laugardagur, maí 27, 2006

Kosningaáróður - hvað er yfir mörkin!

Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll telst:

Að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði...

Af vefnum www.kosningar.is.

***********

Ég er búin að heyra eina óstaðfesta sögu um að einn flokkurinn hafi borið fé í fólk til að fá það á kjörstað til að kjósa flokkinn. Gef ekki upp hvaða flokk er um að ræða þar sem þetta er óstaðfest - en vona að þetta sé ekki rétt. Ef þetta er rétt vona ég að þar til gerð yfirvöld muni rannsaka málið og komast að réttri niðurstöðu.

Ég veit líka um eitt framboð sem bauð fólki frítt í bíó í boði framboðsins. Er það ólglegt sbr ákvæðið hér fyrir ofan? Veit allavega að mér finnst það ansi sorglegt ef við eigum að kjósa okkar lýðræðislegu kjörnu fulltrúa á grundvelli þess hver býður í bíó eða einhvað skylt sem kemur málefnunum minna en ekkert við!

*************

En öllu ánægjulegri fréttir - vorum að enda við að klára að lakka gluggana í bílskúrnum og geymslunni. Þá á bara eftir að pússa, bæsa og lakka einn glugga í öllu húsinu!!! :) Hér ríkir mikil gleði með það...

föstudagur, maí 26, 2006

Kosningar

Jæja þá styttist í kosningar. Einn dagur eftir! Er næstum búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa... en ekki alveg. Það væri auðveldara að vera ekki þverpólitísk ;)

Horfði á borgarafundinn á NFS fyrir Reykjavík með öðru auganu í gær. Alltaf fer það jafnmikið í taugarnar á mér þegar ég horfi á þessa þætti og þetta eru eintómir karlar með körlum. Svandís hjá Vinstri grænum var eina konan. Allir spyrlarnir á NFS voru karlar - og svo hefur það verið allan tímann. Svandís kom með athugasemd á þetta - mjög flotta - og benti þeim á að sjónvarpsstöð með metnað sem vill gera góða hluti getur ekki verið með eintóma karla sem spyrla. Sigmundur Ernir fór alveg með það í viðbrögðum. Fyrstu viðbrögð hjá honum voru að bjóðast til að fara!!! Það fjölgar ekki konunum í hópi spyrla... ætti að vera augljóst. Síðan skammaði hann Svandísi fyrir að Vinstri grænir væru með Árna Þór í 2. sæti og spurði af hverju þau væru ekki með konu í því sæti. Svandís svaraði og sagði að þetta væri þeirra fléttulisti. Augljóst einmitt að þetta er til fyrirmyndar því lögð er áhersla á mikilvægi beggja kynja. Þá benti Sigmundur á sjálfan sig og Egil og sagði: "Þetta er okkar fléttulisti". Það var nefnilega það. Fléttulisti NFS er sem sagt karl, karl, karl, karl, karl, karl, karl.... sá um daginn frétt á NFS um hárgreiðslustofu sem var með fléttunámskeið fyrir pabba. Held að Sigmundur Ernir ætti að skella sér á eitt slíkt námskeið og læra að flétta! ;)

Annars er annað sem ég er ekki nógu hrifin af. Fyrir ca viku síðan leit út fyrir miðað við skoðanakannir að konur gætu orðið í meirihluta í borgarstjórn, 8 á móti 7 körlum. Núna lítur út fyrir að staðan geti orðið 5 konur og 10 karlar. Konur rétt 1/3. Þetta er alveg fatalt! Hvað í andsk. þarf til að konur komist að? Nú er ekki hægt að segja að það sé ekki möguleiki á að kjósa konur. Þær eru í slatta af baráttusætum.

Íslandsvinir ganga

Íslandsvinir ganga á laugardaginn. Sjá allt um það hér: http://www.islandsvinir.org/

Upplýsingaskyldan:
Verð í viðtali á NFS í þættinum sem byrjar kl 12:30 á laugardag. Umræðuefni - kosningarnar!

fimmtudagur, maí 25, 2006

Bíllinn minn er ónýtur :´-(

Var tilkynnt á föstudag að það væri galli í bílnum mínum - víst þekkt vandamál í þessari tegund... sem þýðir að það þarf að skipta um vél í bílnum! Vonandi tekur umboðið vel í að skipta fríkeypis fyrst þeir eru að selja gallaða bíla og sleppa því að innkalla þá. Lágmark að bílar endist fram yfir 50þús km!!!

