mánudagur, maí 19, 2008

Fæ ekki líftryggingu

Búin að hafa það mjög gott undanfarna viku, takk fyrir. Fórum út úr bænum í helgina og nutum þess að slaka á og lesa um Foucault. Í morgun beið mín það „ánægjulega“ verkefni að tékka á ástæðu þess að okkur var hafnað um líftryggingu af okkar ástkæra tryggingarfyrirtæki - fyrirtækinu sem við erum búin að vera einstaklega trú og trygg - svo trygg að við pössum okkur sérstaklega á að lenda ekki í miklum tjónum. Í allri okkar tjónasögu er ein brotin framrúða og eitt minniháttar vatnstjón. Hins vegar teljumst við ekki nægjanlega góð til að fá líftryggingu. Ástæðan??? Jú, á umsóknareyðublaðinu er eftirfarandi spurning:

Eru foreldrar eða systkini með, eða hafa þau greinst með eftirtalda sjúkdóma fyrir 60 ára aldur: Hjarta- eða æðasjúkdóma, heilablóðfall, háan blóðþrýsting, sykursýki, nýrnasjúkdóma, krabbamein, MS, MND, parkinsonsjúkdóm eða alzheimersjúkdóm? (já, nei)
Ef já, skýrðu nánar
Nú teljum við það ekki vera í okkar verkahring að gefa upp sjúkrasögu annarra. Það er fráleitt að hafa ströng lög um persónuvernd og meðferð heilsufarslegra upplýsinga en leyfa síðan tryggingafélögum að krefja fólk um sjúkrasögu náinna ættingja. Við neituðum því að svara þessari spurningu og fengum synjun af þeirri ástæðu eingöngu. Ég á eftir að skoða þetta nánar en mér skilst að um síðustu áramót hafi lögunum verið breytt á þann hátt að þessir 3. aðilar þurfi nú að gefa samþykki fyrir upplýsingagjöfinni. Þau sem vilja fá líftryggingu, en vilja annaðhvort af prinsippástæðum ekki gefa upp sjúkrasögu 3. aðila eða ef 3. aðili neitar um samþykki, eru sem sagt úti í kuldanum varðandi líftryggingu.

Rök tryggingafélaganna sýnast mér vera tvenn:
  1. Þau fá ekki endurtryggingu ef þessar upplýsingar eru ekki veittar.
  2. Þau segja að fjölskyldusaga skipti máli varðandi áhættuþættina og þess vegna þurfi þau þessar upplýsingar. Ef fólk svarar spurninginni játandi getur það leitt til synjunnar eða aukaálags á iðgjaldið.
Mér er jafnframt tilkynnt að viðskiptasaga mín við tryggingafélagið skipti engu máli - umsækjendur eru metnir út frá sömu forsendum. Jafnréttið á að gilda. Gott og vel. Raunverulegt jafnrétti fælist í því að líftrygging sé öllum aðgengileg gegn sama iðgjaldi. Ef við eigum öll að sitja við sama borð þá skiptir heilsufarssaga, bæði þess sem tryggir sig og fjölskyldunnar, ekki minnsta máli. Það er jafnrétti í reynd. Beiðnin um upplýsingarnar byggir á því að hægt sé að mismuna fólki. Þar með sitja ekki allir við sama borð. Það er ranglæti.

Ef einhver skyldi ekki hafa tekið eftir því þá er ég alvarlega fúl út í tryggingabransann núna. Að neita fólki um tryggingu á grundvelli þess að vilja ekki gefa upp annarra manna sjúkrasögu finnst mér hreinlega skítlegt - og mér er slétt sama þó til sé lagaheimild sem heimili þetta. Mér finnst þetta einfaldlega rangt.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki sanngjarnt að t.d. þeir sem reykja borgi hærra iðgjald en þeir sem reykja ekki? Hvað um þá sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að etja?
Hækka iðgjaldið á þá sem lifa heilsusamlega til þess að hinir borgi minna ??? ehhhh.... nei!

katrín anna sagði...

og hvad tha med thau sem keyra hratt? Fljuga mikid? Tala mikid i farsima? Bua i thettbyli thar sem svifryksmengun er mikil? Thau sem stunda skotveidi? Borda mikid af mat med e-efnum í? Nota snyrtivorur med parabenum í? Fara i joklaferdir? Lifid er fullt af ahættuthattum og osanngjarnt ad pikka einn og einn ur... Thar f utan er medalaldur um 80 ar f kk, 82 f kvk. Liftrygging nær bara til sjötugs, toluvert undir medalaldri.

Adalmalid med færslunni er hins vegar ad thú færd ekki líftryggingu nema med thvi ad gefa upp sjukrasögu foreldra og systkina og thin systkini og born ekki nema gefa upp thina sjukrasogu. Fólk er med ödrum ordum neytt til ad upplysa um sjukrasogu annarra. Fáránlegt system... Ef liferni hefur svona mikil áhrif... Tha fer thitt idgjald eda thinir moguleikar a tryggingu eftir lifi annarra.

Nafnlaus sagði...

