. Má sem dæmi nefna árið 1926 þegar Dagsbrún fórnaði verkakonum. Laun þeirra voru lækkuð (já lækkuð - ekki hækkuð) um 11% til að halda mætti launum verkakarla óbreyttum.

Hvað er að gerast núna? Í fyrra fékk Verkalýðshreyfingin Baggalút á útifundinn til að syngja um „femínistabeljur sem eflaust súpa hveljur“. Í ár var það Gísli Einarsson að tala um súlustaði og uppvaskið.

Öllu gríni fylgir einhver alvara. Verkalýðshreyfingin þarf að taka sig margfalt á til að vinna gegn kynbundnum launamun og karlrembu. Þetta er ekki mál sem tekið hefur verið á af þeim myndugleika sem þarf. Ofan á það sendir forystan svona karlrembuskilaboð til félagsmanna á sjálfum baráttudegi verkalýðsins.

Er nema von að kona spyrji hvort hin karllæga verkalýðshreyfing sé hæf til að gæta að hagsmunum beggja kynja. Hver er baráttan? Svarið felst kannski í Internationalnum sem sunginn var í restina:

„Bræður! Fylkjum liði í dag“

Skiptir ekki máli

Ef þú átt 9 milljarða skiptir ekki máli þótt þú tapir 8 milljörðum. Hvað þá ef þú átt fleiri...

miðvikudagur, apríl 30, 2008

1. maí ganga

Fulltrúar úr ráði Femínistafélags Íslands verða á Hlemmi kl. 13 á morgun með veifur og borða til að vera með í göngunni. Gangan leggur af stað kl. 13:30 frá Hlemmi og gengur niður á Ingólfstorg þar sem dagskrá hefst kl. 14:10 og lýkur kl. 15:00. Ýmis verkalýðsfélög bjóða upp á kaffi eða mat, við hvetjum femínista til að taka þátt í göngunni, annað hvort með FÍ eða sínu verkalýðsfélagi. Mætum öll í bleiku!

kv,
Ráðið
***

Ávarp Femínistafélags Íslands, 1. maí 2008

Femínistafélag Íslands fagnaði fimm ára afmæli sínu fyrr á árinu. Frá upphafi hefur félagið látið til sín taka á 1. maí, baráttudegi verkalýðsins. Ekki er vanþörf á, því í gegnum tíðina hafa kvennastéttir verið verr launaðar og minna metnar en karlastéttir. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því hæsta sem þekkist. Samt sem áður er mikill munur á atvinnutekjum karla og kvenna. Baráttan fyrir jöfnum launum hefur staðið yfir í meira en 100 ár á Íslandi. Lög um launajafnrétti voru samþykkt hér á landi árið 1961, atvinnurekendur fengu þá sex ára aðlögunartíma en enn sér varla högg á vatni. Nú á árinu gengu loksins í gegn lög sem veita konum aðgang að einu mikilvægasta tækinu í þessari baráttu, en það eru upplýsingar um laun annarra, en með nýjum jafnréttislögum hefur launafólk loks rétt til að tjá sig um kaup og kjör.

Ein stærsta kvennastéttin - kennarar - samdi í vikunni og vonandi verður staðið við þær forsendur samninganna að þessi hópur fái hlutfallslega hærri launahækkun en aðrir. Í núverandi efnahagsástandi er einnig ástæða til þess að fagna því að einungis er samið til eins árs. Aðrar kvennastéttir standa þó í baráttu og nauðsynlegt er að huga að því í kjarasamningum á árinu að vinna gegn launamun kynjanna hjá öllum stéttum.

Nú eru blikur á lofti í efnahagsmálum. Verðbólgan rýkur upp, kaupmáttur rýrnar og talað er um kreppu. Ljóst er að erfiðir tímar eru framundan í íslensku efnahagslífi og mörg heimili munu finna fyrir áhrifunum. Kynin hafa ekki setið við sama borð í gegnum efnhagslægðir og -hæðir í gegnum tíðina. Við upphaf efnahagslægðar er því ekki úr vegi að rifja upp söguna. Með því móti getum við lært af henni og verið vakandi til að láta sömu mistökin ekki henda aftur og aftur.