Það virðist vera að nú sé allsherjarsamsæri í gangi gegn bílnum mínum, þessari elsku sem hefur engum gert mein! Í gær var ég að fara í virðulegt kvöldverðarboð hjá hafmeyjunni bjarna ármannssyni... og viti menn... bakkaði út úr stæðinu og yfir járnbita sem borgarstarfsmenn skildu eftir óvarinn í útkeyrslunni. Járnbiti sem stendur beint upp úr malbikinu - pikkfastur og sperrtur út í loftið. Ekki bílvænn og nú er eitt dekkið ónýtt.

En að öðru - Gísli Marteinn frambjóðandi var leynigestur hafmeyjunnar. Átti að stoppa við í 5 - 10 mínútur en endaði á að staldra við í yfir klukkutíma og útskýra jafnréttisstefnu sína... það var bara nokkuð gaman en mig er farið að dauðlanga til að taka debat um femínismann innan frjálshyggjunnar... þ.e. challenga rökin innan frjálshyggjunnar því eins og allir vita - nema frjálshyggjumenn - geta femínismi og frjálshyggja farið prýðisvel saman!

föstudagur, maí 19, 2006

Akkúrat

Við berum ekki aðeins ábyrgð á því sem við gerum heldur einnig því sem við látum ógert.

- Moliére

fimmtudagur, maí 18, 2006

Sýnishorn

Í hádeginu settist ég út á svalir í sól og blíðu. Núna er haglél.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Kosningavefur

Er búin að sitja í marga klukkutíma fyrir framan skjáinn að búa til kosningavef Femínistafélagsins. Herlegheitin - sem eru komin - er hægt að skoða með því að fara á www.feministinn.is og smella þar á myndina fyrir kosningavefinn. Smá fontafyllerí í gangi, soooorrý... Síðan er enn í vinnslu. Ef þið eruð með efni sem má setja inn endilega meilið það til mín - þarf að vera tengt sveitarstjórnarkosningunum og jafnrétti! Endilega hrúgið samt ekki á mig grilljón hugmyndum sem ég þarf sjálf að fara í geðveika vinnu til að búa til eða finna... enginn tími í slíkt - en mun með glöðu geði koma tilbúnu efni inn á vefinn :)

Sendi eftirfarandi spurningar inn á póstlistann. Megið endilega svara þeim - og svörin gætu lent á vefnum...

Hvers vegna skiptir máli að kjósa?
Hvers vegna skiptir kyn máli í pólitík?

þriðjudagur, maí 16, 2006

Tími til hvers?

Það er eitthvað skrýtið við auglýsingu Sjálfstæðisflokksins inn á mbl.is. Fyrst kemur bleik mynd - af lítilli stelpur með textanum: Tími til að lifa. Svo kemur blá mynd - af gamalli konu og textanum: Tími til að leysa málin. Einhvern veginn var heilinn á mér búinn að búa til textann: Tími til að deyja - áður en ég las textann á auglýsingunni. Var eitthvað svo rökrétt framhald - tími til að lifa, tími til að deyja...

En hvað um það. Er búin að gera upp hug minn varðandi bleika litinn í kosningaauglýsingum. Finnst það bara aldeilis frábært að flokkarnir séu að nota bleika litinn. Það er algjört breikthrough að Sjálfstæðisflokkurinn sé farinn að nota bleika litinn samhliða bláa litnum. Einnig er Björn Ingi í bleikri peysu í einni Sjónvarpsauglýsingunni. Svandís Svavars var með bleikan trefil í sjónvarpsviðtali... kannski það sé aðeins öðruvísi því það er ekki auglýsing - og kannski tilviljun - en í auglýsingunum er bleiki liturinn enginn tilviljun. Markmið Femínistafélagsins með því að nota bleika litinn er að hann öðlist sama sess og blái liturinn - að bleiki liturinn verði notaður jafn mikið og njóti sömu virðingar. Þetta er skref í þá átt. Hef líka heyrt af því undanfarið að strákar séu byrjaðir að ganga í bleiku. Einn frændi minn á víst bleika strigaskó :). Svo frétti ég af öðrum með bleika derhúfu - reyndar með Playboymerkinu á :( sem er algjör bömmer... þarf bara að ná því af.