Sammála þér í því að líftryggingar eru dirty business. En nákvæmlega bara það: Business.
Nánar tiltekið gengur það út á að reikna líkurnar á því að þú geyspir golunni á unga aldri. Mesta áhættan felst í genunum. Við hlaupumst ekkert undan því.
Ég skil þig vel að vera hundfúl yfir þessu en við höfum líka val að taka sjensinn. Ef nánir ættingjar eiga enga sjúkrasögu, þú reykir ekki og ert að öðru leiti hraust þá eru líkurnar með þér :-) En þá ertu líka besti kúnni tryggingafélagsins.

Nafnlaus sagði...

Fyrir utan persónuverndarpælinguna er trúlega slatti af fólki sem hefur ekki þessar upplýsingar um foreldra og systkini og getur því engan vegin upplýst tryggingafélagið um þær, það er ekkert nýtt á Íslandi að fólk sé t.d. rangfeðrað!
g.

Nafnlaus sagði...

Runki. Þannig að ef einhver í þinni ætt er með krabbamein eða alkohólisma, eða þá bara að þú vilt ekki gefa sjúkrasögu annara upp, þá færð þú ekki tryggingu og það er bara allt í lagi?

Því er ég ekki sammála. Manneskja á aldrei að þurfa að gefa upp sjúkrasögu annarar manneskju til að fá tryggingu.

Nafnlaus sagði...

Ég sagði að líftryggingar væru business. Gengur út á að meta líflíkur fólks. Ef tryggingartaki er með arfgengan sjúkdóm þá þarf að setja það inn í jöfnuna til þess að réttur útreikningur fáist. Þú mátt ekki tala eins og það séu hluti af einhverjum mannréttindum að fá sig líftryggðann. Þetta eru frjálsir samningar milli einkafyrirtækis með hagnaðarvon og fullveðja einstaklinga.
Ég sagði líka að ég væri alveg sammála því að það væri fúlt að þurfa að gefa þessar upplýsingar. Sé bara ekki aðri kosti í stöðunni. Sorry.

katrín anna sagði...

Það er kannski ekki hluti af mannréttindum að fá líftryggingu en það er hluti af mannréttindum að sjúkrasaga einstaklinga sé þeirra prívatmál. Það er ekki rétt að fara fram á að einstaklingur segi frá sjúkrasögu annarra til að geta keypt sér líftryggingu. Það stangast gegn persónuhelgi annarra en þeirra sem kaupa líftrygginguna - og þessar upplýsingar eru engan veginn nauðsynlegar til að líftryggingabusinessinn geti staðið undir sér. Meðalaldur er um og yfir 80 ár. Verður örugglega orðinn töluvert hærri eftir 32 ár - þegar ég verð orðin 70, en líftryggingin gildir bara fram að þeim aldri. Síðan má líka rökræða og rökstyðja út frá mannréttindum að það eigi ekki að mega mismuna fólki út frá sjúkdómum ættingja... ekki frekar en út frá kyni, kynhneigð etc. Mér finnst alveg jafnfáránlegt að neita fólki um líftryggingu á grundvelli þess að það sé samkynhneigt eins og að neita því, eða hækka álögin, á þeim grundvelli að náinn ættingi hafi fengið t.d. krabbamein. Iðgjaldið er reyndar mismunandi hátt fyrir kk og kvk þannig að það er mismunað út frá kyni. Á móti kemur að sjúkdómatryggingarnar mismuna kvk, sem borga þá hærra iðgjald en kk.

g. - gaman að sjá þig hér :) Það er reyndar alveg gert ráð fyrir þessu með upplýsingar frá 3. aðila sem fólk getur ekki aflað - en góður punktur með fólk sem er rangfeðrað. Ef það veit ekki af því getur það gefið upp upplýsingar sem hafa nákvæmlega enga "erfðafræðilega" áhættu í för með sér - þó tryggingin sé metin út frá því.

katrín anna sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
katrín anna sagði...

ps - svo það komi nógu skýrt fram.

Í líftryggingum borga kk hærra iðgjald en kvk.

Í sjúkdómatryggingum borga kvk hærra iðgjald en kk.

Það væri síðan örugglega „gaman“ (!) að skipta fólki í hópa eftir háralit, augnlit og öðrum málefnalegum breytum og hafa mismunandi verð fyrir hvern flokk fyrir sig. Nú eða t.d. menntun, launum o.s.frv.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Æ hvað það er leiðinlegt þegar fólk getur ekki rætt hlutina á málefnalegan hátt heldur hleypur í dónaskapinn eins og sveinn g. gerir.

Á sveinn g. sem sagt að ákveða hverjir meiga tjá sig hér á landi?

Hvenær varð hann einræðisherra?

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Já, hvar er réttlætið í því?
Við borgum iðgjöld eftir e-i statistík sem á við um allt aðra kynslóð í allt annars konar störfum og mjög kynskiptum en við lifum við. Mörg börn, sjómennska var hærra hlutfall en nú og mörg líkamlega erfið störf er nú stjórnað úr fínum stjórnklefa.
Ekkert jafnræði það.
kókó