Gætum þess að nú verði ekki gripið til þess að fórna störfum kvenna og lífsgæðum þeirra fyrir „meiri“ hagsmuni. Tilraunir yfirvalda til að greiða konum smánarlegar upphæðir til að vera heima með börn eru leið til að koma konum út af vinnumarkaðnum, í lengri eða skemmri tíma. Tryggja skal atvinnuöryggi karla á kostnað kvenna - eins og endurspeglast í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Á meðan leggur félagsmálaráðherra 116 milljónir í atvinnusköpun kvenna.

Konur krefjast jafnréttis og jafnrar stöðu - yfirvöld verða að veita þeim sama stuðning og atvinnuöryggi og körlum. Konur, stöndum saman í kjarabaráttunni á árinu og alltaf.

1. maí

Konum er oft sagt að launamunur kynjanna sé þeim sjálfum að kenna af þeirri ástæðu að þær sætta sig við lægri laun. Þær eigi einfaldlega að hætta ef þær eru ekki sáttar við kjörin. Sumir ganga svo langt að hvetja konur til að skipta hreinlega um náms- og starfsval. Jamm... þætti gaman að sjá þjóðfélag þar sem engir eru kennararnir, hjúkkurnar, leikskólakennarar, ófaglærðir leiðbeinendur, ræstingafólk, starfsfólk á dvalarheimilum, í fiskvinnslu, sjúkraliðar... og svo mætti lengi áfram telja.

Þjóðfélagið þarf á þessum stéttum að halda og á auðvitað að sjá sóma sinn í því að borga fyrir þau kvensæmandi laun!

Hins vegar má líka færa rök fyrir því að eins og samfélagið er uppbyggt þá ræður sanngirni og réttlæti ekki för. Það sem blívur er oft á tíðum harkan. Eina leiðin til að fá kvensæmandi laun er hugsanlega að láta hart mæta hörðu, fara í verkfall, hætta! Þegar skorturinn er orðinn aðkallandi þá hækka launin. Þannig er það frumskógarlögmálið sem ræður hver fær sæmandi laun og hver ekki... Það er ekki sanngirni, samvinna og réttlát umbun fyrir störf sem eru þjóðarbúinu nauðsynleg sem hefur úrslitaáhrifin. Hjúkrunarkonur og geislafræðingar láta reyna á þessa leið núna. Ég vona að þeim gangi vel og láti ekki undan fyrr en þær fá sínu framgengt. Vona líka að viðsemjendur fari ofan í kjölin á samfélagsgerðinni og íhugi alvarlega hvort þetta eigi alltaf að vera stemningin - að fólk neyðist til að vera í svona baráttu í staðinn fyrir að fá hreinlega sanngjörn laun.

1. maí á morgun. Tækifæri til að fara í kröfugöngu og krefjast sanngjarna launa. Þegar baráttan er veik er hætt við að launin verði lág! Koma svo!

ps. Endilega kíkið á pistilinn hennar Steinunnar Stefáns í Fréttablaðinu í dag. Frábær pistill.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Að bæta gráu ofan á svart

Ég er ein af þeim sem er ekki hrifin af aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum þessa dagana. Tek undir með þeim sem hafa sagt að afnema þurfi stimpilgjöld hið fyrsta. Það er reyndar ekki rétt að tala um aðgerðarleysi... það flokkast alveg undir aðgerð að gefa út yfirlýsingu þess efnis að stimpilgjöld fyrir kaup á fyrstu íbúð verði afnumin í júlí og öll stimpilgjöld á kjörtímabilinu - eins og segir í stjórnarsáttmálanum ef mig minnir rétt. Með þessari „aðgerð“ er í raun verið að frysta fasteignamarkaðinn. Fólki munar um stimpilgjöldin. Þarna er verið að bæta gráu ofan á svart. Fasteignaverð mun fara lækkandi en með þessu þá er hætt við að hann bókstaflega hrynji.

Nú er líka að koma betur og betur í ljós hversu gallað okkar blessaða kerfi er. Nú situr í Davíð í Seðlabankanum að díla við afleiðingar af ákvörðunum sem hann tók og studdi sem forsætisráðherra. Burtséð frá því hversu hæfur eða óhæfur Davíð er, þá á þetta hreinlega ekki að líðast.

ps. óska svo kennurum til hamingju með nýgerða kjarasamninga :) Loksins.