mánudagur, maí 15, 2006

Lenti óvart í súpunni

Á fyrsta karlmennskukvöldi karlahóps Femínistafélagsins var Sigurjón Kjartansson með erindi um karlmennsku og húmor. Sigurjón talaði mikið um hvernig Íslendingar lenda alltaf í hinu og þessu... menn lenda óvart í því að skilja, lenda óvart í því að keyra fullir - eða lenda óvart í því að keyra fullir á ljósastaur, lenda óvart í því að stinga af og lenda óvart í því að löggan nær þeim. Svona orðar Geir H. Haarde það allavega - aumingja Eyþór - lenti í því að vera tekinn! Reyndar var ég ánæðg með það í útvarpinu í morgun að ein fréttakonan gekk á Geir með þetta orðalag - og hann umorðaði. En hefur Eyþór tekið á málinu með myndarskap og ég veit ekki hvað og hvað eins og utanríkisráðherra heldur fram??? Mér finnst það ekki... finnst algjör óþarfi að hefja manninn upp til skýjanna fyrir að hafa lagt líf og limi annarra í hætti með ólöglegu athæfi. Það kallast ekki að axla ábyrgð að stinga af en sitja nauðugur viljugur í súpunni af því að löggan náði kauða! Held líka að korters fundur hefði átt að duga til að komast að niðurstöðu í málinu... hvaða álitamál voru á dagskrá?

Djöfull er ég fegin að ég datt ekki í það...

Var barnapía í rúman sólahring - barnið svo stillt að ég var næstum farin að hafa áhyggjur - hún passaði sig meira að segja á því að kúka ekkert á meðan hún var í pössun svo það var ekki einu sinni kúkableia! Samt er hún algjör skæruliði, kjörkuð og skemmtileg :)

Skaust aðeins í útskriftarpartý eftir að hún var sofnuð - engar áhyggjur samt, skildi hana ekki eftir eina - hin barnapían var heima. Þegar ég var að skutla vinkonu minni heim eftir húllumhæið stóð konugrey út á miðri götu - illa klædd og í annarlegu ástandi að húkka sér far. Vantaði far niður í bæ því henni var skítkalt og kallinn hafði stungið af. Við vorum samt ekki á leiðinni í bæinn - bentum henni á næstu gatnamót þar sem hver leigubíllinn á fætur öðrum átti leið hjá - með gult ljós á toppnum. Á leiðinni tilbaka kíkti ég aftur eftir henni en hún var horfin. Vona að löggan í löggubílnum sem ég keyrði fram hjá hafi pikkað hana upp og keyrt hana heim. Hlýtur eiginlega að vera... hennar kvöld hefur þá endað betur heldur en hjá Eyþóri Arnalds - er það ekki hámark heimskunnar að keyra fullur, vefja bílnum utan um ljósastaur og stinga af rétt fyrir kosningar????

föstudagur, maí 12, 2006

Ms Muscle

Konur eru líka sterkar - og þess vegna var minn Mr Muscle endurskírður og heitir nú Ms Muscle...

En talandi um vöðva - ég fór í Laugar um daginn í fyrsta skipti. Þessi stöð er á svarta listanum hjá mér því þau hafa sent frá sér margar auglýsingar í gegnum tíðina sem mér finnst fáránlega hallærislegar auk þess sem heimsklassa ofurhetjur með faldar myndavélar í búningsklefum fara í alveg sérkategoríu... En - allavega - þurfti að fara aðeins þarna inn um daginn og þar vöktu 2 styttur athygli. Önnur er af konu, hin karli. Báðar stytturnar eru af nöktum, skornum líkömum og báðar eru í einhverjum skrýtnum stellingum. Konan er eins og hún sé að koma í mark í maraþoni en karlinn stendur og er fjötraður. Skrýtnast af öllu er að stytturnar skuli vera staðsettar í líkamsræktarstöð. Þetta eru ekki fallegar styttur og þær minna á þræla, sérstaklega karlstyttann því hann er jú í fjötrum. Það mætti næstum halda að stytturnar væru þarna sem áminning um að stöðin er fyrir þræla útlitsdýrkuninnar... fólkið sem er í fjötrum við að ná einhverri absúrd líkamsímynd í ætt við stytturnar... eða bara djókur eigendanna sem græða á tá og fingri á þrælunum?????