Konur eru Japanir

Hlustaði á viðtalið við Kristínu Péturs og Höllu Tómas í Morgunvaktinni í morgun. Ég hef ofurtrú á þeim stöllum og held þær eigi eftir að breyta fjármálageiranum til hins betra. Það kom fram í viðtalinu að konur hugsa oft lengra fram í tímann en karlar, sem láta þá væntanlega skammtímasjónarmið frekar ráða för í ákvarðanatöku. Þegar ég var í viðskiptafræðinámi var andstæðuparið ekki karlar vs konur heldur Kanar vs Japanir. Þá var það Kaninn sem var í skammtímahugsuninni en Japanir í langtímahugsun.

Samkvæmt þessu ætti eðlishyggjufólk að komast að þeirri niðurstöðu að konur séu Japanir ;)

Okkar á milli frh

í gær var kona viðmælandi í þættinum Okkar á milli á Rás 1. Yes, kærkomið. Í dag var karlmaður.

Kynjahlutföllin eru því:

10 karlar - 83%
2 konur - 17%

mánudagur, apríl 28, 2008

2 góðar fréttir

Sú fyrri er að viðskiptavinir Íslandspósts hafa aftur öðlast frelsi til að afþakka fjölpóst. Fjölpóstur eru óumbeðnar, óumhverfisvænar auglýsingar sem geta kostað fyrirhöfn og draslsöfnun. Neytandinn lendir í að þurfa að greiða förgunarkostnað (eða sitja uppi með samviskubit yfir að endurvinna ekki) fyrir auglýsingar sem hann eða hún vildi ekki fá fyrir það fyrsta. Ég hringdi í þjónustuver Íslandspósts og komst að því að „þjónustan“, þ.e. að dreifa fjölpósti ekki á þau heimili sem segja „nei takk“ hefst 15. maí.

Hin góða fréttin er sú að Auður Capital hefur fengið starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki! Til hamingju Halla og Kristín! :)

föstudagur, apríl 25, 2008

studningskvedjur

Studningskvedjur til Láru Ómars!

Hvaða skammir?

Hvernig getur eftirfarandi flokkast undir skammir?

Af ruv.is:

Mótmæli: Ráðherra skammaður

Dómsmálaráðherra hafa borist skammarbréf eftir átök lögreglu á Suðurlandsvegi í gær. Þar er hann meðal annars hvattur til að svipta sig lífi. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra fjallar um átökin á bloggsíðu sinni.

Þar birtir hann m.a. þrjú bréf sem honum hafa borist vegna málsins.

Í því fyrsta segir meðal annars: "Ég vona af ollu minu hjarta að þú fáir banvænan og sársaukafullann sjúkdóm og lifir sem lengst í þjáningum, kannski gerir þér grein fyrir hversu mikil mannfýla þú ert undir þeim kringumstæðum, valdasjúkur ofbeldisseggur og geðsjúklingur". Undir skrifar Snorri.

Hilmar Bjarnason er ekki jafn harðorður en segir "sjáðu sóma þinn i því að reka þessa lögreglumenn sem gáfu skipun um þessar aðgerðir. EINIG SKALT ÞÚ SEGJA AF ÞÉR EMBÆTTI NÚ ÞEGAR!!!"

Þriðja bréfið er frá Arnóri Jónssyni,sem segir„Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands".

Ráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa Sjónvarps hafði við hann samband síðdegis.

Þetta er einfaldlega ljótt og ofbeldisfullt - þ.e. úr bréfi 1 og 3. Læt nr 2 liggja á milli hluta. Svona hótanir og mannhatur hafa lítið að gera með skammir.

Forskot með fjölbreytileika

Langar að hvetja fólk til að mæta á þetta málþing í dag:

(af heimasíðu RIKK - www.rikk.hi.is)

Forskot með fjölbreytileika - málþing um jafnrétti

Föstudaginn 25. apríl standa jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisnefnd Kennaraháskóla Íslands og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands fyrir málþingi um jafnrétti í breiðum grundvelli, með yfirskriftinni „Forskot með fjölbreytileika“.

Fjallað verður um jafnréttismál frá ýmsum sjónarhornum, og er markmiðið að skapa samræðu milli fræðafólks í báðum skólum, nemenda, stjórnsýslu, og annarra sem áhuga hafa á jafnréttismálum. Það er stefna Háskóla Íslands að vera ávallt í fararbroddi í jafnréttismálum og liður í því er að skapa og viðhalda umræðu um kynja- og jafnréttismál með margvíslegum hætti.

Á málþinginu verður fjallað um ýmsar þær spurningar sem máli skipta fyrir menntastofnanir sem vilja leggja áherslu á jafnréttismál í sínu starfi og skapa samfélag fjölbreytileikans innan sinna veggja. Þetta verður gert með umræðum í vinnustofum, erindum og pallborðsumræðum.

Kristín Ingólfsdóttir rektor mun setja málþingið og síðan flytja erindi þau Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræði og þróunarstjóri HÍ, Ólafur Páll Jónsson, lektor í heimspeki og formaður jafnréttisnefndar KHÍ, og Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Fundarstjóri verður Brynhildur Flóvenz, lektor í lögfræði og formaður jafnréttisnefndar HÍ.

Fjórar vinnustofur, þar sem jafnréttismál verða rædd frá ýmsum hliðum, verða í boði og er allt áhugafólk um jafnréttismál hvatt til að taka þar þátt. Málþinginu lýkur með pallborðsumræðum, en í pallborði verða fulltrúar úr röðum fræðafólks, stjórnsýslu HÍ, nemenda og Jafnréttisstofu.

Málþingið verður í Öskju og hefst það kl. 13 og lýkur með móttöku kl. 17.

Dagská málþingsins (50kb)

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Kynjavinklar á forsetaframboðinu

Þó ég hafi nú ekki náð að vaka langt fram á nótt til að sjá úrslitin í Pennsylvaníu vakti ég nógu lengi til að sjá fyrstu tölur. Lokaúrslitin voru nokkurn vegin þau sömu. Útgönguspár gáfu til kynna um 6 prósentustiga mun en tekið var fram að yfirleitt sýndu útgönguspár betri útkomu fyrir Obama heldur en lokaúrslit. Það gekk eftir í þetta sinn líka. Sem betur fer :) Ég vil að Hillary Clinton vinni.

Tvennt sem mér finnst mjög áberandi í þessari kosningabaráttu sem hefur kynjavinkil (þeir eru þó fleiri).

Hann á mun auðveldara með að afla fjár en hún. Þetta er algjörlega í takt við söguna - konur eiga ekki eins auðvelt aðgangi að fjármagni og karlar. Í þetta sinn ætti hún að hafa allt til alls. Hún er heimsþekkt, vel liðin, súpergáfuð, yfirmáta gott tengslanet... allur pakkinn. Hann kemur fram á sjónarsviðið nánast óskrifað blað - með sutta þingreynslu að baki. Samt mokar hann inn mun meira fé en hún. Get ekki varist þeirri hugsun að á bak við hans framboð standi hvítir karlar sem fóru í leit að karlkyns frambjóðanda sem ætti möguleika á að stöðva konuna hana Hillary... Sem er reyndar í takt við suman þann áróður sem hefur verið rekinn fyrir því að kjósa hann... sumir segja nefnilega að viðmiðið ætti að vera hvort hvítir karlar hati minna; svartann karl eða hvíta konu! Niðurstaðan úr þeim pælingum var að hvítu karlarnir myndu frekar sætta sig við karlmann „þótt hann væri svartur“ heldur en konu „þótt hún væri hvít“. Held að Jay Leno, sem er nú ekki í miklu uppáhaldi hjá mér sökum karlrembu, hafi nú samt sagt þetta best: „Það er löngu tímabært að hvítir karlar fái að ráða einhverju í þessu samfélagi!“

Hitt sem er áberandi er krafan um að Clinton hætti í framboði. Hún er að skemma fyrir flokknum, hún á ekkert að vera í þessari baráttu, Clinton farðu heim! Maðurinn hennar var samt ekki útnefndur fyrr en í júní og svo á örugglega við um marga fleiri karlkyns frambjóðendur sem fólk hefur ekki séð ástæðu til að hrekja úr baráttunni. Svo segir fólk að konur hafi minni áhuga á stjórnmálum en karlar... Konur mæta bara allt öðru viðmóti og viðbrögðum í stjórnmálum heldur en karlar. Þeim er líka beinlínis skipað að hætta... eins og sést glögglega á umræðunni í kringum Hillary.