Dipló ég þarf samt að bæta því við að auðvitað er hollt að hreyfa sig passlega!

mánudagur, maí 08, 2006

Út, út, út í góða veðrið

Það er ekki fallega gert að sýna fullt af virðulegum, góðum konum klám. Samt gerðist ég sek um akkúrat það á laugardaginn... vona að þær fyrirgefi mér! Fór líka í þáttinn Vikulokinn, á dagskrá megrunarlausa dagsins, í heimboð til Sigrúnar upphafsmanneskju megrunarlausa dagsins og í grill hjá Sif ráðskonu... sumir dagar eru meira busý en aðrir en þetta var dúndur góður dagur! Var þó með hálfgert samviskubit yfir að borða ekki sushi. Sif var heilan dag að útbúa þetta svaðalega girnilega sushi og fékk svo í heimsókn mig - sem borða ekkert hrátt - grænmetisætu og eina sem hafði aldrei borðað sushi. Sem betur fór mætti Ásta fyrir rest á svæðið og hún elskar sushi... þannig að við sluppum fyrir horn! Grænmetis sushiið var nú samt alveg ágætt á bragðið - þótt það væri sea weed á því en ég hef ekki verið mikill aðdáandi þess hingað til.

Núna kom Grétar snemma heim úr vinnunni og ætlar að halda áfram að vinna hérna heima. Fjarvinna er yndisleg. Ég ætla nú samt að spilla honum eins og virðulegu konunum - reyndar ekki með því að sýna honum klám heldur draga hann út í göngutúr í góða veðrinu :) Það er hvort sem er enginn vinnufriður hérna. Trommarinn í næsta húsi á annaðhvort vini eða þá að hann er að reyna að læra á gítar/bassa eða álíka hljóðfæri... einhver sagði um daginn að ástandið yrði fyrst slæmt þegar það væri komið heilt bílskúrsband í næsta hús en ekki bara trommari. Er að spá í hvort að sú stund sé að renna upp....

föstudagur, maí 05, 2006

Kvennahreyfingin ber af

Spurning:
Hver getur litið fram hjá þeim grófu mannréttindabrotum sem verið er að fremja á konum í tengslum við HM 2006?

Svar:
Karlarnir hjá KSÍ, FIFA og ofbeldismenn sem kaupa vændi

Hverjum á eftir að fá svar frá?
Fótboltaunnendum
Stjórnvöldum
Styrktaraðilum

Hver er nú þegar búin að bregðast við?
Kvennahreyfingin! Flottust að venju... :)

fimmtudagur, maí 04, 2006

Skemmtilegar og klárar konur

Skellti mér á Happy Hour FKA áðan. Það var rosagaman. Skil ekki af hverju ég hef ekki farið fyrr. Heimurinn er fullur af skemmtilegum og klárum konum! :)

Loksins, loksins



Loksins er ég orðin að staðalímynd! Geri fastlega ráð fyrir að það þýði 10.000 manna móttöku í Smáralind, hamingjuóskir frá forsætisráðherra fyrir hönd allrar þjóðarinnar og að foreldrar eigi sér enga ósk heitari en að dætur þeirra verði alveg eins og ég... :)

Iceland - to die for!

Ónefndur maður hér í borg liggur undir grun um ólöglegt athæfi og eru málaferli í gangi gegn honum. Þar sem um þjóðþekktan mann er að ræða hefði kona haldið að honum væri annt um að sýna og sanna að hann væri með siðferðið í lagi. Og til hvaða ráða er gripið? Jú, fara í ólöglegan kappakstur um heiminn í almennri umferð og leggja þar með fullt af fólki í lífshættu. Enda síðan geimið í partý hjá hinum háaldraða sílíkonuh(p)erra.

Síðan er það vinur hans sem lætur fyrirtækið "sitt" taka þátt með því að ferja keppendur á milli landa. Einmitt líka fyrirtæki sem þarf að sýna og sanna samfélagslega ábyrgð eftir að hafa markaðssett íslenskar konur á svona glæsilegan hátt á erlendri grundu. Nú er búið að skipta um fókus og þar sem hraðakstur hefur verið mikið í umræðunni hér á landi og nokkur banaslys orðið vegna hans hér á landi það sem af er þessu ári þá ákveður stjórnarformaðurinn að hans næsta mission sé að vera ungmennum góð fyrirmynd... Ætli við eigum ekki von á því í sumar að einhver krakkakjánar eða kallakjánar á valdatrippi fari í kappastur hringinn í kringum landið? Okkar þjóðvegir bera það alveg - ein akrein í hvora átt, þungaflutningar og kappakstur! Sé alveg fyrir mér nýtt slagorð í markaðssetningu fyrir Ísland: Iceland - to die for!