Okkar á milli

Í morgun var aftur karlmaður viðmælandi í þættinum Okkar á milli. Kynjahlutfallið er því orðið 9 á móti 1, eða 90% kk og 10% kvk. Ég á þó von á að þetta breytist. Í gær sendi ég ábendingu á RUV og fékk svar tilbaka þar sem þakkað var fyrir ábendinguna og þessu mun verða kippt í liðinn. Þetta eru fagleg og góð viðbrögð - væri óskandi að sumir tækju þetta til fyrirmyndar. Nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn byrjar á Egill Helgason... ;)

þriðjudagur, apríl 22, 2008

11%

Hlutfall kvenna í fjölmiðlum er stundum rætt, þá aðallega vegna þess hversu skakkt kynjahlutfallið er. Rannsóknir leiða oft í ljós að hlutur kvenna er um (og undir) þriðjungi. Rannsóknir hér á landi frá 1999, 2000 og 2005 leiddu í ljós kynjahlutfall sem var í kringum 25% í fréttum og fréttatengdu efni.

Við vöknum oft við Morgunvaktina á morgnanna. Frábær þáttur, vel að merkja! Ég hef nú ekki lagst yfir kynjahlutfallið í þeim þætti en á eftir Morgunvaktinni er þáttur sem heitir Okkar á milli. Undanfarið höfum við hjónaleysin tekið eftir því að það virðast bara vera karlar í þættinum. Síðasta fimmtudag var kona, Halla Helgadóttir, viðmælandi og við rákum upp stór augu, þetta var eitthvað svo út fyrir mynstrið.

Af einskærri forvitni ákvað ég að tékka á hvernig kynjahlutfallið er í þættinum. Á ruv.is er að finna hljóðupptökur fyrir síðustu 2 vikurnar. Þættirnir eru á dagskrá frá mánudegi - fimmtudags og alls eru 9 þættir aðgengilegir á netinu. Kynjahlutfallið er 8 karlar og 1 kona. 89% karlar og 11% konur. Þetta er ekki boðlegt af Ríkisútvarpinu - útvarpi ALLRA landsmanna. RUV hefur ákveðnum skyldum að gegna. Þessi umræða, þ.e.a.s. kynjavinkillinn, er ekki ný af nálinni. RUV ætti að vera löngu búið að koma sér upp úr þessu hjólfari.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Meira frelsi

Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag:

Meira frelsi
„Síminn er víðsýnn, kröftugur og metnaðarfullur leiðtogi. Traustur og skemmtilegur félagi sem er alltaf til staðar“. Þessa skilgreiningu á persónuleika Símans er að finna á heimasíðu fyrirtækisins, nánar tiltekið í Áttavitanum. Áttavitinn er leiðarvísir Símans til framtíðar. Starfsemi og ímynd Símans eiga að vera í samræmi við þá stefnu, framtíðarsýn og gildi sem skilgreind eru í Áttavitanum. Hann er í raun sá grunnur sem starfsemi Símans byggir á og eins og allir vita er árangursrík stefna ekki innantóm orð á pappír. Þess vegna er ágætt að máta reglulega saman orð og athafnir.

Samfélagsleg ábyrgð

Á mánudaginn tilkynnti Síminn, ásamt samtökunum Heimili og skóli, að fyrirtækið hefði ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum ókeypis netvörn. Markmiðið er að mæta kröfum viðskiptavina Símans um aukið öryggi barna á netinu en með netvörninni geta foreldrar lokað á síður sem innihalda t.d. klám eða fjárhættuspil. Haft er eftir Önnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Einstaklingssviðs Símans í viðtali á visir.is að þannig ætli Síminn að leggja sitt af mörkum „til að verja börn og unglinga gegn sumu af því óæskilega efni sem er að finna á Netinu." Hún tiltekur að þetta sé hluti af samfélagslegri ábyrgð Símans. Samfélagsleg ábyrgð er einmitt skilgreind sem eitt af markmiðum Símans í Áttavitanum. Þessi aðgerð er því í samræmi við þau gildi sem Síminn hefur sett sér.

Ávanabindandi póker
Á heimasíðu Símans eru netleikir til sölu. Á forsíðunni eru fjórir tölvuleikir auglýstir og eru tveir þeirra um fjárhættuspil. Öðrum þeirra er lýst á ensku með orðunum „addictive and fun-filled Poker game.“ Við fyrstu sýn er ekki augljóst hvar leikirnir passa inn í Áttavitann en í miðju hans stendur „Síminn auðgar lífið“ og hugsanlega á það best við. Síðan er bara spurning hvort nýja netvörnin nái að verja unga fólkið fyrir netleikjunum sem eru til sölu hjá Símanum.

Markmiðið að koma aftan að fólki
Síminn er mest áberandi þessa dagana vegna nýrrar auglýsingar með Merzedes Club. Þar spranga um fáklæddar konur og massaðir karlmenn. Hlutverkin í takt við þau sem klámvæðingin úthlutar fólki. Í upphafi var lagið kynnt sem kynþokkafyllsta og dýrasta myndband sögunnar. Síðar kom í ljós að lagið er auglýsing Símans. Þessi aðferðarfræði hefur verið gagnrýnd fyrir að stangast hugsanlega á við siðareglur SÍA og lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins en þar segir í 8. grein „ Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.“ Auglýsingin hefur hlotið fjölmiðlaathygli og meðal annars birti visir.is viðtal við Jón Gnarr enn hann ku vera ábyrgur fyrir gerð auglýsingarinnar. Aðspurður um aðferðarfræðina segir Jón að auglýsingin sé á gráu svæði en þar finnist honum skemmtilegast að vera, heila málið sé að koma aftan að fólki. Í því samhengi er viðeigandi að rifja upp nýleg níðskrif Gillzeneggers, einnar aðalstjörnu auglýsingarinnar, um fjórar konur. Þar kallaði hann m.a. eina þingkonu portkonu og um aðra sagði hann að tími væri til kominn að fylla hana eins og hátíðarkalkún í þeim tilgangi að þagga niður í henni.

Áttavitinn er varla upp á punt
Nú má spyrja sig að því hvernig þetta passar við Áttavitann? Er þátttaka í klámvæðingunni og að koma aftan að fólki, svo orð Jóns Gnarr séu notuð, merki um grundvallargildin traust og heilindi? Þá má einnig máta auglýsingaherferðina við framtíðarsýn og persónuleika Símans en hann ætlar sér það hlutverk að leiða okkur inn í framtíðina. Spurningin sem viðskiptavinir Símans hljóta að velta fyrir sér er hvort að þetta sé sú leið sem víðsýnn, kröftugur og metnaðarfullur leiðtogi myndi velja til að koma okkur á samfélagslegan ábyrgan máta á leiðarenda?

Hóprunk hestamanna

Þetta birtist í 24stundum í dag, bls. 12.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Ææ

Verst að ég vissi ekki af hóprúnki hestamanna um daginn. Ég hefði getað mætt með tissjú!

mánudagur, apríl 14, 2008

Árið 1885

Árið 1885 birtist neðangreint í Fjallkonunni.
Verst er farið með vinnukonurnar, og er sú meðferð þrældómi líkust. Vinnukonum er ekki goldið nema að fjórða parti eða þriðjungi á við vinnumenn, og væri hægt að sanna með reikningi, hvé óréttlátt það er. Þó vinnukona sinni sömu vinnu og jafnmikið og karlmaðurinn er henni goldið meir en helmingi minna.
Hvergi hér á landi er jafn þrælslega farið með kvenfólk sem í Reykjavík. [...]
Þar eru kvenmenn hafðir í erfiðustu stritvinnu, er einungis er hraustustu karlmanna, og þó þær beri allan daginn sömu þyngd og karlmennirnir, eða beri börur á móti karlmönnum, og vinni því alveg jafnt og þeir, eru þeir, sem vinnuna borga, svo þrællyndir, að þeir gjalda kvenmanninum helmingi minna en karlmanninum.
Heimild: Íslandsdætur

Önnur gáfuð kona


Fréttablaðið í dag, bls. 18

sunnudagur, apríl 13, 2008

Afrek helgarinnar


Ég er snillingur í að drepa pottablóm. Grétar verður að vera ábyrgur fyrir þessari fjárfestingu...!

Frá gáfaðri konumiðvikudagur, apríl 09, 2008

We Are The Champions

Gamli skólinn minn vann meistaratitilinn í körfubolta í Bandaríkjunum! Vann síðast árið 1988 - tveim árum áður en ég hóf nám við skólann. Þegar ég var þar komst skólinn einu sinni í 4 liða úrslit og einu sinni í 8 liða úrslit - en tókst ekki að vinna... Tími til kominn á annan sigur. Frábært! Áfram Jayhawks!