miðvikudagur, maí 03, 2006

Í lýsisklemmu

Ok. Það er ekkert mál að sleppa því að borða KFC - borða þar aldrei hvort sem er og finnst maturinn þar frekar vondur. Ekkert mál að sleppa L'oreal vörum því nú er ég að reyna að kaupa umhverfisvænar snyrtivörur (get nú samt helst fyrirgefið þessu fyrirtæki - skil alveg þeirra þátttöku). Ekkert mál að sleppa því að versla við TASK því ég er nú ekki svo oft að kaupa mér tölvudót þessa dagana þar sem ég er fátækur húsbyggjandi. En lýsi... það er nú önnur saga. Byrjaði að taka lýsi í lok janúar í kjölfar mesta veikindaárs í minni 36 ára sögu! Lýsi og smoothie í morgunmata hafa svínvirkað - ekki fengið flensu síðan. Enginn hiti, kvef, hausverkur og gubbupest í einum pakka! Ekki get ég farið að hætta á lýsinu og átt það á hættu að þetta dúkki upp aftur???! Vá hvað ég er spæld með Lýsi :(

ps. ef það skyldi hafa farið fram hjá ykkur þá eru þetta styrktaraðilarnir að Leiðinni að titlinum - sjónvarpsþætti um keppendurna í konusýningunni 2006! Í þætti kvöldsins fengum við að vita allt um ástarmál stúlknanna - hvort þær væru heppnar í ástum og hvort einhver væri í sigtinu! Nú er að skýrast hvers vegna krafa er gerð um að þær séu ógiftar!

Fallegt

http://www.inca.is/show/

þriðjudagur, maí 02, 2006

FIFA, HM, vændi og mansal

Eftirfarandi fréttatilkynning er inn á vef FIFA um vændi og mansal á HM 2006. Ekki er að finna orð um málið á heimasíðu heimsmeistarakeppninnar sjálfrar og þetta er það eina sem FIFA hefur um málið að segja. Meira um málið í Viðskiptablaðinu á morgun...

FIFA has no power to take legal action against human trafficking and forced prostitution Zurich, 13 April 2006 - FIFA condemns any human rights violations, particularly in terms of human trafficking and forced prostitution. However, in response to various demands for FIFA to intervene in such practices with regard to the 2006 FIFA World Cup Germany™, FIFA wishes to make it clear that, legally, it has no power to do so and that as world football's governing body, it cannot be responsible for such matters.

FIFA President Joseph S. Blatter firmly rejects accusations that by adopting a "passive stance", FIFA is part of human trafficking practices: "FIFA places great importance on respecting human life and the physical integrity of human beings. Prostitution and trafficking of women, however, does not fall within the sphere of responsibility of an international sports federation, but in that of the authorities and the law-makers of any given country.

"As a global sports organisation, FIFA is obliged to comply with international and national law. With regard to its competitions, FIFA's main task is to make sure that its competitions are organised in accordance with the law's sporting and technical standards and regulations.
"In terms of its social responsibility, FIFA has developed special campaigns with various UN bodies and non-governmental organisations over the years, and has decided to dedicate the 2006 FIFA World Cup Germany™ to the rights of children, to peace and to the fight against discrimination," concluded Blatter.

mánudagur, maí 01, 2006

Forvitin bleik

Femínistafélagið hlaut jafnréttisverðlaun Reykjavíkurborgar í dag! :) Fyrstu verðlaun sem FÍ fær á 3ja ára ferli. Tími til kominn segi ég nú bara - hógvær að venju... Ég er himinlifandi með verðlaunin. Finnst æðislegt að félagið fái viðurkenningu fyrir allt það starf sem búið er að inna af hendi - í sjálfboðavinnu nota bene. Það er ekkert sjálfsagt mál en drifkrafturinn að baki hugsjón þeirra sem dreymir um samfélag jafnréttis og vita að með risastóru samstilltu átaki og baráttu er hægt að ná markmiðinu.

Ég játa líka að það gladdi mitt litla hjarta að vera tilnefnd sem einstaklingur :) Hefði samt ekki viljað fá verðlaunin því félagið átti þau margfalt meira skilið. En... er dáldið forvitin að fá að vita hver tilnefndi mig. Vitið þið það? Ef já plís sendið mér meil eða skrifið í kommentakerfið ;)