þriðjudagur, apríl 08, 2008

„Straujaðu skyrtuna mína“Merkilegt að fylgjast með hvað kosningabarátta Hillary Clintons og Obama er eins og klippt út úr skólabók... Sama þrástefið endalaust.

mánudagur, apríl 07, 2008

Mogginn segir að strákar séu apar

Alveg satt. Sjáðu bara hér. Þarna segir orðrétt:
Vera kann, að strákum sé í blóð borinn áhugi á að leika sér fremur með leikfangabyssur og vörubíla en dúkkur og mjúkdýr, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á öpum, sem gerð var í Bandaríkjunum. Styður þetta niðurstöður annarrar rannsóknar á öpum, sem sýndi að „strákarnir“ höfðu greinilega meiri áhuga á hefðbundum strákaleikföngum.
„Fréttin“ heldur áfram á þessum nótum - af því að karlkynsapar höfðu meiri áhuga á „strákaleikföngum“ þá er áhugi stráka á strákaleikföngum eðlislægur. Af hverju? Ég get ekki betur séð en að rannsakendur komist þarna að þeirri niðurstöðu að strákar séu apar og þess vegna sé hægt að heimfæra þessa niðurstöður yfir á þá - alhæfa um gjörvallt karlkynið út frá hegðun nokkurra karlapa.

Þörf sumra til að sanna eðlislægan mun kynjanna (sem ég er nú á að hafi löngu verið afsannaðar, þ.e. að munurinn sé kynbundinn... ef eitthvað er okkur eðlislægt held ég að það sé bundið við annað en kyn... t.d. einstaklinga, nú eða bara gjörvallt mannkyn) er svo sterk að það er eins og öll skynsemi sé látin lönd og leið. Það besta við þennan brandara er að í einfeldni minni langar mig óskaplega til að halda að karlkynið verði brjálæðislega móðgað yfir svona apagangi... en í staðinn keppast strákarnir á Moggablogginu við að linka á fréttina og segja „já þetta er svona - við strákarnir erum apar“. koozies

Og hverjir eru það svo sem að halda uppi heiðri karlmanna og halda því fram að þeir séu nú engir apar? Jú auðvitað - as usual - við femínistarnir!

Allt í blóði

Horfði á lokaþátt Dexter í gær. Alltaf jafn hissa á Hunts auglýsingunni fyrir þáttinn. Boxari í rauðum stuttbuxum og með boxhanska hefur leikinn með höggi, síðan er það Hunts og Dexter - allt í blóði. Ég efast einhvern veginn um að mörgum Hunts neytendum finnist spennandi tilhugsun um að vera að gæða sér á blóði þegar tómatsósunni er skellt á diskinn. Velti fyrir mér hvaða markaðsfræði er þarna á bak við, tómatsósa = blóð, tómatsósa = blóð, tómatsósa = blóð. Hvað gerist þegar Hunts nær að festa þessa tengingu í sessi? Efast um að salan aukist...

laugardagur, apríl 05, 2008

Sjöund


Fór á sýninguna Sjöund í Þjóðminjasafni áðan. Þar leiða saman hesta sína snillingarnir Sóley Stefánsdóttir hönnuður og Gunnar Hersveinn rithöfundur. Sjöund samanstendur af ljóðum Gunnars og hönnun Sóleyjar. Útkoman er einstök - ljóðaumslag sem hægt er að senda í pósti auk þess sem ljóðið er til sem mynd sem hægt er að hengja upp á vegg í staðinn fyrir að loka inni í bók. Sýningin verður opin til 19. apríl í Þjóðminjasafninu. Endilega kíkið við...

Til hamingju Sóley og Gunnar :)

föstudagur, apríl 04, 2008

Hvaða leið virkar?


Er þetta rétta leiðin?

Hreint land - fagurt land. Óhreint land - ó...

Hjartað í mér sökk við hlustun á fréttir í morgun. Álver, álver, álver. Þrjú eru yfirdrifið nóg. Ísland er að breytast í Detroit. :´(

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Þotuliðið

Ég er nú ekkert brjálæðislega hrifin af einkaþotum en ég á erfitt með að fordæma nýjasta þotuliðið. Þegar ég var tvítug fannst mér það kostur við starf ef því fylgdu ferðalög.Veit að margt fólk deilir þeirri skoðun með mér á þeim aldri. Hins vegar - þegar á reynir - þegar ferðalögin eru orðinn að veruleika og eru stór hluti af starfinu skipta ansi margir um skoðun. Mikil ferðalög í starfi eru ekki hluti af fríðindum heldur þvert á móti - endalaus þeytingur, að búa í ferðatösku, fjarvera frá fjölskyldu o.s.frv. Þar að auki tekur flug á líkamann. Þó svo að ég hafi varla fundið fyrir því að taka 3 vélar heim frá námi í Bandaríkjunum þá er staðan allt önnur í dag... mörgum árum seinna. Nú tekur flugið sinn toll. Þess vegna skil ég vel að fólk kjósi frekar að nota einkaþotu til að fljúga til Rúmeníu í staðinn fyrir að þurfa að dröslast þetta með millilendingu. Millilending tekur meira á en beint flug og let's face it - ef fólk er á endalausum þeytingi þá er allt í lagi að reyna að gera ferðalögin aðeins þægilegri. Svo framarlega sem einkaþotan verður ekki daglegt brauð og áfangastaðirnir eru í meira en eins flugs fjarlægð og hópurinn nægilega stór og og og... ef aðstæður eru þannig.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Virkjum fjármagn kvenna

Er búin að vera ágætlega dugleg undanfarið að kíkja á ráðstefnur og fundi. Í síðustu viku fór ég t.d. á Virkjum fjármagn kvenna og í hádeginu í dag kíkti ég á Ímark fund um rafrænar mælingar.

Virkjum fjármagn kvenna var samstarfsverkefni FKA, SA, Iðnaðarráðuneytisins og Viðskiptaráðuneytisins. Þátttaka kvenna var framúrskarandi góð - um 300 konur mættu. Karlarnir mættu taka sig á þó mér hafi skilist á Þórönnu Jónsdóttur fundarstýru að það væri um 600% aukning í þátttöku karla síðan ráðstefnan Virkjum kraft kvenna var haldin. Þá mættu 3 karlar - núna 18! Flestir höfðu þeir eitthvað hlutverk á ráðstefnunni þannig að enn vantar greinilega mikið upp á að karlar sýni þessum málaflokki lið - eða hreinlega þori að mæta á svona ráðstefnur. Erindin voru mjög fróðleg og skemmtileg. Miklar kjarnakonur þarna á ferð. Það kom mér ánægjulega á óvart að sjá að andrúmsloftið virðist vera að breytast í orðræðunni. Hingað til hefur verið algjört tabú fyrir konur sem náð hafa langt að segja að kyn skipti máli. Nú brá svo við að þrjár af aðalsprautunum fjölluðu um það og sögðu líka að þær vildu ekki lengur starfa samkvæmt leikreglum karla á þessum vettvangi.

Ég sá að Markaðurinn í Fréttablaðinu fjallaði um ráðstefnuna í blaði dagsins í dag. Athyglisvert er að skoða nálgunina þar. Það helsta sem er dregið út úr erindi Karin Forseke er að konur skorti sjálfstraust til að starfa í fjármálaheiminum. Þetta er algjörlega slitið úr samhengi og í raun slæm tilraun til að varpa ábyrgðinni yfir kynjaskekkjunni alfarið yfir á konur. Það kom nefnilega skýrt fram í máli Karin að þetta væri algjör karlaheimur þar sem leikreglurnar væru þeirra. Hún sagði líka að hún hefði bara spilað með og verið það naive að hún hafi ekki áttað sig á hversu miklu máli kyn skiptir fyrr en hún var komin á fimmtugsaldur. Staðan hjá henni í dag er þannig að hún skipti um starfsvettvang - af því að henni hugnaðist ekki þessi karlaleikur. Hún sagði líka að hún væri mikill femínisti... Svona getur fréttaflutningur skipt öllu máli - hvaða sögu er ákveðið að segja?

Í dag fór ég svo á Ímark fund um rafrænar mælingar. Það var áhugavert... nú gengur viss hópur af fólki um með lítil tæki sem mælir nákvæmlega áhorf á sjónvarp og hlustun á útvarp. Með þessari tækni er hægt að sjá í hversu miklum mæli horft er á auglýsingar en enn vantar mælingu á tengingu á áhorfi og kaupum. Slíkt er víst komið erlendis - þar sem fólk gengur um með mælitækið og skannar jafnframt inn allt sem það kaupir. Markaðsfræðingur í mér er afar hrifinn af þessari tækni - manneskjunni í mér óar hins vegar við öllum þessum persónuupplýsingum og að það sem fólk sækir í skuli hafa öll þessi áhrif því eins og Þórhallur Gunnarsson (sem fylgir með á „hreyfimyndinni“) hjá RUV sagði - þegar það voru dagbókarvikur þá jókst umfjöllun um klám og ofbeldi...